13.11.2007 | 18:02
Pirruðpúnkturis.
Ég heiti Ylfa og er geðbólgin. Ég er í fýlu. Ég er árásargjörn. Hefnigjörn og erfið á flestalla lund.
Nú segið þið: Hæ Ylfa!
Þá segi ég: Geðvonskan hófst fyrir nokkru. Mér finnst allir vera hálfvitar, vitlausir og leiðinlegir. Lífið vera tilgangslítið, enda mannskepnan ómerkileg, heimsk og lygin. Hræsin, ljót og leiðinleg. Allt er mér á móti skapi og enginn gerir neitt rétt. Það eina sem ég hugsa um þessa dagana er hveru ömurlegt allt er. Og það er BARA af því allir eru svo GLATAÐIR. Fíflunum fjölgar stöðugt í kringum mig. Skyldi þetta hafa eitthvað með það að gera að ég þurfi að taka mig á í einhverju?
NEI.
Og það litla sem gengur upp er sko pottþétt MÉR að þakka. Það er vegna gífurlegrar útsjónasemi MINNAR. Af því að ÉG er EINA manneskjan með fulla fimm. Hinir eru bara hálfvitar. Ef einhverju er á annað borð viðbjargandi, þá er það vegna mín. Skyldi ég örugglega ekki þurfa að taka mig á í einhverju???
NEI.
Það er ekkert að hjá mér. Það eru bara allir aðrir sem eru FÍBBL.......
Best að gá hvort að sundsprettur lagar eitthvað ástandið.... ekki það að þið skánið neitt við það þó að ég hreyfi mig eitthvað.......
Best að gá samt......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
9.11.2007 | 18:01
Afmælisdrengurinn
Ég á þrjá drengi og enginn þeirra hefur verið kallaður "prins." Þjóðin hefur prinsa og prinsessuvætt börnin, ef skoðaðar eru heimasíður barnalands heita allar síður nafni barnsins, yfirleitt í hljóðfallinu "duddudu" og er undirtillinn gjarna: átta ára prinsessa, tveggja ára prins, nú eða: sex ára skvísa. Drengirnir mínir hafa aldrei borið þá gæfu að vera prinsar. Þeir væru í besta falli titlaðir smaladrengir eða bara forsetar. Baldur gengur stundum undir nafninu forsetinn. Kannski er þetta þjóðræknin í mér. Á Íslandi er ekki konungborið fólk og víst er að það er enginn í minni fjölskyldu með royal-rass af neinni gráðu. Við erum öll komin af sauðaþjófum og hórprestum eins langt aftur og vitað er. Lítill ættarljómi leyfir því ekki stássheiti eins og "prins."
Enginn drengja minna hefur heldur verið skírður "heitu," nafni. Sjálf heiti ég, sem kunnugt er, Ylfa Mist, á meðan ég hefði auðvitað helst heita Þorgerður eða Hrafnkatla. Sigríður eða Guðrún. Kjarngóð nöfn eru bitastæð og góð, enda var frumburðurinn nefndur því leikandi létta og skemmtilega nafni: Björgúlfur Egill. Og hann á einmitt afmæli í dag! Fyrsta kornið mitt er að verða að manni. Og þó að ég sé lítið fyrir tiltlatog barna, þá verður frá því að segjast að drengurinn er engill. Hann er englabarnið mitt og verður alltaf, þrátt fyrir að vera orðinn hærri en ég, kominn í mútur og allt það. Hann er prúður drengur, góður við minni máttar, duglegur að gæta bræðra sinna og almennt yndislegur ungur maður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
8.11.2007 | 22:31
Fermingarplön og fleira
Nýkomin heim í hlað og eigum eftir að afferma bílinn. Ætlunin er að vakna eldsnemma í fyrramálið og vekja afmælisbarnið með nýbökuðum bollum og snúðum. Björgúlfur, elsti drengurinn minn verður 13 ára á morgun. Ótrúlegt. Hann fermist núna í vor og hefur ákveðið að hafa ekki veislu. Í staðinn pöntuðum við okkur ferð til Spánar með pabba hans og stjúpu, þeirra börnum og okkar börnum. Þetta verður semsagt svona stórfjölskylduferð. Við ætlum að vera í Salou sem er rétt hjá Barcelona.
Mér finnst þetta sniðug ákvörðun hjá drengnum og það er langt síðan hann ákvað þetta. Enda held ég að fæst fermingarbörn hafi ýtra ánægju af eigin veislu, án þess að vera neitt að alhæfa. Hef bara um þetta ákveðin grun..... Man sjálf ekkert eftir minni eigin veislu nema að hún var haldin á Sæluhúsinu á Dalvík og andrúmsloftið var einkennilegt. Ég man hinsvegar vel eftir athöfninni sjálfri. Þar komu við sögu glóðarauga, brennivínslykt, sólgleraugu og altarisganga ásamt sérlega slæmri kvíðatilfinningu. Ekki gleðileg stund í minningunni en allt slíkt má á áhrifaríkan hátt bæla niður :o) Allavega þá kostar svona ferð álíka mikið og ein góð veisla sem stendur í fjóra tíma max. En í staðinn má svamla í flæðarmálinu á trópískri ströndu í hálfan mánuð eins og hvert annað ofvaxið sjávarspendýr!
Sem betur fer eru "hinir" foreldrar Björgúlfs afbragðs fólk og skemmtilegt svo að ég held að þessi ferð verið bara flott. En fermt verður 15. mars í Hólskirkju í Bolungarvík. Við ætlum, stórfjölskyldan, að elda saman lambalæri eftir athöfnina, spila og halda almennilegt fjölskyldu partý. Svo verður hægt að nýta restina af páskunum í að fara á skíði ef einhver verður snjórinn. Ég hlakka agalega til. Hugguleg fjölskyldustund er einmitt það sem maður þarf á vetrum. Sem minnir mig á að það styttist í jól. Það eru Reykvíkingar sko búnir að fatta!!!! Þvílíkt rugl......
Jæja, góða nótt býður frúin í Hraunbergshúsi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
7.11.2007 | 18:10
Hætti ekki fyrr en ég fæ seðil.
Til að halda uppá það að ég mætti ekkert í vinnuna alla síðustu viku, ákvað ég að vera í fríi þessa viku líka og fylgja syni mínum yngsta og manni til Reykjavíkur þar sem sá yngri átti að fara í smá aðgerð. Gjóska mín varð eftir heima að passa börn og tík og uppsker í staðinn pössun fyrir sína dóttur seinna meir. Það er verkaskipting í lagi.
Undanfarið hef ég mikið einmitt hugsað um verkaskiptingu. Af því að ég hætti, ekkert fyrir svo löngu, á geðlyfjunum mínum sem héldu mér mjúkri og flatri, þá hefur ýmislegt breyst. Allskonar hlutir fara í taugarnar á mér. Allt mögulegt veldur mér hugarangri, allt mögulegt, sem áður flaut bara hjá án þess að ég léti það nokkuð í ljós né yrði við það vör. Mér finnst rosalega gaman að gera eitthvað fyrir aðra. Ég hef mikið til þrifist á því megnið af ævinni. Og með því hefur mér fundist sem ég væri að borga, á einhvern hátt, fyrir alla þá gæfu sem mér hefur hlotnast í lífinu.
En svo hef ég verið svo mikið hugsi undanfarið. Og ég er að hugsa um greiðasemina. Hverjum gerir maður greiða og hverjum ekki? Er maður að "redda" hlutum fyrir fólk sem kannski vil alls ekkert láta vera að "redda" sér? Er maður að kóa með þeim sem hafa á engan hátt gott af því að maður kói með þeim? Eða er maður í því hlutverki að vera boðinn og búinn öllum stundum (nánast) þegar maður er beðinn um alls konar viðvik? Og ég átta mig á því skyndilega að við hjónin erum töluvert föst í því hlutverki. Halli er t.d. rafeindavirki og er ávallt með hrúgur af einhverju, tækjum og tólum til athugunar fyrir vini og vandamenn. Jafnvel fyrir fólk sem er ekkert svo náið. Honum er nær, hann kann ekki að segja nei. Ófá kvöldin fara í að laga fartölvur eða forrit, tengja og fixa. Sem er athyglisvert. Nú eigum við hjónin engan vin í tannlæknageiranum en slíkt gæti komið sér vel. Við gætum til dæmis beðið hann að kippa einhverju barnanna með sér heim eina kvöldstund eða svo til að flúorlakka og skorufylla......? Gæti sparað okkur tugi þúsunda á ári.
Nú fæ ég gjarna fría klippingu hjá afa fyrir börnin og Halli gerir við allskonar dót fyrir hann í staðinn. Ég fæ gjarna klippingu hjá vinkonu sem fær eitthvað frá mér í staðin sem henni þykir gott. Það er verkaskipting og hún er góð. Við tökum dálítið að okkur að passa börn þar sem við erum alltaf með börn hvort eð er, og fáum þá oftast eitthvað mótframlag í staðinn. Og allt viðheldur sínu góða jafnvægi. En svo slæðist inn eitt og eitt verkefni sem fylgir ekki jafnvæginu. Og manni finnst svo óendanlega erfitt að segja nei. Afhverju? Frekar svíkur maður sjálfan sig, makann og börnin um dýrmætan frítíma til að brölta við hluti sem jafnvel koma manni ekkert við.
Ég ákvað fyrir skemmstu að héðan í frá ætlaði ég að svara öllum sem í mig hringdu með einhverja bón með : ég geri ekkert nema fá greitt fyrir það! Og helst svolítið hranalega svo að það færi nú ekki á milli mála að mér væri fyllsta alvara. Auðvitað koma svo undantekningarnar. Ég meina... ég þarf nú að gera ýmislegt fyrir manninn minn sem ekki er hægt að rukka fyrir án þess að þá sé það farið að flokkast sem ....tjah... glæpur... tíhíhí....
En aftur að alvöru málsins. Þessu fylgir ótrúlegt frelsi!! Það er beinlínis frelsandi að heyra sjálfan sig segja: Nei, því miður. Ég hef bara ekki tíma sem ég vil eyða í þetta!
En nú ætla ég að fara að knúsa litla drenginn minn sem er dálítið rykaður ennþá eftir svæfinguna. Enda er þetta farið að bera keim af vissri tegund auglýsinga: Kona óskar eftir að kynnast fjárhagslega sjálfstæðum manni........
Heyrumst þegar heim er komið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
2.11.2007 | 13:30
Nú veit ég!!!
Birnir sonur minn er veikur eins og mamman. Við erum hérna tvö heima að kela. Ég var að íhuga rétt áðan að fara að mæla drenginn þegar hann segir: Nú veit ég af hverju þú ert svona feit mamma!! -Nú? -segi ég. -Af því þú fæddir þrjá stráka og við tókum svo mikið pláss og stækkuðum magann á þér svo mikið! -Guð blessi barnið, hugsa ég. -Hann er svo yndislegur að kóa með mömmu sinni. Tilbúinn að trúa því að umframmörinn sé á engan hátt mín eigin sök. Fallegi elsku drenguinn minn.... Þetta var ég að hugleiða ásamt því hvort þetta væri ekki ástæða til að verðlauna drenginn með einhverju gómsætu þegar hann bætir við: En ég skil ekki eitt? Af hverju prumparðu alltaf svona hátt??? Er það út af því að þú borðar svo mikið????
Barnið er augljóslega fárveikt með óráði og hita. En um leið og því batnar verður það flengt duglega!
Í tilefni af þessu ætla ég að setja eina inn frá mögru árunum og tek fram að mér finnst ég alltaf vera akkúrat svona!
Góða helgi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
1.11.2007 | 15:37
Læknamafían
... eftir Auði Haralds er ein af mínum eftirlætisbókum. Ég gat hlegið mig máttlausa af litríkum lýsingum sögupersónunnar af baráttu sinni við þrjóska besservissera með læknamenntun sem ekki vildu samþykkja hennar eigin sjúkdómsgreiningu. Við höfum öll lent í þessu. Sérstaklega við sem eigum börn. Ég hef staðið með grátandi barn dag eftir dag á Landspítalanum, Borgarspítalanum og læknavaktinni og þrábeðið um lugnamyndatöku en fengið hverja úthreinsunina og magaröntgenmyndina á fætur annarri. Alltaf sætti ég mig við þetta. Þetta eru jú læknar. Og þá ber að virða. Þeir vita best. "Takk fyrir laxeringuna læknir, barninu mínu hefur samt ekkert batnað! Heldurðu ekki að það sé mögulegt að hann sé með lungnabólgu? Nei ekki það? Allt í lagi, jájá, ég fer bara heim og athuga hvort þetta lagist ekki bara ef ég gef honum aðeins fleiri stíla...... fyrirgefðu ónæðið."
Einn góðan veðurdag brast eitthvað og ég tók krakkann minn litla undir handlegginn, fór með hann til barnalæknis, skellti honum á bekkinn og sagðist vilja röntgenmynd. Barnið væri með lungnabólgu. Þegar eitthvað átti að fara að malda í móinn hvarf hið dalvíska uppeldi sem lítið svosem var, út um gluggann og ég öskraði á karlmanninn sem stóð fyrir framan mig: Gekkst þú með þetta barn??? Eyddir þú 32 klukkustundum í að koma því í heiminn? drakk það úr brjóstunum þínum? hefur þú hlustað á hvern einasta andardrátt þess síðan það fæddist? Þekkir þú það yfirhöfuð?? ERTU AÐ HALDA ÞVÍ FRAM AÐ ÉG ÞEKKI EKKI BARNIÐ MITT!!!!!!????
Fyrir aumingja manninn var um tvennt að velja. Hringja á lögregluna og barnaverndarnefnd eða taka helvítis röntgenmyndina og vera þá laus allra mála. Laus við þessa geðbiluðu konu. Myndin var tekin og lungnabólgan kom í ljós. En þeirrar tegundar sem ekki heyrist þegar brjóstið er hlustað. En lungnabólga engu að síður. Það vissi ég. Enda móðir drengsins. Sama drengs og viðbeinsbrotnaði tveimur árum síðar og átti ekki að fá röntgenmyndatöku. Af því að ekkert fannst við þreifingu. Minnug ábyrgðar minnar sem móður drengsins og þeirrar sem best þekki hann gekk ég rólega að yfirlækni Sjúkrahúss Ísafjarðar og sagði blíðlega: ég er mamma hans. Ég veit þetta. Sá ágæti maður hafði rænu á að hlýða umorðalaust. Og sá ekkert eftir því held ég.....
Ég gerði mér grein fyrir því að læknar vita ósköp fátt þegar kemur að því að greina sjúkdóma. Enda ekki von. Þeir eru oftast að sjá mann í fyrsta skipti. Og auðvitað eru þeir misvel gefnir eins og við öll hin. Og auðvitað margir þeirra sem kannski myndu vilja vera að gera eitthvað allt annað en að skoða uppí horug nef, bólgna, illa lyktandi hálsa og útlitsljótar gyllinæðar. Launin ættu auðvitað að vera þeim einhver sárabót en samt: þeim er náttúrulega vorkun! Þetta er ömurlegt starf! Hitti samt einn lækni í dag sem var að sjá mig í fyrsta skipti. Skoðaði mig vandlega og sá undir eins hvað að amaði. Sagði mér meira að segja að ekki tæki nema fjóra daga að lækna mig. Ég sem hef legið eins og skata í rúminu í næstum viku! Flottur kall. Fékk mig til að hugsa um allavega hluti. Meðal annars það hversu fáránlegt það er að vita ekki sjálfur hvað að manni amar. Maður veit yfirleitt nákvæmlega hvað amar að börnunum.
En í trausti þess að ég sé öll að hressast og komist jafnvel bráðum í vinnu, ákvað ég í bjartsýniskasti að blogga! Aðallega þó af því að elskan mín hún Stína á heilsugæslunni skammaði mig ógurlega fyrir að hafa tekið frí. Stína! þú skalt þá líka kvitta fyrir lesturinn!!! Ég þarf mína örvun alveg eins og þú! Ef þú ekki hlýðir þá sest ég ofan á þig!! Mannstu þegar ég leit svona út???!!!!!!
Það hefur svosem ekkert breyst síðan.......... nema þá kannski að barnið er farið. Allt hitt sat bara sem fastast......
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
23.10.2007 | 22:30
Bless í bili.
Nú ætla ég að taka mér gott hlé. Ég hef frá engu að segja, það er of mikið að gera hjá mér og ég nenni ekki lengur að hafa opinberar skoðanir á einskisverðu argaþrasi og daglegum tittlingaskít. Þetta eru þrjár helstu ástæðurnar. Ég ætla frekar að nota frítímann til að sinna fjölskyldunni minni en að blogga. A.m.k á meðan ég er að finna út hvaða tíma útivinnandi foreldrar nota til þess að blogga, án þess að finnast þeir vera að svíkjast um ...... Núna td. er klukkan hálf ellefu og þvottafjallið minnir á þrítugan, ókleifan hamarinn. En hér sit ég og hamra á lyklaborðið, syfjuðum hnúum. Væri ekki nær að gera eitthvað annað?
Ég hef því komist að því að blogg er annaðhvort fyrir heimavinnandi húsmæður eða fólk sem starfar við tölvur og leiðist í vinnunni....... Ekki tímabundnar mæður með kostgangara Ísafjarðar í mat, þrjú börn, hund og svo ekki sé nú talað um eiginmanninn....
En örvæntið ekki.... ég sný aftur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
19.10.2007 | 19:23
of mikið í boði.....
Af hverju get ég ekki verið tvær? Eða þrjár? Ég þyrfti td. núna í kvöld að vera á a.m.k. á tveim eða ekki þremur stöðum! Mig langar að heyra nýju stefnu DV í Edinborgar húsinu, mig langar á tónleika að hlusta á Guðmund Jónsson á Langa Manga, og mig langar að fara út að borða með vinnunni hans Halla. Sem ég geri auðvitað af því að ég er góð eiginkona. Og hlýðin! Mér skilst að síðan séu þeir Grjóthunslimir að spila einhver lög einhversstaðar í kvöld en það frétti ég bara útí bæ. Ekki frá ektamanninum sem kvaðst á því hissa, ég hlyti nú að hafa séð þá auglýsta einhversstaðar!!! Sjálfur vissi hann ekkert um það fyrr en hann las það á BB.....
Bílinn lánaði ég frá mér og fer því á lánsbíl út að borða. Mest langar mig þó auðvitað að vera heima hjá mér. Hef grun um að Baldur sé að fá hlaupabóluna. Hann er orðinn grunsamlega bólóttur skyndilega. Það væri nú alveg rakið svona rétt á eftir barka-lungnakvefinu sem hann er að ná sér uppúr.......
Ég er að vinna annað kvöld á Langa og á sunnudaginn. Held að þetta verði góð helgi og fljót að líða. Þær eru það flestar þessa dagana. Vikurnar fljúga áfram og það eru aftur að koma jól! Þau eru nýbúin! Ég er ekki einu sinni búin að setja kassann með skrautinu upp á loft! HVernig má sporna við þessum hraða?
Öðruvísi en að drepast?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.10.2007 | 13:35
Fátt er svo með öllu illt...
Hann Baldur bollan mín er lasinn. Og eins og góðra foreldra er siður skiptumst við hjón á að vera heima með veikan drenginn okkar. Sem er ágætt. Þá hef ég tíma til að lesa nokkur blogg og jafnvel skrifa mitt eigið. Nema hvað að sjaldan er maður andlausari en einmitt þá maður er heima með veik börn! En þá er nú gaman að fá góð tölvubréf! Og eitt slíkt fékk ég áðan. Og ég hló mikið!!! Ég semsagt græddi á því að vera heima í dag. Hláturgusu!!
En hér kemur brandarinn sem ég fékk sendan:
Þetta gerðist í afsekktri sveit á Austfjörðum ekki alls fyrir löngu. (nú.. eða Vestfjörðum.. Gæti líka allt eins verið er það ekki?) Sighvatur, sem kominn var yfir miðjan aldur og Sóley,(hún gæti nú alveg heitað eitthvað annað... Gæti byrjað á...tjah.... til dæmis A? ) ung blómarós næstum helmingi yngri en hann höfðu verið gift í nokkra mánuði og Sóley kvartaði yfir því að fá aldrei fullnægingu með manni sínum. Í sveitinni var ekki læknir en á næsta bæ bjó Sigurður dýralæknir og þau ákváðu að leita til hans með vandræði sín. Sigurður dýralæknir sagðist engin svör kunna við þessu en hann myndi þó eftir því að þegar hann var lítill drengur í þessari sömu sveit, þá hefði belja á bænum átt í erfiðleikum með að fæða kálf og foreldrar hans tekið til þess ráðs að veifa stóru handklæði framan í kúna til þess að kæla hana niður og hjálpa henni að slaka á. Þetta hefði virkað ágætlega.Dýralæknirinn sagði þeim því að fá hann Pál á Brekku, ungan og hraustan strák úr sveitinni til þess að koma og sveifla handklæði yfir þeim af krafti á meðan þau hefðu samfarir. Það gæti hjálpað Sóleyju til þess að kæla sig niður og slaka á. Þau fara að ráðum dýralæknisins og fá því Pál á Brekku til þess að koma og sveifa stóru handklæði yfir sér í hjónasænginni en eftir nokkrar tilraunir þá koma þau aftur til Sigurðar og segja að þetta sé ekkert að virka.Sigurður dýralæknir sest niður hugsi í smá stund og segir þeim þá að prófa að skipta, láta Sighvat sveifla handklæðinu en stráksa fara í rúmið með Sóleyju.Hjónin fóru heim og prófuðu þetta. Strákurinn fer í rúmið með Sóleyju og Sighvatur veifar handklæðinu af miklum krafti á meðan. Þá er eins og við manninn mælt að Sóley fær hverja fullnæginguna á eftir annari með tilheyrandi öskrum og stunum og eftir rúma tvo tíma þá veltir strákurinn sér ofan af Sóleyju kófsveittur og úrvinda.Sighvatur er ekki síður sveittur eftir hamaganginn við að sveifla handklæðinu og horfir á strákinn hróðugur á svipinn og segir með áherslu:"Svooona Páll, Svona á að sveifla handklæðinu!". Ein mynd af veika drengnum svona bara af því að hann er svo sætur! |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.10.2007 | 21:04
Fréttamolar
Dr. House. Hann er í uppáhaldi hjá heimilismeðlimum þessa dagana. Við erum nefnilega haldin þeim glöpum, fjölskyldan, að við munum aldrei eftir að horfa á framhaldsþætti. Þannig að við komum gjarna höndum okkar yfir heilar seríur og störum linnulítið á tuttugu þætti í kippu eða svo. Og nú er það Dr. House. Mér finnst hann skemmtilegur en verð þó að játa að ég þyldi hann líklega ekki í raunveruleikanum. En ég er orðin svo vel að mér í díagnósum að ég væri fljót að spotta út hvaðeina sem hrjáð gæti viðkomandi, fengi ég bara allar upplýsingar. Og þetta lærir maður af því að horfa á sjónvarpið. Læknisfræði!!! Hvað GERÐI fólk áður en sjónvarpið kom? Vissi áræðanlega ekki neitt!!
Urta Sigríður Ringsted fór í fokkferð til Önundarfjarðar. Það mun vera Gulldrengurinn Grettir sem átti að vera að negla hana þessa dagana en hún vill bara hreinlega ekki leyfa honum! Sest bara á rassinn og urrar á hann. Þetta lærir hún líklega heima hjá sér.....
Annars er lífið svo ótrúlega ljúft. Við vinnum auðvitað allt of mikið, hjónin, en notum allan frítíma í að leika okkur með börnunum. Við erum meira að segja búin að fá sómakonu til að gera hreint hjá okkur fyrir helgarnar svo að við getum eytt þeim í drengina. Það er svo margt sem þarf að gera. Fara í sund, -við eyðum líklega u.þ.b. 14-17 klukkustundum í viku í sundlauginni..., sunnudagaskólinn, bíltúr eitthvert út fyrir bæinn, annað hvort í sveitina, Skálavík, firðina í kring, eða bara á sandinn. Fara í labbitúr með Urtu, heimsækja ömmur og afa og þar fram eftir götum. Svo er einhvern veginn svo mikið um að vera. Mér finnst allar helgar undirlagðar af viðburðum. Sem er auðvitað fínt.
Núna er Finnbogi hjá okkur. Fyrir þá sem ekki vita þá er Finnbogi sonur vinahjóna okkar. Hann er fimm ára og er með Downs heilkenni. Við erum stuðningsfjölskyldan hans, höfum verið lengi, og njótum því þeirra forréttinda að fá að hafa hann eina helgi í mánuði. Hann passar vel í strákahópinn hér og var snöggur að bræða fjölskylduvini og vandamenn svo að allir taka honum sem sjálfsögðum hluta af okkur og hann tekur öllum sem sjálfsögðum hluta af sínu lífi. Og þannig á það að vera. Það er ótrúlega gefandi að fá að hafa svona ljúfan og fallegan dreng sem hefur þessa sérstöðu. Finnbogi er afskaplega vel staddur miðað við sína fötlun. Hann talar vel og skýrt og hefur góða hreyfigetu. Hann skilur allt sem við hann er sagt og hefur mjög þróaða tilfinningagreind. Finnst mér. Og ekki er ég sérfræðingur á þessu sviði. En ég held samt að ég sé alveg að sjá þetta í réttu ljósi. Hann er bara yndislegur. Og af því að Halli er að fara að vinna í löggunni í nótt þá ætla ég að hafa hann og hina litlu kroppana í stóra rúminu hjá mér. Það er dýrðlegt. Þá lesum við bækur og kelum þangað til við förum að sofa. ótrúlega gott:)
Unglingurinn var að fara út. Unglingakvöld. Félagsmiðstöðin er með svona "sundlaugarpartý" og það stendur held ég til miðnættis. Björgúlfur er í nemendaráði í Félagsmiðstöðinni. Það á vel við hann held ég. Hann er svo líbó. Líkar vel við alla og lyndir vel við flesta. Ef ekki alla. Hann er líka ferlega umburðarlyndur. Það hefur hann ekki frá mér. Og ekki heldur frá föður sínum. Bara hans eigin persónuleiki.
Ég hef markvisst reynt að hlusta ekki á fréttaflutning af borgastjórnarþvælunni. Eins og ég sagði henni G.Stellu þá hef ég ákveðið að hugsa meira inn á við og heildrænt. Hnattrænt. Það þýðir að ég hef ekki pláss fyrir daglegar pólitískar erjur og þref! (þetta er auðvitað afsökun fyrir því að hafa ekki nennu né áhuga fyrir því að fylgjast með þessum skrípaleik sem íslensk pólitík er. Að auki finnst mér alltaf svo sorglegt að því meira sem ég fylgist með stjórnmálum því minna finnst mér um mannskepnuna og því er bara betra að sleppa því með öllu) Þess vegna hef ég enga skoðun á þessu öllu saman. En mér sýnist bloggheimur allur hafa hana svo að enginn ætti að verða fyrir vonbrigðum með minn fátæklega skoðanabanka.
Þetta er að verða verðlaunahæft fyrir að vera sundulausasta blogg ever svo að ég ætla bara að hætta núna. Enda er miðbarnið að óska eftir að ég horfi á það "galdra talstöð úr nærbuxunum sínum..."
Bloggar | Breytt 16.10.2007 kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)