Hver viltu að annist þig og þína?

Ég hef rosalega gaman af vinnunni minni. Og eftir að ég fór að vinna við umönnun aldraðra var ég ákveðin í því hvað ég vildi verða þegar ég yrði stór! Og það var sko ekki lítið að geta ákveðið það. Ég var búnað hrærast í því lengi hvað ég í ósköpunum ætti að gera. Hvaða starf myndi veita mér þá viðbót við hið ánægjulega starfsheiti "húsmóðir," að vera aukin lífsfylling og um leið tekjulind. Ég vissi alltaf að ég yrði ekki hálaunamanneskja, sama hvað ég tæki mér fyrir hendur. Áhugi minn og færni beinist einfaldlega ekki í þá áttina. Ég er ekki peningamanneskja. Vildi helst aldrei þurfa að hugsa um peninga. Eða tölur. Þoli þær ekki. Svo að verðbréfaferillinn var úr sögunni frá byrjun!

Að vera sjúkraliði er ótrúlega gefandi starf. Og vinna með öldruðum er frábær. Og ég hef ýmsa hæfileika sem nýtast mér ferlega vel í þessu samhengi. Ég er léttlynd og á auðvelt með að sýna hluttekningu þegar það á við. Og þá er hún einlæg. Ég get sungið og ég get lesið og leikið. Ég á auðvelt með að umgangast fólk. Ég kann að elda mat og ég tala skýrt og rétt með mínum norðlenska hreim. Ég er óhrædd við líkamlega nánd og er tilbúin til að ganga eins langt og ég þarf til að fólkinu sem ég vinn með líði sem best. Jafnvel þó það samræmist ekki alltaf "standard hugmyndum um umönnun."

Ég hef líka fullt af göllum sem starfið hjálpar mér að slípa. Óþolinmæðin er mér jafn eðlislæg og þörfin fyrir að næra mig, og trúðu mér, hún er RÍK! Umburðarlyndið hef ég virkilega þurft að temja mér og þetta starf er verulega góður skóli hvað það varðar. Ég er hroðalega bráðlát og hefur það nú yfirleitt verið minn Akkilesarhæll. En starfið gefur ekki mikið svigrúm til bráðlætis. Svo ekki séu nú taldir allir aðrir vankantar mínir sem bitnað geta á skjólstæðingum mínum. En það sem ég er að reyna að segja er að starf mitt er svo mannbætandi. Fyrir mig.

Ég er á öðru ári í sjúkraliðanáminu. Ætti að klára um þarnæstu áramót ef ég hefði ekki ákveðið að setja námið skörinni neðar heimilinu. Ég hugleiddi að rubba þessu af á sem skemmstum tíma því að ef eitt er víst þá er tíminn af skornum skammti í mínum heimi, en tíminn með fólkinu mínu er auðvitað dýrmætur og verður aldrei fenginn tilbaka ef ég missi mikið úr á þeim vettvangi.

Vinkonur mínar gera að mér góðlátlegt grín og kalla mig atvinnuskeinara og fleira í þeim dúr. Ég kæri mig kollótta því að ég veit, -eins vel og þær, að þó að líkamleg umhirða sé stór partur af starfinu er það samveran með fólkinu sem þyngst vegur. Hitt er bara aukabónus og öll komum við til með að þurfa einhverntíma á ævinni að vera skeind, ekki satt? Og hvern viljum við í það hlutverk?

Þá er ég loks komin að kjarna málsins. Oftar en einu sinni hefur verið sagt við mig; mér finnst það sóun á hæfileikum þínum að gera það að lifibrauði þínu að skeina, þvo og snýta! Um daginn var ég að syngja fyrir fólk og þegar ég var búin sagðist vinkona mín ein,- verulega klár og flott kona, "ég var að hugsa það Ylfa, á meðan þú varst að syngja hvern djöfulinn þú værir að gera sem einhver atvinnuskeinari! Þú átt að nota hæfileikana þína!" -Ég held að hún hafi ekki hugsað málið alveg til enda. Vegna þess að ég spyr; hvaða fólk viljum við hafa í aðhlynningu þegar við hugsum t.a.m. um það þegar að því kemur að foreldrar okkar þurfa aðstoð við allar athafnir daglegs lífs? Hverjir eiga að annast okkur þegar við sjálf þurfum á því að halda að fá alla aðstoð? Erum alfarið uppá aðra komin með allar okkar líkamlegu og andlegu þarfir? Hæfileikalaust lið sem hefur ekkert til brunns að bera annað en það að hafa hvergi annarsstaðar fengið vinnu? ER ÞAÐ ÞAÐ SEM VIÐ VILJUM? Í raun og veru? Hvernig er þegar dæmið snýr að okkur sjálfum eða ástvinum okkar?

Ég er ágæt í að syngja. Ég er ágæt í að elda og baka. Ég er ágæt í að segja frá. Ég er ágætisleikari. En ég er frábær í að annast fólk! Vegna þess að þar get ég nýtt hæfileika mína. Ég get lesið, sagt sögur, hlustað, grátið með fólki, hlegið með því, sungið með því, sungið fyrir það, faðmað, kysst, verið hvetjandi. Og þetta og svo margt annað þarf til að geta verið fær um að annast aðra einstaklinga.

En því miður er starf mitt ekki hátt skrifað í virðingarstiganum. Barn eitt spurði samnemanda minn að því eitt sinn hvað hún væri að læra? Hún sagðist vera í sjúkraliðanámi. "já, er það ekki þetta lægsta á spítalanum?" Þetta er auðvitað drepfyndið en segir samt meira en mörg orð um það mikilvægi sem umönnun þeirra sem á þurfa að halda skipar í þjóðarsálinni. Þangað til við finnum það á eigin skinni. Hvað veit lítið barn um það hver tröppugangur virðingarstigans innan heilbrigðiskerfisins er? Hvaðan koma þær upplýsingar? Frá okkur auðvitað. Foreldrum þess! Þessu verðum við að breyta.

Launin eru svo auðvitað sér kapítuli útaf fyrir sig. Við viljum ástvinum okkar það besta. Og séum við í þeirri aðstöðu að annaðhvort við sjálf eða þeir, séu uppá það komin hvernig það fólk sem sér um umönnunina er, viljum við auðvitað príma fólk! Metnaðarfullt og hlýlegt starfsfólk. Sem hefur eitthvað til brunns að bera annað en að geta skeint! Pardon my french! En með því að halda aðhlynningarstörfum í láglaunadeildinni, er þá von á góðu?

Hugsum aðeins um þetta? Ég er allavega að því þessa dagana. Ég hef sjálf bæði verið neytandi og gefandi hjúkrunar og veit hversu gríðarlegt vald starfsfólkið hefur yfir líðan þess einstaklings sem þarf á þjónustunni að halda. Geðvond og áhyggjuþjökuð manneskja, þreytt á að vera "í neðstu tröppunni" bæði launalega séð og virðingarlega séð (svo einkennilega sem það hljómar er gífurleg stéttaskipting á td. mörgum sjúkrahúsum landsins þó þar starfi einungis fullorðið og menntað fólk!) er ekki að gera góða hluti í vinnu sinni. Hún getur bókstaflega ráðið úrslitum um það hverngi ég, sem sjúklingur upplifi mína vist. Þegar við erum ósjálfbjarga og upp á aðra komin, skiptir öllu hvernig komið er fram við okkur. Það er bara svo einfalt.

Fyrirlestrinum er lokið. Hjúkk segir eflaust einhver!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

svo sannarlega rétt ylfa mín. það er óskiljanleg hversu lítið það er metið að vinna aðhlynningarstörf bæði á sjúkrastofnunum og á barnaheimilum. Við kvejum illa þá sem hafa byggt upp landið og það sem við lifum á og við tökum illa á móti þeim sem eiga að byggja upp landið á eftir okkur og annast okkur þegar þar að kemur.

einu sinn fyrir mörgum árumi var ég í sjúkraliðanámi :o)

knús inn í daginn 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 28.9.2009 kl. 05:23

2 identicon

Heyr heyr Ylfa...

Þetta voru þörf orð og takk fyrir að skrifa þau. Búin að vera sjúkraliði í 9 ár á Dalbæ og núna fékkstu mig til að elska starfið mitt ennþá meira (þurfti svosem ekki mikið til)!!!!!

Knús á þig

Dagbjört Sigurpálsdóttir (IP-tala skráð) 28.9.2009 kl. 08:21

3 identicon

Flottur pistill Ylfa og góð áminning. Auðvitað vil ég hafa afar fært fólk, eins og þig sjálfa í aðhlynningu. Ég er nú samt ein þeirra vinkvenna þinna sem hef undrast á starfsvali þínu.....oftar en einusinni. Málið er bara að þú ert svo óendanlega hæfileikarík, blessuð með gjöfum af svo stórum skala sem mér hefur fundist þurfa stærra leiksvið en litla sjúkrastofnun í Bolungavík. Því að deila hæfileikum þínum með fólki eru líka gjafir, eins og aðhlynningin. Hvort sem það eru gjafir fyrir andann þegar þú syngur, leikur eða skrifar eða gjafir fyrir líkamann þegar þú eldar. Það er gott að þú getur nýtt alla þessa hæfileika í vinnunni sem þú ert í og ég óska þér bara til hamingju með að hafa fundið það sem þú vilt gera. Aðalmálið auðvitað frá þínum bæjardyrum séð er að þú sért hamingjusöm og gera það sem nærir þig stuðlar að því :o) Þeir eru sannarlega lánsamir skjólstæðingar þínir.

Annska (IP-tala skráð) 28.9.2009 kl. 08:38

4 Smámynd: Harpa Oddbjörnsdóttir

Þennan pistil þinn ættirðu að láta birta víðar en bara hér, hann á erindi til allra að mínu mati.

Ég vona að þegar sá tími kemur þegar ég þarf á atvinnuskeinara að halda verði einhver eins og þú á vaktinni:)

Þú ert yndi Ylfa Mist:-*

Harpa Oddbjörnsdóttir, 28.9.2009 kl. 09:53

5 Smámynd: Ragnheiður

Flottur pistill.

þú ert ein þeirra sem ætti að klóna í mörg mörg eintök !

Ragnheiður , 28.9.2009 kl. 14:19

6 identicon

góð eins og alltaf, get ég ekki treyst því að þú hjálpir Dagbjörtu að sjá um mig þegar ég verð gömul

bjarnveig (IP-tala skráð) 28.9.2009 kl. 20:08

7 identicon

Heyr, heyr!  Slíkt hið sama á við um starfsmenn leikskóla, undarlegt að þeir sem hugsa um fólk á sitt hvorum enda lífsins skuli ekki vera metnir að verðleikum. Gott upphaf er ekki síðra en góður endir...

Nanna (IP-tala skráð) 28.9.2009 kl. 20:26

8 Smámynd: Ari Kolbeinsson

Frábær pistill. Það sem þú vinnur við er að gera er að gera líf fólks betra.

Takk

Ari Kolbeinsson, 28.9.2009 kl. 20:46

9 identicon

Frábær skrif og eiga erindi víðar!  Segi bara Amen :)

Birna Blöndal (IP-tala skráð) 28.9.2009 kl. 21:34

10 Smámynd: Aprílrós

Aprílrós, 28.9.2009 kl. 21:47

11 identicon

Þakka þér fyrir þennan pistill. Eins og talað úr mínu sjúkraliðahjarta. Njóttu þín áfram í starfinu, það er gaman og gefandi að vinna með öldruðum! Ég hef litið á það þannig að peningar eru ekki allt. :)

Rósbjörg Þórðardóttir (IP-tala skráð) 6.10.2009 kl. 00:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband