dramað drepið

Jæja. Ekki tjóir að liggja, grenja og þunglyndisblogga. Skárra væri það nú ef ekki færi maður að druslast í jólastemninguna! Það snjóar fallegum kornflögusnjó úti og allt er orðið hvítt og fallegt. Ég var í fríi í gær og í dag og hef notað tímann til að hvíla mig og vera með drengjunum mínum. Halli þurfti að vinna í gær, fyrst í Netheimum og síðan í Löggunni í nótt. Dreif sig nú samt á fætur klukkan tíu til að drösla upp jólatrénu og koma með okkur í skötu til hennar Binnu í hádeginu. Halli fékk æðislega gjöf frá vinnuveitendunum sínum. Tvo miða á Dúndurfréttatónleika sem haldnir verða milli jóla og nýjárs  í Edinborgarhúsinu á Ísafirði, jólabónus í peningum, auk þess sem boðið var upp á smörrebrauð af Hótel Ísafirði eftir vinnu í gær. Við vorum búin að ákveða að gefa okkur þessa tónleika í jólagjöf og því var æðislegt að fá þá bara svona upp í hendurnar.

Finnbogi var hjá okkur um helgina og í gær á meðan Halli var í vinnunni fórum ég og fjórir strákar í sundlaugina. Við vorum komin oní klukkan tólf og heim um fjögurleytið! Mest allan tíman vorum við alein í lauginni og fórum í rennibrautina, lágum í pottunum og svömluðum í lauginni. Það var æðislegt og í fyrramálið, aðfangadagsmorgun, verður farið í sundlaugina þar sem allir fá sér jólabaðið og slaka á fyrir öll herlegheitin. Ég elska sundlaugina hérna í Bolungarvík. Þetta eru algjör forréttindi að ganga að svona lúxus og þekkist ekki víða um heim eins og hér á Íslandi.

Jólatréð okkar er komið upp og þurftum við að fá aðstoð bæjarstjórans sem er yfir tveir metrar á hæð, til að setja engilinn á toppinn! það er svo stórt og fallegt! Við þurftum fjórar seríur til að lýsa það allt upp!!

Nú er best að fara að slökkva undir hangiketinu og leyfa því að kólna í soðinu í nótt, svo bý ég um það í köldu geymslunni í fyrramálið svo að hægt sé að borða það á jóladag. Annað kvöld verður Hamborgarhryggur og í forrétt, rækjukokteill. Ég auglýsi hér með eftir uppskrift af slíkum kokkteil!

Elsku vinir og vandamenn, Gleðileg jól til ykkar allra og munum eftir að njóta þess að vera með okkar nánustu, séum við svo heppin að geta það. Bestu kveðjur héðan úr Hraunbergshúsinu þetta þorláksmessukvöld, frúin ætlar að fara að hátta. Guð blessi ykkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Harpa Oddbjörnsdóttir

Sundlaugin í Bolungarvík er náttúrulega best af því að pabbi minn er sko sundlaugarvörður:) Hann er mesta krútt í heimi!

Gleðileg jól sterka, fallega, mikla, góða, yndislega sál!!!!

Megi nýja árið færa þér birtu og yl.

Knús

Harpa O

Harpa Oddbjörnsdóttir, 24.12.2007 kl. 00:11

2 identicon

Gleðileg jól Ylfa og fjölskylda, ég fæ alltaf að kikja á þig við og við hér!

Takk fyrir þín greindarlegu, skemmtilegu og fallegu skrif.

Besta jólakveðja úr borginni.

Huld (IP-tala skráð) 24.12.2007 kl. 00:45

3 identicon

Ég þurfti einmitt í fyrsta skipti á ævinni að sækja mér tröppur til að koma stjörnunni á tréð! Mikið á maður nú gott að vera með svona stórt og fínt tré. Fyrstu jólin í Skaftahlíð stefna í eintóm yndislegheit. Ég held svei mér þá að ég hafi upplifað það núna að sleppa jólastressinu alveg! Fyrir tveimur dögum hugsaði ég með mér að það skipti eiginlega engu máli hvort við næðum að þrífa fyrir jólin eða ekki. Og ég meinti það! Það náðist nú, en alveg stresslaust og nota bene alfarið unnið af eiginmanni mínum ÁN minna afskipta (lesist: fyrirmæla, stjórnar, eftirlits, nöldurs). Ég sá bara um þetta skemmtilega, jólagjafirnar og svoleiðis, og er svo með tvenna nýbakaða foreldra í heimaþjónustu yfir hátíðarnar. Algjörlega sjálfvalið og mun skemmtilegra en að vera skikkuð á vakt t.d. á aðfangadagskvöld.

Eigið yndisleg jól í víkinni, knúsaðu karl og kúta frá okkur. 

Berglind (IP-tala skráð) 24.12.2007 kl. 01:22

4 Smámynd: Hjördís Þráinsdóttir

Góða nótt 'skan og habbðuða gott um jólin.

Hjördís Þráinsdóttir, 24.12.2007 kl. 01:59

5 identicon

Gleðileg jólin Yfa mín.

Hafðu það gott í sundi á morgun og vertu nú dugleg að borða.

jólakveðja, hbj

Helga B. Jones (IP-tala skráð) 24.12.2007 kl. 02:24

6 Smámynd: Þórdís Einarsdóttir

Gleðileg jól elskurnar og knús á línuna.

Við keyptum einmitt fyrsta jólatréð okkar þessi jól og ég keypti stórt tré. Það þurfti þó hvorki stiga né bæjarstjórann til að setja skraut á toppinn enda er toppurinn bara óskreyttur og natural og fallegur eins og tréð allt.

Njótið hátíðanna.

Þ 

Þórdís Einarsdóttir, 24.12.2007 kl. 10:39

7 identicon

Til hamingju með jól og áramót elsku Halli, Ylfa og grísirnir 3 :-)

Við fjölskyldan ætlum að taka RÚNT á vestfirðina næsta sumar svo það er aldrei að vita nema fullt af rauðhausum banki upp á hjá ykkur:-)

Jólakveðja Bína,Bogi og Börn

Bína (IP-tala skráð) 24.12.2007 kl. 11:31

8 Smámynd: Laufey B Waage

Heyrði jólakveðjuna frá ykkur í útvarpinu. Takk fyrir hana. Hér í 101 er fallegur jólasnjór yfir öllu. Yndislegur aðfangadagur. Guð gefi ykkur gleðilega hátíð elskurnar.

Laufey B Waage, 24.12.2007 kl. 12:03

9 identicon

Gleðileg jól Ylfa og fjölskylda!

Gústi (IP-tala skráð) 24.12.2007 kl. 12:26

10 identicon

Gleðileg jól elsku Ylfa, Halli og frændur!
Og takk fyrir snjókúlurnar sem lýsa svo fallega upp stofuglugga hjá okkur. Fyrir utan sáldrast hundslappadrífan niður svo jólalegra getur það ekki orðið! Það minnir mig á hugleiðingar Bjargar þegar hún, tæplega fimm ára, horfði á snjókomuna út um eldhúsgluggann og spurði: "Mamma, er guð með margar hendur?" Ég svaraði að ég vissi það ekki. Þá hugsaði hún sig aðeins um og sagði: "Jú, auðvitað er hún með margar hendur - annars gæti hún ekki látið alla rigninguna og snjóinn koma svona í einu." 

Jólabréfið frá okkur er enn í tölvunni og stefnir að því að verða áramótabréf  - það gafst ekki tími á síðustu metrunum fyrir jól að hnoða myndunum inn í það en það stendur til bóta. - Hafið það öll sem best, elskurnar,

Bryndís frænka

Bryndís (IP-tala skráð) 25.12.2007 kl. 13:08

11 identicon

Gleðileg jól kæra fjölskylda.

Mikið gaman að kíkja hingað á bloggið þitt, upp og niður blogg eru akkúrat eins og lífið hjá okkur hinum, þú ert frábær haltu áfram að vera akkúrat ÞÚ ;O)

Hilsen úr höfuðborginni ( ja eða á ég að segja að ég búi á grensunni höfuðborgar/Mosfellsbær ! )

Harpa Hall (IP-tala skráð) 25.12.2007 kl. 21:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband