Daglegt líf og örlítið amstur líka...

Ég hélt í bjartsýniskasti að vorið væri komið. Kanínan var farin að gæða sér á fíflablöðum og strigaskórnir voru æ oftar teknir til handargagns þegar við Urta gengum út í heilsubótarskyni. En hvað nú? Snjór uppí miðja kálfa, skafrenningur og allt eitthvað ægilega vetrarlegt. En huggun harmi gegn er sú, að það má alltaf gera sér vonir um að fljótlega vori aftur. Ég þakka þó fyrir að hafa ekki látið undan andartaksbrjálseminni um daginn þegar ég ólm vildi setja trampólínið útí garð.

Við fengum samt svolítin vorfiðring í gær þegar við renndum á rándýrum olíudropunum yfir í Dýrafjörð og kíktum á hænuunga vorsins og fyrstu kálfana. Engin sauðburður byrjaður ennþá en kannski verður komið lamb eða tvö næstu helgi þegar við kíkjum aftur í sveitina.

Vígsla hins nýuppgerða félagsheimilis fór fram um helgina og var glæsileg dagskrá í fulla fjóra daga! Vígsluhátíðin sjálf var á fimmtudagskvöldið og þar opnuðu dagskrána tónlistarskólastjórahjónin og spiluðu dýrðlega tónlist á klarinett og flygil. Þarna ræðir um tónlistarfólk á heimsmælikvarða og ég áttaði mig á því hvar ég sat í andtagt, hversu mikið lán það er að fá svona fólk í bæinn. Ræðuhöldum var stillt í hóf og glöddust held ég allir yfir því. Það sem sagt var, var þó mjög við hæfi og skemmtilegt að auki. Síðan lokuðum við Hjördís Þráinsdóttir dagskránni með nokkrum léttum lögum með undirspili Samma rakara. Eftir það tók hin eiginlega skemmtun við. Það var þegar fólk fékk sér snittur og drykk í glas og blandaði geði. Það er svo gaman þegar fólk kemur svona saman og þarna var svo margt fólk sem maður sér kannski ekkert alltof oft.

Á föstudaginn fóru svo litlu drengirnir mínir á barnaskemmtun í Félagsheimilinu og skemmtu sér prýðilega. Svo á laugardagskvöldið var dinner og dans með skemmtidagskrá og hef ég ekki heyrt annað en að það hafi farið dásamlega fram. Svo enduðu þessi hátíðarhöld öll með því að á sunnudaginn var slegið upp harmónikuballi. Þar hleraði ég að afi VilliValli hefði dregið og þanið sína nikku á víxl ásamt fleiri höfðingjum. Og allir dönsuðu sem engin væri morgundagurinn. Svona eiga helgarnar að vera!

Ég held að allir hafi skemmt sér fjarskalega vel og Félagsheimilið er svo glæsilegt að maður bókstaflega fellur í stafi þegar maður kemur þar inn. Ég held ég geti fullyrt að þetta er eitt það fallegasta félagsheimili á landinu. (fyrir utan Hörpuna og Hof kannski- ef hægt er á annað borð að kalla þær byggingar félagsheimili... Devil )

Eftir helgina sit ég þó uppi með eina ósvaraða spurningu. Hvenær er maður Bolvíkingur? Reykvíkingur? Svarfdælingur? Ég frétti af illum tungum (eða kannski bara tungu) sem hneyksluðust yfir því að engir BOLVÍKINGAR (með hástöfum) kæmu að dagskrá vígsluhátíðarinnar. Og þó að svona löguðu sé auðvitað hent fram í fullkominni heimótt og fávisku, fékk þetta mig til að hugsa, enn og aftur, hvenær fólk virkilega YRÐI "einhversstað-ingur."

 Þegar maður lifir og starfar í bæjarfélagi í áratug, er maður þá ekki búinn að ávinna sér þau réttindi að geta kennt sig við þann bæ? Hvað þá með börnin mín? Eru þau ekki Bolvíkingar? Teljast þeir frekar til Bolvíkinga sem fæddust hér en vilja svo ekkert með það að búa hérna? Eru ÞAÐ Bolvíkingarnir? Aldrei í lífinu liti ég á mig sem meiri Dalvíking en fólkið sem einmitt býr þar og starfar einmitt núna. Það fólk sem vinnur æskustöðvum mínum gagn á meðan ég bý sjálf víðs fjarri. Mér leiðist þessi eilífa remba.  Er fólkið sem hér greiðir skatta og skyldur ekki einmitt fólkið sem á hér virkilega heima?

Að maður skuli ergja sig á svona smámunum segir manni náttúrulega að æðruleysið er of langt undan og nú sé mál að dusta rykið af umburðarlyndinu gagnvart þeim sem hreinlega fengu ekki betri gjafir frá Guði en þetta..... ;) Halo 

Enda er þessi skilgreiningarárátta ofar mínum skilningi. Það er fínt að vera ánægður með hvaðan maður kemur, það vantar ekki.  Alveg er mér hjartanlega sama hvaðan fólk kemur eða hvert það fer. Bolvíkingar, Sandgerðingar, Íslendingar, Danir, Frakkar, Afríkanir, Ástralir, Grænlendingar..... við erum þegar upp er staðið öll nákvæmlega sama súpukjötið. Mannsbörn. Það er það sem við erum.

Páskarnir á næsta leiti og páskaeggin eru komin á vísa staði fjarri litlum krumlum. Ég verð að vinna um páskana eins og venja er en ætla samt að njóta þeirra með gestum og heimilisfólki.

Og svo, eftir páska...... ÞÁ MUN UPPRÍSA LEIKFÉLAG BOLUNGARVÍKUR!

(það getur nefnilega ýmislegt, þetta  "aðkomufólk.." W00t )

Set hér inn að lokum vídjó frá Sísí Línberg af okkur Hjördísi flytja Næturljóð úr Fjörðum á Vígslunni. S


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ágætur pistill hjá þér að vanda. Mundu að aftur kemur vor í dal með fuglasöng og trampólíni. Sammála þér með félagsheimilið, glæsilegt hús í alla staði, fæ alveg hroll þegar ég kem þarna inn af eintómri gleði yfir því. Hof og Harpa mega bara vara sig. Hvað varðar Bolvíkinga og þátttaka þeirra í hátíðarhöldunum, ég þori alveg að fullyrða það að þeir BOLVÍKINGAR sem þarna stigu á stokk með tónlistaratriði myndu sóma sér vel við opnunarhátíð Hörpunnar. Tónlistarfólk sem er búið að moka til sín tónlistarverðlaunum um allan heim og búsettir í Bolungarvík, Mér finnst þetta vera heiður og sæmd en ekki tilefni til að lítillækka í minnimáttarkennd sinni og heimsku, svo ekki sé vægara til orða tekið. Bolungarvík umlykur íbúa sína hvort sem þeir koma frá Eistlandi, Egilsstöðum eða Dalvík með sóma. Sannir Bolvíkingar sjá það allir. en nóg um það Félagsheimilið gefur von um bjarta framtíð og fallegt vor með endalausri gleði.

Halla Signý (IP-tala skráð) 19.4.2011 kl. 08:43

2 identicon

Yndislegur söngur. Hlakka svo mikið til þegar platan þín kemur út. Það kemur bráðum vor ekki örvænta!! Og ég segin nú bara eins og Halla Kristjánsdóttir: hljóta ekki sannir Bolvíkingar að umvefja allt það fólk sem flytur til Bolungarvíkur? Tala nú ekki um snillinga eins og þig! Hvað ætli væru margir bolvíkingar í bolungarvík ef ekki væri fyrir aðkomufólk? Þeir hafa nú verið duglegri að flytja í burtu en margir aðrir. ;)))))) það er ekki skrítið að fækki ef þetta er svo framkoman frá restinni. Trúi því nú samt ekki að fólk almennt sé svona þröngsýnt og vitlaust. En ein ill tunga getur svo sem skaðað nóg. Það þekkja flestir. Um að gera að láta það ekki pirra sig!!!!!!!!

Kveðjur vestur, ég ætla að eyða páskunum í minni sveit og skoða lömb, unga og kálfa. Bless í bili. :))))))

Jóhanna Friðriksdóttir (IP-tala skráð) 19.4.2011 kl. 11:59

3 Smámynd: Ragnheiður

Þessir sem svona tala hafa enga eigin skilgreiningu á sjálfum, kunna ekkert né geta. Síðasta hálmstráið..sjáðu til.

En maður fer ekki langt á bæjarheitinu einu.

Yndislegur söngur og fínn pistill hjá þér :)

Jú rokk !!

Ragnheiður , 25.4.2011 kl. 19:07

4 identicon

Flott ertu stelpa, missti af vígslunni en kem fljótt í víkina enda bolvíkingur.

Reykvíkingur og texan. Er ekki alveg að gera sig að verða ísfirðingur, ku ekki vera nógu fínn pappír, heldur skoffín, kjáni og ´bad news´. Fátt hefur mér þótt vænna um en að fá slík öndvegisummæli frá bestustu vestfirðingunum.

Skerið er flott en æi æi hvað fór ekki allt á bezta veg utan bolavíkur er ég skrapp frá til Goðmundar kóngs á Glæsivöllum. Sjáumst fljótt vina og takk fyrir dead 6ý!

Finnbogi Oddur Karlsson (IP-tala skráð) 27.4.2011 kl. 21:06

5 identicon

Tall elsku Ylfa fyrir að fá að hlusta á þennan fallega flutning á miklu uppáhaldsljóði.

Ásdís Ránargötudrottning (IP-tala skráð) 30.5.2011 kl. 02:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband