Af eigin rammleika.

Ég er hálf slæpt eftir síðustu daga og vikur. Það er álag að vera í framboði! En mikið dj... er það nú samt skemmtilegt.  Það besta er auðvitað fólkið. Maður er alla daga starfandi með skemmtilegu fólki. Og eins og allir sem mig þekkja vita, þá er það mitt uppáhald. Þ.e.a.s. fólk. Ég leyni því ekki að ég var spæld yfir því að við skyldum ekki ná meirihluta.  Og það er líka í góðu lagi að vera spæld. 

 Ólíkt mörgum frambjóðendum ætla ég ekki að tala um varnarsigur né reyna að benda á það hvernig mótframboðið „hafði af okkur atkvæðin,“ eins og virðist vera viðtekin venja í stjónmálum og stór partur af því líklega hversu litlar vinsældir „alvöru“ stjórnmálamenn búa við. Það er nefnilega alveg komið gott af þess háttar spekúleringum í þjóðfélaginu. Ef maður vinnur ekki, þá tapar maður. Það er svo einfalt. Og þá er að skoða ofan í saumana á því af hverju tapið stafar, læra af því og nýta reynsluna.

Ég hitti ísfirska konu í sundi í dag og við fórum að spjalla svona eins og maður gerir í heita pottinum.  Og á meðan rann upp fyrir mér hvað ég er lánsöm að fólk skuli treysta mér til að starfa fyrir sig. Ég er ekki héðan og einu ættingjar mínir hér í bænum eru börnin mín. Þó hlaut ég 3. Sæti í opnu prófkjöri Bæjarmálafélagsins. 20 manna forval og hátt í hundrað manns kusu. Og ég marði það inní bæjarstjórn.  Án þess að nokkur skrifaði fyrir mig framboðsræðu. Án þess að eiga nokkurn einasta frænda eða frænku sem skyldleikans vegna gaf mér atkvæði sitt. 

 Í augum margra og jafnvel flestra Bolvíkinga, er ég „utanbæjarmanneskja.“  Ég hef bara búið hér í 8 ár. Þar af hef ég einungis verið í 2-3 ár á bolvískum vinnumarkaði.  Í raun mætti því segja að ég hefði hér lítið bakland. En það er þó alls ekki rétt. Hér á ég augljóslega stórt og mikið bakland. Ekki svo að segja að öllum líki við mig? Enda geri ég ekki kröfu til þess. Mér líkar heldur ekkert við alla.  Flesta þó, sem betur fer!

 Mikið  fjarskalega er ég glöð og sátt í dag með að geta sagt; ég komst í bæjarstjórn Bolungarvíkur á mínum eigin forsendum. Vegna minna eigin verðleika! Mér finnst þetta hljóma ákaflega fallega á ferilskránni! J Ekkert sérlega hógvært, -en samt töff!

Bæjarfulltrúinn býður góða nótt ......


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það þarf ekki alltaf að vera hógvær...á meðan maður er raunsær og réttsýnn.

Óska þér til hamingju með kjörið bæjarfulltrúi veit að þú átt eftir að standa þig vel eins og þín er von og vísa.

 Takk fyrir að deila þínum skemmtilegu skrifum.

Bestu kv.

Ásta Huld (IP-tala skráð) 30.5.2010 kl. 23:37

2 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Þetta var ágæt hugvekja,Ylfa Mist og til hamingju með árangurinn.

Kv.,KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 31.5.2010 kl. 10:49

3 identicon

Æði - til hamingju.

I. (IP-tala skráð) 31.5.2010 kl. 17:28

4 Smámynd: Ragnheiður

góða nótt bæjarfulltrúi góður :)

Ragnheiður , 31.5.2010 kl. 23:24

5 identicon

Mér finnst þú bara alveg jafn mikill hluti af Bolungarvík og hver annar innfæddur:) Það fer ekkert lítið fyrir þér í bæjarfélaginu og það vita allir hver þú ert;) Það gerir þig að BOLVÍKING:)

You rock:)

Ásta María Mummadóttir (Mummi hennar Huldu Möggu ) (IP-tala skráð) 1.6.2010 kl. 10:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband