Ekkert beikon. Nei nei...

Ég er að átta mig á þeirri ógnvekjandi staðreynd að það er ekki EIN uppskrift í Gyðingamatreiðslubókinni minni sem inniheldur beikon! Ár án beikons er svo gott sem ár án andardráttar! So to speak...

En ekki þýðir að grenja Björn bónda heldur fá sér bara beikon í síðdegiskaffinu í staðinn. Eða bara þegar ég er ekki einmitt að elda kosher máltíð!

Í dag ætla ég að prófa uppskriftina:

Whole Wheat Noodle Kugel with vegetables and Cottage cheese.

Þetta þýðir svona um það bil:

Heilhveitinúðlu-kugel með grænmeti og kotasæluosti. (ég veit ekki hvernig Kugel þýðist á Íslensku- hjálp vel þegin.)

Þetta er einskonar pottréttur. Ég átti ekki heilhveitinúðlur en ég ákvað bara að nota gömlu góðu Honig makkarónurnar í staðinn. Eflaust mikil helgispjöll en þetta er bara ekki fullkominn heimur? Er það?

Innihaldslýsingin er eftirfarandi:

3 msk olía

2 stórir laukar, saxaðir

2 stilkar sellerý, þunnt sneiddir

3 stórar gulrætur gróft rifnar

2 lítil Zucchini (kúrbítur), gróft rifin

salt og nýmalaður pipar

200 grömm (cirka) núðlur eða pasta. Heilhveiti skv. uppskrift en hér förum við beint í brakandi sterkjuna!

1/2 bolli sýrður rjómi, (skv. uppskrift á hann að vera non-fat! Er ekki bara eins gott að hella þá bara útrunninni og súrri UNDANRENNU í þetta staðinn?) Ekkert non-fat fyrir mig, takk.

3/4 bolli kotasæla

1 tsk kúmenfræ

Cayenne pipar á hnífsoddi. (er í raun bragðlaus en gefur "hita" í uppskriftir. Má sleppa ef fólk vill mildann mat.

2 stór egg, samanslegin,

hálf tsk.paprikuduft til að toppa réttinn með. Ef þið eigið reykta papriku er það pottþétt ekki verra!

Nú var það svo að ég var kölluð út í vinnu með stuttum fyrirvara og það á kvöldvakt. Það þýddi að ég varð að skilja matreiðsluna eftir í höndunum á Halla og Björgúlfi. Þeir misskildu aðeins þetta með að rífa grænmetið en skáru það í grófa bita sem breytir auðvitað svolitlu. Svo núna um miðnættið þegar ég kom heim, smakkaði ég réttinn og hann er rosalega góður. Þetta minnir svolítið á Maccaronas ´n´cheese, sem er auðvitað níðþungur réttur, ekkert nema hveiti og ostur en þetta er töluvert léttara enda eini osturinn kotasæla.

Þetta er eldað á eftirfarandi hátt:

Ofninn er hitaður í 175°C og tvær msk af olíu eru settar á stóra pönnu. Látið laukinn krauma í olíunni við hægan eld í ca fimm mínútur. Þá er sellerýi bæt útí og kraumað með þangað til þetta fer að gyllast. Fjarlægið af hitanum, bætið gulrótum og kúrbít saman við og saltið og piprið. Blandið öllu vel saman. Sjóðið pasta/núðlur samkvæmt leiðbeiningum á pakka en ekki fullsjóða alveg. Það á að vera al dente! Sigtið þær síðan yfir vaskinum og látið renna á þær vatn og skolið vel. Látið síga vel af þeim með því að hrista sigtið og skaka því til svo að þið losnið við umframvatn á þeim.

Nú er þetta allt sett í stóra skál ásamt grænmetinu, sýrða rjómanum, kúmeninu og kotasælunni. Blandið vel saman og setjið að síðustu sundurslegin eggin saman við. Það eru þau sem halda þessu saman. Piprið og saltið eftir smekk.

færið þetta í stórt eldfast mót sem búið er að olíubera, látið afganginn af olíunni (1 msk) drjúpa yfir og stráið að lokum paprikudufti ofan á allt saman. Bakið án þess að hafa lok eða álpappír í ca 40 mínútur, -fer eftir ofninum, og hendið svo á borðið.

Ég ætla núna fram að fá mér meira! Það að "lifa eins og gyðingur" á ekki við hér!

noodle kugel

 Ég verð að játa að smátt saxað og stökksteikt beikon hefði algjörlega gert þetta að unaðslegri máltíð. En beikon á auðvitað ekki við þegar eldað er "kosher..."


Dagur tvö í áskorun vorri.

Annað hvort fannst fjölskyldunni minni kakan sem ég bakaði í gærkvöld svona sérstaklega góð, eða þá að ég baka of sjaldan því að allir settust hátíðlegir við borðstofuborðið með mjólkurglas og kakan hvarf sem dögg fyrir sólu. Hún var alls ekkert slæm. Stökk skorpa á henni svona nýbakaðri og alls ekki sæt. Ég hafði drussað flórsykri yfir hana sem gerði hana örlítið meira sæta en hún var furðulega djúsí, sennilega vegna eplamauksins. Mér fannst samt vanta "fyllinguna" þar sem ekkert var smjörið.... En það er nú bara ég. Ég gæti þó alveg gert þessa köku aftur en myndi líklega setja á hana súkkulaði-krem eða kannski líkjörsglassúr.  Af henni var milt kryddbragð en þó alls ekki of frekt og eiginlega pínulítið óvænt af því þetta er súkkulaðikaka.

kakan

Ég vinn vaktavinnu og verð auðvitað að taka mið af því þegar ég ákveð hvaða uppskriftir ég nota úr Gyðingauppksriftabókinni minni góðu. Í dag verður því svona meðlætisréttur sem er mögulega pólska útgáfan af rifnu káli með rúsínum, eins og við þekkjum mörg frá bernsku. Rifnar gulrætur, kál eða rófa var gjarnan skreytt með rúsínum og djúsi hellt yfir svo var þetta borið fram með steiktum fiski eða öðru tilheyrandi.

Þetta er öllu flóknara, kálið er soðið og síðan svissað með lauk á pönnu og síðan er örlitlum sykri og vel af nýpressaðri sítrónu með í restina. Þessi réttur tekur um það bil hálftíma í vinnslu og því kannski svolítið mikil fyrirhöfn en ef þetta er gott þá er það frábært. Kál er jú bæði ódýr og hollur matur og kannski dálítið vanmetið hjá okkur. Öfugt við austantjaldsþjóðirnar sem eiga svo margar leiðir til að matreiða kál að maður dáist að.

Það er mælt með því að þetta sé borið fram með pottsteik eða grilluðum kjúklingi. Sagt er frá því í inngangi uppskriftarinnar að á meðal pólskra Gyðinga séu rúsínur afskaplega vinsæll félagi hvítkálsins á alla mögulega vegu. Hvort heldur er í súpum eða fyllt með kjöti. Kálblöð fyllt með kjöti og ýmsu grænmeti eru vinsælir réttir í Austur Evrópu og þeir nota kálið gríðarlega. Það hefur eflaust bjargað þeim frá hungurfalli enda harðgerð planta, kálið.

Ég skal játa minn helsta löst en hann er að vera B-manneskja. Ég vakti alltof lengi í nótt við að horfa á; já, giskaðu nú? FOOD NETWORK! Fyrir matarfíkla eins og mig er himnasending að vera með sjónvarpsstöð sem BARA fjallar um mat. Þannig að ég druslaðist ekki á fætur fyrr en löngu var liðið á dag, nánar tiltekið hálf tvö. En á morgun byrjar skólinn og þá lofa ég bót og betrun. NOT.

Og þá var eftir að fara í sturtu, þvo þvottinn og allt þetta sem er svo leiðinlegt og svo gat ég farið að elda Pólska rúsínukálið.

1 lítill hvítkálshaus, þveginn og saxaður eða rifinn niður. Takið grófa stilkinn úr og hendið. -eða gefið kanínunni, eins og ég gerði.

1-2 msk olía

1 stór laukur

salt og nýmalaður pipar

2 msk tómat-puré eða tomat paste

1/2 bolli vatn

1/3 bolli rúsínur, ég setti mun meira og sé ekki eftir því

1-2 msk sykur

2-3 msk safi úr sítrónu.

Kálið er soðið í söltu vatni í 3 mínútur og síðan sett í sigti og látið renna vel á það úr krananum. Látið síga af því og þegar það fer aftur í pottinn er reynt að kreista umfram vatn úr með höndunum. það er gaman! Subbulegt og gaman!

olían er hituð og laukurinn saxaður smátt og svitaður í henni í fimm mínútur, eða þar til hann verður glær. Þá er kálinu bætt útí. Þegar hér er komið stóðst ég ekki mátið og setti smjörklípu saman við. Ekki stóra en aðallega til að bæta sálargeð mitt! Í um það bil fimm mínútur er þetta látið svitna og krauma og hrært vel í. Varlega þó til að þetta verði ekki grautur. Síðan er vatninu og tómatpastanu bætt útí, ríflegu magni af pipar og salti, sykurinn og rúsínurnar sömu leið, lokið á og látið krauma í 15 mínútur.

Ég verð að játa að á meðan þetta kraumaði horfði ég ásakandi á hundinn sem lá í eldhúsdyrunum, handviss um að hún væri sífellt rekandi við. Áttaði mig svo á því að kálið væri líklega orsakavaldurinn. Þegar 15 mín. voru liðnar fannst mér þetta enn svolítið of blautt svo ég hækkaði aðeins hitann og lét lokið ekki á og hrærði svolitla stund meðan vökvinn var að gufa upp. Svo kreisti ég sítrónu (heila-ég er sítrónutýpan) og lét þetta blandast vel, pipraði meira og saltaði og húrra! Þetta var tilbúið.

rúsínukálið pólska.

En svo er það spurningin, hvernig bragðaðist þetta?

Þetta er ekki slæmt. Reyndar bara nokkuð gott. Þetta er ódýr og hitaeiningaléttur réttur og ef maður notar vel af rúsínum, salti, pipar og sítrónu, kæfir maður bragðið af kálinu, líki manni það ekki. Ég ét allt eins og helvítis kötturinn svo að ég get auðveldlega komið þessu niður og finnst þetta bara hinn ágætasti réttur. Það sem er kannski einna helst "að" er að maður er óvanur þessu bragði. En auðvitað er ekkert vit í að éta alltaf sama matinn?

Ég mun allavega borða þetta upp til agna eins og annað sem ég kemst í! Baldri og Birni fannst þetta ekki gott, ég bíð eftir að Halli komi heim og segi hvað honum finnst. Björgúlfur er ekki matvandur svo hann getur eflaust borðað þetta. Næst þegar ég geri þennan rétt ætla ég að breyta honum. Sleppa tómatpastanu og setja kúmenfræ í staðinn. Kúmen og kál eiga sérstaklega vel saman.

En ég skora á ykkur að prófa þetta. Þetta er hollt og ódýrt og fínt að hvíla kolvetnaríkar kartöflurnar. Og nú fer ég í vinnuna vopnuð káli (það ku vera svo ilmgefandi) afgangs kjúklingi og grilluðu grænmeti frá í gær.

Gastronomic heaven!

IMG_3189


Áskorun hins nýja árs.

Góðir lesendur, gleðilegt ár.

Ég horfði nú á jóladagskvöld á myndina Julie and Julia og varð hrifin af þeirri hugmynd að setja sér markmið í formi matardagbókar, byggða á einni uppskrift á dag úr ákveðinni bók.

Ég renndi í gegnum matreiðslubækurnar mínar með það í huga að velja mér eina bók og elda úr henni 365 uppskriftir á ári komanda. Ég á gríðarlega margar uppskriftabækur. Big red book of tomatoes, er til dæmis girnilegur, gríðarþykkur doðrantur sem inniheldur fleiri hundruðir uppskrifta sem innihalda tómata. Indverskar uppskriftabækur, austur evrópskar bækur með rauðrófusúpum, pýrúshkjís, réttum sem fara vel með vodka og ógrynni leiða til að matreiða kál. Nigella á sinn sess, Helga Sigurðar, Nanna Rögnvalds, Gestgjafinn á einhverja metra af hilluplássi og bækur sem ömmur og mömmur hafa handskrifað eru rúsínan í pylsuendanum.

Auðvitað hefði mér þótt allra best að taka bara sushibókina stóru og kála málinu þannig. En það er ekki víst að sá með fiskofnæmið hefði elskað mömmu sína fyrir vikið. Svo hefði mátt taka indverskt. Ég er bara búin að elda svo margar uppskriftir úr þeim bókum. Franska alfræði-uppskrifta-matarbókin er svo hryllilega stór og þung, auk þess sem erfitt er að fá alla þessa osta og pylsur, foi gras og allt það rándýra hráefni.

Hvað með 1000 Jewish recipes eftir Fay Levy?

Kosher? Hvað ER það? Ég kann það ekki? Ég hef aldrei eldað Kugel, ég þekki ekkert til matseldar gyðinga. Þetta er alltof flókið og pottþétt frekar vont líka.

En ég skoðaði bókina betur. Og betur. Og sannfærðist um að þarna lægi áskorunin mín.

Svo að:

hér kemur fyrsta uppskriftin úr bókinni minni: 1000 leiðir til að matreiða Gyðinga (djók) og hún er kökuppskrift sem á nýju ári ber hinn viðeigandi titil: Low-Fat Chocolate Applesauce Cake, eða:

Fitulítil súkkulaðikaka með eplamauki.

Olíusprey

1 1/2 bolli hveiti

1/3 bolli kakó

1 1/4 tsk kanill

1/4 tsk engiferduft

klípa af neguldufti (má sleppa)

1 tsk matarsódi

3 msk bragðlaus olía (ég notaði isio-venjulega)

1 bolli sykur (einmitt! Þó það sé fitulaust þá er það sannarlega ekkert heilsu!)

1 stórt egg

1 og 1/2 bolli eplamauk (applesauce- fæst í bónus frá td. euroshopper)

Hitið ofninn í 350°F (ég veit ekki einu sinni hvað það er mikið svo ég stólaði á mínar venjulegu 180 gráður á Celsíus)

Sigtið þurrefnin saman. En setjið sykur og blautefni- olíu og egg- saman í hrærivélaskálina og þeytið þar til það verður ljóst og fluffy. Síðan þegar þeirri áferð er náð, skal setja í smá skömmtum, eplasósuna og þurrefnablönduna í hrærivélina en núna má taka þeytarann úr og nota Káið (hvíta hrærarann sem er eins og sexhyrningur með K í miðjunni) Það er nefnilega þannig að ef maður þeytir hveiti með þeytaranum verður baksturinn seigur. Og það er lummó.
Notið sleikju til að ná niður af börmunum reglulega (hljómar næstum dónalega) og síðan er þessu þrumað í form sem búið er að spreyja með olíuúða.

Ég bakaði hana í hálftíma-40 mín í hringformi. Svo tók ég hana úr og dustaði flórsykri yfir. Það er alltíkei með þessa köku en ég hef svo sem alveg líka bakað betri kökur. Og verri. Það er náttúrulega ekkert smjör...... sem er alltaf til vansa W00t

fitulítil súkkulaði og eplakaka.

Á morgun ætla ég að hafa afganga af veislufugli og hrygg í matinn og með því verður Polish Cabbage with raisins, eða hvítkál með rúsínum að pólskum sið. Þetta ætla ég svo að taka með mér á kvöldvaktina annað kvöld.....

Lifum á nöfinni, annað er bara drasl :D


janúarpælingar um ekkert

Hér eins og annars staðar snjóar og hlánar, frýs og rignir og kannski allt á sama sólarhring. Flug liggur niðri oft og tíðum og fólk mokar stéttarnar sínar tvisvar á dag. Nema ég. Ég nenni því ekki. Fátt þykir mér jafn tilgangslaust og að moka snjó. Nema ég sé nokkuð viss um að það snjói ekki aftur í bráð. Og þá liggur við að ég þurfi tryggingu frá veðurstofunni. Ég veit að ég gæti misst nokkur grömm við að moka, en ég bara nenni því samt ekki. Ég missi nefnilega jafn mörg grömm við að klífa skaflana þegar ég þarf að fara ferða minna til heimilisins og frá því. Börnin eru auðvitað alltaf ánægð með snjóinn og leika sér alla daga. Stundum fara þeir út og grafa göng og hús og taka þá kanínuna með sér til að híbýlin hafi einhvern tilgang. (ég vona að "dýravinir" af sortinni sem þarf að setja inn í gæsalappir lesi ekki um þessa misþyrmingu á kanínunni) Annað slagið gerum við, landsbyggðarfólkið okkur breið og fussum yfir hysterískum fréttunum um ófærð og hálku á SV horninu. Það er nú bara einu sinni þannig að við búum við þennan veruleika hér, en á SV horninu hefur vart snjóað svo elstu menn muni! Smá ýkjur, en þetta er nærrum satt!

Það er svosum ekkert skrítið að allt fari í kaldakol á höfuðborgarsvæðinu þegar færð gerist slæm. Fólk er oft að sækja vinnu um langan veg og á leiðinni margar hindranir. Og fólk hér röflar líka um færð og veður. En það hins vegar gerir enginn fréttir úr því. Það sem mér finnst hins vegar sérstakt er krafa fólks um að ef það komi hálka, þá beri Reykjavíkurborg einhverra hluta vegna ábyrgð á því að fólk detti ekki? Það vita allir að það er ekki hægt að salta götur þegar það er blautt. Saltið skolast bara til og verður til einskis annars en að auðvelda ryð á bílum og skemma skótau. Sandurinn er ekki mikið betri og þarf að auki að sópa upp í stórum stíl á vorinn með tileyrandi kostnaði og veseni þar sem hann rispar allt sem fyrir verður, fari hann að fjúka um þegar blæs. Ég tek því undir orð borgarstjóra þegar hann segir; við búum á Íslandi!

Er ekki frekar komið mál til að við búum okkur undir það að hér komi af og til stríðir vetrar, fáum okkur mannbrodda og jafnvel göngustafi með broddum, fylgjumst með veðurspám og gerum ráðstafanir fram í tímann ef það mun augljóslega hlána og hálka og bloti þekja umferðaræðarnar (t.a.m. með að taka strætó) og umfram allt, vera ekki á ferð á vanbúnum bílum í glærahálku? Ég hugsa að þetta sé mun skynsamlegra og svo ekki sé minnst á, ábyrgari leið til að koma í veg fyrir slys, heldur en að tuða alltaf í öllum öðrum um ábyrgð eða framkvæmdarleysi.

Stundum er bara nóg að við hugsum örlítið sjálf um hvernig öryggi okkar sé sem best tryggt. Við búum jú á Íslandi og hér er allra veðra von?


Lúkasarguðspjallið skrifaði...

Ég er aðdáandi upplýstrar umræðu. Ég nýt þess að lesa fleiri en eitt sjónarmið og hef gaman að því þegar maður lendir í hressilegu orðaskaki við fólk um menn og málefni, svo lengi sem það er í mesta bróðerni.
Netið er mín himnasending. Ég var pennaletingi og sendibréfin sem ég hef komið á pósthús yfir æfina ná örugglega ekki að fylla tuginn. Samt ólst ég upp fyrir daga netsinis.  Í dag þarf ég ekki á pósthúsið, ég bara skrifa og ýti á send. Tek þátt í heilmiklum skoðanaskiptum svo að segja daglega og les skemmtilegan og minna skemmtilegan fróðleik um vinina, ættingjana, ókunnuga fólkið, fræga fólkið og svo videre. En það er ákveðin tegund umræðu sem ég hef algjöra viðurstyggð á. Það er ákveðið net-heilkenni, sem dregur fram það versta fram í mannskepnunni (hér er orðið "skepna" einkar viðeigandi) og fróar hennar lægstu hvötum. Það er ákveðinn hópur fólks sem lifir með þessu heilkenni sínu. Og í huga mínum hef ég gefið þessum hópi nafn;

Lúkasarlýðurinn!

Hver man ekki eftir Lúkasi? Hundræflinum sem týndist á Akureyri og fólk bókstaflega bilaðist í ásökunum og blóðugum lýsingum á því hvað gera ætti við misyndismenn hans. Það er nefnilega eins og Ármann vinur minn segir: merkilegt með þessa sem kalla sig dýravini. Þeir eru svo einstaklega blóðþyrstir þegar kemur að því að slátra fólki! En síðan Lúkas fannst og hinir bardagaglöðu rétttrúnaðarmenn gátu hvílt dýravinsemdina um stund (því ekki dettur mér í hug að kalla svona fólk mannvini og tel því ólíklegt að þeir hafi verið að eyða pásu sinni í að hlynna að náunganum) þangað til næstu mál fóru að leka á netið. Og nú nýverið var það hunda"morðið" á Þingeyri. Síðast þegar ég gáði voru dýr ekki myrt. Þau dóu ekki heldur drápust. Og þau voru drepin, þeim slátrað eða lógað. En í dag, í samfélagi þeirra sem elska dýrin til jafns við menn -og jafnvel enn meira, miðað við hatursfull viðbrögðin, -eru hundar myrtir. Og við því liggja þyngstu hugsanlegu viðurlög sem hugsast getur. En það skal athugast að slíkur dómstóll er dómstóll internetsins. Og götunnar. Og í birtum dómum almennings, í bloggheimum, á Facebook og í kommentakerfi dagblaðanna á netinu, er enga miskun að finna. Dýravinirnir eru blóðþyrstir og vilja hefnd. Og helst án dóms og laga! Það er sama hvort ísbjörn er felldur eða hundi lógað, fólkið algjörlega fer hamförum. Og sparar ekki við sig í djúsí stóryrðum og drullukasti. Merkilegt þykir mér þó að þeir sem hvað hæst hafa og stærstu orðin nota, eru ekki endilega þeir sömu og beita sér fyrir góðri meðferð td.sláturdýra, eða láta sig varða þá tugi lamba eða kinda sem eru skilin eftir í vegakantinum sumar hvert, til að drepast hægt og rólega vegna þess að sá sem ók á þær tímir ekki að borga sekt eða nennir ekki að gera hlé á ferðum sínum.

En nóg af þessu röfli, hræsni er löstur. Og eiginlega óþolandi löstur. Í mínum huga er málið einfalt: maðurinn lifir á skepnum. Og við notum þær bæði okkur til ánægju og dægrastyttingar sem og til átu og efnagerðar. Þau eru nauðsynlegur þáttur í lyfjaþróun, eða er einhver af dýravinunum sem býður fram börnin sín til tilraunastarfsemi á nýju insúlíni eða hjartapillum? En að fara illa með dýr og kvelja þau að ástæðulausu er hinn mesti óþarfi og fæstir gera það að gamni sínu. Sem betur fer. Ég er stundum að spá í það hvað dýravinirnir vilja td. að sé gert við litla stráka sem fara niður á bryggju að veiða fisk? Fiskurinn kvelst auðvitað við það að fá í sig öngulinn og svo ýmist kafnar hann á bryggjusporðinum, nú eða honum er sleppt með sárið eftir öngulinn. Ætti að beita þá Lúkasarviðurlögum? Eða Þingeyrarviðurlögum? Hvað með mig sem hef drepið mýs í hundraðatali, bæði með kvalafullu eitri, í gildrum og á límmottum? Vill einhver bjóða sig fram til að taka mig af lífi án dóms og laga?

Ég lít á mig sem dýravin. En ég er eiginlega farin að skammast mín fyrir það að segjast vera dýravinur því að það er orðið samasem merki á milli þessa orðs, og að vera illa upplýstur, blóðþyrstur hausaveiðari sem drullar yfir nafngreint fólk á netinu, gjörsamlega án ábyrgðar eða minnstu hugmyndar um það hvað er á bak við "meintan" glæp. Að vera dýravinur er semsagt eiginlega orðið það sama og að vera mannhatari. Eða þannig skil ég það í ljósi glænýrra atburða sem áttu sér stað í gær og fyrradag. Og ég er loksins komin að kjarna málsins.

LOKSINS! (það vita allir sem mig þekkja að ég er ekki þekkt fyrir að vera fáorð)

 Erna Björk Hallbera (flott og laaaaangt nafn) er stúlka/kona sem ég þekki. Hún er kennari. Lítil og grannvaxin, snoppufríð og með eindæmum skemmtileg og indæl manneskja. Hún á mjög stóran vinahóp, eins og margir sem eru skemmtilegir (vinsældir fylgja gjarnan skemmtilegu fólki) og svo er hún bara svona manneskja sem fólk á auðvelt með að leita til. Hún er mannvinur. Erna er líka afskaplega góður sögumaður og hefur gaman að því að lýsa hversdeginum á ævintýralegan máta. Og, það allra besta; hún hefur sérlega kaldhæðinn húmor.

Í fyrrakvöld birti Erna status á sínum FB vegg sem virðist hafa farið fyrir brjóstið á einhverjum "vini" hennar sem tók hann of bókstaflega. Kattareigandinn Erna, hafði sumsé átt í baráttu við kattarræksni nokkurt undanfarið, sem gerir sig heimakomið í húsi hennar og endaði leikurinn á því að kisi mé fúlu pissi yfir íþróttatöskuna hennar. Sagðist Erna hafa sparkað "helvítis kettinum vælandi út á Guð og gaddinn."
Nú þekki ég Ernu, sem fram hefur komið. Ég veit því fullvel að þarna hefur hún kryddað söguna af útrekstri kattafjandans með safaríkum lýsingum. Og ég hló. Einmitt af því að þetta var svo fyndið í mótsögn sinni.

En það var sko ekki öllum hlátur í hug. Alls ekki. Fljótlega fór Erna að fá pósta frá "dýravinunum." Einhverjir bentu henni á að nú væri kalt úti og því bæri að sýna smælingjunum miskun og réttast væri að hún hringdi í kattholt og tilkynnti um heimilislausan kött. Eða hvort hún væri búin að hringja í 112? (ég ætla persónulega að vona að 112 sé ekki önnum kafið við að handsama flækingsketti næst þegar mikið liggur við) Aðrir sáu sig knúna til að senda Ernu afskaplega dónalega og ljóta pósta. Það gerðu þeir í nafni þess að þeir væru "dýravinir" og því fannst þeim þeir hafa heimild til að óska henni þess að hún frysi í hel úti í kuldanum og enginn hefði brjóst í sér til að hleypa henni inn. Nú veit ég að Erna dygði sjálfsagt ekki jafn lengi úti í frosti og t.a.m ég, sem er öllu holdugri en hún, svo að þarna virðist sem fólk sé hreinlega að óska henni dauða.  En það er allt í lagi, því að það er allt í nafni "dýraverndunnar."

Kemur nú til sögunnar maður nokkur. Lærður og að mér skilst, lögfræðimenntaður og gefur sig út fyrir að vera dýravinur. Hann sendi, ásamt fleirum, póst til Ernu, alls ekki svo ópenann reyndar, en síðan birtir hann bæði ummæli hennar, póstinn sinn og hvað honum nú finnist, á FB síðunni sinni. Og þar með mátti sláturtíðin hefjast! Hann hvatti fólk til að deila þessu áfram og það gerði fólk eins og t.d. Anna nokkur Kristine útvarpsmaður og kattavinur sérlegur. Hún kallar Ernu "vonda manneskju," á sínum status. Ég tek fram að bæði lögmaðurinn Árni Stefán Árnason og Anna kristine, eru með opinn FBprófíl og því var þetta aðgengilegt öllum sem á annað borð höfðu áhuga. Ég var því ekki að brjóta nein lög þegar ég linkaði inná síðu Árna og skrifaði hjá honum komment að auki. Það var langt og ítarlegt og lýsti gremju minni á þessari tegund "dýravina." það komu allmörg "læk" á þetta komment mitt og á sama tíma var minn FB veggur með fjörugasta móti. Öll höfum við jú skoðun!

Skyndilega fór Árni að tína út komment úr umræðunni. Síðan blockaði hann mig og mér skilst á fróðum, að á endanum hafi hann tekið allt út. Hafi hann skammast sín (sem ég eiginlega er að vona) þá hefði hann átt að leyfa þessu að standa og síðan að biðjast afsökunar á því að eiga þátt í að rífa niður mannorð konu, -kennara, sem hefur varla gerst sek um svo mikið sem geitungadráp! En nei. Hann felur sig bara. Og mér finnst það ekki í lagi! Það ER EKKI Í LAGI AÐ GERA SVONA!
Fólk þarf einfaldlega að læra að það sem sett er á netið, það er hreinlega ekki hægt að þurrka út! Og öll ógeðlsegu kommentin sem "dýravinir" leyfðu sér að setja þarna undir hjá honum, fannst honum engin ástæða til að hreyfa. Ekki fyrr en fullt af fólki var farið að gera athugasemdir, Ernu í hag.

það er óþolandi að þessi fíni samskiptamáti sé notaður á þennan hátt. Múgæsing, skrílslæti, upphrópanir og endalaus mannorðsmorð eru daglegt brauð á FB, twitter, í kommentakerfum og á bloggum. Það er eins og það sé alltí lagi að skrifa hluti sem maður myndi aldrei, aldrei nokkru sinni segja við viðkomandi augliti til auglitis. Jafnvel um fólk sem maður þekkir ekki neitt. Um hluti sem eru teknir úr fullkomu samhengi!
Annað hvort verður maður sumsé að skera vinalistann niður í 10 vini, eða skrifa eingöngu veðurlýsingar og hversu duglegur maður var við húsverkin þann og hinn daginn (án þess þó að minnast á dýrin sín, hvað þá annarra) annars á maður á hættu að lenda í Ernumeðferðinni!

Ég ætla að láta lesendur vita að fólki er fullkomlega frjálst að segja það sem það vill um mig á netinu. en það verður um leið að átta sig á því að ALLT sem skrifað er, má kalla fram aftur. Líkt og eftirfarandi dæmi sannar. það sem maður skrifar, því skal maður gangast við!

1

Ennþá er fólk ekkert að missa sig, en það er um það bil að fara að breytast og Árni Stefán hvetur til deilinga:

2

þarna var Erna búin að eyða þessum "meiðandi" ummælum af FB síðunni sinni og því kölluð skræfa. Dæs.. erfitt er að gera dýravinum til geðs. en höldum áfram að skoða...

3

jæja, nú var mér farið að ofbjóða! Bæði er fólk farið að auglýsa nafn og símanúmer, heimilisfang Ernu (hvað ætlaðist þessi sæta Tóta til að fólk gerði með þessar upplýsingar?) sem og kalla hana helvítis kerlingu! (Unnur Birna Bassadóttir þarf endilega að sjá Ernu. Kerling er nú það síðasta sem manni dettur í hug. En mér dettur hins vegar strax í hug að Unnur B.Bassad. sé að hóta einhverju? Skyldi lögreglan rannsaka það líka?)

4

OK, ok. Hér er fólk farið að alhæfa um hvað er fyndið og hvað ekki. Einnig farið að benda á að tilfinningar kisu verði sárar þegar talað sé svona um hana..... Og nú fer undirrituð að blanda sér í umræðuna.

5

6

eðlilega er þetta hér með farið að snúast upp í rugl, enda ekki tilefni til annars. Pressan og aðrir "vandaðir" miðlar voru farnir að birta ekkifréttir um þetta mál og allt orðið ótrúlega fáránlegt!

síðasta skjáskotið sem ég fékk sent frá góðu fólki sem hafði greinilega óljósan grun um að Árni þessi myndi reyna að fela umræðuna, er þó ekki það síðasta. Fleiri lögðu orð í belg og verst þykir auðvitað minni særðu hégómagirnd að þessi skjáskot sýna alls ekki hversu gríðalega mörg læk athugasemdin mín hlaut! :D

7

Bottomlænið er: Góða fólk! Andiði með nefninu. Það er ekki sniðugt fyrir einhvern að segja brandara og enda svo sem pressuslúður hvar blóðþyrstir netverjar ausa mann skít og skömmum. Og slakið í leiðinni á hræsninni. Ef við skoðum okkur ofaní kjölinn höfum við sjaldnast efni á að kalla hvort annað dýraníðinga (sem reyndar í minni sveit þýddi að e-r hefði kynferðislegt samneyti við dýr) eða saka aðra um að vera réttdræpur. Hafir þú lesandi góður ekki sjálfur aflífað dýr, þá hefur pottþétt einhver annar gert það fyrir þig og þú notið af því góðs. Og ef við á annað borð erum dýravinir, þá hljótum við að vera vinir allra dýra? Hvort sem það er fluga, mús, þrautpíndur kjúllinn á KFC, minkar, rottur, gullfiskar og ýsur! Og síðast en ekki síst, mannskepnan.

Ljóð eftir Ernu er viðeigandi í lokin:

Ábúðarfullur almúginn afskræmdur af æði,
Rýtandi og rúnkandi sínu pressu-sæði.
Níðandi nornin nöguð inn að beini,
... Innyfli hennar skulu brenna á teini.

Seint skal hún fá að svara til saka,
Tortímum henni, af nógu er að taka.
Eldurinn brakar, snarkar og hvæsir,
Fnykurinn mannfjöldann óðan æsir.

Álitamál varð hennar dauði.
Nafn hennar ómerkt af gömlum sauði.


hverskonar þrugl er þetta?

Ég skil ekki alveg alltaf Íslendinga. Einhverju sinni heyrðist hrópað "stóriðjulaust Ísland!" Svo kom von um skjótfenginn gróða og hafist var handa við að virkja til álframleiðslu. Og skyndilega sáum við ekkert nema ál. Höfðum ekkert lært af loðdýraæðinu hérna um árið! Gróðinn hefur nú látið á sér standa, amk í mínum vösum, veit ekki með ykkar.

Nú má alls ekki "skattpína" stóriðjuna sem hótar því bara að fara ef þeir fái ekki það sem þeir vilja (minnir mig á hótanir sem heyrst hafa í mönnum sem hafa mikil umsvif í litlum bæjarfélögum og breytast í freka smákrakka ef rekstrarumhverfi þeirra er ekki nákvæmlega eins og þeir vilja hafa það) og að þá hljóti allir að missa vinnuna. Djöfulsins bull! Þó að menn borgi eðlilegan kolefnisskatt þá hætta þeir ekkert framleiðslu. Það segir sig bara sjálft að á meðan stóriðjan fær afslátt af rafmagni en smábændur borga fullt verð, er hróplegt ósamræmi í dæminu. Við erum svoooo dugleg að láta þá sem standa í stórgróðanum stjórna okkur. Það mætti halda að við værum ennþá undir Dönum! Er í alvörunni einhver sem vill að Ísland verði stóriðjuparadís? Er í alvörunni einhver hér inni sem trúir því að stóriðja muni "bjarga okkur?"

LÍÚ grenjar yfir því í auglýsingum að allt fari til fjandans ef þeir sömu og hafa töglin og hagldirnar (sem eru nú ekki margir í dag) missi yfirráð yfir kvótanum sínum og virðast allsendis ófærir um að skilja að einhver muni pottþétt halda áfram að veiða fisk og græða á því. Kannski bara ekki þeir sömu. Og ekki alveg svona fáir.

Sjallarnir klúðra ágætu tækifæri til að öppdeita hjá sér í sínum flokki og kjósa áfram sinn sama formann. Og sýna svo um munar sitt móralska siðferði: ef þeim ekki hugnast útkoma "lýðræðislegra kosninga! þá bara kjósa þeir aftur! Og fá nýja niðurstöðu! Dísus!

Ögmundur er skammaður af Samfylkingunni fyrir að fara eftir lögum og að hafa einhverntíma gist á Grímstöðum á Fjöllum. Ég hef aldrei gist þar en er honum hjartanlega sammála. Maðurinn sem stóð blindfullur í pontu á alþingi situr á móti ráðherranum í sjónvarpssal og þykir bara fullgóður til að hafa skoðun á þessu. Talar bara um umhverfisvæn kvennastörf... LOL.

og ÁRNI JOHNSEN ER ENN Á ÞINGI?

Sem ég segi... ég skil ekkiokkur  Íslendinga.

Ég held við hljótum að þurfa einhverja hjálp.


Af bruðli opinbers fjár...

Ég er í Reykjavík. Sá vonda leiksýningu í gær og sat fjármálaráðstefnu Sveitarfélaganna dagana tvo á undan. Og ekki er flogið heim. Veðrið er ágætt hér en í gærkvöld var syndaflóðinu hinu síðara sturtað yfir okkur á höfuðborgarsvæðinu. Það var hálf spaugilegt að allir leikhúsgestir mættu með rennandi blautt hárið og maskarann aðeins neðar á andlitinu en upphaflega til stóð. Ég var engin undantekning að undanskildu hárinu, enda með skotthúfuna góðu sem tengdó prjónaði á mig í fyrra.

Ég er alltaf svo hugsi yfir þessum ráðstefnum. Fundarstaðurinn er Hilton hótelið og þar gista og nærast flestir fundarmenn. Afturhaldskommatittir eins og ég reyndar þvertaka fyrir að gista á þessu fokdýra hóteli á kostnað bæjarfélags sem lepur dauðann úr skel og þarf endalaust að skera niður í grunnþjónustu vegna fjárskorts. Eigi maður ekki fyrir reikningunum, gistir maður ekki á Hilton. Það er ekkert flóknara en það. Það er nú þannig að sveitarstjórnarfólk fær greitt fyrir sína vinnu. Í Bolungarvík eru það vissulega afar lág laun en enginn getur sagt að maður hafi annað en boðið sig fram til þeirrar láglaunavinnu! Ég er ekki óvön því að fá illa greitt fyrir vinnuframlag mitt svo að ég læt vera að væla yfir því. Enda barðist ég bókstaflega með svita og tárum til að komast í þessa téðu bæjarstjórn. Eins og allir sem þar sitja.

Þegar ég fer á fundi og ráðstefnur á vegum bæjarins er þrennt sem ég þarf: ferðina, mat og gistingu. Ég er svo heppin að ég verð ekki fyrir launatjóni á meðan því að ég get haft vaktaskipti og/eða verið búin að vinna af mér eða gert það þegar heim er komið. Því þigg ég ekki dagpeninga. Mér finnst það liggja í hlutarins eðli að sem starfsmaður bæjarins reyni ég alltaf að spara fyrir hans hönd. Er það ekki einmitt mitt hlutverk? Á sama hátt hvarflar ekki að mér eitt andartak að gista á Hótel Hilton á kostnað bæjarsjóðs þegar ég er stödd í Reykjavík. Ég á nóg af ættingjum og vinum sem ég hef þess kost að gista hjá. Ég er bara svona ljónheppin! Ætti ég þess ekki kost að fá fría gistingu, væri eflaust hægt að finna allþónokkurn fjölda gististaða sem er í mun hentugri verðflokki fyrir bæjarfélag sem er með eftirlitsnefndina andandi ofan í hálsmálið.

Og þá erum við komin að matnum. Fyrst af öllu, þá gleður það mig innilega að Samband íslenskra sveitarfélaga sé svona stöndugt að geta veitt sveitarstjórnarmönnum vel í mat. Og drykk. Ég hef ekki farið mjög oft á fundi sem sambandið heldur, en það hefur þó einkennt þá alla að alltaf hefur verið boðið upp á vín. Og ég hreinlega skil það ekki. Ég get vel komist af án víns í tvo daga. Mér finnst þó áhyggjuefni að Sambandið telji að við, fundarmenn, getum það heilt yfir ekki og því hljóti það að teljast liður í eðlilegum útgjöldum við þinga- og ráðstefnuhöld, að veita vín.
Ég hef stundum hugleitt að biðja bara um peninginn í staðinn og jafnvel á meðan ég reykti, að gá hvort ég mætti ekki bara fá sígarettupakka á meðan hinir drykkju vínið í boði Sambandsins, en ég hef ekki kunnað við það.

Að gamni slepptu. Mér finnst hreinlega, nú á þessum síðustu og verstu, ekki forsvaranlegt að bjóða skatt- og útsvarsgreiðendum sveitarfélaganna upp á það að þurfa að greiða tveggja rétta máltíðir á Hilton, gistingu á einu dýrasta hóteli landsins, áfengi og smárétti og þar fram eftir götum, fyrir fulltrúa sína, sem blátt áfram slógust um atkvæði þeirra einu, tveimur eða þremur árum áður. Hétu því að vinna heiðarlega og ötullega að heill og velfarnaði sveitarfélags síns. Ég hefði vonað að nú í djúpri efnahagslægð, væru hlutir eins og frítt bús, ekki partur af nauðsynlegum útgjöldum við ráðstefnuhald. Hvort sem það eru sveitarfélögin sjálf sem splæsa eða Samband þeirra. Ég veit nefnilega fyrir víst að það er þetta sem fólk er að neita sér um í kreppunni því að það eru einfaldlega ekki til peningar fyrir þessu.

Félagar mínir í bæjarstjórn hafa gert góðlátlegt grín að mér fyrir að vilja ekki gista á Hilton og vera að þessu fjasi. Ég blæs á það og held mínu striki. Aðrir geta átt það við sína samvisku hvort þeir vilji þiggja lúxusinn. Fyrir mér er þetta bara prinsippatriði. Þegar maður ætlar að vinna fyrir einhvern, þá reynir maður að gera það af heilindum. Ég meira að segja hugleiddi það þegar ég sat yfir tveggja rétta hádegisverðinum á Hilton á fimmtudaginn, hvort ég ætti ekki næst að taka með mér nesti! Aldrei að vita nema ég geri það næst. ;)

Maður á alltént að standa við það sem maður prédikar. Og ég þoli ekki þegar almannafé er sóað í óþarfa fyrir örfáa fulltrúa þeirra sem almannaféð eiga.


mjó, mjómjó, eða mjómjómjó??

Ég er í stuði!

Ég er næstum eins og segir í textanum "í stuðinu í!"

Það er komið sumar. Með hita og sól. Og ég er búin að vera með fallega gesti. Gunnsa frænka mín Birnisdóttir kom og var í nokkra dýrðardaga ásamt Birni IV, syni sínum og Rakel dóttur sinni. Þau eru skemmtilegt fólk og það var æðislegt að hafa þau. Svo óku þau á braut í morgun og ég skellti sænguverunum í vél, hengdi þau upp og þar sem þau þornuðu í heitum sólskinsvindinum, hringdi tengdó og sagði; ég kem á morgun! Þannig er það. Og það verður æði!

Ég verð reyndar alla næstu viku að kenna íslenska brauðgerð í Norrænum handverksbúðum í Dýrafirði. Þangað renna, -eins og allir vita, öll vötn og ég hyggst fljóta með og kenna dönum, nojurum og svíum að baka flatbrauð, steikja laufabrauð og gera soðið brauð og ég veit ekki hvað og hvað. Fór einmitt í Bónus í dag og keypti inn jafnmörg kíló af fitu og hafa runnið af mér sl.mánuði í "nýtt líf nr. 147." Nei, ég lýg. Ég keypti víst töluvert meira en hefur runnið af mér. En ég hef nú samt runnið! Ég er að verða alveg vaaaaandræðalega mjó. Svo mjó, að ég fór í kvöld og hljóp á Óshlíðinni í kvöldsólinni. Og það EFTIR að vera búin að synda í hálftíma í dag. Já.. líf hinna mjóu er sko ekkert letilíf! Það megið þið vita!

Markaðsdagurinn var haldinn hér í gær. Í fyrrakvöld var ógnarinnar skrúðganga, hvar bærinn, sem skipti sér uppí rauða hverfið og bláa hverfið, stormaði uppí Hreggnasagryfju og söng við varðeld, á meðan börnin stunduðu lúpínumorð.  Gunnsa frænka og börnin tóku fullan þátt. Við vorum í bláa hverfinu og ætluðum reyndar að láta okkur nægja að horfa bara á eina bláa til að taka þátt í stemmningunni en það féll í grýttan jarðveg. Veðrið var yndislegt og sömuleiðis í gær á sjálfum markaðsdeginum. 

Nú neyðist ég til að fara að sofa svo ég sofni ekki ofan í kraumandi tólgina í Dýrafirðinum á morgun. Ég þarf að sækja helling af kellum og kelling af hellum, eldsnemma svo að það tjóir ekki að vera dragúldin og geðvond í býtið. Ónei.

Frú Ringsted býður góða nótt inní eldrautt sólarlagið.....


Öfgafullt samband konu, bílsins hennar og lífsins.....

Ég er svo gríðarlega mikil öfgamanneskja. Það liggur við að ég sé eins og afmælisbarn dagsins, Bubbi Morthens. (Nú veit ég að barnsfaðir minn hinn fyrri sýpur hveljur og fær gæsahúð frá efstu hársekkjum og niður í táneglur) Bubbi er svona öfgamaður. Og hjá frúnni í Hraunbergshúsinu dugir ekkert annað en öfgarnar. Lukka mín t.d. Hún er fullkomlega öfguð. Ég er svo gríðarlega lánsöm að sumu leiti. Ég á t.d. mannvænlega drengi sem líður vel og eru glaðir og sáttir í sinni. Ég á rólegan og hæglátan mann sem kippir sér ekkert mikið upp við að eiga öfgafulla konu. Ég bý tvímælalaust á fallegasta landi veraldar og landshlutinn er ekkert til að kvarta yfir í því samhengi. Ég vinn við það sem mér finnst næstum skemmtilegast í heiminum og ég á, síðast en ekki síst, undursamlega góða vini og dýrlega ættingja.

Fullkomið.

En... þegar kemur að lukkunni hvað varðar fjárhag og veraldlegar eigur, reyni ég að hugga mig við að sumir segja sígandi lukku besta. Gallinn er bara sá að lukkan sú arna sígur endalaust niður á við! Þó ég sé í skemmtilegu og gefandi starfi, borgar það ekki nema dálitla vasapeninga. Eiginmaðurinn vinnur líka við það sem honum finnst skemmtilegt en hann gerði það að lifibrauði sínu að reka fyrirtæki..... Það er, eins og við öll vitum, ekki það arðbærasta í dag. (nema maður kunni kannski að stofna skúffu eða lepp og greiða sér arð eða einhvern andsk. Það er bara ekki hann Halli minn.) Hann vinnur því eins og sleggja í helvíti og greiðir sér fremur illa fyrir. Það er bara þannig.

Ég á bíl. Og þá er ég kannski komin að kjarna málsins. Ég held, að það sé ekki hægt að eiga annað eins mánudagseintak af nokkurri sort og þennan fjárans bíl. Það er búið að skipta um vél og allan andsotann í honum, allt kemur fyrir ekki, hann heldur bara áfram að bila. Og kosta mig stórfé. Og ég er að verða brjáluð á því. Sérstaklega þegar ég þarf svo virkilega að nota hann akkúrat núna, en kemst hvorki lönd né strönd. Þetta er ég að láta ergja mig gríðarlega um þessar mundir! Ég er farin að trúa því sem Frændi á Dalvík sagði eitt sinn: Ylfa þú ert dæmd til að vera öreigi. Svo brosti hann bara.

En ok, ok. Ég sætti mig við það. Sérstaklega þegar ég er svo ljónheppin að öðru leiti. T.d. var vinkona mín ekki lengi að bjóða mér bíl til afnota til að "skutlast" á norður í Land í rúmlega viku, eða svo. Og hvað er það annað en geypileg lukka að eiga slíka vini? Maður lifandi!?

Svo að ég mun "sigla" norður á Húnavelli í faðm yndislegra vina, næsta föstudag, og dvelja þar í einangrun frá hversdeginum og öllu hans amstri, í heitu ástarsambandi við Talíu. Og hvað er betra?

Sem ég segi. Öfgarnar eru ægilegar. En þá er líka hreyfing á hlutunum!


Á ég að fara í fýlu?

Nú er ég komin í sumarfrí. Sem er alveg rosalega fínt og ég hóf það á bústaðarferð með góðum kvinnum. En kommon! Hvað er með veðrið? Við borðuðum morgunverðinn í sveitasælu Bjarnardals í morgun og rifjuðum upp hitabylgju þar síðasta sumars á meðan hundarnir léku sér úti í snjókomunni! Og á þessu ergir maður sig. Sem er mesta rugl því að ekki stjórnar maður nú veðrinu, svo mikið er víst. Það er víst eitt af þessum fáu hlutum í lífinu sem maður getur firrt sig allri ábyrgð á. Maður þarf ekki einu sinni að hafa skoðun á þvi. Það er hvort eð er ekki hægt að kvarta til neins. Það er engin sem tekur við skömmunum.....

Ég ætla norður í land, að Húnavöllum, um miðjan júní og dvelja í rúmlega vikutíma og skrifa ódauðlegt meistaraverk. Ekkert minna náttúrulega! Karlpeningur og tík heimilisins fara ögn norðar og kíkja á Akureyri og nágrenni á meðan. Svona eins og í fyrra. Strákarnir litlu eru orðnir spenntir og hlakka auðvitað agalega til að fara að veiða og snúa ömmu Systu í kringum sig með fordekrun og ísferðum í Brynju og þess háttar. Nestisferðir í kjarnaskóg verða örugglega líka á listanum, ef ég þekki mitt fólk rétt. Svo sækja þeir mig og við komum aftur vestur í heimahagana til að taka á móti gestum og gera svona þetta almenna sumar.....stöff.

Það virkar sjálfsagt ekkert, en engu að síður má nú skutla svona eins og einni ósk í himnaföðurinn um smávegis hækkun á hitatölum? Bara þó ekki væri nema upp fyrir fimm gráðurnar? :) Bara svo að kanínan snjói ekki í drasl þarna útí garði?? Plís???

Sjáum hvort það dugar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband