Rassskellt af fjalli.

Í gær var yndislegur frídagur. Engin vinna, -nema náttúrulega sú sem fylgir stóru heimili, og veðrið dásamlegt. Auðvitað fer maður í fjallgöngu! Gengur uppí Ufsir, (eða Uppsir, eins og við Norðlendingar köllum þær) og  skrifar nafnið sitt í gestabókina.

Ég leit uppí hlíðar Traðarhyrnunnar um hádegisbilið í gær og ákvað að nú væri komið að því. Nú skyldi nafn mitt ritað á síður gestabókarinnar uppi við "Stöng." Ég bar mig mannalega, hringdi í Dóru vinkonu og bauð henni með en hún komst ekki. Ég tilkynnti heimilisfólkinu að ég yrði komin heim eftir þrjú kortér. Og gekk af stað í leggings, pilsi og bol. Það eina gáfulega voru gönguskórnir. Mér sóttist ferðin vel. Var bara þokkalega snögg að komast uppí miðja hlíð. En þá fór líka að verða ansi bratt. Nú,nú. Þá er ekkert annað en að skríða bara.

Ég tíndi ókjör af jurtum og tróð í vasana. Blóðbergi, lyfjagrasi og sortulyngi og bölvaði því að hafa ekki haft með mér pokaskjatta. Allt í einu fann ég að ég var með frekar laust land undir fótum. Ekki alveg sólid gránd, eins og þeir segja. Ég fór að líta í kringum mig og mundi þá um leið af hverju ég hef aldrei verið gefin fyrir hæð! Ég er sjúklega lofthrædd. Ég skorðaði mig í einhverju grjóti, tók myndir með símanum og sendi í smsi, allnokkuð ánægð með mig. Og áfram var skriðið. Nú fyrst fór ég að finna vel fyrir brattanum. Ég var farin að skríða á fjórum fótum og toga mig upp á sinutægjum og lyngi! Upp mjakaðist ég meter fyrir meter. Púff, ég var orðin geeeðveikt sveitt! Lungun í mér bókstaflega öskruðu og formæltu 20 ára stífum sígarettureykingum. Allskonar óþekkt óhljóð bárust úr öndunarfærunum, urg og surg, ýl og píp. En upp skyldi haldið! Maður lætur nú ekki smávegis mæði halda sér frá frækilegum sigrum og útsýni úr Ufsum!

Alltí einu hringdi síminn. Á símanum stóð "vaktlæknir." Ég svaraði; Halló! -og gat ómögulega leynt mæðinni. Dóra spurði á sinn hógværa hátt; ertu komin svona hátt? -ég formælti því í huganum að líklega sæist til mín úr hverju húsi í öllum bænum á meðan ég reyndi að líma mig fasta við lóðrétta jörðina. -Já já, svaraði ég. -Ertu örugglega á réttri leið? spyr hún. Ég lít í kringum mig og sé að fyrir ofan mig eru klettar, til hliðar er skriða og á hina hliðina er svo bratt að ég þyrfti að vera spædermann til að eiga séns. -Dóra! Viltu koma og hjálpa mér!! Ég þori ekki niður! Það er svo bratt! grenjaði ég í tólið og fann hvernig fæturnir á mér skulfu eftir áreynsluna við að hafa mig upp. -Þú kemst þetta alveg í rólegheitum, -svarar hún en ákveður nú samt að renna uppeftir og fylgjast með mér rúlla niður. - Sérðu stöngina einhversstaðar? Er ég ekkert að nálgast hana? spyr ég. -Nei! Svo var ekki. Einhvern vegin hafði mér tekist að koma mér í þá stöðu að í stað þess að fara upp í Ufsir hékk ég nú um það bil á miðju fjallinu!

Smátt og smátt tókst mér að fóta mig cm, fyrir cm, neðar og neðar, bölvandi og ragnandi, heitandi sjálfri mér því að fara "þvílíkt aldrei framar bara!" Með rassinn á pilsinu nánast af, skreið ég alla leið niður. Ég tilkynnti Dóru að ég hefði mátt þekkja mín takmörk. Dvergar ættu heima á láglendi!

Ég stefni ótrauð á aðra tilraun, enda er mesti skjálftinn úr mér og hræðslan að miklu leyti gleymd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það var gott að þú komst heil niður úr þessar grasaferð þinni. Dugleg ertu kona. Og góða vinkonu áttu í lækninum. Og mundu næst að fara ekki ein. Það er ekkert grín að fara í fjallgöngu.

Guðrún (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 23:31

2 Smámynd: Aprílrós

Gott að þú komst heil og höldnu heim gæskan ;) Og rétt hjá þér að drífa þig aftur þegar það hentar ;) Eins og nafna mín segir, ekki vera ein í fjallgöngu ;)

Aprílrós, 17.6.2009 kl. 08:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband