Florence Nightingale

Uppsölu og niðurfallapestin hefur stungið sér niður á heimilið óvenju snemma þetta árið en eins og frægt er orðið, hefur fjölskyldan legið í slíkri pest sl. þrenn jól, ef ekki fern. Sem betur fer er minnið gloppótt orðið, annars færi allt í hönk og ég væri farin að bryðja Valíumið um miðjan september.

Nú spúa yngsti og elsti (þá meina ég þennan þrjátíuogeitthvað) eldi og brennisteini. Eldinum upp, við vitum öll hvert brennisteinninn fer.... og ég er Florence Nightingale í dag. Sem er ágætt. Ég á þá inni ákveðna þjónustu, herji óáranin á mig næst.

Sá yngsti hefur verið veikur í allan vetur. Meira og minna. Stundum koma 3-5 dagar án teljandi vandkvæða en svo læðist hitinn aftur um litla kroppinn og lungu, bronkur, nef og augu fyllast af óhroða. Farið var með hann til HNE á laugardaginn og kvað sá upp þann úrskurð að hlussustórir kirtlar væru að eitra litla kroppinn og þá þyrfti að uppræta hið fyrsta. Þá, segja mér lærðari menn, verða straumhvörf í heilsu litla drengsins.

Ég vildi óska að svo lítið þyrfti til að hjálpa henni Þuríði Örnu litlu sem berst við sinn erfiða sjúkdóm. Ég vildi ekkert heitar en að lítil börn sem eru undirlögð af ljótum, ólæknandi sjúkdómum, gætu fengið bata með jafn einfaldri lausn og kirtlatöku!

Ég kvarta og kveina, finnst ég alltaf vera með lasin börn, skammdegisdrunginn að drepa mig, fortíðin að kvelja mig, nútíðin að hrella mig og framtíðin að hræða mig.

 En allt hef ég þó til alls og börnin mín hrjáir ekkert sem ekki jafnar sig með tíð og tíma. Manninn minn á ég bestan og yndislegastan, heimilið mitt draslaralega er hálfkarað en samt griðarstaður, fallegt og fullt af ást, kærleika og meira að segja, loðnu hundskotti, sem okkur öllum þykir vænt um.

Ég þjáist af óþakklætissjúkdómi nútímans, ætlast til að allir hlutir gangi mér í hag, annað er óréttlæti sem beinist beinlínis gegn mér og mínum. Verst er að engin sérstakur á sök.  Kannski þyrfti ég að upplifa einhverjar hörmungar til að snúa þessari hugsanavillu við. Til að læra að lifa í núinu án þess að systurnar fortíð og framtíð, þó aðallega framtíð, dragi úr mætti augnablikshamingjunnar.

En búkhljóð gefa til kynna að mín sé þörf, 10 mínútna, lögbundinni pásu hjúkkunnar er lokið. Aftur í sloppinn, upp með höfuðkappann og Florence stormar af stað til bjargar heiminum.

Og allir eru glaðir.....

 


Draumfarir ófagrar..

Ég fór á tónleika í Einarshúsi áðan með ungri konu sem heitir Marta. Hún spilar á gítar sitt eigið efni og syngur með. Falleg og skemmtilega lágstemmd tónlist, því miður þó flutt á ensku. Ég veit ekki af hverju ungt og hæfileikaríkt listafólk kýs að semja textana sína á ensku. Sumir segja að það sé auðveldara, auðvitað er það auðveldara. Enda er enska afskaplega einföld, bragfræðilega séð. En hitt er þá bara þeim mun meiri áskorun. En að þessu nöldri slepptu þá voru tónleikarnir fínir og þið eigið örugglega eftir að heyra frá þessari ungu konu síðar. Heilmikið í hana spunnið.

82061270_98dace9bc0

Annars er ég farin að örvænta. Mig dreymir sömu draumana aftur og aftur. Annar stafar held ég af tímaskorti. Mig dreymir alltaf að jólin séu komin og ég hafi gleymt að undirbúa þau. Börnin séu grátandi, enginn matur til, ekkert skraut, bara dimmt og leiðinlegt.

Hinn draumurinn er gamall og stafar líklega af samviskubiti sem hefur þjáð mig síðan í æsku. Þannig var að ég átti tvo hamstra í þvottabala niðrí kjallara heima á Ásvegi tvö. Einhverntíma þegar ég fór suður að heimsækja mömmu fyrirfórst að gefa þeim að borða. Einhver misskilningur átti sér stað og þegar ég kom heim, var hálfur hamstur í balanum. Hinn var á bak og burt með blóðuga skoltana. Síðan þá, fæ ég oft og iðulega martraðir um mýs, fugla og önnur smádýr sem ég "man" skyndilega eftir að eiga og eru svelt og illa farin. Oftar en ekki gegnur draumurinn þannig fyrir sig að ég fer í bílskúrinn á Ásvegi Tvö og finn hamstrabúr, fugla og músabúr útum allan skúr með hálfdauðum dýrum í. Í draumnum var ég búin að gleyma því að ég ætti öll þessi dýr og stundum eru allir veggirnir fullir af holum með músum og nagdýrum sem hafa fjölgað sér árum saman og lifað á líkum hvors annars. Þetta eru mínar hryllilegu draumfarir! Ég veit ekki alveg hvernig ég á að losna út úr þessum vítahring, samviskan er líklega að vinna sitt verk en ég meina: KOMMON!!!! Ég þarf að fara að fá minn svefn, hvað sem hömstrum og músum líður... :o)

113262282_91a033c808

Sagan endurtekur sig. Fyrir einu-tveim árum lenti Björgúlfur sonur minn í því að drepa óvart páfagaukana sína. Hann gleymdi að gefa þeim vatn í tvo þrjá daga og þeir lágu á botni búrsins einn daginn. Minnug þess hvað hamstramorðin mín hafa ásótt minn næturfrið gegnum tíðina, ákvað ég að létta samvisku hans eins framarlega og mér var unnt. Sagði að fuglunum liði mun betur svona en lokuðum í búri og svo framvegis. Honum leið illa og samviskan kvaldi hann. Mig líka því að mér finnst að ég hefði átt að fylgjast betur með. En páfagaukana átti hann og það var hans að hugsa um þá. Samt, .... kannski ef ég hefði litið betur til með þeim þá hefði þetta ekki þurft að gerast. Kannski mun drenginn minn dreyma sömu drauma og mömmu hans eftir tuttugu ár. Full búr af fuglum sem gleymdust dögum saman.........

Kannski ég fari bara og fái svefntöflur...........


Þegar stjórnvöld búa ekki betur en þetta að þegnum sínum, þá hjálpum við hin til!

Aðventu-átak.

 

Þórdís Tinna Moggabloggari númer eitt,  er engin venjuleg kona.

Hún er skemmtileg, alltaf að hjálpa öðrum og sér það jákvæða við nánast allar kringumstæður.

Eins og flestir vita, á hún við alvarleg veikindi að stríða. 

Það þarf ekkert að kynna Þórdísi Tinnu, svo þekkt er hún orðin fyrir að vera hún sjálf.

Nú er rétti tíminn til að sýna Þórdísi Tinnu stuðning í verki. 

Sýnum samstöðu og styðjum við hana og dóttur hennar, Kolbrúnu Ragnheiði, svo þær geti notið hátíðanna, lausar við fjárhagsáhyggjur.  Fimmhundruðkall, Þúsundkall eða Fimmþúsundkall..... allt hjálpar.

 

Bankareikningur

0140-05- 015735.     Kt.101268-4039

 

Ég skora á aðra bloggara að taka þátt og birta samskonar færslu á sinni síðu. 

(ég tók þetta af síðu Önnu Einarsdóttur en hún og fleiri bloggvinir Þórdísar Tinnu hafa tekið sig saman og ákveðið að þegar kerfið klikkar, þá tökumst við í hendur!)


somboddí shjút mí !!!

Jæja.... ég er í það minnsta hvergi flokksbundin....

 


mbl.is Ekki meira blátt og bleikt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðbrögð.

Fékk viðbrögð frá kynsystur sem kommentaði í pistli hér að neðan. Þar sem hún vísar í mitt blogg, leyfi ég mér að vísa hér í þessa skemmtilegu færslu af síðunni hennar, hér er hún, stuðningsfulltrúinn Herdís! (sýnið þolinmæði á meðan andlitsmynd stúlkunnar hleðst inn, hún er mjög stór. Einnig þarf að skrolla heila síðulengd niður til að sjá það sem skrifað er, en það kemur ekki að sök, stúlkan er bráðfalleg og því er heimsóknin á síðuna vel síns virði, jafnvel þó hún taki tíma.)

Já, það þarf svo sannarlega ekki að örvænta á meðan svona pennar eru til á Íslandinu góða. En hér er, lesendur góðir, algjörlega ný ástæða fyrir áðurnefndri háreyðingu: hárin festast í nærbuxunum! Þessu hef ég aldrei lent í, líklega ekki nægilega "lagðmikil." Og er það miður því að það gæti komið mér að verulegu skjóli hér í norðaustan vetrargarranum.....

En mikið er ég fegin að þetta er skýring fyrir snoðuninni því að hún er mjög fjarri mínum tilgátum um forsendur svona algerrar háreyðingar. Þetta hýtur líka að vera fjarskalega óþægilegt. Því eins og hún lýsir ástandinu " lafa hárin langt niður." Þá er að sjálfsögðu nauðsyn að grípa til aðgerða! Það skil ég. Meira að segja ég! Maður gæti bókstaflega flækst í jafn síðum hárum. Meira að segja dottið!

En mér þykir afskaplega miður að hún telji mig skoða sköp annarra kvenna í sturtum sundlauganna! Ég myndi aldrei biðja aðra konu að fara í þá stellingu að ég gæti barið þau augum. Hafi ég gerst sek um slíkt bið ég innivirðulegrar afsökunar! En auðvitað getur líka verið að sumar konur hafi sköpin utanáliggjandi og mjög sýnileg þó að ég, sveitakonan sjálf, hafi aldrei séð neitt þvíumlíkt!

En húrra fyrir stúlkunni! Hún stendur með sér!


Bara innihaldið

...sagði maður í gamla daga þegar maður kærði sig ekki um umbúðirnar utan af gosdrykkjunum og sóttist bara eftir því sem var nýtanlegt. Sumsé gosinu.

Ég er svo sein á mér að ég er fyrst núna að sjá þessa stóreinkennilegu frétt sem mér finnst í besta falli vandræðaleg. Hvað er málið? Nú á ég tildæmis börn. Ég er forráðamaður og ég sé bara ekkert athugavert við þá nafngift. Annað væri svo aftur ef ég stæði mig ekki sem slíkur. ÞÁ værum við að tala um vandamál.Ég hef engan sérstakan áhuga á að vera "forráðakona" eða eitthvað þvíumlíkt.

Mér finnst þett í hæsta máta einkennileg krafa. Liggur virkilega ekkert brýnna fyrir á þingi? Ég nefnilega hefði til dæmis haldið að málefni fjölskyldna langveikra barna væru eitthvað sem lægi frekar á að laga. Eða bara EITTHVAÐ annað!! Gott fólk!

KOMMON!!!!

Ég veit ekki betur en að orðið kennslukona sé orðið hreinasta móðgun og nú verði maður að kalla þær ágætu konur kennara. En mér vitanlega er orðið kennari kk orð. Nema það hafi breyst. Kannski ættum við konur hreinlega bara að fara frammá að orðin skipti algjörlega um kyn! Að kennari verði bara það kennarið. Það leikarið. Það hjúkrunarfræðingið.... eða eitthvað? Og það að vera ráðherra er bara töff. Segir ekkert um það hvort þú ert kona eða karl. Nema þá ef vera skyldi að þú hétir Þorsteinn Þengilsson og værir ráðherra en samt kona. Þá fyrst færum við að ruglast....... Þetta er bara ekkert flókið. Ef nöfnin segja ekki til um það, nú þá útlitið. Konur eru körlum frábrugðnar í útliti... ennþá að minnsta kosti. Tjah... allavega hér fyrir vestan..Police

Svona lagað hefur mér aldrei þótt skipta máli. Það er vera kona hefur aldrei verið mér fjötur um fót. Bara til framdráttar. Og hvort sem ég er kölluð hefðbundnum starfsheitum ( sem hafa verið til í tungumálinu svo lengi að fólk héldi áfram að nota þau hvort eð væri, sbr. Keflavík og Þingeyri,) eða einhverjum nýjum orðskrípum þá er, þegar upp er staðið bara innihaldið sem skiptir máli. Fóstra, kennari, ræstitæknir, skúringarkelling eða hvað, ég gegni nákvæmlega sama hlutverkinu eftir sem áður. Titlar breyta því ekkert.

Athyglisvert þetta með að vera Kokkur. Kannski að Kykka sé það sem koma skal...? 

Svo er annað sem mér finnst asnalegt. Það er að ráðherrar skuli hafa bílstjóra!! Ég meina, eru þeir alltaf fullir? Kunna þeir ekki að keyra? Kostar þetta ekki eitthvað? Hver er tilgangurinn???

Og trúið mér, ég vissi í fyrsta skipti í DAG að þeir actually hefðu bílstjóra!! Ég hélt alltaf að það væri brandari!!!! Enda fáránlegur siður. Ráðherrar, ráðmenn, ráðfrýr, ráðningarstjórar, ráðskonur.. hvað sem þetta fólk kýs að kallast, þeim hlýtur að vera treystandi til að stjórna einum bíl! Ég meina, þetta fólk á að geta stjórnað heilu landi!!!!

jólin koma þrátt fyrir þetta stagl!


mbl.is Vill nýtt starfsheiti fyrir ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málshættir og jólaundirbúningur.

Jæja, nóg um hárvöxt.

Þegar einar dyr lokast opnast aðrar.  Eins dauði er annars brauð. Maðurinn uppsker eins og hann sáir. Árinni kennir illur ræðari.- Af máli má manninn þekkja.Í myrkri eru allir kettir gráir. Krummi veður ei hvítur þó hann baði sig. Hinn öfundsjúki er sinn eiginn böðull. Gömul ósköp gráta ei nýjum tárum.

Ég er að rifja upp skemmtilega málshætti og orðasambönd sem ég hef einhverntíma nýtt mér í daglegu tali. Þetta voru nokkur en svo man ég ekki fleiri í bili. Ég er farin að hlakka til jólanna. Ég er búin að gera lista yfir allar þær rosalegu annir sem mín bíða og allt sem ég hef einsett mér fyrir, og um jól. Hann er svona:

Ég ætla að baka eina sort hverja helgi og láta éta hana jafnóðum fram að jólum.

82061266_452ed5dcf4_mÉg ætla að hlusta á Klundurjólin hennar Dr.Tótu minnar á hverjum degi í desember.

Ég ætla að kaupa mér "heimaföt" fyrir jólin og vera í þeim frá því að ég fer á fætur á Aðfangadag og þar til ég neyðist til að fara úr húsi eftir jól. Einu sinni hefði ég frekar hengt mig en svo mikið sem sagt þetta!!!

Ég ætla ekki að kaupa jólaföt á börnin mín. Bara nýja joggninggalla.

Ég ætla að horfa á viðbjóðslega mikið af DVD yfir jólin og lesa fáránlega margar bækur.

Fram að jólum ætla ég að fá mér cappuchino með kanil á hverjum degi og tvær piparkökur með.

Ég ætla að sjá "Jólasveina Grýlusyni " í Tjöruhúsinu á Ísafirði með fjölskyldunni á aðventunni.

Ég ætla að reyna að umgangast bara skemmtilegt fólk fram að jólum. Leiðinlegt fólk og mislynt dregur úr jólaandanum mínum!

Ég ætla að vera dugleg að hreyfa mig fram að jólum svo ég geti étið eins og gímald.


Hinn "loðni" pistill

Ég fór á árshátíð bæjarstarfsmanna Bolungarvíkurkaupstaðar í gærkvöld. Og var erindi mitt það eitt að halda utan um það samkvæmi og sjá til þess að Víkarar skemmtu sér af þokka og prúðmennsku. Sem þeir og auðvitað gerðu. Ég er ekki fyrr komin í salinn en farið er að ræða við mig um svo ansi hreint...uuu... athygliverðan pistil á blogginu mínu. Í sakleysi mínu, og vissu um að allir mínir pistlar séu athylgiverðir þakkaði ég fyrir og spurði hvað pistil væri við átt? -Tjah... þennan um ...hérna... raksturinn og allt það, var svarið. Já, og hafðirðu gaman að honum? spurði ég.

Já, fólk hafði almennt haft það og þótti umræðan þörf. Óþarfi að segja að þegar leið á kvöldið fór ég að verða konfronteruð á ögn opinnskárri hátt, s.s: hey! Ylfa! Flott píkuhárasagan þín þarna á blogginu þínu! Upp með hárin! Lengi lifi bolvíski brúskurinn!!!!

En síðan umræddur pistill birtist hef ég nánast legið í rannsóknarvinnu. Og komist að mörgu. Flestu átti ég nú von á. En staðan er semsagt þessi og ég tek fram að þetta er ekki hávísindaleg úttekkt:

Fullorðnir karlmenn hafa ýmugust á háreyðingu á helgum svæðum.

Giftir karlar vilja hafa konurnar sínar eins og þær voru af Guði skapaðar.

Ungir menn, sérstaklega ólofaðir segja hárin "þvælast fyrir" þegar stundaðir eru "óhefðbundnir kynlífsleikir." (það má kannski benda þeim á það að við konur þurfum nú að hafa áhyggjur af að taka stærra upp í okkur en eitt og eitt hár!!!)

Drengir (a.m.k einn sem ég spjallaði við) á 16. aldursári halda í raun og veru að konum vaxi alls ekki hár undir höndum!!! (skelfileg staðreynd en alfarið okkur konum að kenna. Þeir hafa einfaldlega aldrei séð þau!)

Konur halda að körlum finnist snoðaður neðrihluti "fallegri" en hærður.

Karlar halda að þessi háreyðingarárátta kvenna standi í einhverju samhengi við blæðingar. Hvaðan sem sú mýta er tilkomin. Að konur skafi hár sín til þægindaauka vegna einhvers samhengis þar á milli.

Konum á aldrinum 15-30 ára finnst flestum að nauðslynlegt sé að hafa hemil á hárunum og a.m.k helmingur þeirra sem ég hef talað við hafa prófað brasilíkst vax.

Flestar þeirra þjáðust af inngrónum hárum eftir brasilíuvaxið.

A.m.k 25 karlmenn komu til mín á árshátíðinni í gær og sögðu að þeim finndist brúskur kvenna eitt það fallegasta og leyndardómsfyllsta á líkama þeirra. Allsber kynfæri væru einkennileg og hálf óhugguleg.

Sorry stelpur, þetta er bara í höfðinu á okkur plús nokkrum litlum drengjum sem þekkja ekki betur til. Hafa sína reynslu og þekkingu af nöktum kvenlíkama alfarið úr bláum myndum þar sem púðraðir bakhlutar og berir barmar gegna aðalhlutverki! (og þá er ég að tala um neðri barmana)

Niðurstaðan er þessi.: My Bush is the only Bush I can trust, so I´m sticking to it!

Í dag verða afgangs afmælistertur í afmæli frumburðarins teknar úr frysti og étnar af græðgi og í kvöld á að horfa á Óbeislaða fegurð á RÚV.

 

Bovíski brúskurinn með sína óbeisluðu fegurð kveður í dag.bolvíski brúskurinn

 

 

 

 

 

 

 


ðe síkret

Ég fékk bókina The Secret inn um lúguna í haust. Nafnlaust og allt. Vissi samt alveg að þetta væri bókin góða. Og ég las hana og fannst mikið til koma. Sérstaklega fyrstu síðanna. Svo fór aðeins að halla undan fæti. Mér fannst til dæmis afar erfitt að setja mig í þau spor að leiða talinu að öðru ef fólk vildi tala um það hversu illa því liði. Samkvæmt Leyndarmálinu, á maður nefnilega alls ekki að tala um erfiða og neikvæða hluti því þá laðar maður þá til sín. En ég get bara alls ekki setið hjá t.d. góðri vinkonu sem segir mér frá baráttu sinni við illvígan sjúkdóm og reynt að tala frekar um hversu gaman mér þyki að horfa á náttfiðrildi! Hvað þá að leiða tal áhyggjufullra hjá mér þegar þeir vilja tala um ....segjum bara..fjármálin sín.

Ég held nefnilega að þá sé maður ekki sérstaklega góður við þá sem vantar öxl og eyra. Og ef maður er það ekki, þá er ekkert svo miklvægt að vera til yfir höfuð. Því að það sem gefur okkur jú gildi er að vera til staðar þegar okkar nánustu þurfa á að halda, er það ekki??

En að öðru leyti er bókin snilld. Þörf áminning. Og nú er ég búin að vera lengi með fýluna, feituna og ljótuna og hef ákveðið að tileinka mér gleðina, sætuna og ....mjóuna???

 Allavega, ég ætla með síkretið upp í rúm með mér, lesa það og laða svo það sem ég vil, beint til mín. Sofna svo með bókina í fanginu og sjá hvort þetta virkar ekki. Strax!

Skálavík

Tekið í SKálavík.

 


hin neðri hártíska

Í síðustu viku fór ég með Baldri og Halla í sundlaugina í Árbæ. Þetta var um kvöld og mest fullorðið fólk að fara í sund. Ég flýtti mér töluvert úr leppunum og inn í sturtuna enda margt um manninn og fáar sturtur lausar. Skyndilega rekur mig í rogastans! Ég var augljóslega eina konan í sturtuklefanum sem hafði tekið út eðlilegan kynþroska. A.m.k ef marka mátti hár...tískuna "neðanverða."

Mér varð svo mikið um að ég fór að glápa eins og hver annar dóni og viti menn, þetta var rétt. Allar konurnar, nema ég, litu út eins og smástelpur!! Ég átti verulega bágt með að fara ekki að hlæja, svo "snautlegar" þóttu mér þær, en þegar ég kom síðan í pottinn varð ég alvarlega hugsi. Af hverju reyta konur af sér öll líkamshár sem gefa til kynna að þær séu fullorðnar og hafi tekið út sinn eðlilega þroska? Af hverju sækjumst við eftir að líta út eins og níu ára smátelpur? Hvaða hugsun fær okkur til að fara á "fjóra" og láta brasilíuvaxa á okkur fram,- og afturendann? Er ég ein um að þykja þetta einkennilegt?

Ég fór að spyrja konur í kringum mig og flestar játuðu nú að eyða flestum þeim hárum sem á þeim yxu, nema þá helst á höfðinu. Sögðu að þeim þætti hárvöxtur á "óæskilegum" stöðum merki um sóðaskap. Sorrý, en ég bara SKIL það ekki!! Á þessum síðustu og verstu tímum þegar hryllingsfrásagnir kvenna, sem voru beittar ofbeldi af fullorðnum mönnum þegar þær voru litlar og óþroskaðar telpur, skekja okkur af viðbjóði og vanlíðan, þá finnst okkur það sóðalegt að líta út eins og fullvaxta konur????? 

Fyrirgefið mér, allar þær kynsystur mínar sem snoðið líkama ykkar, en HVAÐ er að í heildarmyndinni? HVENÆR fór okkur að finnast sóðalegt að verða fullorðnar? Hvenær fór okkur að þykja það hreinlegt að líta út eins og börn á okkar helgustu stöðum? Mér finnst þetta allt vera hið undarlegasta og skil alls ekki tvískinnunginn í okkur. Á meðan við fordæmum af heilum huga mennn sem líta á óþroskaðar telpur girndaraugum, leggjum við, sumar hverjar, á okkur ómælda vinnu, sársauka og fjármuni í að líta áfram út eins og litlar stelpur. Mér þykir það ekki hreinlegt, heldur ógeðfellt, þegar ég hugsa hvaðan þessi "tíska" er upprunin og hverjir það eru sem sjá um að viðhalda henni. Við sjálfar.

eðlileg kona


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband