Daglegt líf og örlítið amstur líka...

Ég hélt í bjartsýniskasti að vorið væri komið. Kanínan var farin að gæða sér á fíflablöðum og strigaskórnir voru æ oftar teknir til handargagns þegar við Urta gengum út í heilsubótarskyni. En hvað nú? Snjór uppí miðja kálfa, skafrenningur og allt eitthvað ægilega vetrarlegt. En huggun harmi gegn er sú, að það má alltaf gera sér vonir um að fljótlega vori aftur. Ég þakka þó fyrir að hafa ekki látið undan andartaksbrjálseminni um daginn þegar ég ólm vildi setja trampólínið útí garð.

Við fengum samt svolítin vorfiðring í gær þegar við renndum á rándýrum olíudropunum yfir í Dýrafjörð og kíktum á hænuunga vorsins og fyrstu kálfana. Engin sauðburður byrjaður ennþá en kannski verður komið lamb eða tvö næstu helgi þegar við kíkjum aftur í sveitina.

Vígsla hins nýuppgerða félagsheimilis fór fram um helgina og var glæsileg dagskrá í fulla fjóra daga! Vígsluhátíðin sjálf var á fimmtudagskvöldið og þar opnuðu dagskrána tónlistarskólastjórahjónin og spiluðu dýrðlega tónlist á klarinett og flygil. Þarna ræðir um tónlistarfólk á heimsmælikvarða og ég áttaði mig á því hvar ég sat í andtagt, hversu mikið lán það er að fá svona fólk í bæinn. Ræðuhöldum var stillt í hóf og glöddust held ég allir yfir því. Það sem sagt var, var þó mjög við hæfi og skemmtilegt að auki. Síðan lokuðum við Hjördís Þráinsdóttir dagskránni með nokkrum léttum lögum með undirspili Samma rakara. Eftir það tók hin eiginlega skemmtun við. Það var þegar fólk fékk sér snittur og drykk í glas og blandaði geði. Það er svo gaman þegar fólk kemur svona saman og þarna var svo margt fólk sem maður sér kannski ekkert alltof oft.

Á föstudaginn fóru svo litlu drengirnir mínir á barnaskemmtun í Félagsheimilinu og skemmtu sér prýðilega. Svo á laugardagskvöldið var dinner og dans með skemmtidagskrá og hef ég ekki heyrt annað en að það hafi farið dásamlega fram. Svo enduðu þessi hátíðarhöld öll með því að á sunnudaginn var slegið upp harmónikuballi. Þar hleraði ég að afi VilliValli hefði dregið og þanið sína nikku á víxl ásamt fleiri höfðingjum. Og allir dönsuðu sem engin væri morgundagurinn. Svona eiga helgarnar að vera!

Ég held að allir hafi skemmt sér fjarskalega vel og Félagsheimilið er svo glæsilegt að maður bókstaflega fellur í stafi þegar maður kemur þar inn. Ég held ég geti fullyrt að þetta er eitt það fallegasta félagsheimili á landinu. (fyrir utan Hörpuna og Hof kannski- ef hægt er á annað borð að kalla þær byggingar félagsheimili... Devil )

Eftir helgina sit ég þó uppi með eina ósvaraða spurningu. Hvenær er maður Bolvíkingur? Reykvíkingur? Svarfdælingur? Ég frétti af illum tungum (eða kannski bara tungu) sem hneyksluðust yfir því að engir BOLVÍKINGAR (með hástöfum) kæmu að dagskrá vígsluhátíðarinnar. Og þó að svona löguðu sé auðvitað hent fram í fullkominni heimótt og fávisku, fékk þetta mig til að hugsa, enn og aftur, hvenær fólk virkilega YRÐI "einhversstað-ingur."

 Þegar maður lifir og starfar í bæjarfélagi í áratug, er maður þá ekki búinn að ávinna sér þau réttindi að geta kennt sig við þann bæ? Hvað þá með börnin mín? Eru þau ekki Bolvíkingar? Teljast þeir frekar til Bolvíkinga sem fæddust hér en vilja svo ekkert með það að búa hérna? Eru ÞAÐ Bolvíkingarnir? Aldrei í lífinu liti ég á mig sem meiri Dalvíking en fólkið sem einmitt býr þar og starfar einmitt núna. Það fólk sem vinnur æskustöðvum mínum gagn á meðan ég bý sjálf víðs fjarri. Mér leiðist þessi eilífa remba.  Er fólkið sem hér greiðir skatta og skyldur ekki einmitt fólkið sem á hér virkilega heima?

Að maður skuli ergja sig á svona smámunum segir manni náttúrulega að æðruleysið er of langt undan og nú sé mál að dusta rykið af umburðarlyndinu gagnvart þeim sem hreinlega fengu ekki betri gjafir frá Guði en þetta..... ;) Halo 

Enda er þessi skilgreiningarárátta ofar mínum skilningi. Það er fínt að vera ánægður með hvaðan maður kemur, það vantar ekki.  Alveg er mér hjartanlega sama hvaðan fólk kemur eða hvert það fer. Bolvíkingar, Sandgerðingar, Íslendingar, Danir, Frakkar, Afríkanir, Ástralir, Grænlendingar..... við erum þegar upp er staðið öll nákvæmlega sama súpukjötið. Mannsbörn. Það er það sem við erum.

Páskarnir á næsta leiti og páskaeggin eru komin á vísa staði fjarri litlum krumlum. Ég verð að vinna um páskana eins og venja er en ætla samt að njóta þeirra með gestum og heimilisfólki.

Og svo, eftir páska...... ÞÁ MUN UPPRÍSA LEIKFÉLAG BOLUNGARVÍKUR!

(það getur nefnilega ýmislegt, þetta  "aðkomufólk.." W00t )

Set hér inn að lokum vídjó frá Sísí Línberg af okkur Hjördísi flytja Næturljóð úr Fjörðum á Vígslunni. S


Uppsagnir, hagræðing...

Öllu ófaglærðu starfsfólki í vinnunni minni hefur verið sagt upp. Uppsagnir áttu að taka gildi þann 1.mars, og uppsagnafresturinn að renna út 31.maí. Þar sem ég (og fleiri) fengum uppsagnarbréfin ekki í hendur fyrr en 2. mars, gildir þó náttúrulega sú regla að uppsagnarfresturinn framlengist um mánuð. Þ.e.a.s. að því gefnu að lögum og reglum sé framfylgt. Uppsagnabréfin lágu á kaffistofunni í vinnunni minni og áttum við að kvitta við móttöku þeirra. Sem betur fer hafði ég rænu á að skrifa einnig dagsetningu móttöku míns bréfs, eftir ábendingu lögfróðrar konu.

Í bréfinu stóð að uppsagnirnar væru í hagræðingarskyni. Það ætti að breyta fyrirkomulaginu á hjúkrunardeildinni og síðan gætum við sótt um þær stöður sem í boði yrðu. Það er auðvitað allstaðar verið að reyna að skera við nögl og við vitum öll að ríkið hefur saumað að Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Reyndar ekki jafn harkalega og til stóð, en samt eitthvað. Það vakti þó undrun mína að á kaffiborðinu lá annað plagg. Það voru útreikningar síðasta árs og kom þar fram að Sjúkraskýlið í Bolungarvík (sem er hjúkrunardeild og heyrir núna undir Heilbrigðisstofnun Vestfjarða) var rekið einni og hálfri milljón UNDIR ÁÆTLUN. Það má því gera að því skóna að uppsögnunum og hagræðingunni sé ætlað að greiða niður öllu dýrari pósta innan stofnunarinnar. Sjálfsagt er það nauðsynlegt.....

En hvað um það. Ekki ætla ég að fara að þykjast hafa vit á einhverjum flóknum útreikningum.

 Það sem mig snertir og mér finnst óþægilegt, er það að ennþá vitum við,-starfsfólkið, ekkert um það í hverju þessi hagræðing verður fólgin. Við vitum ekki ennþá hvaða störf verða áfram. Hvernig þeim verður háttað. Hversu mörg þau verða. Við höfum ekki fengið neinar uppslýsingar um það ennþá. Þannig að faktískt erum við; eins og í Fóstbræðrasketsinum góða "drekinn!" Okkur hefur verið sagt upp, framhaldið er okkur alveg hulið. Maður er jafnvel að verða atvinnulaus. Sem er alveg helvískt. Ég sem þarf að borga Icesafe! Og aðrar skuldir óráðsíumanna!

AAAAAAAAAAAAAAAAAAARG!!!!

 


Ófært

Það hefur verið sérstaklega mikið um að fundum á vegum ríkisstjórnarinnar með Vestfirðingum sé aflýst líkt og þessum hérna, ýmist vegna vondrar spár eða ófærðar. Ég verð eiginlega að segja að mér finnst þetta alveg ágætis áminning um það ferðaöryggi sem fólk hér fyrir vestan býr við. Sérstaklega í ljósi harkalegs niðurskurðar í heilbrigðismálum. Ég vona að þetta undirstriki nauðsyn þess að hlífa þessu landssvæði eins mikið og mögulegt er. En ég get nú eiginlega alveg gleymt því......

Ég er veðurteppt í dag eins og svo margir, en það gerir ekkert til þar sem mér liggur svo sem ekki lífið á. Ætlaði suður en sé ekki fram á að komast fyrr en á miðvikudag. Hlusta bara á Tenórana fjóra í staðin og horfi á rigninguna á milli þess sem ég þurrka upp lekann í kjallaranum. Spurning um nýtt dren? Það er nú einmitt það sem mig langar að splæsa í. Best að biðja um það í jólagjöf næst.

Annars er fertugsafmæli næstu helgi. We are getting old... W00t


60 ára, good looking.

Það er fullt tilefni til að blogga þennan mánuðinn! Í dag á nefnlega afmæli R.-faðir minn, Vilbergsson, eða Rúnar í Melabandinu eins og hann er gjarnan kallaður í daglegu tali. Held meira að segja að hann sé afmælisbarn dagsins í riti Hádegismóanna. Og ekki lýgur Mogginn. Og Rúnar er hvorki meira né minna en sextíu ára! Þar sem hann er einungis 23 árum eldri en ég, setur þetta mig í töluverða tilvistarkreppu. Svona aldurslega séð. Síðastliðin 23 ár hafa nefnilega liðið feykilega hratt!

Hér er nýleg mynd af honum, stolin af flikkersíðu Óla Kristins og er tekin á kombakktónleikum þursaflokksins fyrir skemmstu.

 

Rúnar Hartmann Vilbergsson

 

Innilega til hamingju með afmælið Pápi minn gamli og góði! Heill þér háöldruðum! :D


frækileg björgun í ársbyrjun?

Djöfull er ég orðin glataður bloggari. Tel mér trú um að ég eyði tímanum í aðra uppbyggilega hluti en þúst... það er bara rugl. Tíminn sem fór í að blogga fer bara í feisbúkk eða eitthvað.

Annars erum við að skríða undan jólum, þau voru góð. Við borðuðum of mikið. Auðvitað, það gerðu allir. Ég var að vinna um jólin en átti frí í staðin um áramót. Sem var bara fínt.  Palli Björgúlfspabbi og hans ofurkrúttlega eiginkona voru hér um áramótin með sín börn svo að þetta passaði allt saman bara ágætlega. Eyddum gamlárskvöldi með þeim heima hjá Ellu og Einari, foreldrum Palla og jólunum hérna heima með mömmu sem kom frá Dalvík. Allt bara stórfínt. Nema ógeðslega magapestin sem herjaði á yfir jólin. Hún var hreinn viðbjóður. En annað var gott.

Í gær, nýjársdag, þótti okkur Birni spæderljóni tilhlýðilegt að fara í göngutúr. Við ákváðum að ganga niðrað bryggju og fylgja svo fjörukambinum innað gamla flugvelli, hvar taka átti púlsinn á áramótabrennunni. Athuga hvort enn lifði í glæðum og sprengja nokkra kínverja í leiðinni. Urta var auðvitað með í ferð og hljóp alsæl af sér jólaspikið í kringum okkur. Og viti menn, frúin fékk líka sinn skerf af megrandi hlaupum!

Þannig var að þegar við erum komin framhjá síldarbræðslunni og erum að rölta í rólegheitum og skoða brimið, brotajárnið og rekaviðinn sé ég skyndilega mann í fjarska ganga frá gamla flugvellinum og niður í fjöru. Oh.... hugsaði ég með mér. -nú þarf ég að tjóðra hundinn. Þetta er ábyggilega einhver dæmigerður Bolvíkingur, en eins og alkunna er, fyrirfinnst ekki skepnuhræddara fólk í öllum heiminum en hér í Bolungarvík. Sérstaklega ef skepnan geltir. Ég hef aldrei fyrr kynnst jafnmiklum fjölda fullorðinna sem eru hræddir við hunda og hér. Aldrei. Ég hef verið bókstaflega úthrópuð af virðulegri, eldri konu, kölluð öllum illum nöfnum og hótað, vegna þess að tveggja mánaða smáhvolpur sem ég var með, flaðraði uppum hana. Hún varð svo skelfingu lostin að hún missti greinilega alla skynsemi!  Sennilega hefði hún tekið mér betur ef ég hefði verið með risavaxinn ísbjörn í taumi en þennan smáhvolp. Furðulegt.

 En þetta var útúrdúr.

Ég mátti brátt fá áhyggjur að allt öðru. Ég sé manninn spígspora um í fjörunni og þar sem hann var í góðri fjarlægð, lét ég vera að kalla Urtu mína strax inn í taum. heldur fylgdist bara með því hvert för mannsins  væri heitið. Og mér til ómældrar skelfingar tók hann skyndilega á rás, beint útí brimið! Hann gekk eins og fjandinn væri á hælum hans og skeytti engu um öldurnar sem skullu á honum. Guð minn góður, hugsaði ég. -Það er nýjársdagur. Svartasta skammdegið. Maðurinn eflaust timbraður og örvæntingafullur þunglyndissjúklingur og ætlar að ganga í sjóinn.

Ég byrjaði að hlaupa með spæderljónið á hælunum sem skildi hvorki upp né niður í því hvað manneskjan væri að gera útí sjó? Enda blessunarlega laust við það að vita hversu grimm þessi veröld getur verið og ómeðvitað um sálarkvalirnar sem rekur fólk sjálfviljugt útí dauðann. Sérstaklega á tímamótum. 

Nú verð ég að gera hlé á frásögninni og minna lesendur á, að ég er ekki hlaupamanneskja. Ég hleyp ekki. Það er svo einfalt. Nema það sé geitungur á eftir mér. En nú hljóp ég eftir grýttum fjörukambinum og hefði eflaust unnið mér inn veðrðlaun, væri einhver tímataka í gangi.

Í gegnum hugann fóru undarlegar og sundurlausar hugsanir. T.a.m. "það stundar engin sjósund í Bolungarvík!" Og "hnoða þrjátíu sinnum, blása tvisvar, hnoða þrjátíu, blása tvisvar." og á meðan sá ég mér til takmarkalausrar skelfingar að maðurinn var farinn að veltast um í öldurótinu í bægslagangi. Ég fór að leita að símanum í vasanum á meðan ég hljóp og reyndi að hringja í Halla. Hugsaði með mér að hann yrði sneggstur að koma á vettvang, og að auki bæði góður sundmaður og vel að sér í fyrstu hjálp. Það þarf líka töluverðan líkamsstyrk til að draga fullorðna manneskju á þurrt?! Djöfull! Hann svaraði ekki! Þá er það bara 112! Sjitt, þeir verða aldrei komnir í tæka tíð! Sveitt og móð reyndi ég að velja einn einn tveir. Það gekk bara andskotann ekkert af því að ég er með svo asnalegan síma með snertiskjá og gerði ekki annað en að byrja að hringja í einhver númer sem spruttu fram á skjáinn hjá mér. Þegar þarna var komið við sögu sé ég að maðurinn heldur sér á floti. Hann hálf liggur fram á eitthvað sem sýndist vera drumbur. GUÐI SÉ LOF!! Hann er hættur við! -hgusaði ég á hlaupunum! Hann vill LIFA!!!

Ég gafst upp á 112 og var nú farin að nálgast nóg til að ég gæti hrópað hvatningarorð til þessa ógæfumanns sem greinilega hefði fyrir andartaki síðan ekkert séð úr augunum en þá hræðilegu leið að ganga í sjóinn! ÉG ER AÐ KOMA! BÍDDU! HALTU ÞÉR FAST! ÉG ER AÐ KOMA! Í huganum var ég farin að forgangsraða: ok Ylfa, fyrst þarftu að henda af þér úlpunni, láta spæderljónið (sem hljóp rétt á eftir mér, létt sem vindurinn) fá símann og segja því að hringja í 112. Mundu Ylfa að druknandi fólk berst á móti! Hvað þá ef það hefur ákveðið druknun sína sjálft! Ég fálma uppí hálsmálið á úlpunni og byrja að renna niður og finn að ég er kófsveitt. Nú voru bara um 100 m eftir og ég fer að fikra mig af kambinum og niður í sjálfa fjöruna. Skyndilega sé ég að risastór alda kemur og ætlar að hremma hinn aðframkomna mann! ÓNEI! Ég herti hlaupin...

Mannfjandinn stendur skyndilega uppi á öldunni!!! Hann líður glæsilega áfram á drifhvítum öldufaldinum. Á FOKKING BRIMBRETTI!  Á NÝJÁRSDAG. Í JANÚAR. Í BOLUNGARVÍK. Á ÍSLANDI!!!

HVernig í andskotanum átti mér að svo mikið sem DETTA slíkt í hug??

Við Spæderljón fylgdumst sneypt og pínulítið ÖSKUREIÐ með þessum brimbrettagæja í smástund. Hann veifaði okkur en við veifuðum ekki á móti. Tveir selir stungu upp kolli sitthvoru megin við hann. Spæderljónið, sem á til kaldhæðinn húmor, þrátt fyrir að vera einungis níu ára, hreytti út úr sér milli samanbitinna og risastórra framtannanna; huh, hann ætti frekar skilið að vera með tvo ljóta steinbíta þarna sitthvoru megin við sig.

sport sem hæfir við Islandsstrendur?

Svo röltum við uppað áramótabrennunni.

Ef grannst er skoðað á þessari mynd, má sjá þúst í briminu. Það er semsagt Beach Boy að bíða eftir annarri stórri....

Þess má geta að við græddum reyndar á þessari ferð. Við fundum tvö forláta fishersvigskíði sem einhver hafði kastað. Við auglýsum hér með eftir bindingum á þessi skíði sem smellpassa spæderljóninu. Líklega laun frá almættinu fyrir að hafa þó verið öll af vilja gerð......

Gleðilegt ár!


Dísa móðursystir er ekki á feisbúkk!

...og hún segist vera orðin dauðleið á því að opna bloggsíðuna mína og sjá alltaf Ásbjörn og helvítis hrósið! (reyndar hefur Dísa alveg örugglega ekki sagt helvítis hrósið. A.m.k. mætti ég þá örugglega ekki hafa það eftir henni! Tounge )

Ég hef ekki haft frá sérlega miklu að segja. Og þegar maður er á feisbúkk þá einhven vegin virðist maður fá útrás þar fyrir alla svona "smáfréttamiðlun."

 Feisbúkk er snilld. Mér finnst æðislegt að renna í gegn um færslulistann og skoða mannhafið svona eins og það vill birtast okkur hinum að innan. Sumir skrifa alltaf persónulega statusa. Þessa sem eru á þessa leið: svaf geðveikt illa í nótt! -eða: yndislegt kósýkvöld framundan með prinsessunum mínum/prinsunum og disneymynd í sjónvarpinu. - Jafnvel: Gunni bróðir er að jafna sig vel eftir gyllinæðaraðgerðina og þarf núna bara að passa að halda hægðunum mjúkum. (viðurkenni að hafa aldrei séð þessa síðustu, en hún færi klárlega í flokk með persónulegu feisbúkkurunum!)

Svo eru það Pólitísku feisararnir. Meðvituðu þjóðfélagsþegnarnir sem lesa allar fréttir og linka í gríð og erg. Þeir eiga það til að vera harðorðir og óvægnir í kommentum sínum þegar þeir ná að læsa klónum í pólitískan andstæðing sem er með allt klárlega niðrum sig og er kominn með það í fjölmiðla. Þeir samt linka sjaldan í greinar sinna eigin flokksbræðra eða skoðanasystra nema algjörlega gagnýnislaust. Þessi tegund feisara er svolítill þverskurður af flokkakerfinu í heild sinni. Maður heldur með sínum flokki, burtséð frá því hverjir eru í honum eða hvernig hann hagar sér.

Síðan eru það kaldhæðnu og skotheldu feisbúkkararnir. Það er týpan sem gefur aldrei neitt upp um sjálfa sig en ígrundar hvern status mjög lengi. Statusinn þarf að vera fyndinn og helst kaldhæðinn. Hann má aldrei endurspegla tilfinningar viðkomandi eða raunverulegar hugsanir. Af því að það er ekki mjög flott. Þessi týpa feisara myndi frekar deyja en að skrifa eitthvað á þá leið að hann fyndi til með svöngu börnunum í Afríku og bæði fyrir þeim. Af því að það er hreinlega ekki nógu hnitmiðað eða írónskt. Það er ekki svo að þessi tegund feisara hafi ekki tilfinningar? Hreint ekki! Hann bara vill ekki tapa kúlinu, það er allt og sumt. Og feisbúkk er einmitt staðurinn til að rækta upp gott kúl.

Svo eru það "börninmínerulífmitt, feisararnir." Það eru þeir sem pósta sextíu myndum af börnunum sínum á dag. Þeir skrifa jafnmarga statusa um allt það sem börnin þeirra taka sér fyrir hendur. Hvort sem það er að hjala, tala, slefa, kúka, fá bólusetningu og grenja, fá bólusetningu og grenja ekki, lemja einhvern á leikskólanum eða taka utan um háls foreldrisins og hvísla fallegum orðum í eyra þess. Og foreldrið hleypur, yfirkomið af tilfinningum og stolti, lóbeint í tölvuna og póstar nýjasta undrinu á feisbúkk. Þessir feisarar fá yfirleitt svolítið mörg komment. Flest eru þau svona: aaaaawwwwww.... -eða: æi, sætamúsiiiiin!! -stundum: oh.. ég man þegar hann Þröstur minn var á þessum aldri. Þá.... og svo frv.  Þessi tegund feisara fær mann stundum til að hugsa: þykir mér EKKERT vænt um mín börn? Er ég ómöguleg móðir??

Ofurkonurnar á feisinu eru líka sér kapítuli. Það eru þær sem pósta tólf sinnum á dag gríðarlega löngum og afloknum verkefnalista sem þær hafa með sínu görl-páveri einar getað leyst. "vaknaði úthvíld og æðislega hress klukkan fimm í morgun og hljóp tólf kílómetrana, kom síðan heim og bakaði bollur og vínarbrauð áður en ég vakti englana mína og elsku manninn minn með fiðluspili og kertaljósum og átti með þeim yndislega morgunstund áður en þau fóru öll útí vinnudaginn með þriggja hæða nestisboxið með heimatilbúnum kræsingum. Setti í tvær vélar, handþvoði fjögur ullardress og var mætt kortéri of snemma í vinnunna þar sem ég sló í gegn með æðislegum nýjum vinaleik sem ég var að hanna og föndra við langt fram á nótt. Í hádeginu borðaði ég lífrænt spelt og skolaði því niður með grænum spírulínudrykk og skrifaði á öll jólakortin. Svo vann ég eins og brjálæðingur til fimm, sótti börnin, fór í Hagkaup, bakaði sautján smákökusortir og síðan reiddi ég fram fjögurra rétta kvöldverð. Síðan æfðum við fjölskyldan saman íslenska glímu ásamt þjóðlegum dönsum í stofunni fyrir háttinn. Við erum ógeðlsega hamingjusöm fjölskylda......." Þessari feisbúkkkonu langar mann iðulega að senda sprengju í pósti. En maður þekkir af eigin reynslu að þetta var eini dagurinn á árinu sem var svona æðislegur og því óþarfi að amast við því.....

Svo er það enn ein tegundin. Það er forward-feisarinn. Það er þessi sem póstar öllum fjöldastatusunum. Setur inn langa og ógnandi statusa á borð við: ef þú lætur þennan status ekki vera uppi hjá þér í amk klukkutíma, er þér skítsama um aldraða, fatlaða, krabbameinsveika, svöngu börnin í Afríku, mömmu þína, börnin þín og hefur enga sjálfsvirðingu. Þú ert sjálfselskur og ferð beint til helvítis!

Sjálf tilheyri ég öllum þessum feisbúkkpersónuleikum. Ég flakka úr því að vera pólitísk, persónuleg, ofurkonuleg, og stundum meira að segja forwarda ég líka... Af og til virðist ég ekki eiga mér neitt líf annað en börnin mín og dett jafnvel svona spari, í að reyna fyrir mér í kaldhæðnu og markvissu deildinni.

 Það er í raun bara ein tegund feisara sem ég fyrirlít í hjarta mínu og vona að ég komi aldrei, aldrei til með að tilheyra. Það er hinn lítt geðslegi og skinhelgi kærleiks-statusa fíkill. Og ekki misskilja mig! Ég hef ekkert á móti skemmtilegum tilvitnunum, góðri speki eða heilræðum. Það er ekki sú tegund sem ég á við. Það eru þessir örfáu sem skipta dögunum niður í skitsófranískar færslur þar sem dagur eitt hefst á fyrirbæn og henni fylgir fast á eftir smá pistill um kærleikann og hversu mikið við séum nú öll systkin á þessari jörð og þurfum öll á brosi, kærleika, faðmlagi eða hverju öðru sem er að halda. Síðan, til að maður hreinlega þurfi að gubba sykurmolum, -koma heilræði og spekitilvitnanir um ljósið og andann og hreinleikann sem mannssálinni sé nú nauðsynlegur.

Og maður kyngir sýrópinu eftir lesturinn og reynir að halda klígjunni niðri, vitandi það að á degi tvö,... jáh.. þá kveður við dulítið nýjan tón. Þá hafa kærleiksstatsusarnir vikið fyrir viðbjóðslegum skítmokstri yfir nafngreinda aðila, hvar fólk er rakkað niður á ógeðslegastan hátt og því engin gaumur gefinn að gærdagurinn var einmitt dagur fyrirgefningar og kærleika? Jæja! hann er líka löngu liðinn!  Þessi tegund feisbúkkara vill gjarnan gefa sig út fyrir að vera hressa og skemmtilega týpan. Og umfram allt afar þenkjandi persóna. En gerir sér enga grein fyrir því að á feisbúkk lesa allir hvern mann maður hefur að geyma. Hvernig á maður að getað innprentað börnum sínum, sem eru jú öll á feisbúkk, að einelti sé ekki líðandi. Að maður rakki aðra ekki niður?  Að það sé ljótt að segja ljóta hluti um fólk um leið og maður eys óhróðri yfir nafngreinda einstaklinga?

Ég er ekki að segja að maður eigi ekki að hafa skoðun! alls ekki. En það er bara svo agalegt að láta hanka sig á helgislepjunni og illgirninni með ekkert á milli, nema kommentakerfið!

Dísa, ég vona að þú komir á feisbúkk!!


Hrós vikunnar fær ÁSBJÖRN!

... fyrir að gera þjóðinni það ljóst hversu háð við erum listsköpun og þá um leið, listamönnum. Ég er ekki viss um að fram að þessu hafi hinn almenni borgari áttað sig á því að án menningar og lista er ekkert þjóðfélag. Ég hef stundum sjálf hugsað sem svo; jæja.. eru nú til peningar til að borga listamannalaun en ekki til að veita fólki lögbundna þjónustu? Huh! Svo hef ég snúið mér að sjónvarpsskjánum.... Mótsögn í því. Vandræðalega mikil mótsögn. Og ég hugsa að flestir hafi áttað sig á því sama þegar hetjan hann Ásbjörn sagði þessa óborganlegu setningu: af hverju fær þetta fólk sér ekki bara vinnu eins og aðrir. Hann er náttúrulega styrkþegi þjóðarinnar. Situr á Alþingi. Þannig að ég hef kosið að trúa að þetta hafi verið einskonar "öfug sálfræði" hjá dúllunni honum Ásbirni. Hann hafi í raun ætlað að láta okkur sjá ljósið.... :D

Upp hefur sprottið áköf umræða sem hefur svipt hulunni af augum mínum. Á hverju ári þarf fólk sem framleiðir list að hlusta á okkur hin gagnrýna styrkveitingarnar. Og við gerum okkur enga grein fyrir því hvað við fáum fyrir þessa styrki í staðinn. Hvað í raun við erum að græða! Listamannalaun eru ekki há. Og það er mikið sem við fáum í staðinn. Standi svo listamaðurinn ekki við sínar framleiðsluskuldbindingar eru launin hans tekin af honum. Sem er ekkert endilega gert við alla launþega? Er það? Fá hæstaréttardómarar ekki örugglega alltaf sín laun þó sumir þeirra séu fullkomlega vanhæfir? Bara svo dæmi séu tekin?

Ég held í raun að listamenn geti verið Ásbirni þakklátir og í raun ætti að splæsa á hann svona eins og einum mánaðalaunum úr styrkveitingarsjóðum listamanna, bara til að þakka honum fyrir að opna augu okkar.

 

 


Slátur gerir mig of æsta!

Fjúff....Haustið er tími annríkis og í mínum huga er annríki aðallega tengt matargerð J

Ég tók níu stk.slátur í gær og næst liggur fyrir að ráðast í kjötið og gera bjúgu. Sauð svið í kvöldmat í kvöld, slátur í gær og nú bíð ég bara eftir hjartaslaginu! Einum of þungur matur svona tvo daga í röð.... Enda hefur orðið brjóstsviði öðlast alveg nýja merkingu...

Það fór náttúrulega ekki framhjá neinum að göngin opnuðu með pompi og pragt á laugardaginn.

Ég mætti á ferlega flotta opnun á sýningu af því tilefni á laugardagsmorguninn á Náttúrugripasafni Vestfjarða. Þar gat að líta sögu Óshlíðarinnar, gerðar hennar og viðhalds í máli og myndum auk sögu gagnagerðarinnar. Það var búið að rigga upp svaka gangalíkneski inní salnum sem hægt var að ganga í gegnum og sjá um leið hvað Ósaflsmenn hafa unnið mikið þrekvirki með þessari smíð sem göngin eru.Það er dásamlegt að aka göngin, lóðbeinan veg beint í Hnífsdal. Innandyra. Svolítið skrýtið þó. En mér finnst ég gasalega fljót í gegn en tímasparnaðurinn er ekki nema fjórar mínútur hjá mér miðað við hámarkshraða alla leið. Ég var 14 mínútur frá Bolungarvík og til Ísafjarðar en nú er ég nákvæmlega 10 mín. En það skiptir ekki nokkru máli hversu lengi þetta er farið, heldur öryggið.

Eins og segir í lesendabréfi Ólafs Halldórssonar og Gunnars Jónssonar  á bb.is þá vildu nú allir Lilju kveðið hafa . Þær voru hér auðvitað ófáar silkihúfurnar sem heiðruðu okkur með nærveru sinni og ræðuhöldum á sjálfan opnunardaginn og eins og oftast er, töluðu þeir kannski mest sem minnst að málinu komu.  En þannig eru hlutirnir bara. Ekki heyrði ég þó minnst þennan dag í opinberum ræðuhöldum á nöfn þeirra sem þó lyftu líklegast hvað þyngstu Grettistaki, nefnilega því Grettistaki að fá Bolvíkinga flestalla til að skrifa undir þá kröfu að fá göng alla leið en ekki í bútum eins og fyrirhugað var á þeim tíma.

 Það krefst mikils dugnaðar að fá samfélagið sitt til að þjappast saman sem eina heild. Hún Pálína Vagnsdóttir í félagi við Berg Kárason hóf undirskriftasöfnun og útvegaði á annað þúsund slíkar. Valrún, vinkona mín og Danmerkurfari stóð fyrir hópakstri og messugjörð. Finnbogi Hermannsson, okkar gamli og góði fréttamaður Rúv á Ísafirði lét aldrei sitt eftir liggja til að minna á hættur Hlíðarinnar og var oft sakaður um neikvæða fréttamennsku að launum, flökkuprestur nokkur messaði á Hlíðinni í tví eða þrígang og svona mætti lengi halda áfram. Grímur Atlason, Soffía Vagnsdóttir og þeirra fylgismenn voru ötulir talsmenn ganga alla leið.( Ég hefði nú persónulega frekar viljað sjá skattpeningum mínum varið tjah.. td. undir rassinn á Pálínu hingað vestur heldur en í flugmiða undir silkihúfur að "sönnan..")

Allt þetta fólk vissi og skildi að án baráttunnar fengjum við ekkert nema stutta gangabúta. En það þarf kjark til að láta í sér heyra utan eigin eldhúss og þann kjark sýndi þetta fólk.  Og ég held að þegar við rifjum þetta upp, þá getum við horft bjartari augum til framtíðar en okkur þykja endilega efni standa til í augnablikinu vegna þess að fyrst við gátum þetta, Bolvíkingar, þá getum við áorkað öllu því sem við viljum!Leyfum svo silkihúfunum að halda sínar hátíðarræður, það er nú einu sinni þeirra starf. En gleymum aldrei afreki OKKAR. Því að það vorum við, heimamenn, sem áorkuðum svo óendanlega miklu. Og það munum við. Og við blásum á raddirnar sem segja: huh, hvað er verið að mylja undir svona andskotans útnárarassgat sem leggur upp laupana eftir kortér hvort eð er... og það á kostnað okkar skattborgara.. mímímí.. jaríjaríjarí...Og það í miðri kreppu....blabla...

Við lítum ekki á þessi göng sem einhvern bitling, rándýra vegaframkvæmd á röngum stað á landinu!

NEI! Við lítum á þessi göng sem sjálfsagða samgöngubót. Og löngu tímabæra. Og við þurfum ekki að beygja höfuð okkar í þakklæti fyrir einum eða neinum. Vegna þess að á meðan Vestfirðingar óku á ófærum fjallaslóðum með sprungið á þremur og púströrið einhversstaðar útí vegkanti í miðju Djúpinu þá voru þeir að greiða sína skatta og þá að fullu! Því að hér var uppgangurinn. Og hér sköpuðust verðmætin. Og héðan hurfu þau líka á örfárra annarra hendur í aðra landshluta . Og ennþá óku Vestfirðingar á varadekkinu á handónýtum og grýttum malardrulluvegum. Og það líka í hinu svokallaða góðæri.  Sem varð nú varla vart hér vestra, eða hvað?  Það er því löngu tímabært að fólkið hér fái að minnsta kosti að fá að ferðast að heiman og heim við sömu aðstæður öryggislega séð og aðrir landsmenn. Því að við borgum líka okkar skatta!

Og hana-andskotans-nú!

Dísus.. held ég ætti að fá mér bara salat næstu daga. Þessi kjarngóði sláturmatur gerir mér svo heitt í hamsi.

opið bréf til Þrastar Óskarssonar frkvstj FSV.

Þröstur á þessa grein:  http://bb.is/default.aspx?pageid=26&NewsID=153959

Kæri Þröstur.

Verandi starfsmaður Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, Bolungarvík, -þinn undirmaður, verð ég nú að fagna því að búa í frjálsu landi. Annars gæti ég líklega ekki skrifað þennan pistil án þess að óttast um vinnu mína.

  Málið er nefnilega það, Þröstur, að mér brá svo heiftarlega í brún við að lesa greinina þína á bb.is í dag að mig setti hreinlega hljóða um stund. Og allir sem  mig þekkja, vita að til að svo sé, þarf gríðarlega mikið til. En vitanlega, -og sem betur fer, jafnaði ég mig fljótt og fékk málið á ný. Og þá get ég alls ekki orða bundist Þröstur!Þar, eins og ég skil skrif þín, - varar þú fólk við því að geysast fram ritvöllinn með illa ígrundað efni sem aðeins verður til þess að skapa óþarfa óróleika, og eðlilega spyr ég; hjá hverjum? Og eftir lestur greinarinnar fæ ég ekki betur séð en að meintur óróleiki sé mestur hjá yfirmönnum Heilbrigðisstofnunnar Vestfjarða. Hvers vegna? –kannt þú þá að spyrja? Jú, vegna þess að greinin er að mínu mati blátt áfram löðrandi í hroka.

Hroka í garð þeirra sem hafa efasemdir um ákvarðanatökur stjórnenda Heilbrigðisstofnunnar Vestfjarða. Og eins og þú veist Þröstur þá er hroki varnarviðbragð óttans og óöryggisins.Ég vitna í grein þína:„Að reka heilbrigðisþjónustu í núverandi umhverfi er krefjandi þar sem ýmis sjónarmið eru uppi og mis háværar raddir með einu réttu lausnirnar. Illa ígrunduð hlaup ýmissa aðila í fjölmiðla eru ekki til þess fallin að gera starfið auðveldara og því miður skapa þau óþarfa óróleika.“Nú er það svo Þröstur, að ég geri mér fulla grein fyrir því hversu krefjandi starf þitt er. En það getur ekki verið hafið yfir gagnrýni frekar en störf annarra, er það?

Og ég leyfi mér að vitna áfram í grein þína:

„Skemmst er þess að minnast að fyrrverandi læknir á Flateyri ákvað að flytja til Bolungarvíkur en þar með lagðist af föst búseta læknis á Flateyri.

Þú fyrirgefur Þröstur þó ég spyrji: hvað kemur það málinu við? Hefur hinn almenni þjónustuþegi í Bolungarvík eitthvað með það að gera? Er það á ábyrgð okkar hvar læknar annarra sveitarfélaga kjósa að búa? Ég veit að þetta hlýtur að hljóma mjög eigingjarnt Þröstur, en eins og málin standa, höfum við bara engan áhuga á búsetu annarra lækna en okkar eigin. Því skil ég alls ekki hvað þetta kemur málinu við. Þó að starfshlutfall fyrrum læknis á Flateyri hafi verið orðið það lítið að hann hafi ekki séð forsendur fyrir því að hafa þar búsetu, er það algjörlega óskylt þessu máli. Ekki satt? Eða er þetta einhverskonar aðdróttun? Og gegn hverjum þá

Og áfram gerist ég svo djörf að grípa niður í greinina þína:

„Hugmyndin er sú að læknisþjónusta í Bolungarvík sé veitt með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi og því geti sá tími sem læknir er þar verið breytilegur eftir eftirspurn hverju sinni.“

Þetta er nú gott og blessað. Og vil ég byrja á að spyrja þig Þröstur, getur þú mögulega gefið mér upp hver þörfin fyrir lækni verður í Bolungarvík, tjah... segjum bara til ársloka 2011? Nei, mér finnst þetta mjög einkennileg framsetning. Ég trúi því heldur alls ekki að hagsmunir Bolvíkinga séu hafðir að sérstöku leiðarljósi í þessu máli, því miður. Til þess hefur allt þetta sameiningaferli virkað of ómarkvisst eins og það kemur mér fyrir sjónir.  En það er bara mín persónulega skoðun og upplifun. Vonandi á hún eftir að breytast.

Nú þarf ég enn og aftur að grípa niður í grein þína Þröstur:

„Hér á norðanverðum Vestfjörðum hefur þróunin verið á sama hátt. Lítil einmenningslæknishéruð hafa verið sameinuð stærra læknishéraði, í kjölfar þess að áðurstarfandi læknar létu af þjónustu. Með því hefur verið unnt að tryggja áframhaldandi læknisþjónustu á viðkomandi stöðum.“

Þegar ákveðið var að minnka viðveru læknis hér í Bolungarvík hafði starfandi læknir í Bolungarvík ekki ákveðið að flytja. Það er vitað mál.  Hvað varð um þörfina fyrir lækni i Bolungarvík og á þessum  minni stöðum ? Hvarf hún með því að einstaklingurinn í starfinu flutti? Er með þessu verið að segja að gefa í skyn að beðið sé með óþreyju eftir að læknar „einmenningslæknishéraða“ hafi sig af spenanum svo hægt sé að hefja hagræðingaraðgerðir? Er mögulegt fyrir fávísa konu sem mig sjálfa, að fá þetta útskýrt á mannamáli?

Og veistu Þröstur, nú skal ég fara að stytta mál mitt, þú ert kannski að verða leiður, en ég bið þig að fyrirgefa, ætlun mín er hreint ekki að láta þér leiðast, en ég verð samt sem áður að fá að vitna aðeins meira í greinaskrif þín:

„Ekki verður séð á gögnum Heilbrigðisstofnunarinnar í Bolungarvík né Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða hver nákvæm viðvera læknis í Bolungarvík hefur verið undanfarin ár. Ekki er því hægt að fullyrða með neinni vissu um hve mikið viðvera lækna á heilsugæslustöðinni breytist nú. Hins vegar er ljóst að læknir mætir nú alla morgna virka daga á stöðina.“

Veistu, það er sama hvernig ég velti þessari málsgrein fram og tilbaka, mér finnst hún jafn spes fyrir því. Er þetta aðdróttun? Eða þýðir þetta að ekki hefur verið nógu skilvirkt viðveru-skráningarkerfi á Heilsugæslustöð Bolungarvíkur? Voru þeir læknar sem unnu í fullu starfi í Bolungarvík að „svindla?“ Ég held að ég þurfi enn og aftur að biðja um nánari útskýringu því að ég trúi því ekki að þú sért að vega að starfi lækna þeirra sem starfað hafa hér í Bolungarvík á liðnum árum. En þetta hljómar svo sannarlega þannig og því held ég að til að forðast misskilning væri fjarskalega gott fyrir okkur Bolvíkinga að fá að vita við hvað er átt, nákvæmlega!

En, þú segir að í dag sé að minnsta kosti starfandi læknir við Heilsugæslustöðina í Bolungarvík alla morgna, eins og það sé útaf fyrir sig einhver framför, eftir því sem ég kemst næst eru það fjórir læknar sem skipta því starfi með sér. (Og auðvitað upplifum við núna að þetta hljóti að vera fjarskalega óvinsælt starf, þar sem þú ýjar að því í grein þinni að enginn læknir af þó öllum þeim sem starfi á Ísafirði vilji búa hérna.) Það þýðir væntanlega að ef að ég sem móðir með veikt barn, þarf að koma á stofu daglega í mínum tæplega þúsund íbúa heimabæ,  -segjum td. bara í eina viku, þá fyrirhitti ég fjóra mismunandi lækna? Er það gæðaþjónustan sem þér finnst að þið séuð að veita? Því að þá erum við, Þröstur, svo hjartanlega ekki á eitt sátt um það, hvað eru gæði í heilbrigðisþjónustu! Og velji ég mér einn þessara lækna sem heimilislækni, segjum bara sem svo að ég kjósi þann sem er mest bókaður, það er varla neitt óeðlilegt við það? Þá get ég einungis pantað tíma hjá honum einn ákveðin dag í viku? Er það ekki svo? Enn og aftur Þröstur, fjarskalega leggjum við misjafna merkingu í þetta orðalag þitt:“ að læknisþjónusta í Bolungarvík sé veitt með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi.“ Mér finnst það nefnilega slök þjónusta.

Og þá er það heimaþjónustan. Blessuð heimaþjónustan sem er svo mikilvæg. Hversu undarlegt má teljast að ekki hafi tekist að manna í stöðu sjúkraliða við heimaþjónustu í Bolungarvík? Ha? Og það á þessum síðustu og verstu tímum atvinnuleysis? Sótti enginn um? Samdist ekki við umsækjendur? Tja.. maður spyr sig? Vegna þess að ég sá jú að það var auglýst í þessar stöður. Og þetta er verulega leitt með tilliti til þess að þegar sameinað var þá fengu Bolvíkingar það loforð að stafshlutfall við heimaþjónustu yrði aukið.

Og ég vitna aftur í þig Þröstur, eins og biluð plata:

Skólahjúkrunarfræðingur skipuleggur og stjórnar skólahjúkrun á starfssvæði Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Í Bolungarvík munu hjúkrunarfræðingur heilsugæslustöðvarinnar og skólahjúkrunarfræðingur hafa samstarf um þetta. Með þeim hætti er tryggt að skólahjúkrun í Bolungarvík verði með þeim hætti sem faglega er talið réttast hverju sinni.“

Rosalega flott og faglegt orðalag. Mjög smart. En mér þætti samt bara einfaldara að fá að vita sem móðir barna við Grunnskólann í Bolungarvík;  hver er skólahjúkrunarfræðingur Grunnskólans? Hvað heitir hún/hann?  Fer það kannski bara eftir því hvað telst „faglegast hverju sinni?“

Og má ég svo leggja fyrir þig eina spurningu, Þröstur? Hvert var starfshlutfall fastráðins hjúkrunarfræðings við Heilsugæslustöðina í Bolungarvík þegar þær stöllur þrjár, Íris Sveinsdóttir, Hulda Karlsdóttir og Sigrún Gerða skrifuðu þessa „illa ígrunduðu grein sína?“ Eftir því sem þú skrifar á bb.is núna, fylgir hjúkka þeim lækni sem kemur þann daginn til Bolungarvíkur, og ekki misskilja mig; rausnarskapurinn er ekki illa þeginn. Alls ekki! Ég bara veit ekkert hver það er! Og mig fýsir að vita, hvert var starfshlutfall hennar/hans, þegar greinin þeirra birtist? Ástæðan fyrir því að ég spyr er einföld: þú ert að draga sannleiksgildi skrifa þeirra þriggja kvenna, stórlega í efa. Og því finnst mér aðeins sanngjarnt að vita hvort forsendur séu mögulega dálítið „breyttar?“

Jæja Þröstur, nú ætla ég alveg að fara að hætta í bili. Hreinlega af því að þetta er orðið svo langt hjá mér, ekki af því að brunnur  forvitni minnar sem vaknaði við greinaskrif þín sé tæmdur, vel má vera að ég haldi áfram þegar ég hef tíma fyrir lengri og ítarlegri pistil. Af nægu er að taka!  En að lokum vil ég bæta því við að „nú þegar samdráttur og aðhald er alls ráðandi í ríkisfjármálum er brýnt að fara vel með opinbert fé,“ svo ég noti bara þín eigin orð. Það hef ég sem starfsmaður við aðhlynningu reynt samkvæmt minni bestu vitneskju. Ég get með góðri samvisku sagt að mitt starfsframlag og starfsmetnaður er alls ekki ofgreitt af stofnuninni og svo held ég að sé með marga ríkisstarfsmenn sem starfa hjá þér. Þú hlýtur að vera mér sammála með það ekki satt? Þrátt fyrir það þykir mér vænt um starfið mitt og sinni því af alúð og af metnaði. Og þess vegna þykja mér sumar „hagræðingafregnanna“ frá Ísafirði stundum hreinlega ótrúlegar. Og neita eiginlega að trúa sögusögnum á borð við þær að það hafi verið til peningar til að greiða fólki sem sagt var upp, biðlaun í ár og þar fram eftir götum á meðan starfsfólk þurfti að taka á sig ýmsar skerðingar. Fáránlegt, ekki satt? Enda líklegast um sögusagnir að ræða þar sem hvert mannsbarn sér að engin hagræðing er fólgin í svona löguðu.

Þröstur, ástæða þess að ég skrifa er sú að mér er annt um Bolungarvík og mér er annt um okkur öll sem búum hérna. Þess vegna er mér alls ekki sama um það hvernig þessum heilbrigðismálum er háttað hér. Og ég leyfi mér að birta þennan pistil þrátt fyrir að hafa lesið eftirfarandi varnaðarorð þín: „Vestfirðingar þurfa að standa saman um þá góðu þjónustu sem veitt er hér á svæðinu og ekki láta úrtölufólk og svartsýnisraus ráða för.“  

Við erum áræðinlega tilbúin að standa með hverjum þeim, Þröstur, sem lætur sig óskir okkar einhverju varða.  A.m.k ég! En ég veit ekki til þess að eftir þeim hafi verið leitað! Leiðréttu mig endilega ef ég fer með rangt mál, en ég held að allar ákvarðanir sem teknar hafa verið við þessa „sameiningu“ (fallegt er nú annars orðið sam-eining útaf fyrir sig) hafi verið teknar án minnstu hugsunar um það hverjar óskir Bolvíkinga eru. Að minnsta kosti hafa öll fundarhöld og eða kannanir þess efnis farið algjörlega framhjá undirritaðri.

Á mitt heimili hefur komið inn blaðsnepill nokkur, mig minnir að það hafi verið í vor eða snemmsumars, þar sem mér var tilkynnt um sam-eininguna og hvernig opnunartímum yrði háttað í nánustu framtíð. Án undirritunar, ef ég man rétt. Það er eina kynningin á þessum mikilvæga gjörningi sem mér hefur borist frá höfuðstöðvum HSV, Ísafirði sem almennum borgara.

Ég er hvorki úrtölufólk né með svartsýnisraus. Ég er starfsmaður FSV-Bolungarvík, bæjarfulltrúi í Bolungarvík og þjónustuþegi HSV.

Virðingarfyllst,Ylfa Mist Helgadóttir


almennar hugleiðingar sem þróast í aðra átt....

Einhvern veginn er það þannig að þegar sumarið hefur verið svona langt og yndislegt, er maður frekar í stakk búinn til að taka mót vetrinum. Amk. ég. Mér þykir ekkert svo slæmt að það skuli vera farið að snjóa í fjallstoppana eða að laufin fjúki í norðanrokinu. Sem er bæðövei, íííííískalt! Þá bara dregur maður upp DVD diskana með BBC þáttunum og leggst yfir sjónvarp. Ég horfi nánast aldrei á sjónvarp. En detti ég í þáttaraðir, þá verð ég að horfa á þær. STRAX. Ekkert eitthvað einu-sinni-í-viku-vesen fyrir mig takk. Þá er ég löngu dottin út. Ég verð að útvega mér alla seríuna og horfa á hana í striklotu, eða ekki. Og um helgina horfði ég að Bleak House, þætti frá BBC eftir sögu Charles Dickens. Og þetta var maraþon. Frá hálf níu að kveldi til fimm um morguninn. Ekki einu sinni wc-pása. Gaman!

Litli fatlaði hvolpurinn, "jazz hands," er að braggast, reyndar hefur smá afturkippur komið í hann aftur svo að ég teipaði saman á honum framfæturnar í morgun. En hann er farinn að geta reist sig upp á framfótunum en afturlappirnar eru ennþá í tómu böggli og tjóni. Greyið er samt svo mikið krútt að ég á örugglega aldrei eftir að getað látið hann frá mér. Hann fer amk ekki að heiman fyrr en hann er orðinn alveg vel gangfær og sjálfbjarga.

Næstu helgi verða Óshlíðargöngin opnuð og það eiga að vera heljarinnar hátíðarhöld. Það verður hlaupið í gegnum göngin, minnisvarði afhjúpaður, skemmtun, örugglega óhófleg ræðuhöld (þó að allir segist bara ætla að halda stutta ræðu) og svo er matur og ball í íþróttahúsinu um kvöldið. Sjálf verð ég að vinna og sé bara um að halda uppi stuðinu á Skýlinu í staðinn. Ekki verri stemning þar en annarsstaðar, svo mikið er víst. Ég get nánast svarið fyrir það að ég myndi frekar vilja eyða laugardagskvöldi í vinnu en á balli. Svona er nú skemmtanaáhuginn orðinn hjá mér!

 Mér finnst svo leiðinlegt að vera innan um drukkið fólk að ég tek alveg út fyrir það! Að fara ótilneydd á öldurhús, ball eða eitthvað djammpartý er algjörlega útúr kortinu hjá mér. Og verst af öllu er þegar fólk undir áhrifum finnur sig knúið til að leggjast í símann og hringja í mig. Þá fyrst kastar nú tólfunum í leiðindunum maður! Úff... En sem betur fer þarf ég ekki að umgangast ölvaða frekar en ég kæri mig um. Tók mig samt smá tíma að fatta það. Hálfa ævina, ef svo má segja. Enginn stórviðburður ævi minnar hefur ekki á einhvern hátt litast af hegðun drukkinna manneskja, utan fæðingu barna minna. Brúðkaup, fermingar, jarðarfarir, stórafmæli... alltaf hefur einhver sem ekki þekkir eða ræður við mörkin komið því þannig fyrir að hegðunin gleymist ekki. Og það er svo sorglegt. Og mér fannst alltaf sem ég væri fórnarlamb þessara aðstæðna, (sem maður auðvitað er upp að vissu aldursskeiði) en smátt og smátt hef ég lært að forðast þessar aðstæður. Þvílíkt frelsi þegar ég áttaði mig á því að ég þurfti alls ekki að umgangast drukkið fólk.

Alkinn er vissulega sjúklingur. Það er ekki það. Ég veit vel að enginn vill eyðileggja líf sitt með brennivínsdrykkju, skandölum og vanlíðan.  Það er agalegt að sjá líf fólks, tala nú ekki um þeirra sem manni þykir vænt um, fara í súginn og verða "verðlaust." Og umhverfisáhrifin eru verst. Áhrifin sem veikindi alkans hafa á nærumhverfi hans. Allir sem þurfa að líða vegna drykkjusýkinnar. Allt ruglið sem sagt er í óminnisþoku og sjúklingurinn man jafnvel ekki eftir sjálfur, en hefur samt brennt gat á sál aðstandendans. Svikin, lygarnar, óheiðarleikinn, ístöðuleysið.... Allt þetta markar aðstandendur svo mikið að þegar yfir lýkur eru þeir sjálfir orðnir fárveikir. Þess vegna held ég að maður haf alveg fullan rétt til þess að segja; Nei, ég kæri mig ekki um þetta. Ég vil þetta ekki. Þetta er ekki, og skal ekki vera partur af minni tilveru. Og skella á.

Þetta blogg fór  í aðra átt en stefndi, eins og gerist svo oft :)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband