Færsluflokkur: Bloggar
10.5.2008 | 14:45
Jörðin klæðist hvítu.
Sennilega brúðkaup í vændum. Allavega skartar hún hvítu í dag. Einu sinni skrifaði ég leikrit, óséð meistarastykki, sem heitir "Jörðin klæðist hvítu á vetrum." I dag á það nafn ekki við enda komið sumar.
Hinn íslenski þursaflokkur spilaði í Edinborgarhúsinu í gærkvöldi. Eg er ennþá í einhverskonar upplifunar-ástandi. Þvílík snilld. Þvílíkir dásemdar snillingar! Þetta var eins og tveggja tíma langur orgasmi. -Með hálftíma hléi reyndar, en það kom ekki að sök. Maður þolir nú ekki alveg endalaust áreiti á hin helgustu skynfæri! Eg hef aldrei, og ég endurtek, aldrei, farið á jafn vandaða og góða tónleika og þessa. Eg veit ég hef oft sagt þetta áður en kosturinn við að vera gullfiskur í aðra ættina er sá að maður er alltaf að upplifa dásamlega hluti aftur og aftur. En Þursaflokkurinn er auðvitað hljómsveit sem er júnikk. Maður ætti að komast reglulega á konsert með þeim. Auðvitað var R. faðir minn Vilbergsson manna fegurstur á sviði, blásandi í sitt trérör eða lemjandi húðirnar hann Halla við hlið trommuleikarasénísins Asgeirs. Asgeir var með heljarmikið sett og allskonar slagverk og við hlið þessa stóra virkis umhverfis hann, kúrði litla premierkrúttið hans Halla. Auðvitað eiga öll bönd að hafa minnst tvö trommusett á sviði! Það er sérlega kúl.
Eftir tónleikana drösluðum við svo settinu upp í bíl í skafrenningi og ógeði, fengum okkur drykk á barnum og ókum svo heim í þæfingsfæri þennan maídag! Þetta er nú alveg makalaust. Þegar maður heldur að nú sé sko vorið komið, ryðst út í garð og rífur ofanaf beðum, setur upp sólstóla og trampólín, þá gerir norðan áhlaup! Rugl. En svona er Island. Full of surprises.
Letidagur í dag. Sofið frameftir hádegi, sund á dagsskránni og síðan svínahnakkar og sjónvarpsgláp til hálftólf. Þá er það næturvaktin. Það verður ágætt. Mér finnst gaman í vinnunni minni. Gleðilega hvítasunnuhelgi kæru lesendur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.5.2008 | 10:05
Meira frá Rússlandi
Eg er alveg dottin ofaní Rússlandferðina góðu. I nótt dreymdi mig meira að segja að ég væri í Rússlandi og þyrfti að liggja við hliðina á einhverjum stríðsglæpamanni sem verið var að taka af lífi! Hann var drepinn með rafmagni og ég lá þarna til þess að honum liði ekki jafn illa. Einkennilegur draumur! Skrítið að ég hafi ekki fengið rafstuð. ...
En fyrir þá sem ekki vita, þá fórum við til Rússlands árið 2002 með leikhópnum Hugleik á leiklistarhátíð í Gatsjína. Gatsjína er smábær á þeirra mælikvarða, íbúafjöldinn svipaður og í RVK og er staðsett 45 km suður af St. Pétursborg. Þetta var ótrúleg ævintýraferð og aðstaðan var sko ekki eins og við, fordekraðir íslendingar eigum að venjast! En það skipti ekki nokkru máli. Það var svo dásamlegt að prófa eitthvað nýtt!
Hér að ofan er sturtuaðstaðan okkar. Þarna fóru bæði kynin í sturtu saman enda oftar en ekki naumur tími skammtaður til að baða sig. Þá þýddi nú lítið að vera með eitthvað pjatt og vilja fá að þvo sér í friði. Man eftir einu dásamlegu atriði. A sömu hátíð og við var þýskur danshópur. Þau gistu á sama stað og við og eitt sinn vorum við Tóta í sturtu ásamt einhverjum stúlkum úr þessum danshópi. Allt í einu koma nokkrir strákarnir úr þýska hópnum inn í sturturnar og ein stúlkan snýr sér að okkur og segir: þetta er allt í lagi. Þeir eru þýskir, ekki rússneskir! -Við höfðum auðvitað ekki gert okkur grein fyrir því að þar lægi höfuðmunur! Stuttu síðar kemur Toggi askvaðandi og ætlar í sturtu. Við spurðum hann auðvitað strax hvers þjóðernis hann væri þar sem rússneskir karlmenn væru ekki jafn velkomnir og þýskir. Hvort ertu rússi eða þjóðverji? Kölluðum við. "Hvorugt," svaraði Toggi að bragði, tók niður ofursterku gleraugun sín og bætti við: "ég er blindur!"
Hér erum við Tóta, reyndar fullklæddar sem aðilar opinberir úr Vampíruvernarher ríkisins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.5.2008 | 13:32
Forsætisráðherra hvetur til aðhalds
"Geir H Haarde, forsætisráðherra, segir að fólk eigi að minnka við sig, ekki taka lán nema brýna nauðsyn beri til og spara við sig bensín ef það getur. "
Tekið af www.skutull.is
Já. Það er nú eiginlega þannig farið að maður getur lítið annað gert en að minnka við sig eins og staðan er nú. Eg og mín fjölskylda neyddumst til að mynda til að afpanta utanlandsferðina sem við ætluðum í núna í júní til að halda upp á fermingu drengsins. Drengurinn fer með pabba sínum og fjölskyldu svo að það er ekki verið að taka neitt frá honum þannig séð og þvi er þetta bara í góðu lagi. Mér þykja sjálfri utanlandsferðir vera algjör rjómabónus og ekkert möst að komast í slíka nema vel ári hjá manni fjárhagslega.
Önnur sparnaðarleið er að setja niður kartöflur, rækta grænmeti og nota arfann úr garðinum í salat í stað þess að eitra fyrir honum
En þegar ég las þetta þá datt mér í hug vitneskja sem ég fékk ekki fyrir svo löngu síðan. Eg er nú svo græn eins og kommentarinn G hefur bent mér á og þykir mér í góðu lagi að opinbera fávísi mína svo lengi sem ég græði á því ofurlitla visku. Þess vegna spyr ég spurninga frekar en að þegja eða þykjast vita (svo að ég úthrópi mig nú ekki sem fáráðling,) og fara svo heim og gúggla viðfangsefnið. En ég sem sagt komst að því nýverið að ráðherrar hafa einkabílstjóra!!! Já, það er von að ykkur undri! Hvernig getur maður náð þrjátu og fjögurra ára aldri án þess að hafa innbyrt þann fróðleik???
Eg skal svara því. Það hvarflaði hreinlega ekki að mér að ráðherrum væri ekki treystandi til að aka bíl! Fyrir utan, að mér, sveitakonunni hefði þótt tilhugsunin blátt áfram hlægileg! Af hverju eru ráðherrar þessa litla lands með einkabílstjóra???? Og ráðherrabíla? Hafa þeir ekki efni á bíl? Er þetta ekki bara eitthvað djók? Hvað skyldi þetta kosta ríkið á ársbasis? Má ég benda hæstvirtum ráðherra, Geir H Haarde, að þarna sé komin afbragsð sparnaðarleið fyrir ríkið? Það megi líklega auðveldlega nota þá þúsundkalla sem þarna gætu sparast til að nota hinum almenna borgara til góða í þessari margumræddu niðursveiflu.
Nema einhver geti bent mér á þá ýtrustu nauðsyn sem útheimti slíkt bruðl!
Meira frá ævintýrinu í Rússlandi. Hér kemur herbergið okkar. Það sést ekki hér á myndinni en gluggarnir voru brotnir og í stað sængur í rúmunum voru ullarteppi :)
Bara snilld!
Ps) þetta er dæmi um almennilegt aðhald :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
4.5.2008 | 19:52
Bræður barmafyllum hverja krús, látum mjöðinn fylla hverja krús!
Eftir heimsókn í Arnardalinn hvar sveitadrengurinn Fróði Önnusiggu og Ulfsson fagnaði fyrsta árs afmæli sínu, er ég full þjóðarrembu. I hvert skipti sem ég kem út fyrir bæjarmörk verð ég svo yfirkomin af hamingju yfir því að búa á þessu fagra landi. Ekki svo að skilja að mér þyki verra að vera innan um fólk, hreint ekki. Enda athyglissjúk með eindæmum, eins og pistlahöfundurinn Baldur Smári bendir á í sínum skemmtilega pistli á BB. Nei, það er þessi dásamlega stemning sem ég finn bara í íslenskri náttúru. Og það verður að segjast að náttúrufegurðin er mikil í Arnardalnum. Fyrir utan nú fólkið sem þar býr. Og svo ekki sé nú talað um terturnar sem húsfreyjan bakar!!! Svona líður mér líka alltaf þegar ég kem í Höfða í Dýrafirði. Þá langar mig alltaf að flytja í sveitina. Hafa hænurnar og kindurnar innan seilingar. Kartöflugarð og bæjarlæk. Bualandi beljur í fjósi og geltandi hunda í hlaði.
En ég er víst ekki bóndi.
Eg hef í höfði mínu fastar nokkrar línur úr fallegu lagi úr skemmtilegu leikriti. Öðru leikriti þó en því sem Baldur Smári fór að sjá. En jafn tilkomumiklu.
Sé ég griðung hátt á hól, reisa horn mót árdagssól
út´í haga svefninn leysir lítil mús.
Hvítur fugl á fólgið egg, undir frelsisgrænum hegg
bræður barmafyllum hverja krús.
Látum mjöðinn fylla hverja krús.
Þessar línur eru eins og flestir leikhúselskandi menn vita, úr leikritinu "þið munið hann Jörund." Og þær samdi Jónas bróðir Jóns Múla. Engan sá ég griðunginn í sveitinni í dag, held það hafi bara verið stemningin hjá þessu góða fólki í þessari fallegu íslensku sveit sem límdi vísubrotið svona fast í vitundina.
Annars heyrði ég aldeilis frábæra röksemdarfærslu á föstudaginn í síðdegisútvarpi rásar tvö. Þar var kona nokkur, -og reyndar maður líka, spurð hvort að ákveðinn gjörningur hefði ekki valdið ákveðnum styr og ósætti í bæjarfélaginu þeirra. Konan átti þessa gullnu setningu sem hefur verið notuð af undirritaðri alla helgina við hinum og þessum spurningum: ég vil bara segja það að fólk hefur mjög misjafnan aðgang að fjölmiðlum!
Það er sumsé hægt að útskýra tilfinningar fólks með því að benda á, að það hafi misgóðan aðgang að fjölmiðlum
Og næst þegar ég haga mér á þann hátt að einhverjum mislíkar, mun ég án umhugsunar slengja þessu gullkorni fram. Ef ekki öðrum, -þá að minnsta kosti mér sjálfri til mikillar skemmtunar......
Setningu dagsins á þó vinur minn einn sem heyrði menn nokkra bölsótast yfir því hversu mikið skítkast, óhróður og fúkyrðatal væri að finna á bloggsíðum fólks þessa dagana vegna sviptinga í bolvískri bæjarpólitík, (ég vil taka fram að þó ég leiti og leiti hef ég sjálf ekkert fundið af slíku og les ég nú töluvert af bloggi fólks) og þessi ágæti maður, vinur minn, svaraði því til að það væri nú af tvennu, öllu skárra að segja skoðanir sínar á blogginu þar sem fólk gæti þó allavega varið sig í athugasemdum og hægt væri að rekja það sem sagt væri til viðkomandi. Það sem öllu meira mannskemmandi væri, hryti af vörum manna sem þættust nokkuð öruggir um að geta talað án allrar ábyrgðar um menn og málefni, haldandi að það bærist ekki í "röng" eyru.
Og ég er sammála honum. Það sem rætt er á bak við gardínurnar og berst svo með vindinum og hvísli manna á milli í kaffikrókum og eldhúsborum er ávallt erfiðara að hrekja. Og gegn slíku tali er erfitt að standa. Vegna þess að þú veist aldrei hver "óvinurinn" er.
Meira frá Rússlandi. Hér er klósettið sem við höfðum til afnota ásamt einhverjum tugum annarra. Dásamlegt ævintýri!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.5.2008 | 22:43
Sjónvarpsgláp!
Við vorum að koma úr heiftarlegri matarveislu hjá Öldu og Birni. Svínarif, maisstönglar, bakaðar kartöflur, sætar kartöflur, salat og síðan í lokin ægileg rjóma og sykurbomba. Enn á ný rifjast upp fyrir mér að maður er EKKERT annað er heljarstór meltingarfæri! Halli er farinn á lögguvakt og ég ætla að fara að berja ungana í rúmið og leggjast yfir fyrstu seríuna af Grey´s anatomy. Vinkonurnar hafa fæstar haldið vatni yfir þessum þáttum sem eru mér ókönnuð lönd. En nú verður úr því bætt. Eini gallinn er sá að Halli fór á bílnum og í bílnum er nammipokinn sem ég fékk mér í dag, einmitt af þessu tilefni. Djö.......
Allir velkomnir til mín í sjónvarps-kúrukvöld svo lengi sem þeir eiga nammipoka ;)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.5.2008 | 18:00
Þann 1. maí leit drengur dagsins ljós!
Honum hefur verið gefið vinnuheitið Verkalýður Lýðsson. Fæðingardagurinn var fyrsti maí. Hann fæddist 18 merkur og 55 cm. Og við flögguðum öll í heila! Það er gaman þegar bolvíkingar fæðast. Iris og Lýður + systurnar Laufey, Lína og Lovísa, til hamingju með stóra strákinn! Ætli hann komi til með að heita Leifur? Eða Lárus? Linux? Eða bara Lýður Lýðsson? Laufey, Lovísa, Lína og lilli... í bili
Vendum kvæði í kross. Lagðist til hvílu minnar um níuleytið í morgun eftir rólega næturvakt og las aðeins í furðulegri bók um Afganistan. Sofnaði svo, þess fullviss að hafa heilan föstudag til svefns. En þegar ég var búin að sofa svolítið hringdi BB blaðamaður og vildi tala við mig um mótmælagönguna. Annaðhvort hef ég verið of þvoglumælt eða blaðakonan ekki heyrt þegar ég sagði: Við komum inn á í fundarhléi. Mér finnst nefnilega mjög mikilvægt að fólk viti að það var hlé á fundi þegar við komum inn. Svo að við vorum að sjálfsögðu ekki að hegða okkur dónalega í neinu. Þá er það komið á hreint. Bæjarstjórinn, Grímur Atlason sem líklega mun ganga undir nafninu "Bæjarstjórinn" lengi vel er kominn með starf á Vestfjörðum. Tjah, allavega hlutastarf sem þýðir vonandi að hann verður áfram hér fyrir vestan. Verst ef hann fer til Súðavíkur þá er lítill séns á að bjóða honum í stólinn aftur eftir tvö ár.... Nema að ég bjóði honum smiðsvinnu í kjallaranum hjá mér? Hvað segir þú um það Grímur? Fæði í tvö ár, stutt í vinnunna, 200 kall á tímann og málið er dautt??
Eg ætla að taka eina aukavakt í kvöld en vera svo í fríi um helgina. Það verður gott. Verst að ég þarf að nota tímann og þrífa. Held samt ég verði líka að gera mér ferð í Dýrafjörðinn að dást að hvolpunum þar og sjá hvort þeir hafa stækkað.
Góða helgi kæru lesendur. Læt fylgja með aðra mynd úr Rússlandsreisunni svona fyrst ég var byrjuð að grafa þær upp.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.5.2008 | 22:46
Nallinn, hann er steindauður í 15 stiga frostinu...
...sungu Helgi og Hljóðfæraleikararnir. Það er reyndar ekki 15 stiga frost hér í dag en engu að síður hressilegur gustur að norðan og frekar í svalara lagi.
Eg hef haft fyrir venju þau rúmlega fjögur ár sem ég hef haldið úti heimasíðu að setja Internationalinn inn í heild sinni, nú eða: "Sjá roðann í austri," á þessum baráttudegi verkalýðsins en núna ætla ég að leyfa ykkur að lesa annað fallegt ljóð sem að vissu leyti má tengja við stígandi roðann í austri.
Ljóð eftir Heimi Pálsson
Dagur er risinn, rjóður í austri,
raular mér kvæði þröstur á grein.
Blessuðu tónar, blessaði dagur,
blessaða veröld tindrandi hrein.
Sólin er risin hátt upp á himinn,
hlæjandi dagur þerrar mín tár.
Blessað sé ljósið, lífgjafinn mildi,
lofaður veri himininn blár.
Ég elska lífið, ljósið og daginn,
lofgjörð um heiminn fagnandi syng.
Blessað sé lífið, blessað sé ljósið,
blessaðir morgnar árið um kring.
Og í tilefni dagsins er hér mynd sem tekin var árið 2003 í Gatsjína í Rússlandi, af fundum okkar Leníns :)
Bloggar | Breytt 2.5.2008 kl. 02:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.5.2008 | 01:17
Miður mín.
"Nýi meirihlutinn gaf út yfirlýsingu á fundinum þar sem segir að hann styðji stóriðjuáform í fjórðunginum. Og eru Vesturbyggð og Bolungarvíkurkaupstaður þá einu sveitarfélögin á vestfjörðum sem hafa tekið afdráttarlausa ákvörðun í olíuhreinsistöðvarmálum."
Hversu margir Bolvíkingar skyldu í raun vera hlynntir olíuhreinsistöð á Vestfjörðum? Hvernig myndi dæmið líta út ef það ætti að byggja hana hér? I fallegu Víkinni. Hvernig var með slagorðið "Stóriðjulausir Vestfirðir?" Hverjir fóru þar fremstir í flokki? Hversu mikið er að marka orð þeirra sömu aðila?
Hjálpið mér að fá þetta heim og saman.
Gangan kom á fundarstað í fundarhléi. Göngumenn hrópuðu húrra fyrir Sossu, Grími og fráfarandi bæjarstjórn. Söng "í bolungarvíkinni...osfrv." Aður en laginu lauk, ákváðu nýir stjórnendur bæjarins að fundarhléi væri lokið og nýkjörinn forseti bæjarstjórnar sveiflaði hamrinum mynduglega og lamdi honum í borðið. Við hættum, fórum út og dyrunum var lokað. Vissulega hefði manni þótt að á þessum tímapunkti hefði ný bæjarstjórn átt að taka undir þennan sameiningarsöng. Nota tækifærið og halda andlitinu um leið og hún sýndi ofurlitla kímnigáfu. Smá húmor fyrir sjálfri sér. En nei. Því var ekki að heilsa.
Þetta bjargaði deginum, svona eftir á séð. Þetta var krúttlegt og um leið hjákátlegt. Og svo sannarlega var hlegið að þessu í kveðjupartýinu sem skapaðist á kaffi Edinborg áðan þar sem Grjóthrunið tók nokkur lög og allskonar fólk sat saman og skemmti sér. ( Það væri gaman að vera fluga á vegg á næsta þorrablóti þegar hægt verður að kyrja: " Sjálfstæðis hamarinn, sjálfstæðis hamarinn.... við hitt uppáhaldslag Bolvíkinga "sitjandi standandi!")
Er einhver til í að uppfræða mig í ofanálag um það hversu algengt það er að kosning bæjarstjóra fari þannig fram að fjögur atkvæði gildi á móti þremur en í þessu tilfelli komi fjórða atkvæðið frá þeim sem ætlar í stólinn? Einhvern veginn finnst mér að reglurnar hljóti að vera þannig að hann ætti að sitja hjá. Er það bara eitthvað svona siðferðisbull í mér? Eða er það tilfellið að þetta eigi að vera hægt?
Eg virðist vera treg í dag. Það er svo margt sem ég ekki skil. Og ég er miður mín. Miður mín yfir því að þurfa að lúta annarri eins stjórnsýslu og ég hef orðið vitni að, miður mín yfir því að tilheyra bæ sem er hlynntur olíuhreinsunarstöð, og fyrst og fremst, miður mín yfir því á hvaða plani hópur fólks kýs að starfa í pólitík. Hún Kata mín Gunn sem oft skrifar sérlega beitta pistla á sitt blogg af mikilli ritfærni segir að nú falli tjaldið.Eg vona að ekki sé átt við tjald sem muni loka fyrir hina gegnsæju stjórnsýslu undanfarinna tveggja ára. En á vissan hátt má segja að þetta sé táknræn lýsing hjá Kötu. Eða eins og einn franskur vinur minn sagði á dögunum: Sem frakki þekki ég þessa aðferð svo vel. Þegar skilið er á milli bols og höfuðs! (....lauslega þýtt úr ensku :o) )
Bloggar | Breytt 2.5.2008 kl. 02:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
28.4.2008 | 16:45
Hér má ekki láta staðar numið
A föstudaginn síðastliðinn hittust rétt rúmlega tuttugu manns fyrir framan stjórnsýsluhúsið í Bolungarvík til að mótmæla því að A listinn hafi sprengt bæjarstjórnarsamstarfið á forsendum sem okkur þóttu vægast sagt loðnar. Þetta voru ekki skipulögð mótmæli, bara brýn þörf okkar til að láta vanþóknun okkar í ljós undir eins. En betur má ef duga skal. Fjölmargir hafa haft samband við mig og fleiri sem þarna voru og vilja gjarna fá tækifæri til að gera sýnilegan.
Þess vegna blæs ég til nýrra og kröftugra mótmæla næsta miðvikudag klukkan hálfsjö. Eg ætla að ganga frá húsi Soffíu Vagnsdóttur og vona að hún fylgi mér, niður að hinu nýuppgerða húsi Gríms Atlasonar bæjarstjóra. Þaðan mun svo leiðin liggja að ráðhúsinu.
Kannski geng ég ein kannski með fleirum. Vonandi með sem flestum.
Þessi ganga verður ekki farin til að mótmæla einum né neinum persónulega. Hún verður gengin til að mótmæla því að hægt sé að ganga framhjá gildum atkvæðum okkar kjósenda og splundra virkri bæjarstjórn á forsendum sem mér þykja engan veginn skýrar né haldbærar sem rök. Eg mun líka ganga til að sýna samstöðu með Soffíu Vagnsdóttur sem hefur verið borin þungum sökum, með Grími Atlasyni sem hefur verið öflugur talsmaður þessa litla bæjarfélags sem hefur undanfarin tvö ár verið að endurheimta brot af því sem ég vil kalla sjálfsvirðing.
Þetta er framtak mitt og nokkurra einstaklinga sem vilja ekki láta við staðar numið. Öllum er frjálst að vitna í þennan pistil minn, öllum er frjálst að hafa á honum skoðun, sem og þessari göngu, en á þessari síðu þarf fólk að koma fram undir nafni. Annars verður athugasemdum eytt.
Eg vona að sem flestir gangi með mér á miðvikudag klukkan hálf sjö að kvöldi.
Ylfa Mist.
Bloggar | Breytt 2.5.2008 kl. 02:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (39)
27.4.2008 | 20:15
Því miður
Því miður varð ég að taka skoðanakönnunina úr umferð. Þegar ég settist við tölvuna sá ég skyndilega skilaboð fá moggabloggsmönnum um að að einhver/einhverjir væri/væru að hamast við að kjósa úr sömu tölvunni með því að eyða "cookies" og kjósa aftur og aftur. Ég þarf varla að taka fram við hvort svarið var verið að merkja. Að sjálfsögðu hafa moggabloggs-starfsmenn IP-tölu viðkomandi. Þegar þeir höfðu samband, buðust þeir til að senda viðkomandi viðvörun en ég læt kyrrt liggja, enda var þetta til gamans gert og ekki áræðanleg heimild. Mér nægir að fólk sem stendur í svona viti upp á sig skömmina......
En áður en farið var að fikta við könnunina stóðu úrslit svona:
Já 31.4 %
Nei 68.6 %
En spurt var: Ertu sátt/sáttur við að A-listinn hafi sprengt meirihluta samstarfið.
Fyrst ekki er hægt að gera könnun, synd að fólki sé ekki treystandi, (nú veit maður að sumir nota öll bolabrögð í bókinni ;o)) -verðið þið bara að svara í kommentakerfinu. Vinsamlegast undir nafni. Nafnlausum kommentum verður eytt.
Bloggar | Breytt 2.5.2008 kl. 02:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)