Höfuðsóttarrugl

Ja, það má með sanni segja að það eru stormar í bolvísku kortunum í dag. Meirihlutinn hvellsprunginn og ástæðurnar hinar einkennilegustu, eins og þær líta út fyrir mér sem hef mína litlu vitneskju úr fjölmiðlum. En ég er bara lítið brot af hinum sauðsvarta almúga, pupulsins barn, ef svo má segja og skil náttúrulega lítið í hinum pólitískt flókna heimi.

Eftir því sem má lesa get ég dregið saman í eftirfarandi:

A listi, rýfur samstarf við K lista. A listi var stofnaður í kringum konu sem klauf sig úr sjálfstæðisflokki vegna ágreinings. Nú hefur komið upp ágreiningur viðkomandi klofningsflokks við samstarfsflokkinn. Það er skrýtið. En sum erum við auðvitað þannig innréttuð að samstarf á ekki vel við okkur yfirhöfuð.

Ástæður: Oddviti K lista á hluta í fyrirtæki. Það er dauðasynd eins og hver maður getur séð. Enda aldrei nokkurntíma verið til siðs að bæjastjórnarmenn í litlum bæjum séu viðloðandi fyrirtækjarekstur. Æi.. ef frá eru taldir örfáir áratugir EG veldisins sáluga, bæjarstjórnarmaðurinn sem á eða átti fyrirtækið Gná og nokkrir í viðbót. Held reyndar að í minnihluta sitji reyndar fólk sem rekur fyrirtæki en það er nú kannski ekki jafn banall ágalli.

Téð fyrirtæki í eigu m.a oddvita K lista undirritaði nýlega samning við Ósafl, sem lýtur að m.a. eftirfarandi: starfsfólk sem munu vinna að gangagerð og eftir því sem ég best veit, flóðavarnargarð mun allt gista, borða og yfirhöfuð nýta alla þjónustu hér í Bolungarvík. Það hlýtur einnig að teljast dauðasynd að koma því þannig fyrir að allt þetta fólk dvelji hér en ekki á Ísafirði??

Heyrt hef ég því fleygt frá fleiri almúgamanneskjum.- sem mér sjálfri, að annar aðili í bæjarstjórn hafi einnig átt tilboð í þetta verk en þar sem þessar upplýsingar koma eins og áður segir frá almúgafólki skal ég ekki fullyrða um sannindin..... held þó að umræddur aðili sitji í minnihluta f.h. sjálfstæðisflokks. Ekki veit ég um það hvaða refsingu sá aðili mun hljóta fyrir að vilja draga starfslýð Ósafls til Bolungarvíkur. En auðvitað má kalla þetta sérlega vogað "múv."

Nú. Þá erum við komin að því sem ég, -og fleiri meðlimir hins vanmáttuga pupuls hér í bæ sem ég hef talað við í dag, -fæ engan vegið skilið: bæjarstjóri og oddviti K lista hafa gerst svo ósvífin að hafa myndað sér skoðun, og hana opinbera, um málefni olíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum! Þetta er með öllu óskiljanlegt þar sem enginn nema leiðandi A listans má hafa skoðun á margumræddri olíuhreinsistöð! En það stafar sennilega að því að umræddur er einnig formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga og veit þá auðvitað að sama skapi hvað vestfirskum almúga kemur best. Að sjálfsögðu áttu bæjarstjóri og oddviti K listans ekkert með að viðra sína óályktuðu skoðun á almannafæri. Nema þá kannski helst á bensínstöðinni!  Ættleysingjar og annar almennur lýður ætti að þekkja sín takmörk!

Það sjá það allir að það er ekkert sama hverjir eru með einhver umsvif í smábæjum eða viðra skoðanir sínar óyfirfarnar af réttum aðilum! Það veit pupullinn. Þess vegna ætla ég sem einn af talsmönnum almúgans, enga skoðun á þessu að hafa aðra en þessa: Mér þykir þetta afar leitt. Ég veit að þetta verður bænum ekki til framdráttar, verst af öllu þykir mér að þurfa að horfa á eftir glæsimenninu Grími sem líklega er fráfarandi bæjarstjóri, aftur suður á mölina. Hann hefur verið bænum gríðarleg lyftistöng í öllu sínu tveggja metra veldi!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Og eins og lýðnum sæmir þorir enginn að kommenta á þennan reiðipistil þinn. 

En eitt er víst að fáir bæjarstjórar hafa komið einu sveitarfélagi svo rækilega á landakortið sem Grímur þessu þorpi á norðvesturslóðum. Nú vita fleiri en 2 á svæði 101 Reykjavík hvar Bolungarvík er. En ertu viss um þetta með olíuhreinsistöðina ? Er bara pláss fyrir 1 skoðun í bænum ? Eru allir rétthugsandi hlynntir olíuhreinsunarstöð ?

Jónína tupperwaren ílátseigandi. (IP-tala skráð) 22.4.2008 kl. 22:42

2 identicon

Ég er ein af lýðnum og þori alveg að hafa skoðun ... hef bara ekki komist í að commenta fyrr en nú þar sem ég þurfti að taka til eftir lýðsbarnsafmælið. En mín skoðun er sú að þetta sé bara tómt klúður .... afhverju er ekki hægt að taka ákvörðun og standa við hana í 4 ár, ég held að þetta verði bænum okkar alls ekki til framdráttar og ég vil ekki sjá Grím Atlason hætta sem bæjarstjóra. Það fer um mig kjánahrollur í dag yfir þessu "ástandi", og talandi um þessa olíuhreinsistöð hvað er hún annað en plott til að reyna að þrýsta á stjórnvöld til að gera eitthvað róttækt í atvinnumálum vestfjarða ... hún á ALDREI eftir að verða að veruleika! Mikið vildi ég að við þessir níuhundruðogeitthvað íbúar hér gætum bara staðið saman og unnið saman þá væri allt bara svo skemmtilegt og gott. 

Jæja mín kæra frú ætla að halda áfram að skella fúganum á baðflísarnar svo ég geti innan skamms lagst í nuddbaðkarið með kertaljós og hvítvín og látið mig dreyma um frið á jörð - eða allavega í víkinni fögru.

Katrín Dröfn (IP-tala skráð) 22.4.2008 kl. 22:56

3 Smámynd: Júlíus  Garðar Júlíusson

Hæ Ylfa.
Það er ekki vorlogninu fyrir að fara hjá þér.
Fyrir leikmann sem býr í öðrum landshluta, horfir úr fjarlægð og veit ekki allt, er þetta mál dulítið skrýtið. T.d finnst mér Soffía Vagnsdóttir vera kona sem lætur hlutina gerast er jákvæð og góð ýmind fyrir byggðarlagið. Ég hef aldrei heyrt eða séð eins mikið af fréttum og umfjöllun um Bolungarvík síðan að Grímur Atlason tók við.....maður hefur fylgst meira með og þótt spennandi. Ég held að þarna sé verið að taka heldur mikla áhættu, það er erfitt að fá fólk til að taka þátt í sveitarstjórnarmálum og ef að gott fólk býður sig fram er það hið besta mál og það að það sé í fyrirtækjarekstri er bara plús. Mér finnst algjörlega frábært ef að það er hægt að halda gistingunni og þjónustunni á staðnum.......er þetta sama gamla lumman....að fólk getur ekki unað öðrum að fá smá auka verkefni eða krónur í vasann. Vonandi fer þetta ekki með sultugerð og annað góðmeti sem þú býrð til......ég tek hatt minn ofan af þeim heimamönnum sem þora að tjá sig gegn olíuhreinsunarstöð....það er ekki framtíðin...ýmind Vestfjarða og Bolungarvíkur er mun meira virði heldur en ein skitin Olíhreinsunarstöð......hvað á þá að gera spyr einhver ?....jú selja og hlúa að ýmindinni, hún gefur meira af sér hvernig sem á það er horft...það þarf bara að halda að passa uppá náttúruna og sérkennin ...ekki gefa undan ...Ýmindin er ykkar stóriðja.

Góða kveðjur til ykkar í Víkina frá einum á Víkinni 

Júlíus Garðar Júlíusson, 23.4.2008 kl. 08:26

4 identicon

Frábær pistill hjá þér Ylfa Mist...fann vindinn þjóta um kinnar mér meðan ég las, en já kaldhæðnisleg pólitík sem er í gangi í Bolungarvíkinni...ja pólitíkin er yfirleitt kaldhæðnisleg að mínu mati...

En ég er nú þeirra skoðunar að því fleiri skoðanir því betra og er það algjörlega óháð fyrirtækjaeign...hjúkk að við eigum ekki fyrirtæki elsku vinkona. !!!

Harpa Hall (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 08:48

5 identicon

Svo sammála þér ! Þetta lítur allt út fyrir að vera hið kjánalegasta mál. Skil ekki hvað þetta lið er að spá. Mér hefur fundist Grímur standa sig mjög vel, það heyrist í honum og hann þorir að tjá sig um mörg málefni sem margir sveitastjórnarmenn þora alls ekki að tjá sig um.

En svona er þetta á vestfjörðum, það er hver höndin upp á móti annarri. Slæmt þegar á þessum síðustu og verstu að samstöðunnar væri svo gott að njóta.

Guðný (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 10:03

6 Smámynd: Harpa Oddbjörnsdóttir

Heyr heyr!! ég vona svo innilega að bolvíkingar, hinn sauðsvarti almúgi, láti ekki fara svona með sig og mótmæli! Og áfram Grím sem bæjarstjóra!

Harpa Oddbjörnsdóttir, 23.4.2008 kl. 10:08

7 identicon

nú koma önnur 60 ár xd af stöðnun

hallirs (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 12:33

8 identicon

Við skulum vona að hallirs hafi ekki rétt fyrir sér:(:( en er engin búin að flagga í hálfa!!!

Nikólína (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 14:49

9 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Skrítið að þú segir það Nikólína, ég var að hugsa um það í morgun hvort maður ætti að flagga!

Og þá á ég við í hálfa......

Ylfa Mist Helgadóttir, 23.4.2008 kl. 15:05

10 identicon

Ef ég ætti flaggstöng þá væri ég búin að flagga í hálfa ... mér finnst agalegt ef við ætlum bara að taka þessu þegjandi og hljóðalaust !!

Katrín Dröfn (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 15:14

11 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Flaggaðu bara hjá mér Kata mín ;)

Ylfa Mist Helgadóttir, 23.4.2008 kl. 15:49

12 identicon

Ég flagga í heila- fyrir þér

Halla Signý (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 16:05

13 Smámynd: Bumba

Ég fer nú bara að brynna músum yfir þessum mjög svo sorglegaa pistli að ég tali nú ekki um athugasemdirnar. Það kemur maður í manns stað Ylfa mín. en hreppapólitíkin er allsstaðar og ekki minni í henni Reykjavík en fyrir vestan eða norðan. Mig er farið að langa til að sjá þig stelpa litla. Með beztu kveðju.

Bumba, 23.4.2008 kl. 17:50

14 Smámynd: Gló Magnaða

Hadda heim.........(í Súðavík) og Grím á Ísafjörð

Gló Magnaða, 24.4.2008 kl. 10:49

15 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

skil lítið í þessum skrifum, en reyni aftur seinna elsku frænka.

knús í krús

steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 24.4.2008 kl. 14:06

16 Smámynd: Bryndís G Friðgeirsdóttir

Já Ylfa mín, það eru greinilega ekki réttu aðilarnir að "vasast"´í atvinnurekstri í Víkinni. Þið í Bolungarvík eigið heimtingu á að vita réttu ástæðuna fyrir slitunum. Það hefur hingað til ekki þótt trufla störf bæjarfulltrúa í Bolungarvík að vera í forsvari fyrir atvinnufyrirtæki í bænum. Nú hefur það breyst á einni nóttu án þess að gerð hafi verið bæjarmálasamþykkt þar að lútandi. Svo ég spyr, hver er ástæðan??? Það er afar slæmt fyrir okkur sem búum á norðanverðum Vestfjörðum að missa athafnafólkið úr meirihlutanum. Grímur er náttúrulega bæjarstjóri okkar allra, því hann er athafnamaður sem munar um. Ísfirðingar kunna að meta hann. Áfram Bolungarvík.

Bryndís Ísfirðingur

Bryndís G Friðgeirsdóttir, 24.4.2008 kl. 15:01

17 identicon

Gaman væri að sjá vikara.is gera skoðanakönnun á því hvort bæarbúar vilja frekar Elías eða Grím sem bæjarstjóra, líkt og hann gerði varðandi vilja íbúanna á breytingum á þorrablótsreglum? Einnig hvort þeir vilji frekar sjá A+D eða D+K í meirihlutasamstarfi?

Falur (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 18:56

18 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Já, það væri spennandi. En ég á enga von á því að Grímur vilji starfa með nýjum meirihluta verði hann samsettur úr A og D Falur minn. Og ég held að enginn lái honum það. Því miður. Enda er það Sossa sem fyrst og fremst er ráðist á í þessu tilviki, Grímur fylgir bara með. En eins og allir bæjarbúar vita sem fylgst hafa með fundum hefur samstarf K og D verið prýðisgott það sem af er liðið kjörtímabilinu. En kveðjur A lista kvenna í garð þeirra D manna hafa ekki alltaf verið jafn vandaðar. Enda svosem ekki skrítið,. þetta er nú þrátt fyrir allt klofningsframboð sem stafar einmitt af því að þetta fólk gat ekki unnið saman. En..... kannski hefur eitthvað kraftaverk gerst. Nú, nema auðvitað að meiningin sé sú að þetta verði fastur viðburður í bæjarlífinu, að splundra stjórnarsamstarfi fyrir óframda glæpi?

En hvað vitum við svosem?

Ylfa Mist Helgadóttir, 24.4.2008 kl. 19:05

19 identicon

Seinni hluti spurningarinnar myndi væntanlega svara því hvort Sossa nyti meira trausts en Anna.

Falur (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 21:00

20 Smámynd: Dagný Kristinsdóttir

Mikið er ég sammála þessum pistli þínum Ylfa.

Sem brottfluttur Bolvíkingur skil ég hvorki upp né niður í þessu ástandi. 

Sérstaklega þar sem það hefur hingað til þótt í lagi að vasast í atvinnurekstri meðfram sveitastjórnarmálunum. Sama hvaða meirihluti hefur verið við völd og hverjir hafa þar setið. 

Í Víkinni fögru hefur það  alltaf skipt máli hvort þú heitir Jón eða séra Jón, hvaða skoðun þú hefur og hvort þú færð að halda henni á lofti í friði.  

Því vona ég að þið kjósendur í 415 fáið góð rök fyrir þessu ástandi.

Ef ekki-haldið þá áfram að mótmæla
 

Dagný. 

Dagný Kristinsdóttir, 25.4.2008 kl. 22:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband