Stormur skekur húsið, gólfið nötrar og í dag er ég vesælt hró.

Erfinginn, þ.e. elsti sonurinn kom heim með spangirnar í gær. Það vakti furðu mína hvað mér finnst þetta lítið lýti á drengnum! Ekki svo að skilja að hann sé ekki hinn myndarlegasti piltur, -nei, það vill bara svo oft verða þannig að munnsvipur krakka afbakast þegar þau fá teinana. Hann er helaumur í munninum og þiggur verkjalyf sem hann annars gerir aldrei. En það á víst að lagast á tveim-þrem dögum.

Í morgun vaknaði ég hin hressasta í skólann, smurði nesti oní fjölskylduna og brunaði svo í siðfræðitíma. Því næst var tími í hjúkrun og þar sem ég sit alltaf fremst, (kennarasleikja) sé ég kennarann þegar hann talar, sem er mér nauðsyn. Ég skil varla fólk þegar ég sé ekki framan í það. Skyndilega verður andlit þessarar góðu konu sem mér kennir það eina sem ég sé. Allt í kring er bara flökt og ég finn hvernig röddin hennar færist alltaf fjær og fjær þangað til ég stari bara á andlitið og sé munninn hreyfast. Og ég finn að ég er alveg að detta út. Mátturinn þverr og skyndilega hverfur allt. En bara í augnablik. Smá saman kem ég til sjálfrar mín, fer fram á bað og skvetti köldu vatni í andlitið, klára tímann og hringi svo í Halla og bið hann að keyra mig heim. Ég var algjörlega máttlaus og gat ekki einu sinni borið töskuna mína útí bíl. Þegar ég kom heim, svaf ég í nokkra klukkutíma eins og grjót, sem virðist vera fylgifiskur þessara kasta. Svo fór ég ögn að hressast eftir kvöldmat og er að ná smá orku aftur.

Ég segi það satt, ég veit ekki hver andskotinn gengur að mér. Ég skil ekki þetta ótrúlega máttleysi í kjölfar þessara kasta? Og ég get ekki tengt þetta við neitt. Ég er bara orðin dálítið leið á þessu. Ekki svo að skilja að ég viti ekki að það er til fullt af fólki með erfiða sjúkdóma og auðvitað er ég ekkert nema heppin! En mér finnst svo erfitt að vita ekki hvað er að mér. Ef ég vissi það þá gæti ég a.m.k tekist á við það eftir fremsta megni. Ég fer í heilasneiðmynd, segulómun eða hvað þetta nú heitir, og línurit þann 13. október. Kannski kemur bara í ljós að það er ekkert nema marmelaði í höfðinu á mér! Það myndi útskýra ýmislegt!! LoL

Ég sit í hornherberginu og rokið skellur á veggnum. Gólfborðin nötra og rúðurnar virðast við það að springa! Ég er að vona að garðurinn hjá mér sé ekki fullur af drasli...? Held ekki. En ég á algjörlega ekki að vera að blogga, heldur gera verkefni í Líffæra og lífeðlisfræði. Svei mér ef það fjallar ekki um líffæri fruma..... eða eitthvað álíka spennandi!

Það er best að reyna að hella sér í það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórdís Einarsdóttir

Þeir hljóta að fara að finna hvað er að og svo kippa þeir því í liðinn um leið. 

Líffæri fruma... það er sko margt leiðinlegra en það!

Þ

Þórdís Einarsdóttir, 16.9.2008 kl. 22:57

2 Smámynd: Harpa Oddbjörnsdóttir

ég vona nú að þeir fari að finna hvað amar að þér mín kæra!

Annars er gaman að sjá að við erum báðar nemendur þessa dagana:) ég var að skrá mig í félagsfræði og sálfræði í MÍ í dreifnámi. Úff grítið að vera allt í einu að læra..... en ógó gaman er það ekki? Gangi þér vel !

Harpa Oddbjörnsdóttir, 16.9.2008 kl. 23:06

3 Smámynd: Aprílrós

Gangi þér vel í skólanum og já tek undir með hinum að vonum að þeir fari að finna hvað amar að heillin mín. ;)

Aprílrós, 16.9.2008 kl. 23:25

4 identicon

Batn batn batn.

Mín afkvæmi hættu að brosa þegar teinarnir voru komnir uppí. EN eftir að hafa borgað rúma hálfa milljón á hvorn kjaftinn. Þá heimtaði ég bros forever þegar teinarnir væru burt enda dýrt smæl. Og bæði tannstellin brosa daglega til mín í dag.

BATN BATN BATN 

Ég er að bíða eftir 25 metrunum. 

BATN BATN BATN

Viggómamma (IP-tala skráð) 16.9.2008 kl. 23:40

5 Smámynd: Sigríður Inga Sigurjónsdóttir

Farðu vel með þig.Kveðja frá Ísó.

Sigríður Inga Sigurjónsdóttir, 16.9.2008 kl. 23:42

6 identicon

Er búið að útiloka flogaveiki? Af henni eru til ýmis tilbrigði (t.d. án krampa) og hljóma ekki ósvipað og þessi einkenni þín. Ömurlegt að líða svona án þess að hafa skýringu, óvissan tekur á.

Bestu kveðjur,

Hulda

Hulda Hákonardóttir (IP-tala skráð) 17.9.2008 kl. 02:19

7 Smámynd: Laufey B Waage

Vá hvað ég ætti erfitt með að bíða til, eða fram yfir 13.október. En vonandi finnst hvað er að, í síðasta lagi þá. Og vonandi er það eitthvað sem hægt er að lækna, eða lifa góðu lífi með. Og vonandi verða köstin sem fæst og saklausust fram að því.

Laufey B Waage, 17.9.2008 kl. 10:16

8 identicon

Vona heilbrigðisstarfsfólk fari að finna hvað þig hrjáir...

óvissa er oft það versta, en biðin er þó öllu verri...

kveðja úr borginni

Agnes (IP-tala skráð) 17.9.2008 kl. 13:31

9 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

það er langur tíma ð bíða fram í miðjan oktober !

ég hugsa til þín elsku frænkan mín

steina

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 17.9.2008 kl. 15:13

10 identicon

Tek undir þetta með öllum hinum,vonandi finna þeir hvað er að þér kæra vinkona.Þetta er ekki nógu gott,þú hefur víst nóg annað að gera :) Hilsen fra Aarhus

Ella Rósa (IP-tala skráð) 17.9.2008 kl. 21:29

11 identicon

Þetta hljómar hreint ekki vel. Mér finnst þú dugleg og bera þig vel.

En það er best þegar í ljós kemur að eitthvað er að sem hægt er að laga. Það er svo góð tilfinning að það liggur við að það sé veikindanna virði. ;-)

Farðu varlega. Vonandi verða köstin sem fæst fram að segulómun.

Sigga Lára (IP-tala skráð) 17.9.2008 kl. 22:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband