20.1.2008 | 14:22
Upp, upp mín sál...
...og allt mitt geð!!
Sólin er komin. Hún skein inn um gluggann í eina-tvær mínútur eða svo! Nú verða bakaðar pönnukökur! Sumarið kemur á endanum! Húrra fyrir því!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.1.2008 | 16:36
toppvörur og frostpinnar
Í gær lagðist Baldur Hrafn undir hnífinn á Sjúkrahúsinu á Ísafirði. Þegar hann vaknaði, háls og nefkirtlum fátækari, grenjaði hann ógurlega. Honum fannst vont að vakna upp úr svæfingunni þessu litla stýri og var rosalega ruglaður. En um leið og augun opnuðust almennilega heimtaði hann ís og tveim tímum seinna hafði hann sporðrennt 7 frostpinnum og farið á klósettið. Þá fannst honum kominn tími á að fá eitthvað bitastætt og þegar honum var gerð grein fyrir því að hann mæti bara fá klaka og stappaðan banana, grenjaði hann eins og ljón og heimtaði ristað brauð!
Hann er kominn heim núna og gerir bræðrum sínum gramt í geði með einstakri geðvonsku sem lýðst fyrir þær sakir að hann er með opin sár í hálsinum!
En undur og stórmerki hafa gerst. Júlli í Höfn vélaði mig til að fara að selja dollur undir merkjum Tupperware! Ég sem aldrei hef selt neitt að undanskildum klósettrúllum í níunda bekk, ætla nú að verða þessi óþolandi sem píni allar vinkonur til að halda "kynningu!" Ég man vel eftir óteljandi kynningum sem ég fór sjálf á hérna einu sinni en ég satt að segja hélt að tupperware væri ekki lengur selt á Íslandi! En nú get ég farið að fá mér nýja varahluti ss. lok á skálar og fleiri...... Allavega: ef ykkur vantar Tupperware þá vitiði hvert á að leita ;o)
Birnir er byrjaður að læra á kassagítar. Fyrsti tíminn var í gær og á meðan hann var í tíma sat ég á kaffistofunni í Tónó með nýlagað og kjaftaði við skemmtilegt fólk. Þetta er það sem gerir lífið í svona litlum bæ svo sjarmerandi! En þrátt fyrir að búa í svona sjarmerandi bæ, dugir það ekki til og ég er aftur farin að poppa gleðipillurnar mínar.... Að sjálfsögðu samkvæmt læknisráði og ég er að reyna að sætta mig við að hafa "gefist upp" fyrir ruglunni og þurft að stabílisera mig með kemískum efnum. En hvað er svosem að þurfa að taka eina tvílita á dag á meðan sumir þurfa að ryðja í sig ógeðslegum krabbameinslyfjameðferðum til þess eins að halda lífi!!?? Þá er nú skárra að vera "obbolítið geggjaður" og geta haldið því nokk í skefjum er ég hrædd um. Flýtur á meðan ekki sekkur, sagði einhversstaðar.
Jæja, helgin fyrir stafni og ég ætla að elda kjötsúpu í kvöld svo að litli hálskirtlalausi drengurinn minn geti fengið stappað grænmeti og súpu. Set eina mynd hérna inn sem var tekin af drottningunni Urtu og fóstursyninum Gretti sem bjó hjá okkur um tíma. þau eru að "kyssast" og þetta er svo líkt því þegar við hjónin erum að kela!!! Góða helgi öll sömul!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.1.2008 | 20:07
Enginn latur í Latabæ.
Einhverra hluta vegna fannst mér eins og það yrði lítið mál að leikstýra 8. og 9. bekk Grunnskóla Bolungarvíkur þegar Björgvin kennari Björgúlfs hringdi og fór þess á leit við mig. Leikritið er Glanni Glæpur í Latabæ og sýningin er um fjörtíu mínútur!! Árshátíðin er 31. janúar og þá verður allt að vera tilbúið. Fyrsta æfingin var í dag og ég hugsaði með mér "hvurn andskotann er ég nú búin að koma mér í?" Svo reyndust krakkarnir bara vera prúðir og stilltir og mjög áhugasamir. Og ég verð að viðurkenna að það kom mér algjörlega á óvart. Ég hef heyrt hryllingssögur af starfi með unglingum og var nánast við það að hætta við rétt áður en æfingin átti að byrja. Björgúlfur er í þessum hópi og kannski hafa þau bara verið að gera það fyrir hann að vera til friðs, eða þá að mýtan um unglingana í skólanum er bara mýta. Ótrúlega flottir krakkar og enn og aftur: ótrúlega áhugasöm! Annað slagið urðu samt aðaltöffararnir af báðum kynjum að detta í "gírinn" og láta nú opnskátt með það hvað þeim fyndist þetta hallærislegt; þau ætluðu nú sko ekkert að fara að syngja eða eitthvað, en svo gleymdu þau sér jafnóðum og sökktu sér ofan í verkefnið. Dásamlegt! Ég varp öndinni léttar (vonandi ekki of snemma) og hlakka til samstarfsins.
Latibær hefur elst ótrúlega illa. Allt sem er skrifað og inniheldur tískufrasa og unglingaslangur verður óhjákvæmilega pínlega hallærislegt þegar frá líður. Það segir enginn lengur MEGAFLOTT eða ÞOKKALEGA! Meira að segja kerling á fertugsaldri eins og ég, veit það! Núna segja börn bara: já sæll. Á að ræða þetta? Svo að Latabæ þarf að uppfæra, slangurslega séð!
Annars er allt í orden, þannig séð. Baldur Hrafn á að fara í allsherjar kirtlatöku á fimtudaginn. Nef og hálskirtlar fá að fjúka og við eigum ekki von á góðu frá litla skaphundinum þegar hann vaknar eftir svæfinguna, kirtlunum fátækari! En þegar hann jafnar sig standa vonir til að heilsufarið hans lagist.
Af "nýju lífi nr. 215" er það helst að frétta að dagurinn hófst á nýpressuðum rauðrófu, engifer og gulrótarsafa og endaði á leikfimi og soðnum þorski í kjölfarið. Bjúgurinn er ekkert á undanhaldi en ég ímynda mér að undir honum sé ég að verða þvengmjó! Hugurinn ber mann jú hálfa leið er sagt, sem ég skil ekki því að mér finnst ég aldrei vera feit! Ég sé það bara á vigtinni og á ljósmyndum! Og oftast rýni ég í myndina og hugsa: hver er þessi feita þarna? Uppgötva svo mér til skelfingar að þetta er ÉG! Svo gleymi ég því að ég sé feit, finnst ég bara "svona aðeins í holdum," eins og sagt er.
Jæja, ég ætla að horfa á seinni hluta myndarinnar um Manic Depression, með Stephan Fry. Ég er búin að sjá fyrri helminginn og hann var frábær! Ég missti af honum í sjónvarpinu en halaði honum niður, ólöglega, af netinu. Best að horfa á hann og flýta sér svo að henda honum eftir þessar uppljóstranir........
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
10.1.2008 | 20:35
Með vökvunarkönnuna í hendinni
Ég er að vökva blómin en settist einhverra hluta vegna hérna og er sjálfkrafa byrjuð að blogga. Heitir þetta ekki athyglisbrestur? Eða leti? Vatnskannan er hér við hliðina á mér og horfir ásakandi á mig... ímynda ég mér.
Ég var að vinna margar næturvaktir í röð strax eftir nýjárið og hef svo verið að kynnast nýja starfinu á öðrum vöktum. Um helgina ætla ég að elda ofan í íbúa Skýlisins en ég hef nú gert það oft og mörgum sinnum svo að það ætti að vera vandkvæðalítið.
Annars erum við bara nokkuð hress, bíðum eftir að sólin hækki á lofti auðvitað, það gerist hægt og bítandi og á meðan fá öll jólaljósin að lifa.
Ég er með óþverrabjúg. Aðallega á leggjunum en líka í andlitinu og á hálsinum. Hef verið svona síðan í nóvember og skildi það þá, sökum óheilsusamlegrar salt og sykurneyslu en síðan í desember hef ég verið ákaflega passasöm og nýti mér öll húsráð sem ég þekki. Netlute, eplaedik, C-vítamín, pressaðar sítrónur, steinselju, sund, göngutúra.... allt nema ísbað!!! Enda er það ógeðsleg tilhugsun. Fæturnir á mér eru tvöfaldir þegar verst lætur og ég mátti sko EKKI við því! Ekki er ég ólétt, (Guði sé lof!) og ekki er ég að taka lyf sem hafa þessa aukaverkun. Niðurstaðan er einfaldlega þessi: ég er of ÞUNG! Tala nú ekki um þegar ég bæti á mig fjórum fimm kílóum af vökva á einum- tveim dögum, OFAN á allt hitt!!! Ég er að taka þetta föstum tökum. Ekki gengur að losa lungun við tjöruna og kremja þau síðan til bana!!!! Ég er bara svo helvíti mikið gefin fyrir mat. ALLAN mat!!
Það er ljótt þegar amma mín sem er sjötíuogeitthvaðnæráttatíu.. er í betra formi en ég! Hún er alveg passleg í holdum og skokkar áreynslulaust um Ísafjarðarbæ og býr að auki á tveimur hæðum. Sjálf stend ég á öndinni við það eitt að ganga upp stigann hjá henni... (smá ýkjur en hljómar sannfærandi!) Stærsta syndin er sú að ég veit ALLT um hollustu, hvað er fitandi, kolvetnaríkt, brennsluaukandi, næringarríkt og þar fram eftir götum. Manneskja eins og ég á að vera í toppformi! Annað er bara rugl! Ég svosem ét allan þennan holla og næringarríka mat! Ég bara ét á við fjóra hrausta karlmenn!
Ég hafði í nóvember verið beðin um að vera með í Hátíðarkór Tónlistarskóla Ísafjarðar. Mikil upphefð var mér sagt, þar sem handvalið er í kórinn og ég lét tilleiðast. Um hundrað handvaldir aðrir munu synga Gloriu eftir Polenc (held ég hann heiti) með Sinfóníuhljómsveit Íslands, í Íþróttahúsinu Torfnesi í lok janúar. Magnþrungið verður það, eflaust. Ég er samt búin að bakka út. Það eru nánast daglegar æfingar út mánuðinn og ég bara meika það ekki. Kvöldin sem ég er heima og ekki að fara á næturvakt eru dýrmæt. Það þarf að lesa, reikna og skrifa, tala um daginn sem er að líða og rífast aðeins yfir háttatímanum og svona.......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
7.1.2008 | 03:17
2007 im memorium
Skrifa ekki allir heilvita bloggarar nýjárspistil?
Hvað vann ég mér til frægðar á liðnu ári?
Ekkert.
Ætti ég þá kannski að sleppa pistlinum? Nei.... skoðum þetta "grannt."
Mér tókst að bæta á mig heilum átta kílóum. Megnið kom algjörlega áreynslulaust í kjölfar þess að hætta að reykja í sumar. Svo sprakk ég á limminu í nokkra daga, hætti aftur, sprakk aftur...bara smá...., hætti aftur...... Kannast einhver við þennan söng? En! Ég gekk reyklaus inn í nýtt ár og er hætt að "stelast." Sem er reyndar furðu auðvelt enda finn ég aldrei betur fyrir því hversu illa mér líður af reykingunum, og þegar ég hætti! Og nú er ég endanlega hætt.. með Guðs hjálp og góðra manna.
Á árinu ákváðum við að flytja til Danmerkur. Búslóðinni, þ.e.a.s. því litla sem ekki var selt, var pakkað saman, húsinu fenginn leigjandi og lagt af stað í könnunarferð. Á Þremur vikum var ljóst að í Danmörku biði fátt annað en meira strit og illa borguð vinna. Það, auk þess að fara með mállausan krakkaskarann, setti óneitanlega strik í reikninginn. Það var alveg augljóst að fyrst að laun heimilisins væru að fara að dragast saman á annað borð, væri betra að drengirnir nytu þá a.m.k hins örugga og kunnuglega umhverfis á meðan foreldrarnir þræluðu sér út fyrir saltinu...... En þetta var umfram allt lærdómsríkt og það undarlegasta var að uppgötva skyndilega hversu dýrmæt við erum í augum okkar litla samfélags hérna í smábænum okkar. Fólk bókstaflega flaug upp um hálsinn á okkur í tómu hamingjurússi yfir því að við færum hvergi! Það kom á óvart og kenndi mér að meta þetta litla samfélag sem í huga mínum hafði sjúskast örlítið til, upp á nýtt. Mér fannst við uppskera mikil laun, í raun og veru, fyrir það eitt að fara ekki. Eins furðulega og það hljómar.
Við hjónin skiptum bæði um starfsvettvang. Ég fór að vinna á Langa Manga á Ísafirði og Halli í Netheimum. Líka á Ísafirði. Það leið hinsvegar ekki mjög langur tími þar til við áttuðum okkur á því að þetta fyrirkomulag hentaði okkur ekki. Þ.e.a.s. börnunum okkar. Ég ákvað því að skipta og færði mig á vangreiddan ríkisspenann og starfa nú, á nýju ári á Sjúkraskýlinu í Bolungarvík sem "gangastúlka," og afleysing fyrir matráðskonurnar. (mér finnst orðið gangastúlka dásamlegt og verð brjáluð ef einhver kallar mig einhverju karllægu nafni, s.s. "aðstoðarmaður...") Einmitt núna sit ég á fjarskalega rólegri og kyrrlátri næturvakt og dútla mér við þetta áramótauppgjör. Launin eru lág. Það veit ég ósköp vel. Og hér kemst ég ekki til neinna metorða. En eins og ég sagði: þessi ákvörðun var tekin með hagsmuni drengjanna í forgrunni. Og af því að ég á nú frekar þöglan mann, þá er það þegjandi samkomulag okkar hjónanna að allar okkar ákvarðanir sem varða búsetu, lífshætti, atvinnu og gjörðir okkar almennt næstu árin, verða alfarið metnar út frá hagsmunum sonanna. Okkur langar vissulega bæði dálítið til að fara í nám og seinna meir langar okkur í dálitla ævintýramennsku, en við höfum þessi börn að láni eins og er og á meðan er það okkar first pirority, eins og maður segir á góðri íslensku. Ég nenni í það minnsta ekki að láta samviskubitið þjaka mig þegar það verður orðið of seint að byrja á uppeldinu og samverunni. Af nægu öðru er að taka til að vera með samviskubit útaf!
Eins og öll önnur ár kynnist maður nýju fólki, eignast nýja vini, kveður aðra og smámsaman "grisjast til" í þeim hópi fólks sem maður er í samskiptum við. Annars er það svo merkilegt við mig, að ég er svo ótrúlega heppin að kynnast nánast bara dásamlegu öndvegisfólki. Þannig að þó ég þurfi að horfa á eftir vinkonum og vinum þá virðist aldrei hörgull á fallegu fólki sem hægt er að stofna vináttusamband við. En auðvitað slæðist alltaf einn og einn með sem fljótlega má sjá að ekki er efni í framtíðarsamband. Þá hristir maður sig bara eins og gæs sem kastar af sér vatni... eða hvernig var þetta nú aftur.....?
Fjárhagurinn á árinu var afleitur enda spilaði bæði atvinnuleysi og síðan tekjulækkun um rúman helming inní. Útgjöldin lækkuðu þó ekkert en nú erum við alltaf að verða flinkari og flinkari að sleppa hlutum sem áður þóttu sjálfsagðir en eru núna ekki mögulegir. Við t.d. förum orðið aldrei suður enda slíkar ferðir oftast nær tóm eyðsla og bruðl! Það er helst ef einhver verður að fara til læknis eða eitthvað slíkt sem að við splæsum í stutta ferð.
En ég held að eitt af því merkilegra sem mér tókst að hamra inn í minn slælega haus á árinu, var að hætta að "kóa." Ég hef alltaf verið mikill kóari. Meðvirknin hefur verið fylginautur alveg síðan ég var lítið barn á heimili sem var sýkt af földum alkóhólisma. Flest börn alkóhólista verða snillingar í meðvirkninni. Sennilega vegna skammarinnar sem dyndi yfir heimilið, þau sjálf og alkana sjálfa ef upp kæmist um hið raunverulega líf innan veggja heimilisins. En eftir áralanga baráttu hefur mér tekist að komast frá því að vera sífellt "ábyrg" fyrir öllum skammarstrikum fólksins í kringum mig. Ég skammast mín ekki lengur fyrir að eiga áfengissjúkt foreldri. Ég skammast mín ekki lengur fyrir hegðun minna nánustu, sé hún að mínu mati ekki til fyrirmyndar. Ég tek það ekki lengur inná mig þó að kallinn minn hringi aldrei í vini sína eða ættingja á afmælum eða vegna annarra tilefna. Ég ber ekki ábyrgð á gerðum fullorðinna einstaklinga í kringum mig. Ég lenti einmitt nýlega í smá "prófi." Í mig var hringt og mér var sagt frá "einkennilegri hegðun" manneskju sem mér er vensluð. Í stað þess að fyllast óöryggi og vanlíðan vegna atburðar sem ég kom hvergi nærri, sagði ég: jahérna! Já, svona er þetta! -Manneskjan sem ég var að tala við varð dálítið klumsa því að auðvitað fannst henni að mér ætti að falla það miður að einhver mér náinn væri að "haga sér rangt." En þetta er einmitt það sem mér ekki veitti af að losna við!! Og viti menn: það er skítlétt. Það er líka skítlétt að segja NEI, þegar maður er beðinn um eitthvað. Og núna á þessum síðustu og verstu tímum blankheita og tímaskorts, geri ég EKKERT nema fólk taki upp veskið! Og hana nú!
Geðveikin hefur lagast á árinu. Ég hætti á geðlyfjunum mínum í haust og það gekk þokkalega nema hvað ég hætti að reykja um leið. Haustið fór því í alltöluverð fráhvörf og þegar skammdegið helltist hvað harðast yfir neyddist ég til að biðja lækninn um smá "fix" til að gera lífið bærilegra ... Aðallega til að geta komist í gegnum heilan dag án þess að bresta í grát yfir öllum sköpuðum hlutum. Ég er nefnilega þeirri ónáttúru gædd að þegar sálartetur mitt tekur dýfur þá get ég ekki horft á fréttir, lesið blöðin eða bækur sem fjalla um eitthvað annað en matreiðslu án þess að verða eyðilögð yfir grimmd og tilgangsleysi mannkynsins! Og það er náttúrulega bara BILUN! Ég á það til að vaka heilu og hálfu næturnar yfir flóðum í Asíu eða veikum einstaklingi á sjúkrahúsi, kjörum aldraðra eða munaðarlausum börnum í Úganda. Svo græt ég út í eitt yfir öllum þessum hörmungum! Þá er nú þörf, eða ekki nauðsyn að bryðja nokkrar gleðipillur frá Delta eða Pharmaceutical og bíða eftir að þetta brái af kellingunni....
En það er vonandi bara tímabundið og svei mér ef hækkandi sól og tilhugsunin um albjartar sumarnætur er ekki þegar farin að gera sitt geðbætandi gagn.
Nýja vinnan mín er bara yndisleg. Fólkið sem býr hérna á stofnuninni er hvert öðru dásamlegra og hver karakter þyngdar sinnar virði í gulli! Það eru forréttindi að fá að starfa við það að gera ævikvöld vinnulúinna vestfirðinga eins gott og þægilegt og hugsast getur. (og þess vegna eru launin svona lág í ummönnunnargeiranum... þetta eru nefnilega forréttindi ;o) )
Nýja árið, 2008 verður spennandi, ég er auðvitað með kvíðahnút í maganum yfir öllu sem úrskeiðis getur farið á jarðkringlunni á þessu ári en það er bara mín eðlislæga geðveila og partur af því hver ég er.
Ég þarf bara að fara að reyna að umbera það.
Gleðilegt ár kæru vinir hvar sem þið eruð staddir í heiminum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
31.12.2007 | 00:32
af jólaáti og hassreykingum með frægu fólki
Hér er síðbúin jóladanskveðja til allra vina og ættingja: Smellið hér til að sjá!
Ég var að borða jólahangikjötið. Í dag. Enda eru enn jól, ekki satt? Brjóstsviðinn er yfirþyrmandi og ég dauðsé eftir að hafa aldrei tekið skrefið og gerst grænmetisæta!!! En.... hvað væru jól án hangikjöts? Ekki svo að skilja að ég hef nýlega tekið það þroskaskref að sætta mig við jól án "hins og þessa", "með einu og öðru," og fundið að það er jafnvel gefandi að finna að maður er ekki jafn flæktur í viðjur vanans og maður hélt! Svo að það er aldrei að vita nema ég sleppi hangiketinu á næsta ári og éti bara kjúklingabaunakássu í staðinn!
Við ætlum að vera með Ellu og Einari, ömmu og afa Björgúlfs á gamlárskvöld og látum það nú ekkert slá okkur út af laginu þó að Björgúlfur sjálfur verði hjá pabba sínum í Reykjavík :) Auðvitað söknum við hans en við höfum jú ömmu hans og afa í staðinn, frænkur hans og frændur! Það á að elda nautalundir með minni rómuðu bernaisesósu, strengjabaunum og steiktum kartöflum. Og þá man ég að ég á eftir að gera ísinn!! Hér sit ég og hamra á tölvuna á meðan ég á að vera að gera allt annað! Almáttugur minn. Við verðum þá líklega bara hungurmorða á morgun fyrst enginn er tilbúinn ísinn..... Eða þannig.
Ég ætla að hætta að borða á næsta ári. Ég held, að síðasta mánuð hafi ég étið fyrir heilt ár! Kannski ég fari bara á einhvern djúskúrinn og sleppi fastri fæðu. Annars heldur Halli því fram að besta leiðin til megrunar sé að borða eina hráa kjúklingabringu á dag í einn mánuð. Salmónellan eða camphylobacterinn skola af manni öllum mör!
Þessi jól hafa verið yndisleg. Mikið sofið, étið og hvílst. Jólatréð okkar er svo undurfallegt að maður getur setið fyrir framan það endalaust og bara horft á dýrðina. Við fengum fallegar jólagjafir. Bækur, jólaskraut, kertastjaka og svona allskonar dót bara sem mann vantar ekkert en er samt svo æðislega gaman að fá. Börnin fengu mestmegnis föt. Þeir voru nú ekkert voðalega sprækir þegar hver pakkinn á fætur öðrum reyndist mjúkur en þess glaðari voru foreldrarnir sem sáu í fyrsta skipti fram á að þurfa ekki að henda út helmingnum af leikföngunum þeirra til að búa til pláss fyrir nýjar!!!
Ég er að vinna að nýjárspistli. Hann verður áræðanlega langur og tyrfinn. Lofa þó engu. Hann birtist von bráðar.
Eitt að lokum: Hvað táknar það að dreyma að maður sé að reykja stuð með Claire Huxteble úr Bill Cosby show?? Svör óskast.
Eigið undursamleg áramót kæru vinir nær og fjær.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
29.12.2007 | 19:29
Lífæðin
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
24.12.2007 | 00:05
dramað drepið
Jæja. Ekki tjóir að liggja, grenja og þunglyndisblogga. Skárra væri það nú ef ekki færi maður að druslast í jólastemninguna! Það snjóar fallegum kornflögusnjó úti og allt er orðið hvítt og fallegt. Ég var í fríi í gær og í dag og hef notað tímann til að hvíla mig og vera með drengjunum mínum. Halli þurfti að vinna í gær, fyrst í Netheimum og síðan í Löggunni í nótt. Dreif sig nú samt á fætur klukkan tíu til að drösla upp jólatrénu og koma með okkur í skötu til hennar Binnu í hádeginu. Halli fékk æðislega gjöf frá vinnuveitendunum sínum. Tvo miða á Dúndurfréttatónleika sem haldnir verða milli jóla og nýjárs í Edinborgarhúsinu á Ísafirði, jólabónus í peningum, auk þess sem boðið var upp á smörrebrauð af Hótel Ísafirði eftir vinnu í gær. Við vorum búin að ákveða að gefa okkur þessa tónleika í jólagjöf og því var æðislegt að fá þá bara svona upp í hendurnar.
Finnbogi var hjá okkur um helgina og í gær á meðan Halli var í vinnunni fórum ég og fjórir strákar í sundlaugina. Við vorum komin oní klukkan tólf og heim um fjögurleytið! Mest allan tíman vorum við alein í lauginni og fórum í rennibrautina, lágum í pottunum og svömluðum í lauginni. Það var æðislegt og í fyrramálið, aðfangadagsmorgun, verður farið í sundlaugina þar sem allir fá sér jólabaðið og slaka á fyrir öll herlegheitin. Ég elska sundlaugina hérna í Bolungarvík. Þetta eru algjör forréttindi að ganga að svona lúxus og þekkist ekki víða um heim eins og hér á Íslandi.
Jólatréð okkar er komið upp og þurftum við að fá aðstoð bæjarstjórans sem er yfir tveir metrar á hæð, til að setja engilinn á toppinn! það er svo stórt og fallegt! Við þurftum fjórar seríur til að lýsa það allt upp!!
Nú er best að fara að slökkva undir hangiketinu og leyfa því að kólna í soðinu í nótt, svo bý ég um það í köldu geymslunni í fyrramálið svo að hægt sé að borða það á jóladag. Annað kvöld verður Hamborgarhryggur og í forrétt, rækjukokteill. Ég auglýsi hér með eftir uppskrift af slíkum kokkteil!
Elsku vinir og vandamenn, Gleðileg jól til ykkar allra og munum eftir að njóta þess að vera með okkar nánustu, séum við svo heppin að geta það. Bestu kveðjur héðan úr Hraunbergshúsinu þetta þorláksmessukvöld, frúin ætlar að fara að hátta. Guð blessi ykkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
21.12.2007 | 19:28
Og þau koma...
.... það er ljóst. Við bökum lítið, þrífum minna, verslum hóflega og skreytum eftir bestu nennu. En jólin munu bresta á okkur þrátt fyrir litla fyrirhöfn. Við erum öll þokkalega brött og heilsufarið alveg ágætt, það er nóg fyrir okkur þessi jólin. Ella og Einar, amma og afi Björgúlfs ætla að borða með okkur á aðfangadagskvöld, Binna Hjaltalín hefur boðið okkur í skötu á Láka, (þurfti ekki miklar fortölur) jóladagur fer í að spila, lesa, sofa og éta hangið két, annar í jólum fer fram í sveitinni í Dýrafirði og enginn verður með æsing eða stress.
Á tímum blogga og netfrétta fylgist maður með fólki heyja allskonar baráttur. Ung móðir, einstæð, liggur fárveik á sjúkrahúsi og mun líklega ekki fara heim þessi jólin, lítil telpa háir sína baráttu og foreldrarnir vanmáttugir reyna að gera hvern dag eftirminnilegan og njóta allra stunda sem í boði eru, foreldrar takast á við sorgina sem mergsýgur þau í kjölfar þess að sonur þeirra tapaði baráttunni við illvígan sjúkdóm, láglaunafólk veit ekki hvernig það á að kljúfa það að gera sér og börnum sínum dagamun. Úti í hinum stóra heimi eru hörmungarnar ennþá heiftúðugri. Heilu þjóðirnar svelta, stríðshrjáðar, kúgaðar. Auðlæknanlegir sjúkdómar leggja lítil börn að velli, sjúkdómar sem hægt er að forðast leggja heili þjóðflokkana að velli og heimurinn virðist eintóm hörmung.
Allt þetta gerir mig svo óendanlega dapra. Og eftir því sem ég eldist, fær böl heimsins æ greiðari aðgang að sálu minni og mér verður alltaf erfiðara að sporna við. "Hugsum jákvætt," stendur á ískápsseglinum. Ég reyni og reyni en finnst sorgin, hörmungarnar og erfiðleikarnir hjá fólki sem ég þekki, nú, eða þekki ekki, stöðugt læðast nær og nær vitundinni uns ég verð heltekin af vanmáttugum trega og djúpri sorg.
Þessi tilfinning heitir þunglyndi og hefur verið félagi minn undanfarin ár. Ólíkt mörgum beinist þunglyndi mitt ekki að mér sjálfri og því hversu ömurleg mín litla tilvera er, heldur að því hve heimurinn er grimmur og líf allra tilgangslaust.
En ég þekki kauða. Ég finn þegar hann byrjar að læsa klónum ísmeygilega í sálartetrið og fikrar sig dýpra og dýpra inn í hugann. Nú orðið tekst mér jafnvel að reka hann út fyrir garðhornið, þar sem hann bíður eftir að glufa myndist og honum takist að læða sér inn fyrir þröskuldinn og hremma mig. Lengi vel tók ég lyf til að bægja honum frá. Það var skynsamlegt en ekki varanleg lausn. Núna stunda ég þekktar sjálfshjálparaðgerðir, s.s. reglulega hreyfingu, (sem virðist nú samt ekki tálga neitt af skrokknum af mér) reglulegan fótaferðatíma, dagsbirtulampa, samtöl við fólk sem þekkir sjálft á eigin skinni hvernig hægt er að togast átakalaust inn í hið dapra holrúm ótta og vanmáttar, uppbyggilegar hugsanir og þar fram eftir götum.
Allskonar meðul hef ég reynt. Orkulækningar, hefðbundnar lækningar, miðlalækningar, fetalækningar, lækningar með breyttu mataræði, cranio, hugræna atferlismeðferð, blómadropa, geðlyf, ilmolíur...... Ég hef meira að segja reynt að koma mér í hin æsilegustu endorfínrús með alls konar asnalegum uppátækjum sem hafa bara dregið mig enn meira niður og lent svo hvað harðast á þeim sem ég hef þó alltaf til að reiða mig á. Allt! Allt hef ég verið tilbúin að reyna og marg með sæmilegum árangri en þó bara tímabundið. Þetta er augljóslega langhlaup. Og ég er ekkert sérlega þolgóð né spretthörð. Ég verð því að ganga mig í gegn um þetta. Og þessi jólin ætla ég að byrja á að hvíla mig. Fyrir næstu lotu. Af því að ég held að með því að halda ótrauð áfram komist ég á endanum í mark. Kannski ekki fyrr en lífsgöngunni lýkur, kannski er þetta hreinlega þessi frægi "lífsins gangur?" Ég hef ekki hugmynd um það. Og líklega hefur enginn nein svör við því. Nema sá sem allt veit. Og hann hitti ég ekki fyrr en í fyllingu tímans. Vonandi í hárri elli, södd lífdaga. Og það gengur líklega eftir. Því að þrátt fyrir þetta allt saman þá hef ég í lífinu verði í flestu svo heppin. Og allar mínar óskir, sjálfri mér til handa hafa ræst. Það er bara þetta með óskir mínar öðrum til handa sem ekki gengur eins vel með.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
18.12.2007 | 00:14
Föst inni
Jæja. Það hlaut að koma að því að einhver hlíðanna lokaðist. Ekki Óshlíðin þó núna, aldrei þessu vant, heldur Eyrarhlíðin á milli Hnífsdals og Ísafjarðar. Veðráttan hefur nú ekkert verið björguleg undanfarið og núna í augnablikinu er grenjandi rigning hérna og hífandi rok. Húsið nötrar af og til og ég flýti mér sem mest ég má að pikka inn svo að ég missi ekki allt niður þegar rafmagnið fer. Já ég segi ÞEGAR! Þannig er það bara hérna fyrir vestan. Rafmagnið fer af í vondu veðri. Og ekkert athugavert við það. Bara ósköp notalegt í rauninni.
Annars er það helst í fréttum að ég hef tekið afar stóra ákvörðun. Ég ætla að hætta á Langa Manga um áramótin og fara að vinna á Skýlinu hérna í Víkinni í staðin. Ég veit, ég veit, launin eru ekkert svimandi há en á móti kemur að ég get sparað mötuneytiskostnað, heilsdagsvistun, disilolíu og leikskólagjöld fyrir tugi þúsunda á mánuði. Þannig að ... köllum þetta hagræðingu. Það er ekkert vit að við séum bæði að vinna á Ísafirði. Það hefur maður fundið undanfarið í lægðaganginum. Mér finnst tilhugsunin um að við bæði festumst á Ísafirði og börnin hérna heima, hræðileg. Svo að þetta verður þægilegra. Það verður líka gott að hafa meiri tíma með strákunum. Þetta er fjárfesting í framtíðinni. Og allrabesta fjárfestingin er sem mest samvera með drengjunum mínum. Finnst mér.
-------ooOOOooo--------
Skelli inn einni sumarmynd svona í lokin. Til að létta mér.. og ykkur kannski líka, lundina.
![]() |
Hnífsdalsvegur lokaður vegna aurskriða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)