Til kjósenda í Bolungarvík

 

Kosningabaráttan hefur að miklu leyti snúist um hugtakið "ábyrg fjármálastjórnun." Við ákváðum í byrjun samstarfs okkar, við sem skipum K-listann, að fela fólkinu í bænum alfarið að meta það hvort það fráfarandi bæjarfulltrúar okkar hefðu í raun borið alla þá ábyrgð á erfiðri fjárhagsstöðu bæjarins eftir tæplega hálft kjörtímabil, sem í veðri hefur verið látið vaka. Við sjálf vitum betur. Og fögnuðum því þegar þessir sömu fráfarandi bæjarfulltrúar sendu öllum heimilum í bænum bréf sem útskýrði hvað í raun gekk á.

 En við erum nýtt fólk og okkur er treystandi.

Exelskjöl og skipurit eru mér óþekkt stærð. Og það er líka í góðu lagi. Vegna þess að með mér eru menn eins og t.a.m. Ketill Elíasson sem hefur rekið sitt fyrirtæki farsællega árum saman og það með mjög miklum ágætum. Arnþór Jónsson, sem hefur sýnt að hann er maður sem ekki gefst upp heldur lítur á áföll sem merki um nýtt tækifæri til þess að skapa nýjan grundvöll. Þar fer maður sem ekki básúnar sína sigra, þó margir séu og meiri en okkar margra.  OG HANN kann á exelinn! :) Jóhann Hannibalsson. Stöðuglyndur og traustur maður með hjartað á réttum stað.

 Við sem skipum efstu fjögur sæti lista Bæjarmálafélagsins, erum öll jafn ólík og dagur og nótt.  En við höfum komist að því undanfarið að við vinnum vel saman og erum hópur þar sem hvert okkar bætir annað upp. Fjölbreytileiki okkar er helsti styrkleikinn. Og við höfum öll sömu markmið; að skapa öllum Bolvíkingum þá umgjörð sem við þurfum hér til þess að byggð hér megi blómgast og dafna. Ekki með sérstaka áherslu á "eldri borgara," "öryrkja," "barnafólk." Nei, heldur alla Bolvíkinga! Svo einfalt er það. Fólk er ekki dregið í dilka. Allir eiga sama rétt, allir eiga kröfu um að lifa við félagslegt öryggi og með reisn.

Nú er þessi lesning mín að verða ansi hreint löng og kannski margir hættir að lesa. En það er tvennt sem mig langar þó að tæpa á. Fyrir fjórum árum gat fólk innan Sjálfstæðisflokks ekki unnið saman.  Þar klauf sig einn út, stofnaði framboð með öðru ágætisfólki. Einu og hálfu ári síðar gekk sami frambjóðandi í eina sæng með sínum fyrri félögum undir því yfirskyni að "umsvif Soffíu Vagnsdóttur væru orðin of mikil." Það var ekki fyrr en mun síðar, sem fjármálin urðu helsta ástæða stjórnarslitanna. Enda hafði hugmyndafræðin um umsvifin ekki fallið í góðan jarðveg og margir, þar á meðal frambjóðendur,  sögðu sig af téðum A-lista. Oddviti A-listans býður sig nú fram í 2. sætið, næst á eftir Elíasi Jónatanssyni, manninum sem hún gat ekki hugsað sér að vinna með fyrir fjórum árum.  Ég ræði um annars þá vel gefnu konu, Önnu Guðrúnu Edvardsdóttur. Konuna sem rýndi svo skemtilega í stefnuskrá okkar sem þekkt er orðið. +

Mitt minni nær lengra en fjögur ár aftur í tímann. Nú er spurning; hversu langt aftur nær minni kjósenda?

Og þá að því síðara sem ég vildi tæpa á.Ketill Elíasson, maðurinn í okkar brú, oddviti K-listans. Hann er maður sem hefur, eins og ég sagði áðan, rekið farsælt fyrirtæki í áraraðir og er þar að auki frumkvöðull. Það skal því enginn halda því fram, að Katli Elíassyni sé ekki treystandi fyrir peningum eða rekstri.  Hann hefur sýnt að svo er. Því held ég að með Ketil í brúnni, sé Bolvíkingum óhætt að treysta K-listanum fyrir „ábyrgri fjármálastjórn.“

En Ketill er ekki bara farsæll fyrirtækjarekandi. Hann er félagshyggjumaður. Réttsýnn og ber hag bæjarins fyrir brjósti. Hann er gagnrýninn og hann er sanngjarn. Umfram allt, hann er heiðarlegur. Þetta voru helstu ástæður þess að ég setti Ketil í 1. Sæti í forvali Bæjarmálafélagsins. Af því að ég treysti honum og hef mikið álit á honum.

Bolvíkingar.

Þegar þið gangið til kjörklefa á morgun, bið ég ykkur að íhuga þessi orð mín. Hvar liggur traust ykkar? Hvernig sem allt fer, þá megið þið treysta því að við, frambjóðendur K-lista, munum vinna að heill og velferð bæjarfélagsins óháð því hvort það verður í meiri, -eða minnihluta. Við höfum verið lýðræðislega kjörin til að vinna fyrir ykkur.

Ylfa Mist Helgadóttir.

Höfundur skipar 3. sæti K-lista Bæjarmálafélags Bolungarvíkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flottur pistill ! Gangi ykkur sem best !

Guðrún (IP-tala skráð) 28.5.2010 kl. 19:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband