Á einu ári

Í dag er eitt ár liðið síðan að pabbi minn kvaddi jarðarlífið eins og við þekkjum það fyrir fullt og allt. Og ég sakna hans. Ég finn alltaf meira og meira fyrir því hvað ég sakna hans. Þegar maður er orðinn fullorðinn og er ekki lengur í daglegu sambandi við foreldra sína finnur maður ekki endilega fyrir söknuðinum fyrr en hin ýmsu tímamót ber upp. Afmæli, jól, páskar, sumarleyfi.... Og svo einhvern vegin lokast hringurinn á árs dánardægri og tilfinningin um missinn verður varanleg. Mann langar í eitt tækifæri enn. Eitt tækifæri til að spjalla, eitt tækifæri til að strjúka vanga, faðma, horfa, hlæja með, deila með.... Þetta eru tilfinningar sem allir þekkja. Ekki bara mínar tilfinningar. Ykkar líka. Allra sem hafa misst og fundið fyrir söknuði.

Á einu ári hafa liðið jól, afmæli, páskar, tyllidagar, sumarfrí, hversdagslegir atburðir og þetta daglega líf sem rennur framhjá á meðan maður er oftast upptekinn við eitthvað allt annað en að gefa því verðskuldaða athygli. Og annað slagið bankar uppá þörfin fyrir að taka upp símann, hringja í pabba. Deila einhverju með honum. Segja honum eitthvað sem ég veit að hann hefði gaman af. Fréttir af strákunum. Kvarta undan einhverju... eða bara spjalla.

Ég fór aldrei að gröfinni hans í sumar þegar ég var fyrir norðan. Einhvern veginn er hún ekki hans staður í mínum huga. Ég veit að þar hvíla hans jarðnesku leifar, en ég veit að hann er ekki þar. Og því hef ég einhverra hluta vegna enga þörf fyrir að fara að leiðinu. Ég veit að sumir finna hjá sér þörf fyrir að fara að gröf ástvina sinna en ég hef aldrei haft hana. Ætli það sé eitthvað einkennilegt? Erum við ekki bara svona misjöfn? Við höfum bara mismundandi aðferðir til að finnast við vera nærri þeim sem okkur þykir vænt um og hafa kvatt þessa tilvist.

Ár getur verið svo afstæð tímastærð. Bæði einhvern veginn svo stutt og svo langt. En eins og í kvæðinu segir; allt fram streymir endalaust, og það kemur að því fyrr en varir að dagar okkar hinna hafi runnið sitt skeið. Kannski verða þá endurfundir, ég veit ekki alveg hvað ég held um það. Það er eitt af því sem öruggt er að við fáum vitneskju um þegar hvert og eitt okkar fer sína leið.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Rakst á þetta blogg fyrir tilviljun. Góðar vangaveltur. Á morgun er mánuður síðan ég missti minn pabba.

Guðný Anna (IP-tala skráð) 25.11.2009 kl. 10:44

2 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Sæl Ylva Mist, hef ekki komið hér inn áður að mig minnir, en má til að segja þér að ég var í þínum sporum fyrir margt löngu, pabbi minn dó í júlílok 1995 ég brotnaði niður er ég fór ein í kirkjugarðinn á aðfangadagsmorgun, með blóm og ný ljós, hef aldrei farið í garðin síðan.
Eins og þú segir þá er fólkið okkar ekki þar.
Ég saknaði hans afar, hann var og er besti vinur minn því ég tala bara við hann þegar ég vil og vantar svör við einhverju, fæ þau oftast.
 Núna elskum við að minnast allra stunda með honum.

Reyndi bara að tala við hann.

Kærleik til þín

Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 25.11.2009 kl. 10:45

3 identicon

Sæl Ylfa mín

fallegar vangaveltur - og þarfar. Góðar stundir eru dýrmætar.

kærar kveðjur, Jóda

Jóda (IP-tala skráð) 25.11.2009 kl. 11:34

4 identicon

Hæ!

Falleg hugleiðing Ylfa, er að fara í mat til Tótu í kvöld, kyssi hana frá þér:-)

Faðm til þín frá mér.

Yrsa Hörn Helgadóttir (IP-tala skráð) 25.11.2009 kl. 14:17

5 identicon

Alltaf góðar hugleiðingar hjá þér. Sammála þér í að ég finn enga þörf á að fara í kirkjugarðinn til að hugsa til minna foreldra og horfi ég nú á kirkjugarðinn út um eldhúsgluggann, þau eru í huga mér og í hlutunum sínum en ekki í kirkjugarðinum.

Bjarnveig Ingvadóttir (IP-tala skráð) 25.11.2009 kl. 22:50

6 identicon

Sæl, ég rakst hingað inn fyrir tilviljun og finnst sem þessi færlsa hafi verið skrifuð beint til mín. Ég missti pabba minn sem var minn besti vinur fyrir rúmri viku og hef einmitt verið í öllum þessum hugleiðingum

Birna (IP-tala skráð) 26.11.2009 kl. 00:50

7 identicon

Bestu þökk fyrir þessa grein.
Hún er öðrum til huggunar og uppörvunar.
Og vonandi fyrr en seinna færðu sönnun þess
fyrir þig sjálfa "að látinn lifir".

Húsari. (IP-tala skráð) 26.11.2009 kl. 03:26

8 Smámynd: Sigurður Heiðar Elíasson

gaman að rekast á svona grein í gegnum allt sem fýkur hjá í þessu (helvítis :s ) samfélagi...bestu kveðjur og samúð

Sigurður Heiðar Elíasson, 23.12.2009 kl. 04:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband