Nálar fyrir feita.

 

Það er laugardagur og yfir heimilinu hvílir ótrúleg ró. Ég sit, nýkomin heim af tónleikum með Samkór Svarfdæla með mömmu og Björgúlfi, og drekk te úr ferskri mjaðurt með fíflablómasýrópi.

 Ástæðan fyrir því hversu rólegt er, er sú að litlu drengirnir eru á Blönduósi með pabba sínum. Þar keppir spiderljónið á fótboltamóti og skilst mér að hans lið hafi tapað en „stíllinn" verið flottur! :)

Ég ætlaði sjálf á Blönduós en er ekki alveg nógu góð til heilsunnar þessa dagana svo að ég ákvað að vera heima með stóra drengnum mínum, mömmu, hundunum og kanínunum BG og Ingibjörgu, hvíla mig og hafa það náðugt. Sem ég hef gert. Ég þurfti ekki einu sinni að elda í gærkvöldi þar sem Dóra Splóra og eiginmaðurinn hennar; Jarlinn af Lundi, buðu okkur yfir í grill.

Svo fórum við, ég, mamma og  Björgúlfur minn heim þar sem sú gamla fór að lesa en ég og unglingurinn gláptum á einhverja unglingamynd sem snérist aðallega um brjóst, rassa, misheppnað kynlíf og eitthvað ámóta fyndið. Unglingurinn skemmti sér ægilega vel en móðir hans hafði eiginlega of miklar áhyggjur af öllu þessu unglingakynlífi til að geta skemmt sér.

Ég ætla að ljúka þessum lítt spennandi laugardagsskrifum með því að segja ykkur dulitla sögu úr Hraunbergshúsi frá því í gærmorgun. A.m.k finnst mér hún alveg geysilega fyndin!

Þannig er að ég, eins og svo margir aðrir, tek ekki upp ákveðið B-vitamín og þarf því alltaf að fá því sprautað í vöðva með reglulegu millibili. Þar sem ég lá í rúminu í gær með aðkenningu að andláti, kíkti héraðslæknirinn, Dóra Splóra við hjá mér með einhver lyf og hafði meðferðis þessa reglulegu sprautu mína. Þetta er rauðbleikt sýróp, hnausþykkt og þarf alveg þokkalegustu nál til að koma þessu í mann. Og því er ég vön.

Ég fæ þetta venjulega bara í vinnunni þar sem hjúkkurnar skutla þessu í mig í rapporti eða kaffitímanum. En nú varð mér örlítið bylt við. Ég hafði aldrei fyrr séð svona langa nál! Og þessari nál átti að stinga á kaf í rassinn mér!

Syringe+with+Spinal+Needle

Synir mínir sem eru nú ekkert hrifnir af því að vera sprautaðir sjálfir, þustu uppí rúm til að hafa nú ánægju af því að sjá móður sína pínda og gekk sá yngsti svo langt að reyna sitt besta til að hrista rúmið rækilega á meðan þykka, bleika leðjan var að rembast við að komast í gegnum nálina. Ég fór eitthvað að röfla í drengjunum og reyna að fá þá til að vera kyrrir með litlum árangri og til að skeyta skapi mínu á einhverjum (mig logsveið jú,) hreytti ég í lækninn að ég hefði nú aldrei verið sprautuð með svona ægilega langri nál niðrá Skýli!

 Hún var fljót til svars hún Dóra mín og sagði á sinn hægláta hátt; „það er ekki von. Það eru ekki til svona langar nálar þar. Þar er nefnilega enginn jafn FEITUR og þú!"

Þar fékk ég það. Óþvegið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þar hefnist þér fyrir að tala svona fjálglega um holduga upphandleggi héraðslæknisins á veraldarvefnum!! Það hlaut að koma að því að hún svaraði fyrir sig

Berglind (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 16:14

2 identicon

haha, nú er mér skemmt, vildi hafa verið fluga á vegg!

nanna (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 23:10

3 Smámynd: Aprílrós

ekkert smá lengd á nál ;)

Aprílrós, 22.6.2009 kl. 07:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband