Grænmeti er leiðinlegt.

Það sem háir manni gjarnan með grænmetið er að manni þykir það ekki nógu spennandi. Ég meina, maður á að borða mikið af grænmeti en hver verður saddur af spínati? Eða gulrótum?

Ekki ég!

Svo er það náttúrulega fólkið sem telur grænmeti ekki til annars en til að fóðra húsdýr á, svo að við fáum meira af kjöti. Hver á ekki einhvern að sem segir: gras er handa kindum og kúm, kjöt er fyrir menn! Og svo fylgir digurbarkalegur hlátur í kjöfarið. Joyful

Best er að blanda saman grænmeti og próteini, svona svipað og við gerum með blessaðar kartöflurnar sem forðuðu íslendingum frá horfelli hér í eina tíð. En sko, þó að kartöflurnar hafi bjargað lífi fólks, er ekki þar með sagt að það megi sleppa þeim í svosem eins og einni máltíð eða svo? Við Halli erum af kartöflukynslóðinni. Það voru kartöflur með ÖLLU. Meira að segja þó það væru hrísgrjón, voru líka kartöflur. Þær voru soðnar með, svona til "öryggis." Kartöflur eru svo mjölríkar/sterkjuríkar að þær hafa miklu líkara næringargildi og hrísgrjón eða pasta, heldur en grænmeti. Þannig að pasta eða hrísgrjón með kartöflum og kannski brauði líka, er heljar-heljarstór pakki af kolvetnum. Og það elskar púkinn í mér.

En ég er farin að sleppa kartöflum æ oftar og það tekur enginn eftir því. Jafnvel þó ég sé með mat sem maður er vanur að vera með kartöflur með. Td. steiktur fiskur. Hann er sko ekki síður góður með ofngrilluðu rótargrænmeti sem hefur verið drussað með olíu, sítrónubáti, salti, pipar og timjani. Þetta getur verið rófa, sæt kartafla, sellerýrót (þetta ljóta í grænmetisborðinu sem er eins og blanda af rófu og alrúninni úr Ísfólkssögunum. Maður bíður bara eftir því einu að ræturnar fálmi í mann og augu birtist á hrukkóttri húðinni!) gulrætur, laukur, sveppir... möguleikarnir eru óendanlegir. Þegar svona fylgir djúsí, steiktum fiski, saknar enginn kartaflanna. Ég lofa!

Mér finnst æðislegt þegar ég fæ góðar hugmyndir úr hráfæðisdeildinni. Ég hef prófað hráfæði og fannst það æðislegt. Og ég fer alltaf á Gló og fæ mér hráfæðsrétt dagsins í hádeginu þegar ég skrepp suður, a.m.k einu sinni eða tvisvar. Svo get ég borðað blóðuga steik að kveldi. Enginn sem segir að fjölbreytnin sé bönnuð, sko!

Kvöldverðurinn í kvöld er einnmitt innblásinn af hráfæðisstefnunni.

Ég ætla að hafa hinn sígilda rétt, hakk og pasta. Börnin og eiginmaðurinn fá sér pasta, ég hinsvegar ætla að fá mér kúrbítsspaghetti. Og það er svo gott að maður klárar það bara og gleymi því að maður fékk ekkert hveitipasta! Svo er þetta svo sannarlega nóg til að fylla grænmetisskammt dagsins (fimm á dag) og það í einni máltíð! Þetta er kryddað og safaríkt og hefur allt til að bera sem góð, heit máltíð þarf. Mmmmmmmmmmm....

Það sem þarf að eiga til að gera svona "spaghetti" er Julianne-skeri. (sjá mynd) Hann lítur út eins og flysjari en sker í raun í örþunna strimla. Ég fékk minn í Bjarnabúð í Bolungarvík, annars fæst þetta í helstu búsáhaldabúðum.

julienne kúrbítur

Hakkrétturinn er bara þessi hefðbundni.

Einn belgur af nautahakki (ca5-700 grömm)

Laukur

paprika

hvítlaukur

sellerý

Tómatpaste eða tómatpúrra

tómatar í dós

salt

pipar

chilli duft eða cyenna pipar

oregano

Steikið hakkið og takið það frá.

Notið fituna af hakkinu ef einhver er, annars olíu og setjið saxaðan lauk, ásamt sellerýinu fínsöxuðu, hvítlauknum (ég nota sko heilann!) og saxaðri papriku að eigin vali og mýkið grænmetið í olíunni. Ekki brúna það, bara mýkja vel. Svo er hakkinu hent yfir og tómatpastanu, kryddi og tómötum í dós líka. Ég reyndar á rosalega góðan járnpott sem ég nota alltaf til að sjóða svona rétti í sem er gott að láta malla lengi. Það gæti þurft svolítið vatn útí líka. Svo má þetta makka við lágan eld eins lengi og þolinmæðin leyfir. Mér finnst best að gefa því allavega hálftíma til að þetta verði almennileg kjötsósa.

En þessi uppskrift er bara mín. Ef þið eigið skothelda uppskrift af hakki, endilega notið hana áfram. Allir eiga sína eigin.

Nú er komið að kúrbítnum. Rétt áður en maður ætlar að borða þá er kúrbíturinn strimlaður niður í "spaghettilengjur" og munið að hafa hann við stofuhita. Ég geymi minn meira að segja á vel volgum stað í tvo tíma fyrir matinn, því ég vil ekki hafa hann ískaldann því þá verður hakkið mitt kalt og óspennandi!

hakk og

það er gott að strimla kúrbítinn ofan í sigti, strá ofurlitlu salti yfir og lofa honum að standa í smástund, þá lekur mesti vökvinn af honum í vaskinn. (nú, eða í skál ef þið viljið nota í bústið)

Svo bara má hella sósunni yfir og borða á sama hátt og spaghetti. Ekki er verra að rífa parmesan yfir eða annan ost.

Maður þarf ekkert salat með þessu frekar en maður vill því að þetta er jú hlaðið af grænmeti!

Grænmeti er SKEMMTILEGT! :D


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Bjarnabúð auðvitað með allt. Ég hef leitað að svona flysjara í Danmörku, því einn sem ég keypti í Ísrael fyrir 10 árum var úr sér genginn. Bjarnabúð þarf greinilega að opna deild í Danmörku.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 10.1.2013 kl. 10:02

2 identicon

þetta er náttúrulega bara tær snilld

Þórgunnur R (IP-tala skráð) 10.1.2013 kl. 11:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband