Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Skjótt skipast...

Fyrir tveim tímum eða svo gekk ég í yndislegu, stilltu frostveðri með bleikum himni og fannhvítri lausamjöll, framhjá stóra ruðningnum við Víkurbæ. Ég var á leið í sund og hitti Birni og vini hans sem voru í óðaönn að renna sér í dásemdar veðrinu. Þegar sundinu lauk þurfti ég aftur á móti að fá far!! Það er kominn svarta bylur og það er mikið frost. Ég ætlaði að vera með tupperwarekynningu í heimahúsi kvöld en líklega verður ekkert úr því þar sem ég á allt eins von á því að ófært verði orðið innanbæjar innan skamms. Þá nota ég bara tækifærið og legg mig, enda var ég á næturvakt í nótt og fer aftur á miðnætti. Vona bara að rafmagnið haldist á Skýlinu......

Veðurstofa spáir fádæma frosthörku og maður þvær síðar nærbuxur og grefur upp ullarboli til að fóðra nú börnin nægilega vel næstu daga. Árshátíð grunnskólans er á morgun. Það er ágætt því að þá lýkur leikstjórnarverkefni mínu. Mig vantar einmitt alls ekki meira að gera svo að það verður léttir þegar þetta verður búið þó gaman hafi verið. Æfingin í dag gekk stórvel og krakkarnir eiga eftir að standa sig frábærlega.

Hér er mynd sem var tekin í ísingarveðri miklu uppi á Bolafjalli fyrir nokkrum misserum:

Kári í Jötunmóð!


Sjá dagar koma...

Tíminn flýgur. Skyndilega er að koma öskudagur með tilheyrandi búningaveseni. Hér í Víkinni tíðkast að krakkar "maski,¨ þ.e. fari á milli húsa í grímubúningi og syngi fyrir sælgæti að launum. Gallinn er sá að hér er ekki bara maskað á öskudag eins og í minni heimasveit til forna, heldur alla þrjá dagana. Bolludag, sprengidag og öskudag. Mér finnst þetta allt of mikið og hef helst ekki leyft mínum strákum að fara nema eitt kvöld. Ég veit að margir eru sama sinnis en svo eru líka þeir sem finnst þetta eiga að vera svona..... aðallega af því að það hefur alltaf verið svona. En Bolvíkingar eru ákaflega hrifnir af hefðum sínum. Og það er ágætt að vera það. Fyrir þá sem það vilja.

Hið umdeilda Þorrablót leið hjá án mikilla umræðna þetta árið. Það lá við að maður saknaði hasarsins frá í fyrra því eitthvað þarf jú fólk að getað talað um. Hressileg skoðanaskipti eru alltaf frískandi og mannbætandi. Mér skilst að þorrablótsnefndin hafi gert að mér stólpagrín og það er bara vel. Eins og Oscar Wild sagði: það er í lagi svo fremi sem talað er um mig. Eins konar " better to be somebody than nobody" viðhorf. Og auðvitað var líka tæpt á því að flutningarnir til Danmerkur hefðu staðið stutt yfir í vísukorni sem flutt var. Var þá sungið á þá leið að við Valrún hefðum kvaðst á krossgötum, ég á heimleið og hún á útleið og er það alveg rétt að vissu leyti því að við kvöddumst við Óshólavitann, ég var á heimleið og hún á útleið.

Af því tilefni set ég inn eina af henni sjálfri frá því á bolludaginn í hittifyrra!

bíttu laust því bollan er mjúk...

Við Sossa fórum í sund í kvöld og þar sem ég lá alein í heita nuddpottinum og horfði upp í himininn sem missti niðrá mig eitt og eitt snjókorn, mundi ég skyndilega eftir því að bráðum eigum við Halli níu ára afmæli! Mér finnst eitthvað svo stutt síðan við byrjuðum að vera saman. Ég tók hann á löpp, eins og sagt er og hann hafði sosum ekkert mikið um það að segja. Þvílíkt var offorsið og ákafinn í kerlu... Hann lét sér þó vel líka og hefur sennilega sæst á þetta með árunum eins og sagt er. Allavega kvartar hann ekkert..... hátt... ;) En af því að mér finnst talan níu miklu flottari en tíu, vil ég endilega halda upp á þennan merka áfanga. Ég veit bara ekki alveg hvernig. Kannski förum við í svona "punktaferð" á hótel og huggulegheit til Borgarinnar án þess að láta nokkurn mann vita. Bara við tvö og engar heimsóknir, ekkert búðarráp. Bara kelerí á hótelherbergi.......

Annars átti ég nú alltaf að fá einhverja ferð í verðlaun fyrir söngvakeppni sem ég sigraði á milli jóla og nýjárs. Ég er nú ekki farin að sjá það ennþá. Ég ætti kannski að fara að rukka.......

 


nenni ég að hafa skoðun?? Nei.

Það er eitthvað sérstakt við það að vera vakandi þegar aðrir sofa. Mér finnst gott að vera á næturvakt, nema þetta með að sofa á daginn þegar aðrir vaka. Helst finnst mér að maður ætti ekki að þurfa að sofa nema svona einu sinni í viku, það væri passlegt. Nú er rólegt á vaktinni og ég búin að fara bloggrúnt góðan. Fátt er skrifað án þess að það snúist um brjálæðið í borginni. Ég sá lætin í sjónvarpinu og mér finnst þetta allt vera skrípaleikur frá A til Ö. Mér finnst íslensk pólitík undanfarinna ára einkennast af skrípahætti og á orðið erfitt með að samsama skoðanir mínar því fólki sem býðst að fylgja. Ég hef alltaf litið svo á að málstaður stjórnmálaflokka sé aldrei meiri eða merkilegri en fólkið sem er við stjórnvöl hvers flokks, hverju sinni. Þess vegna gafst ég upp á "barnatrúnni" sem var auðvitað Íhaldið. Flokkurinn sem ég ólst upp við að væri sá rétti. En smám saman rennur ljósið skýrar upp fyrir mér: fólki er bara hreinlega ekki treystandi fyrir valdi. Ég segi nú bara eins og Dr. Tóta vinkona; menntað einveldi er eina lausnin!

Að gamni slepptu; það ástand sem verið hefur í íslenskum stjórnmálum undanfarin ár hefur gert mig að pólitísku viðrini. Ég þoli ekki flokkakerfið lengur. Ég vil getað valið mína bita sjálf úr kjötborði. Ekki þurfa að taka slögin og hálsbitana með, þegar ég versla mér í kjötsúpu! Og í dag finnst mér úrvalið í kjötborðinu frekar "mánudagslegt." Það er fátt um fína drætti. Og á meðan ét ég bara eitthvað annað og læt eins og ég sjái ekki kæfukjötið sem er í boði!

 


Núna verða allir að kvitta fyrir komuna!

Mér finnst alltaf svo makalaust hversu margir virðast lesa bloggið mitt. Oft og iðulega segir ólíklegasta fólk við mig: Ylfa, ég las á blogginu þínu að..... osfrv...

Oft er þetta fólk sem ég þekki nánast ekkert og er varla nafnkunnug, hvað þá meira. Og alltaf hugsa ég: shit! nú verð ég að fara að verða ópersónulegri í skrifum mínum. En svo gleymi ég því. Mér gengur aldrei sérlega vel að halda svoleiðis markmið. Ég er ekki nógu dugleg að halda "frontinum" og vera prívat manneskja. Ekki svo að skilja að öll mín prívat mál rati hingað! Því fer fjarri! Einungis það sem mér finnst allt í lagi að aðrir viti. Einhver sagði mér einu sinni að ég ætti ekki að skrifa um geðræna erfiðleika, s.s þunglyndi, því að fólk gæti freistast til að nota það gegn mér!! Það þótti mér einkennileg sýn á hlutina! Hvernig er hægt að nota slíkt gegn manni? Það væri mun auðveldara að særa mann með því að sletta einhverju framan í mann sem ekki á að vera sýnilegt en er það samt. Og það er nú einu sinni þannig að flest kemur upp á yfirborðið. Fyrr eða síðar. Svo erum við nú líka að lifa árið 2008 þar sem við erum fyllilega meðvituð um að andlega hliðin er jafn útsett fyrir sjúkdómum og krankleikum og sú líkamlega.

Ég fór með Diddu vinkonu og Irisi Kramer á fystu æfingu Gospelkórs Vestfjarða í gærkvöldi og mikið déskoti var gaman! Gospeltónlist er auðvitað æðisleg og rosalegt kikk að syngja hana. En þar sem hávaðabelgurinn Ylfa er komin í Altinn, þá vantar fleiri sópranraddir til að mynda jafnvægi og hér með auglýsi ég eftir slíkum!

Annað kvöld er svo fyrsta Túpperwarekynningin mín og eru allir velkomnir hingað heim klukkan átta að skoða dollur og dósir og smakka á himneska, heimatilbúna súkkulaðinu eftir uppskrift Sollu himnesku! Svo á fimmtudagskvöldið eru tónleikar í íþróttahúsinu á Ísafirði þar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur undir hjá Hátíðarkór sem flytur Gloriu eftir Francis Poulenc. Á laugardagskvöldið ætla ég að bjóða tveimur vinkonum mínum hingað heim í sviðaveislu svo að það er annasöm vika framundan.

svið sem brögðuðust unaðslega!


Upp, upp mín sál...

...og allt mitt geð!!

Sólin er komin. Hún skein inn um gluggann í eina-tvær mínútur eða svo! Nú verða bakaðar pönnukökur! Sumarið kemur á endanum! Húrra fyrir því!

Sumarstuð!


toppvörur og frostpinnar

Í gær lagðist Baldur Hrafn undir hnífinn á Sjúkrahúsinu á Ísafirði. Þegar hann vaknaði, háls og nefkirtlum fátækari, grenjaði hann ógurlega. Honum fannst vont að vakna upp úr svæfingunni þessu litla stýri og var rosalega ruglaður. En um leið og augun opnuðust almennilega heimtaði hann ís og tveim tímum seinna hafði hann sporðrennt 7 frostpinnum og farið á klósettið. Þá fannst honum kominn tími á að fá eitthvað bitastætt og þegar honum var gerð grein fyrir því að hann mæti bara fá klaka og stappaðan banana, grenjaði hann eins og ljón og heimtaði ristað brauð!

Hann er kominn heim núna og gerir bræðrum sínum gramt í geði með einstakri geðvonsku sem lýðst fyrir þær sakir að hann er með opin sár í hálsinum!

En undur og stórmerki hafa gerst. Júlli í Höfn vélaði mig til að fara að selja dollur undir merkjum Tupperware! Ég sem aldrei hef selt neitt að undanskildum klósettrúllum í níunda bekk, ætla nú að verða þessi óþolandi sem píni allar vinkonur til að halda "kynningu!" Ég man vel eftir óteljandi kynningum sem ég fór sjálf á hérna einu sinni en ég satt að segja hélt að tupperware væri ekki lengur selt á Íslandi! En nú get ég farið að fá mér nýja varahluti ss. lok á skálar og fleiri...... Allavega: ef ykkur vantar Tupperware þá vitiði hvert á að leita ;o)

Birnir er byrjaður að læra á kassagítar. Fyrsti tíminn var í gær og á meðan hann var í tíma sat ég á kaffistofunni í Tónó með nýlagað og kjaftaði við skemmtilegt fólk. Þetta er það sem gerir lífið í svona litlum bæ svo sjarmerandi! En þrátt fyrir að búa í svona sjarmerandi bæ, dugir það ekki til og ég er aftur farin að poppa gleðipillurnar mínar.... Að sjálfsögðu samkvæmt læknisráði og ég er að reyna að sætta mig við að hafa "gefist upp" fyrir ruglunni og þurft að stabílisera mig með kemískum efnum. En hvað er svosem að þurfa að taka eina tvílita á dag á meðan sumir þurfa að ryðja í sig ógeðslegum krabbameinslyfjameðferðum til þess eins að halda lífi!!?? Þá er nú skárra að vera "obbolítið geggjaður" og geta haldið því nokk í skefjum er ég hrædd um. Flýtur á meðan ekki sekkur, sagði einhversstaðar.

Jæja, helgin fyrir stafni og ég ætla að elda kjötsúpu í kvöld svo að litli hálskirtlalausi drengurinn minn geti fengið stappað grænmeti og súpu.  Set eina mynd hérna inn sem var tekin af drottningunni Urtu og fóstursyninum Gretti sem bjó hjá okkur um tíma. þau eru að "kyssast" og þetta er svo líkt því þegar við hjónin erum að kela!!! Góða helgi öll sömul!

Kossar


Enginn latur í Latabæ.

Einhverra hluta vegna fannst mér eins og það yrði lítið mál að leikstýra 8. og 9. bekk Grunnskóla Bolungarvíkur þegar Björgvin kennari Björgúlfs hringdi og fór þess á leit við mig. Leikritið er Glanni Glæpur í Latabæ og sýningin er um fjörtíu mínútur!! Árshátíðin er 31. janúar og þá verður allt að vera tilbúið. Fyrsta æfingin var í dag og ég hugsaði með mér "hvurn andskotann er ég nú búin að koma mér í?" Svo reyndust krakkarnir bara vera prúðir og stilltir og mjög áhugasamir. Og ég verð að viðurkenna að það kom mér algjörlega á óvart. Ég hef heyrt hryllingssögur af starfi með unglingum og var nánast við það að hætta við rétt áður en æfingin átti að byrja. Björgúlfur er í þessum hópi og kannski hafa þau bara verið að gera það fyrir hann að vera til friðs, eða þá að mýtan um unglingana í skólanum er bara mýta. Ótrúlega flottir krakkar og enn og aftur: ótrúlega áhugasöm! Annað slagið urðu samt aðaltöffararnir af báðum kynjum að detta í "gírinn" og láta nú opnskátt með það hvað þeim fyndist þetta hallærislegt; þau ætluðu nú sko ekkert að fara að syngja eða eitthvað, en svo gleymdu þau sér jafnóðum og sökktu sér ofan í verkefnið. Dásamlegt! Ég varp öndinni léttar (vonandi ekki of snemma) og hlakka til samstarfsins.

Latibær hefur elst ótrúlega illa. Allt sem er skrifað og inniheldur tískufrasa og unglingaslangur verður óhjákvæmilega pínlega hallærislegt þegar frá líður. Það segir enginn lengur MEGAFLOTT eða ÞOKKALEGA! Meira að segja kerling á fertugsaldri eins og ég, veit það! Núna segja börn bara: já sæll. Á að ræða þetta? Svo að Latabæ þarf að uppfæra, slangurslega séð!

Bjúlfur og Baldur

Annars er allt í orden, þannig séð. Baldur Hrafn á að fara í allsherjar kirtlatöku á fimtudaginn. Nef og hálskirtlar fá að fjúka og við eigum ekki von á góðu frá litla skaphundinum þegar hann vaknar eftir svæfinguna, kirtlunum fátækari! En þegar hann jafnar sig standa vonir til að heilsufarið hans lagist.

Af "nýju lífi nr. 215" er það helst að frétta að dagurinn hófst á nýpressuðum rauðrófu, engifer og gulrótarsafa og endaði á leikfimi og soðnum þorski í kjölfarið. Bjúgurinn er ekkert á undanhaldi en ég ímynda mér að undir honum sé ég að verða þvengmjó! Hugurinn ber mann jú hálfa leið er sagt, sem ég skil ekki því að mér finnst ég aldrei vera feit! Ég sé það bara á vigtinni og á ljósmyndum! Og oftast rýni ég í myndina og hugsa: hver er þessi feita þarna? Uppgötva svo mér til skelfingar að þetta er ÉG! Svo gleymi ég því að ég sé feit, finnst ég bara "svona aðeins í holdum," eins og sagt er.

er að herða upp hugann fyrir eplaföstuna!!

Jæja, ég ætla að horfa á seinni hluta myndarinnar um Manic Depression, með Stephan Fry. Ég er búin að sjá fyrri helminginn og hann var frábær! Ég missti af honum í sjónvarpinu en halaði honum niður, ólöglega, af netinu. Best að horfa á hann og flýta sér svo að henda honum eftir þessar uppljóstranir........


Með vökvunarkönnuna í hendinni

Ég er að vökva blómin en settist einhverra hluta vegna hérna og er sjálfkrafa byrjuð að blogga. Heitir þetta ekki athyglisbrestur? Eða leti? Vatnskannan er hér við hliðina á mér og horfir ásakandi á mig... ímynda ég mér.

Kúruparið

Ég var að vinna margar næturvaktir í röð strax eftir nýjárið og hef svo verið að kynnast nýja starfinu á öðrum vöktum. Um helgina ætla ég að elda ofan í íbúa Skýlisins en ég hef nú gert það oft og mörgum sinnum svo að það ætti að vera vandkvæðalítið.

 

Annars erum við bara nokkuð hress, bíðum eftir að sólin hækki á lofti auðvitað, það gerist hægt og bítandi og á meðan fá öll jólaljósin að lifa.

Ég er með óþverrabjúg. Aðallega á leggjunum en líka í andlitinu og á hálsinum. Hef verið svona síðan í nóvember og skildi það þá, sökum óheilsusamlegrar salt og sykurneyslu en síðan í desember hef ég verið ákaflega passasöm og nýti mér öll húsráð sem ég þekki. Netlute, eplaedik, C-vítamín, pressaðar sítrónur, steinselju, sund, göngutúra.... allt nema ísbað!!! Enda er það ógeðsleg tilhugsun. Fæturnir á mér eru tvöfaldir þegar verst lætur og ég mátti sko EKKI við því! Ekki er ég ólétt, (Guði sé lof!) og ekki er ég að taka lyf sem hafa þessa aukaverkun. Niðurstaðan er einfaldlega þessi: ég er of ÞUNG! Tala nú ekki um þegar ég bæti á mig fjórum fimm kílóum af vökva á einum- tveim dögum, OFAN á allt hitt!!! Ég er að taka þetta föstum tökum. Ekki gengur að losa lungun við tjöruna og kremja þau síðan til bana!!!! Ég er bara svo helvíti mikið gefin fyrir mat. ALLAN mat!!

þau eru í formi!

Það er ljótt þegar amma mín sem er sjötíuogeitthvaðnæráttatíu.. er í betra formi en ég! Hún er alveg passleg í holdum og skokkar áreynslulaust um Ísafjarðarbæ og býr að auki á tveimur hæðum. Sjálf stend ég á öndinni við það eitt að ganga upp stigann hjá henni... (smá ýkjur en hljómar sannfærandi!)  Stærsta syndin er sú að ég veit ALLT um hollustu, hvað er fitandi, kolvetnaríkt, brennsluaukandi, næringarríkt og þar fram eftir götum. Manneskja eins og ég á að vera í toppformi! Annað er bara rugl! Ég svosem ét allan þennan holla og næringarríka mat! Ég bara ét á við fjóra hrausta karlmenn!

Kirkjukór Hólskirkju

Ég hafði í nóvember verið beðin um að vera með í Hátíðarkór Tónlistarskóla Ísafjarðar. Mikil upphefð var mér sagt, þar sem handvalið er í kórinn og ég lét tilleiðast. Um hundrað handvaldir aðrir munu synga Gloriu eftir Polenc (held ég hann heiti) með Sinfóníuhljómsveit Íslands, í Íþróttahúsinu Torfnesi í lok janúar. Magnþrungið verður það, eflaust. Ég er samt búin að bakka út. Það eru nánast daglegar æfingar út mánuðinn og ég bara meika það ekki. Kvöldin sem ég er heima og ekki að fara á næturvakt eru dýrmæt. Það þarf að lesa, reikna og skrifa, tala um daginn sem er að líða og rífast aðeins yfir háttatímanum og svona.......

Birnir og hundarnir

 


2007 im memorium

Skrifa ekki allir heilvita bloggarar nýjárspistil?

Hvað vann ég mér til frægðar á liðnu ári?

Ekkert.

Ætti ég þá kannski að sleppa pistlinum? Nei.... skoðum þetta "grannt."

Mér tókst að bæta á mig heilum átta kílóum. Megnið kom algjörlega áreynslulaust í kjölfar þess að hætta að reykja í sumar. Svo sprakk ég á limminu í nokkra daga, hætti aftur, sprakk aftur...bara smá...., hætti aftur...... Kannast einhver við þennan söng? En! Ég gekk reyklaus inn í nýtt ár og er hætt að "stelast." Sem er reyndar furðu auðvelt enda finn ég aldrei betur fyrir því hversu illa mér líður af reykingunum, og þegar ég hætti! Og nú er ég endanlega hætt.. með Guðs hjálp og góðra manna.

Á árinu ákváðum við að flytja til Danmerkur. Búslóðinni, þ.e.a.s. því litla sem ekki var selt, var pakkað saman, húsinu fenginn leigjandi og lagt af stað í könnunarferð. Á Þremur vikum var ljóst að í Danmörku biði fátt annað en meira strit og illa borguð vinna. Það, auk þess að fara með mállausan krakkaskarann, setti óneitanlega strik í reikninginn. Það var alveg augljóst að fyrst að laun heimilisins væru að fara að dragast saman á annað borð, væri betra að drengirnir nytu þá a.m.k hins örugga og kunnuglega umhverfis á meðan foreldrarnir þræluðu sér út fyrir saltinu...... En þetta var umfram allt lærdómsríkt og það undarlegasta var að uppgötva skyndilega hversu dýrmæt við erum í augum okkar litla samfélags hérna í smábænum okkar. Fólk bókstaflega flaug upp um hálsinn á okkur í tómu hamingjurússi yfir því að við færum hvergi! Það kom á óvart og kenndi mér að meta þetta litla samfélag sem í huga mínum hafði sjúskast örlítið til, upp á nýtt.  Mér fannst við uppskera mikil laun, í raun og veru, fyrir það eitt að fara ekki. Eins furðulega og það hljómar.

Við hjónin skiptum bæði um starfsvettvang. Ég fór að vinna á Langa Manga á Ísafirði og Halli í Netheimum. Líka á Ísafirði. Það leið hinsvegar ekki mjög langur tími þar til við áttuðum okkur á því að þetta fyrirkomulag hentaði okkur ekki. Þ.e.a.s. börnunum okkar. Ég ákvað því að skipta og færði mig á  vangreiddan ríkisspenann og starfa nú, á nýju ári á Sjúkraskýlinu í Bolungarvík sem "gangastúlka," og afleysing fyrir matráðskonurnar. (mér finnst orðið gangastúlka dásamlegt og verð brjáluð ef einhver kallar mig einhverju karllægu nafni, s.s. "aðstoðarmaður...") Einmitt núna sit ég á fjarskalega rólegri og kyrrlátri næturvakt og dútla mér við þetta áramótauppgjör. Launin eru lág. Það veit ég ósköp vel. Og hér kemst ég ekki til neinna metorða.                                                      En eins og ég sagði: þessi ákvörðun var tekin með hagsmuni drengjanna í forgrunni. Og af því að ég á nú frekar þöglan mann, þá er það þegjandi samkomulag okkar hjónanna að allar okkar ákvarðanir sem varða búsetu, lífshætti, atvinnu og gjörðir okkar almennt næstu árin, verða alfarið metnar út frá hagsmunum sonanna. Okkur langar vissulega bæði dálítið til að fara í nám og seinna meir langar okkur í dálitla ævintýramennsku, en við höfum þessi börn að láni eins og er og á meðan er það okkar first pirority, eins og maður segir á góðri íslensku. Ég nenni í það minnsta ekki að láta samviskubitið þjaka mig þegar það verður orðið of seint að byrja á uppeldinu og samverunni. Af nægu öðru er að taka til að vera með samviskubit útaf!

Eins og öll önnur ár kynnist maður nýju fólki, eignast nýja vini, kveður aðra og smámsaman "grisjast til" í þeim hópi fólks sem maður er í samskiptum við. Annars er það svo merkilegt við mig, að ég er svo ótrúlega heppin að kynnast nánast bara dásamlegu öndvegisfólki. Þannig að þó ég þurfi að horfa á eftir vinkonum og vinum þá virðist aldrei hörgull á fallegu fólki sem hægt er að stofna vináttusamband við.  En auðvitað slæðist alltaf einn og einn með sem fljótlega má sjá að ekki er efni í framtíðarsamband.Tounge Þá hristir maður sig bara eins og gæs sem kastar af sér vatni... eða hvernig var þetta nú aftur.....?

Fjárhagurinn á árinu var afleitur enda spilaði bæði atvinnuleysi og síðan tekjulækkun um rúman helming inní. Útgjöldin lækkuðu þó ekkert en nú erum við alltaf að verða flinkari og flinkari að sleppa hlutum sem áður þóttu sjálfsagðir en eru núna ekki mögulegir. Við t.d. förum orðið aldrei suður enda slíkar ferðir oftast nær tóm eyðsla og bruðl! Það er helst ef einhver verður að fara til læknis eða eitthvað slíkt sem að við splæsum í stutta ferð.

En ég held að eitt af því merkilegra sem mér tókst að hamra inn í minn slælega haus á árinu, var að hætta að "kóa." Ég hef alltaf verið mikill kóari. Meðvirknin hefur verið fylginautur alveg síðan ég var lítið barn á heimili sem var sýkt af földum alkóhólisma. Flest börn alkóhólista verða snillingar í meðvirkninni. Sennilega vegna skammarinnar sem dyndi yfir heimilið, þau sjálf og alkana sjálfa ef upp kæmist um hið raunverulega líf innan veggja heimilisins. En eftir áralanga baráttu hefur mér tekist að komast frá því að vera sífellt "ábyrg" fyrir öllum skammarstrikum fólksins í kringum mig. Ég skammast mín ekki lengur fyrir að eiga áfengissjúkt foreldri. Ég skammast mín ekki lengur fyrir hegðun minna nánustu, sé hún að mínu mati ekki til fyrirmyndar. Ég tek það ekki lengur inná mig þó að kallinn minn hringi aldrei í vini sína eða ættingja á afmælum eða vegna annarra tilefna. Ég ber ekki ábyrgð á gerðum fullorðinna einstaklinga í kringum mig. Ég lenti einmitt nýlega í smá "prófi." Í mig var hringt og mér var sagt frá "einkennilegri hegðun" manneskju sem mér er vensluð. Í stað þess að fyllast óöryggi og vanlíðan vegna atburðar sem ég kom hvergi nærri, sagði ég: jahérna! Já, svona er þetta! -Manneskjan sem ég var að tala við varð dálítið klumsa því að auðvitað fannst henni að mér ætti að falla það miður að einhver mér náinn væri að "haga sér rangt." En þetta er einmitt það sem mér ekki veitti af að losna við!! Og viti menn: það er skítlétt. Það er líka skítlétt að segja NEI, þegar maður er beðinn um eitthvað. Og núna á þessum síðustu og verstu tímum blankheita og tímaskorts, geri ég EKKERT nema fólk taki upp veskið! Og hana nú! Police

Geðveikin hefur lagast á árinu. Ég hætti á geðlyfjunum mínum í haust og það gekk þokkalega nema hvað ég hætti að reykja um leið. Haustið fór því í alltöluverð fráhvörf og þegar skammdegið helltist hvað harðast yfir neyddist ég til að biðja lækninn um smá "fix" til að gera lífið bærilegra ... Aðallega til að geta komist í gegnum heilan dag án þess að bresta í grát yfir öllum sköpuðum hlutum. Ég er nefnilega þeirri ónáttúru gædd að þegar sálartetur mitt tekur dýfur þá get ég ekki horft á fréttir, lesið blöðin eða bækur sem fjalla um eitthvað annað en matreiðslu án þess að verða eyðilögð yfir grimmd og tilgangsleysi mannkynsins! Og það er náttúrulega bara BILUN! Ég á það til að vaka heilu og hálfu næturnar yfir flóðum í Asíu eða veikum einstaklingi á sjúkrahúsi, kjörum aldraðra eða munaðarlausum börnum í Úganda. Svo græt ég út í eitt yfir öllum þessum hörmungum! Þá er nú þörf, eða ekki nauðsyn að bryðja nokkrar gleðipillur frá Delta eða Pharmaceutical og bíða eftir að þetta brái af kellingunni....

En það er vonandi bara tímabundið og svei mér ef hækkandi sól og tilhugsunin um albjartar sumarnætur er ekki þegar farin að gera sitt geðbætandi gagn.

Nýja vinnan mín er bara yndisleg. Fólkið sem býr hérna á stofnuninni er hvert öðru dásamlegra og hver karakter þyngdar sinnar virði í gulli! Það eru forréttindi að fá að starfa við það að gera ævikvöld vinnulúinna vestfirðinga eins gott og þægilegt og hugsast getur. (og þess vegna eru launin svona lág í ummönnunnargeiranum... þetta eru nefnilega forréttindi ;o) )

Nýja árið, 2008 verður spennandi, ég er auðvitað með kvíðahnút í maganum yfir öllu sem úrskeiðis getur farið á jarðkringlunni á þessu ári en það er bara mín eðlislæga geðveila og partur af því hver ég er.

Ég þarf bara að fara að reyna að umbera það.

Gleðilegt ár kæru vinir hvar sem þið eruð staddir í heiminum!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband