smá hugleiðing um ábyrgð mína gagnvart börnum mínum......

 Sem foreldri þá hef ég ákveðin boðorð:

Ég gagnrýni aldrei vinnustaði barnanna minna í þeirra eyrum. Það á við um skólann og leikskólann. Mér finnst ég ekki hafa rétt á því að þröngva inn á þau mínum viðhorfum og gera þeim erfitt fyrir, með því að sverta þeirra annað heimili.

Ég tala aldrei niður til þess starfs sem unnið er í skólanum/leikskólanum svo að börnin mín heyri. Það rýrir álit barnanna á starfinu og kennir þeim ákveðna óvirðingu í garð kennaranna.

Ég reyni líka að sleppa því að gagnrýna fólk yfirhöfuð svo að börnin mín heyri. Það gerir þau óörugg með mig og kennir þeim slæma siði.

Hafi ég yfir einhverju að kvarta í sambandi við skóla/leikskólastarfið, sný ég mér að fullorðna fólkinu. Ég geri mig ekki seka um að þræta við starfsmenn stofnannanna að börnunum mínum ásjáandi, né annarra manna börnum. Það gerir lítið úr mér og kennir börnunum óvirðingu. Þau hafa nefnilega ekki þroska til að mynda sér sjálfstæða skoðun sjálf.

Þetta nær bæði yfir stofnanir þær sem hafa afskipti af börnum mínum sem og aðra. Til dæmis hef ég oft, margoft orðið reið og gröm við pabba hans Björgúlfs. Við erum ólíkar manneskjur og höfum afskaplega ólík viðhorf til hlutanna. En ég hef aldrei, aldrei, sagt um hann styggðaryrði svo að sonur minn heyri. Ég ákvað að sonar míns vegna yrði mér að þykja vænt um pabba hans. Ég ákvað að barnið mitt yrði ekki alið upp í stríði á milli þeirra fullorðnu sem eiga að vernda það og kenna því rétt og rangt. Þessvegna hét ég því, að sama hvað gerðist, myndi ég aldrei láta það bitna á barninu. Kæmi einhverntíma skellur, tæki ég hann. Vegna þess að það gera foreldrar. Það var á mína ábyrgð að eignast þennan dreng, það var á mína ábyrgð að tryggja velferð hans. Og barni líður aldrei vel ef foreldrunum líkar illa við hvort annað. Barnið tekur alltaf í hjarta sínu málstað þess sem verið er að níða skóinn af. Sama hvað.

En ég er reyndar svo ákaflega heppin að pabbi hans Björgúlfs míns er frábær maður í flesta staði. Og hann á öldungis fína konu líka. Svo að vandamálið er ekki til staðar. En hefðum við ekki ákveðið að vera umburðarlynd og jákvæð, þá hefði verið afar auðvelt að þykkja andrúmsloftið og gera allt erfiðara.

Þetta snýst allt nefnilega svo mikið um viðhorf okkar sjálfra til hlutanna. Við berum alfarið ábyrgð á þessum viðhorfum okkar sjálf.

Sem foreldri verð ég að kenna barninu mínu hvernig er auðveldast að fara í gegn um lífið. Það er með jálkvæðum viðhorfum. Og umburðarlyndi.

Mér tekst það auðvitað ekkert alltaf. Ekki frekar en öðrum, en með því að ákveða það er ég komin hálfa leið, og yfir því er ég stolt. Ég er til dæmis stolt yfir því að börnin mín þurfa ekki upplifa það óöryggi sem börn upplifa þegar þau heyra foreldra sína rægja aðra. Eða gera lítið úr fólkinu sem börnin þurfa að starfa með alla daga. Eða nagast út í hluti sem litlu máli skipta.

Því að mér finnst þetta skipta mestu máli þegar allt kemur til alls.

Þó ég gleymi oft að setja aukabuxur í leikskólatöskuna. Þó ég muni ekki allltaf eftir foreldraviðtölunum eða öllum fundunum í skólanum. Þó að ég gleymi oft að þvo hendurnar á þeim eftir matinn eða klippa á þeim neglurnar einu sinni í viku.

Ég kenni þeim að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Það er held ég ein af mikilvægari lexíum þessa lífs.

Fallega Hlíðin

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Aldeilis frábær færsla og væri gott ef fleiri foreldrar hugsuðu á þessum nótum. Það nefninlega síast inn það sem við gerum og segjum til barnanna okkar og fylgir þeim út í lífið!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 19.9.2007 kl. 15:32

2 identicon

Frábær færsla.. ég veit af eigin raun að það getur verið ótrúlega erfitt að þegja um galla fyrrverandi makans svo börnin heyri ekki til (sérstaklega þegar þeir eru snargallaðir). Þú hefur mikið rétt fyrir þér og þetta var góð áminning og upprifjun!!

heyrheyr

kveðja Hildur

Hildur (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 15:47

3 identicon

Fallegt og gott Ylfa. góð ábending og gott að fara með hana í svefninn. 

helgavalan (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 22:20

4 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

mjög falleg færsla elsku frænkan mín !

þetta e svo satt og rétt. ég hef fyrir mörgum árum unnið á barnaheimili, og við gátum auðveldlega fundið hvaða börn heyrðu illa talað um okkur heima, það voru þau börn sem þorðu ekki að þykja gaman á barnaheimilinu vegna þess að þá voru þau að svíkja foreldrana, sem þýddi að dagarnir voru ekki gleðifullir !

þekki þetta með barnsföður, tók mig samt nokkurn tíma að finna þetta harmony !

ást til þín frænka mín

steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 20.9.2007 kl. 06:38

5 Smámynd: Helga Aðalsteinsdóttir

Góð áminning til okkar foreldra og frábært fyrir okkur skólafólk að fá svona viðhorf frá foreldrum því að sjálfsögðu gerum við mistök eins og aðrir og aldrei er hægt að gera öllum  til hæfis. Börnin okkar eiga rétt á að elska og virða foreldra sína án skilyrða og hvað örðum finnst. Sektarkennd er ekki gott veganesti. 

Takk kveðja Helga

Helga Aðalsteinsdóttir, 20.9.2007 kl. 08:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband