Lady Lagðprúð og Lafði Lokkaflóð.

Fæðst hefur nýr dúett hér í Hraunbergshúsi. Drög að honum voru reyndar lögð í sumar þegar við Hjördís Þráinsdóttir, vinkona mín, lögðumst yfir fæðingu dúettsins. Nafnið var sjálfgefið; Sítt að neðan. Hríðarnar stóðu þó yfir í nokkra mánuði en Sítt að neðan tróð fyrst upp sem aukanúmer á tónleikunum sem ég hélt í október. Held meira að segja að það hafi uppskorið meiri aðdáun en ég sjálf. Enda bætum við Hjöra mín hvor aðra upp, hún sprenglærður Mezzósópraninn og ég sjálfmenntaða raddskitsóið sem hvergi getur staðsett sig. Sítt að neðan hefur hlotið geysilega umfjöllun fjölmiðla... sem er lygi. Ein lítil frétt á bb.is hefur birst um þetta tímamótaband sem hefur, eins og segir í fréttinni, það eitt að markmiði, að ganga fram af fólki.  Og það er göfugt markmið.

Giggin sópast að okkur og ætlum við að stíga á stokk í kvöld í einkasamkvæmi og svo erum við að spila á tónlistarhátíðinni "Þorskurinn 2009" í Einarshúsi í Bolungarvík ásamt fleiri listamönnum. En gæfa okkar er ekki jafnmikil í undirleikaramálum. Til að byrja með fengum við Baldur Ragnarsson fluttan hreppaflutningum úr Reykjavík og hingað vestur og mátti segja að hann bókstaflega "rynni inní" Sítt að neðan. Svo kröftug var samkennd okkar við hann. En Baldur býr auðvitað í Reykjavík en við hér svo að hafist var handa við að leita. Það gekk ekkert of vel þar sem skilyrðin voru þau að maðurinn gæti spilað svo að segja allt, gæti risið undir okkur stöllum (sem er nú ekkert létt verk) og væri óviðurjafnanlega kynþokkafullur.

200426403-004

Einn rak á fjörur okkar, ókunnan mann einhversstaðar frá og við negldum hann. Hann kom á æfingu í Hraunbergshús og við vissum ekki betur en það væri bullandi kemestrí í gangi. Næsta dag sást reykurinn á eftir honum útúr bænum. Maðurinn hafði flúið fjórðunginn svo að undir iljar hans sá, og er ekki væntanlegur aftur í bráð. Nú voru góð ráð dýr og rétt í þann mund sem Hjördís var að skrá sig á hraðvirkt gítarnámskeið í tónlistarskóla Lýðveldisins í fjarnám, tókst okkur að þrykkja öngli í Guðmund Hjaltason. Hann er lausráðinn í bili.

Lengi lifi Sítt að neðan!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Og leyfði Gummi þér bara að birta klobbamyndina af sér? Eins og ekkert væri?

Hjördís (IP-tala skráð) 7.11.2009 kl. 19:48

2 identicon

Þið voruð bara snillingar í gær í Öldunni! Takk fyrir mig:)

Ágúst Atlason (IP-tala skráð) 8.11.2009 kl. 10:40

3 identicon

Sæl Ylfa mín mikið hlakka ég til. Ætla sko að mæta til að heyra í ykkur stöllunum.

Ragnhildur (IP-tala skráð) 18.11.2009 kl. 16:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband