Laugardagur

Þegar kemur að kommentakerfinu mínu hefur fólk gjarnan kvartað undan afskiptaleysi af minni hálfu. Þ.e. að ég svari aldrei kommentum. Ég geri það sjaldan, það er rétt. Mér til málsbóta ber að geta að ég mynda alltaf svar í huganum en hripa það sjaldnast niður....... En öll komment les ég með áfergju og af gleði svo að í Guðs bænum ekki hætta að kvitta kæru vinir!

Annars er bara prúður laugardagur hérna í fallegu Bolungarvík sem tekur við endalaust meiri snjó! Snjór er fallegur og felur blautt og rotið grasið. Vissulega. En skyndilega er kominn vorfirðingur í mig. Og ég þrái íslenska sumarið með sínu undursamlega hrossagaukshneggi, heiðlóukvaki, björtum nóttum sem nauðsynlegt er að vaka af og til, grænu, safamiklu grasi með fáránlega gulum sóleyjum og fíflum. Djúpbláum sjó með fyssandi öldum sem bera hressilega og salta hafgolu til okkar á landi. Ég sakna fjörsins á Óshlíð og í Stigahlíð þar sem sjófuglar liggja á hreiðrum, milli þess sem þeir fljúga í óðaönn á haf út að ná í síli fyrir unga sína, gönguferða fram Tungudal á algjörlega kyrrum sumarkvöldum og nestisferða inn í Djúp. Tjaldferða í Reykjanes, að sitja á pallinum mínum með tebolla og hóa í vegfarendur sem koma og spjalla, þiggja tebolla og njóta með mér sólarinnar.

Ég sakna Svarfaðardals. Félaganna úr Bandalagi Íslenskra leikfélaga sem hafa safnast í dalinn í rúman áratug og lagt kapp við að sinna sínu brennandi áhugamáli. Í þessum fallega dal þar sem ég þekki hverja þúfu og hvern stein síðan ég var barn, hafa dagar og nætur liðið í endalausri sælu, gítarspili í brekku, niðurbældum hlátrum um nætur þegar allt á að vera hljótt og ótrúlegum afrekum á daginn þegar allir leggja sál sína í kjöltu Talíu og uppskera að lokum kraftaverk. Jaðrakaninn syngur undir sitt vaddúddí vaddúddí og stelkurinn rænir menn morgunsvefninum. Og þegar sólin byrjar að verma grasið, nú.. eða bræða snjóinn, sem hefur líka skeð, má sjá svefndrukknar og úfnar manneskjur hópast saman í stóran hring úti á flöt, flestar berfættar, og allar teygja þær heldur í átt til sólar, anda djúpt og bjóða nýjan dag velkominn.

Ég hef ekki farið lengi í Svarfaðardal. Ég fer ekki í sumar en kannski það næsta.

Það eru gestir væntanlegir í kvöldmat. Hjöra mín yndislegust, þrágúst og maðurinn sem ég man aldrei hvað heitir. Hann er þó síst verri fyrir vikið. Ég ætla að gefa þeim kjúklinga og svo um miðnættið fer ég á Skýlið að hagræða svæflum við lúin bök, gefa vatn að drekka, opna glugga, loka glugga hvísla uppörvandi orð í þreytt eyru í myrkrinu. Það er oftast ró og friður á vaktinni. Fólkið sefur á meðan hvítklæddar verur ganga hljóðlega um ganga á gúmmísóluðum klossum og sinna næturverkunum. Setjast niður á milli og prjóna, líta í bók eða rýna á einhverja B-myndina í sjónvarpinu. En svo glymur bjallan og þá fara hvítklæddu verurnar af stað og hagræða svæflum við lúin bök, gefa vatn að drekka, opna glugga, loka glugga hvísla uppörvandi orð í þreytt eyru í myrkrinu.................

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hef heldur ekki farið á skólann síðan við vorum þar báðar síðast. Sendi Árna hins vegar núna, fjórða árið í röð. Það er mjög snjallt. Þá sit ég bara heima, ólétt eða með barn á brjósti, sem ég er jafnan þessi árin, hringi síðan í hann á hverju kvöldi, læt hann segja mér hvernig er (auðvitað fær hann bara að fara á námskeið sem mig langar á) og heyri kannski jafnvel Bandalagssöng í fjarska.

Næstum eins gott og að vera á staðnum.

Deffinetlí betra en að vera edrú á staðnum og kannski með grindar- og greindargliðnun.

Nógur tími til að fara þegar ormarnir stækka aðeins.

Sigga Lára (IP-tala skráð) 29.3.2008 kl. 19:46

2 identicon

Dásamlegar lýsingar og ekki eru athugasemdirnar verri. Grindar- og greindargliðrun!!! Algjörlega frábært, á eftir að nota þetta, nema þá kannski einmitt í vinnunni. Annars er mjög algengt mis-pikk hjá mér "girndarverkir" þegar ég er að lýsa líðan kvenna. Veit ekki alveg hvernig þeir myndu lýsa sér...

Berglind (IP-tala skráð) 29.3.2008 kl. 22:10

3 Smámynd: Þórdís Einarsdóttir

Girndargliðrun? Vá hvað maður verður lesblidnur á þessi orð!

Þ 

Þórdís Einarsdóttir, 30.3.2008 kl. 12:11

4 identicon

Mig er líka farið að langa í vor ... þess vegna ætla ég að fara til Barcelone á fimmtudaginn ... bara að segja þér það aftur svo þú gleymir því ekki hehehehe.  Mikið eiga þessi lúnu bök gott að eiga svona góða og fallega konu að til að hlúa að sér ... þú ert alveg hreint einstaklega dásamlega Ylfa mín ... knús til þín og ég skal reynda að senda þér smá yl og vor frá spáni

Katrín Dröfn (IP-tala skráð) 30.3.2008 kl. 13:56

5 identicon

Girndarglyðrun... Vá hvað þetta orð hefur allt í einu tekið nýja og skemmtilegri stefnu!

Hohohó.

Sigga Lára (IP-tala skráð) 30.3.2008 kl. 17:53

6 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

sérstaklega maður glyðra ;)

Ylfa Mist Helgadóttir, 30.3.2008 kl. 18:27

7 Smámynd: Vilborg Valgarðsdóttir

Dásamleg færsla Ylfa og takk fyrir kvittið hjá mér. Og þegar upp er staðið; hver er EKKI glyðra þegar á reynir

Vilborg Valgarðsdóttir, 30.3.2008 kl. 22:44

8 identicon

Til hamingju með afmælið!

Þetta eru annars nottla frekar ómerkileg afmæli sem við eigum í ár. Ég er allavega búin að panta að fá pottasett í afmælisgjöf frá eiginmanninum. Finnst ég bara ekki vera á rómantískari aldri en það...

Sigga Lára (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 10:22

9 identicon

Til hamingju með daginn litla systir, bestu kveðjur í bæinn YHH

Yrsa Hörn Helgadóttir (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 14:14

10 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

gerir ekkert ég svara líka sjaldan kommentum, bara ef ég er spurð að einhverju. annars eru allar skoðanir réttar fyrir hvern og einn.

knús og Bless

steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 31.3.2008 kl. 14:17

11 identicon

Til hamingju með afmælið Ylfa !

bestu kveðjur

Agnes (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 15:21

12 Smámynd: Laufey B Waage

Yndislega ljóðræn og falleg færsla.

Skemmtilegar athugasemdir um gliðrurnar og girndina (sem míns eigins dóttir reið á vaðið með).

Til hamingju með afmælið sæta .

Laufey B Waage, 31.3.2008 kl. 19:06

13 Smámynd: Þórdís Einarsdóttir

Til hamingju með afmælið.

Þ 

Þórdís Einarsdóttir, 31.3.2008 kl. 19:50

14 identicon

Kosturinn við að hlutirnir gerast ekki strax og mann langar er ..... að þá hefur maður eitthvað að hlakka til!!!

Elín (IP-tala skráð) 1.4.2008 kl. 15:41

15 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Hver er ELÍN???

Ella P?

Ylfa Mist Helgadóttir, 1.4.2008 kl. 15:47

16 Smámynd: Þórdís Einarsdóttir

Ég hefði ekki giskað á Ellu P, hún kvittar ekki sem Elín!

Ella Rósa datt mér í hug frekar.

Þ 

Þórdís Einarsdóttir, 1.4.2008 kl. 18:03

17 Smámynd: Hjördís Þráinsdóttir

Ég hef aldrei þolað að vera kölluð gælunöfnum og ekki heldur að barnið mitt sé kallað gælunafni. Ég var samt farin að geta litið framhjá þessu, svona af því það varst þú (og þú manst hvort sem er aldrei hvað ég heiti) en þegar ég sé þetta á prenti þá sé ég hvurslags viðbjóðsorðskrípi þetta eru sem þú hefur komið upp á mig og barnið! Í gvöðsalmáttögsbænum ekki nota þetta... hojbara.

Takk fyrir kjúllann annars, hann var æði!

Kv. Hjördís (sem borðar ekki með fingrunum. =o)

Hjördís Þráinsdóttir, 1.4.2008 kl. 19:50

18 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Is... gleypt´ekki flugu!

Mér finnst Hjöra fara þér reglulega vel. En ég get auðvitað haldið áfram að kalla þig Herdísi ef þú vilt. Eða HEDDU!!!!! :):)

Ylfa Mist Helgadóttir, 1.4.2008 kl. 20:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband