Hjá góðu fólki

650 kílómetrar og átta klukkutímar voru lagðir að baki í gær. Það þykir nú meðal húsmóður úr Bolungarvík ekki mikið. Drengirnir vöru stilltir og góðir nema hvað þeir vildu auðvitað stoppa nokkuð oft. Og veðrið var nú til þess. Sól og blíða alla leið nema rétt hérna norðanlands. Þegar við renndum niður Öxnadalsheiðina var komið þokuloft, en þá vorum við líka alveg að verða komin til Dalvíkur.

Og þó ég segi að mér þyki ekki mikið um að sitja á rassgatinu í átta tíma og halda um stýrið, þá var kvöl að þurfa að borða kvöldmat í Hrútafirði. Nánar tiltekið í Staðarskála. Sú sjoppa verður seint háttskrifuð hjá mér og drengjunum mínum litlu eftir kvöldverðinn í gær sem samanstóð af tveimur hel-steiktum barnahamborgurum með káli og engu öðru, ekki einu sinni sósuörðu, hvað þá ostsneið, og einhverju sem á matseðlinum hét "Hrútfirðingur." Það var ég sem fékk mér hrútfirðinginn og eftir þá reynslu vil fátt eiga saman við hrútfirðinga sælda framar, svei mér ef ekki bara Húnvetninga eins og þeir leggja sig! Það eina sem ég get sagt eftir það áfall sem ég varð fyrir, andlega sem og munnlega, er: ég vissi ekki að sveppir úr dós fengjust ennþá. Kannski fást þeir alls ekki lengur. En lagerinn af þeim er þá allavega til í Staðarskála, vanti einhvern eins og eina dós!

Gunnhildur frænka tók á móti okkur klukkan að ganga ellefu, með upphituðu lasagna og kóki. Börnin, bæði mín og hennar voru auðvitað í galsafengnum endurhittingi og sofnuðu sérlega seint. Langt liðið á nótt áður en yngsti sonur minn lagði aftur augun í gremjukasti yfir að fá ekki tattú á handlegginn og jarðarber í rúmið! Í morgun... (ókey, eftir hádegið) fór ég svo að hitta Ingu og Snjólaugu og til þess að koma nú sömu leið og ég var vön þegar ég var barn, laumaðist ég yfir lóð æskuheimilisins eins og þjófur um nótt og hljóp svo niður brekkuna í átt að Svarfaðarbraut 1, fullviss um að þegar þær sæju mig út um eldhúsagluggann, liti ég nákvæmlega út eins og Julie Andrews í Sound of Music. Nema hvað að limaburðurinn var kannski ekki alveg sá sami.

Við fengum okkur kaffi og ég fóðraði litla barnið hennar Snjólaugar á súkkulaði til að vinna mér inn vinsældir, rifjuðum upp gamla tíma og skoðuðum gömlu leikföngin. Allt er óbreytt í Inguhúsi. Og mér finnst það svo gott. Því að þó að hraðinn og offorsið ætli mann stundum lifandi að drepa er alltaf einn staður sem hægt er að heimsækja þar sem allt er eins. Leið okkar Gunnhildar lá síðan í sundlaugina í Þelamörk, börnunum og okkur sjálfum til hressingar og svo var dýrðarinnar kjötbolluréttur hjá Dísu og Birni í kvöldverð. Brauðsúpa með cirka nítjánþúsund rúsínum var svo í eftirmat. Með rjóma. Og ég blátt áfram át á mig óþrif!

Nú ætla ég að fara að sofa, morgundagurinn með sól og blíðu bíður með frænkuhittingi og fleiru. Ég ætla jafnvel að bregða mér frammí Húsabakkaskóla þar sem bandalagsmeðlimir eru að iðka leiklist.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður Ása Ingvarsdóttir

Gott að heyra að þú og drengirnir hafið það gott þarna fyrir norðan

Ragnheiður Ása Ingvarsdóttir, 14.6.2008 kl. 07:31

2 identicon

Hafðu það gott þarna fyrir norðan. Bið að heilsa Emblu ef þú skildir sjá hana.:)

guðrún (IP-tala skráð) 14.6.2008 kl. 15:16

3 Smámynd: Bumba

Sæl hjartalóa litla. Alltaf er gaman að lesa "you pistles". Ef þú þarft að stoppa í Hrútafirði, þá stoppaðu á Brú, og fáðu þér bara íslenzka kjötsúpu sem er alveg stórgóð.  Er alltaf þar á boðstólnum. Ég er löngu hættur að stoppa í Staðarskála, þetta er allt orðið svo óvistlegt og óviðkunnanlegt mikið breytt. Það er af sem áður var. Viðihlíð er líka góður stoppistaður æðislega gott kaffið þar, eða var, kannski er það líka breytt, hver veit. Blönduós er orðinn eins og 29 gráðu Reykjavíkurbúlla, og feitin oft eldgömul sem steikt er úr. Bleah. Mer finnst sannast að segja að þessir misheppuðu skyndibitastaðir í Reykjavík og út um allt land ættu bara hreint og beint að taka upp aftur kjargóðan íslenzkan mat eins og var í gamla daga. En þetta fólk er líklega búið að gleyma hvernig hann var eins og öðru.

Mikið hlakka ég til að sjá þig í byrjun júlí. Ég er búinn með öll inntökupróf, sungu um 60 manns fyrir. Á samt eftir að kenna þangað til lok mánaðarins. Kem til Íslands aftur fyrsta júlí.

Hjartans kveðjur elsku Ylfa mín.

Kveðjur frá Amsterdam.

Nonni.

Bumba, 15.6.2008 kl. 08:27

4 identicon

Já vorum einmitt að ræða að til að losna við brælulyktina þarf annað hvort að lofta út í 3 ár eða bara kveikja í þarna í staðarskála!! en nú er búið að byggja nýjan kannski að þeir taki sveppina ekki með sér þangað

lufsan (IP-tala skráð) 15.6.2008 kl. 19:43

5 Smámynd: Laufey B Waage

Takk fyrir að vara mig við hrútfirðingnum. Tek með mér nesti er ég legg í norðurlandsreisu síðar í sumar. Njóttu lífsins á Dalvíkinni þinni og nágrannabyggðum.

Laufey B Waage, 16.6.2008 kl. 00:01

6 Smámynd: Gunnur B Ringsted

Velkomin á Norðurlandið. Það hefur aldrei neinn verið svikinn af trakteringunum hjá Birni og Dísu. En skyndibitastöðum sneiði ég helst hjá, tek ekki áhættuna.

Skilaðu síðbúinni afmæliskveðju til systur þinnar. 

Gunnur B Ringsted, 16.6.2008 kl. 11:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband