Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Hér má ekki láta staðar numið

A föstudaginn síðastliðinn hittust rétt rúmlega tuttugu manns fyrir framan stjórnsýsluhúsið í Bolungarvík til að mótmæla því að A listinn hafi sprengt bæjarstjórnarsamstarfið á forsendum sem okkur þóttu vægast sagt loðnar. Þetta voru ekki skipulögð mótmæli, bara brýn þörf okkar til að láta vanþóknun okkar í ljós undir eins. En betur má ef duga skal. Fjölmargir hafa haft samband við mig og fleiri sem þarna voru og vilja gjarna fá tækifæri til að gera  sýnilegan.

Þess vegna blæs ég til nýrra og kröftugra mótmæla næsta miðvikudag klukkan hálfsjö. Eg ætla að ganga frá húsi Soffíu Vagnsdóttur og vona að hún fylgi mér, niður að hinu nýuppgerða húsi Gríms Atlasonar bæjarstjóra. Þaðan mun svo leiðin liggja að ráðhúsinu.

Kannski geng ég ein kannski með fleirum. Vonandi með sem flestum.

Þessi ganga verður ekki farin til að mótmæla einum né neinum persónulega. Hún verður gengin til að mótmæla því að hægt sé að ganga framhjá gildum atkvæðum okkar kjósenda og splundra virkri bæjarstjórn á forsendum sem mér þykja engan veginn skýrar né haldbærar sem rök. Eg mun líka ganga til að sýna samstöðu með Soffíu Vagnsdóttur sem hefur verið borin þungum sökum, með Grími Atlasyni sem hefur verið öflugur talsmaður þessa litla bæjarfélags sem hefur undanfarin tvö ár verið að endurheimta brot af því sem ég vil kalla sjálfsvirðing.

Þetta er framtak mitt og nokkurra einstaklinga sem vilja ekki láta við staðar numið. Öllum er frjálst að vitna í þennan pistil minn, öllum er frjálst að hafa á honum skoðun, sem og þessari göngu, en á þessari síðu þarf fólk að koma fram undir nafni. Annars verður athugasemdum eytt.

Eg vona að sem flestir gangi með mér á miðvikudag klukkan hálf sjö að kvöldi.

Ylfa Mist.


Því miður

Því miður varð ég að taka skoðanakönnunina úr umferð. Þegar ég settist við tölvuna sá ég skyndilega skilaboð fá moggabloggsmönnum um að að einhver/einhverjir væri/væru að hamast við að kjósa úr sömu tölvunni með því að eyða "cookies" og kjósa aftur og aftur. Ég þarf varla að taka fram við hvort svarið var verið að merkja. Að sjálfsögðu hafa moggabloggs-starfsmenn IP-tölu viðkomandi. Þegar þeir höfðu samband, buðust þeir til að senda viðkomandi viðvörun en ég læt kyrrt liggja, enda var þetta til gamans gert og ekki áræðanleg heimild. Mér nægir að fólk sem stendur í svona viti upp á sig skömmina......

En áður en farið var að fikta við könnunina stóðu úrslit svona:

Já 31.4 %

Nei 68.6 %

En spurt var: Ertu sátt/sáttur við að A-listinn hafi sprengt meirihluta samstarfið.

Fyrst ekki er hægt að gera könnun, synd að fólki sé ekki treystandi, (nú veit maður að sumir nota öll bolabrögð í bókinni ;o)) -verðið þið bara að svara í kommentakerfinu. Vinsamlegast undir nafni. Nafnlausum kommentum verður eytt. 


Farið að loga....

Þar sem fólk er farið að skammast perónulega hvort í öðru við síðustu færslu mína tel ég nokkuð ljóst að kominn sé tími á aðra færslu! Komment eins og "þú ert sjálfri þér til skammar," hugnast mér ekki enda finnst mér mál að vanda sig.

Skoðanakönnunin virðist eiungis vera að afhjúpa það sem ég átti fyllilega von á, það ríkir lítil sátt um nýjan gjörning A-lista manna. Ekki einu sinni innan listans því að þriðji maður á lista hefur sagt sig af honum eftir því sem ég best veit. Viðkomandi endilega leiðrétti mig ef ég fer með rangt mál.

Einar Björgúlfsafi er að laga til þríhjól fyrir yngsta drenginn, Baldur, sem er ekki alveg tilbúinn á tvíhjólið enda með stutta fætur móður sinnar að arfi. Verið er að bíða eftir nýjum dekkjum á garminn hans Birnis fagureygða úr Erninum, Fálkanum eða hvað þessar búðir nú heita og þá eru allir klárir á hjól. Verst að það er komið hold á vorið í bili en það má hjóla fyrir því.

Björgúlfsafi og amma eru einmitt búin að bjóða okkur í kjötsúpu í kvöld, þessar elskur. Svo er gospelkórsæfing. Helginni að ljúka, vinnuhelgi hjá mér svo að ég fann lítið fyrir helgi helgarinnar. Fór reyndar í sund í gær en var svo seint á ferðinni að ég missti af heitappttsumræðunum. Hefði viljað vera stödd þar þegar vinur minn og ofurkrúttið hann Falur mætti laugardags-sauna-ísafjarðar-köllunum og tók við þá spjall. A von á að það hafi bubblað vel í pottinum þar!

 


Skoðanakönnun, mótmæli og fleira

Eg skellti inn skoðanakönnun endilega takið þátt!

Annars tók ég þátt í mótmælum áðan. Við hittumst, á þriðja tug manna og stóðum saman fyrir framan stjórnsýsluhúsið í Bolungarvík til að lýsa vanþóknun okkar á því að A-listinn hafi sprengt bæjarstjórnarsamstarfið við K-lista, vegna einhverra óframinna glæpa. Vegna "hugsanlegra hagsmunaárekstra."

Mótmælin voru fámenn enda ekki skipulögð. Þarna voru tuttugu og fjórir-fimm (og þá tel ég börnin ekki með :)) og það merkilega er að þarna voru líka sjálfstæðismenn. Eg átti ekki von á því en það er bara mín eigin takmörkun. Að sjálfsögðu er hugsandi fólk innan sjálfstæðisflokksins sem ekki getur skrifað undir svona fígúrugang.

Og nú er Elías Jónatansson orðin bæjarstjóri Bolungarvíkur. Elías hefur aldrei sýnt mér annað en ljúfmennsku, ég þekki hann sáralítið og hann hefur alltaf sýnt fyllstu kurteisi hvar sem ég hef til hans séð. En ég öfunda hann síður en svo af því að þurfa að feta í risavaxin fótspor glæsimennisins Gríms Atlasonar. Eg held að fáir menn geri annað en að týnast í þeim djúpu skóförum. Eg kenni líka í brjósti um hann, sem og aðra sjálfstæðismenn í nýrri bæjarstjórn Bolungarvíkur, fyrir að finna sig knúna til að "leggjast í eina sæng" með fólki sem gat ómögulega starfað með þeim áður. En svo virðist sem að í augum einhverra sé bæjarstjórastóllinn og plássið í kringum hann, svo eftirsóknarvert hnoss, að það sé fyllilega þess virði að kyngja gömlum væringum, kaktusum og nöglum fyrir það eitt að verma sætin. Sá tilgangur einn að hafa völd, helgar meðulin, jafnvel þó það sé óbragð af þeim.

En að allt öðru og skemmtilegra máli. Eg fékk styrk frá Menningarráði Vestfjarða til að halda leiklistarnámskeið fyrir unglinga í Bolungarvík næsta vetur. Það er gleðilegt því að það finna sig ekki allir krakkar í fótbolta, sundi eða skák. Eg hlakka mikið til að hefja þetta starf með krökkunum sem ég vona auðvitað að fjölmenni á námskeiðið.

En nú ætla ég að fá mér stutta leggju, það er næturvakt frammundan.

 


Það dásamlegasta af öllu..

...hefur gerst!

Sumarið er komið! Og svo um munar! Við eyddum yndislegum degi í Dýrafirði hjá Höfðabændum þar sem hlý gola blés mildilega í kátu sólskininu. Það var veður til að vera á bolnum og í gúmmítúttum. Dáðumst að lömbunum, borðuðum lömbin frá í fyrra marineruð og grilluð, knúsuðum hvolpana sem eru í eigu tveggja tíka bæjarins og komu með tveggja vikna millibili. Mánaðargamlir loðboltar, sex stykki og síðan tveggja vikna, blind kríli, fjögur stykki sem var yndislegt að knúsa. Þeir eru allir gefins. Otrúlega fallegar skepnur, brúnir, svartir, hvítir, rauðir....í öllum litum nema grænum og bláum! Blandaðir af labrador, íslenskum og border collie. Guð, hvað mig langaði að stinga einum inná mig og fara með heim. Halli sagði þvert nei. Og þá sjaldan hann segir nei (og meinar það í raun og veru!) þá gef ég orðlaust eftir. Næstum orðlaust :o)

Við gleymdum myndavélinni heima en ég ætla að fara aftur um helgina og taka þá myndir af hvolpunum og lömbunum, Dýrafirðinum og fólkinu. Vorinu eins og það leggur sig!

Golan hér í bolungarvík andar ögn kaldar en í Dýrafirði, bæði huglægt sem og í raun. Skuggi á fallegu vori þessi stjórnsýslulegi vandræðagangur sem nú ríður yfir. Fólk hringir annarsstaðar af á landinu og ég fæ svona meðvirkniskast vegna þess að mig langar ekki til að láta aðra hlæja að bænum sem ég bý í. Eg hef talað af stolti um bolvíska stjórnsýslu og dásamað í annarra eyru. Nú hringja þeir sömu og gera stólpa grín að mér. Fólk auðvitað fylgist með þessari steypu og fær í mesta lagi kjánahroll. Eg var á Isafirði í gærkvöldi og þar lenti í í hálfgerðu einelt vegna þessa vægast sagt vandræðalega ástands! Eg fékk mér kaffi í pappamáli á Edinborg og bláókunnugir hestamenn sem voru að fagna þar einhverju, líklega hesta......einhverju, fóru umsvifalaust að spyrja mig útúr. Einn spurði mig með háðsglotti á vör hvort ég ræki fyrirtæki. Nei sagði ég, algjörlega grunlaus. -Nú, þá hlýturðu að vera í bæjarstjórn!!! baulaði hann og allir hlógu. Hverju átti ég að svara? Synd að við skulum vera orðin aðhlátursefni eftir að hafa verið komin þokkalega vel á kortið eftir hroðalegan niðurtúr þar áður.

Hér eru hugleiðingar manns sem mér var bent á að lesa.

Gleðilegt sumar, kæru lesendur, farið vel með ykkur og munið, ekki blanda saman stjórnmálum og afkomu ykkar!!!

Urta smarta


Höfuðsóttarrugl

Ja, það má með sanni segja að það eru stormar í bolvísku kortunum í dag. Meirihlutinn hvellsprunginn og ástæðurnar hinar einkennilegustu, eins og þær líta út fyrir mér sem hef mína litlu vitneskju úr fjölmiðlum. En ég er bara lítið brot af hinum sauðsvarta almúga, pupulsins barn, ef svo má segja og skil náttúrulega lítið í hinum pólitískt flókna heimi.

Eftir því sem má lesa get ég dregið saman í eftirfarandi:

A listi, rýfur samstarf við K lista. A listi var stofnaður í kringum konu sem klauf sig úr sjálfstæðisflokki vegna ágreinings. Nú hefur komið upp ágreiningur viðkomandi klofningsflokks við samstarfsflokkinn. Það er skrýtið. En sum erum við auðvitað þannig innréttuð að samstarf á ekki vel við okkur yfirhöfuð.

Ástæður: Oddviti K lista á hluta í fyrirtæki. Það er dauðasynd eins og hver maður getur séð. Enda aldrei nokkurntíma verið til siðs að bæjastjórnarmenn í litlum bæjum séu viðloðandi fyrirtækjarekstur. Æi.. ef frá eru taldir örfáir áratugir EG veldisins sáluga, bæjarstjórnarmaðurinn sem á eða átti fyrirtækið Gná og nokkrir í viðbót. Held reyndar að í minnihluta sitji reyndar fólk sem rekur fyrirtæki en það er nú kannski ekki jafn banall ágalli.

Téð fyrirtæki í eigu m.a oddvita K lista undirritaði nýlega samning við Ósafl, sem lýtur að m.a. eftirfarandi: starfsfólk sem munu vinna að gangagerð og eftir því sem ég best veit, flóðavarnargarð mun allt gista, borða og yfirhöfuð nýta alla þjónustu hér í Bolungarvík. Það hlýtur einnig að teljast dauðasynd að koma því þannig fyrir að allt þetta fólk dvelji hér en ekki á Ísafirði??

Heyrt hef ég því fleygt frá fleiri almúgamanneskjum.- sem mér sjálfri, að annar aðili í bæjarstjórn hafi einnig átt tilboð í þetta verk en þar sem þessar upplýsingar koma eins og áður segir frá almúgafólki skal ég ekki fullyrða um sannindin..... held þó að umræddur aðili sitji í minnihluta f.h. sjálfstæðisflokks. Ekki veit ég um það hvaða refsingu sá aðili mun hljóta fyrir að vilja draga starfslýð Ósafls til Bolungarvíkur. En auðvitað má kalla þetta sérlega vogað "múv."

Nú. Þá erum við komin að því sem ég, -og fleiri meðlimir hins vanmáttuga pupuls hér í bæ sem ég hef talað við í dag, -fæ engan vegið skilið: bæjarstjóri og oddviti K lista hafa gerst svo ósvífin að hafa myndað sér skoðun, og hana opinbera, um málefni olíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum! Þetta er með öllu óskiljanlegt þar sem enginn nema leiðandi A listans má hafa skoðun á margumræddri olíuhreinsistöð! En það stafar sennilega að því að umræddur er einnig formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga og veit þá auðvitað að sama skapi hvað vestfirskum almúga kemur best. Að sjálfsögðu áttu bæjarstjóri og oddviti K listans ekkert með að viðra sína óályktuðu skoðun á almannafæri. Nema þá kannski helst á bensínstöðinni!  Ættleysingjar og annar almennur lýður ætti að þekkja sín takmörk!

Það sjá það allir að það er ekkert sama hverjir eru með einhver umsvif í smábæjum eða viðra skoðanir sínar óyfirfarnar af réttum aðilum! Það veit pupullinn. Þess vegna ætla ég sem einn af talsmönnum almúgans, enga skoðun á þessu að hafa aðra en þessa: Mér þykir þetta afar leitt. Ég veit að þetta verður bænum ekki til framdráttar, verst af öllu þykir mér að þurfa að horfa á eftir glæsimenninu Grími sem líklega er fráfarandi bæjarstjóri, aftur suður á mölina. Hann hefur verið bænum gríðarleg lyftistöng í öllu sínu tveggja metra veldi!

 


Mánudagsmorgun

Oohhhh...

Mér líður eins og Baldri þegar hann segir: ég er með ryk í augunum! Eg er þreytt eftir helgina. Og í stað þess að fara snemma að sofa í gærkvöldi fór ég í heimahús, -þið vitið, aðeins að skreppa, -og kom heim klukkan tvö!

Annars er lítið að frétta enda bara verið að vinna. Gæti auðvitað sagt ykkur dásamlegar sögur úr vinnuni ef ég væri ekki bundin trúnaði Tounge

Nema hvað að litla systurdóttir mín, kornið mitt hún Jara komst áfram í Ungfrú Island keppnina.  Myndin er stolin af www.sjallinn.is þar sem mér sýnist nokkuð ljóst að hún er áberandi fegurst :)

Jæja, annaðhvort er að leggja sig aftur eða bara að fara í föt og synda í maukinu.....Jara


Og þar er kornið mitt á sviði.

Litla systurdóttir mín sem mér finnst ég hafa skeint í fyrradag er víst að keppa þarna í Sjallanum. Auðvitað virði ég hennar vilja þó að svona keppnir séu mér ekki að skapi. Mér finnst hreinlega ekki hægt að keppa í einhverju jafn óskilgreinanlegu og fegurð. En kornið mitt hún Jara, er auðvitað gullfalleg bæði hið innra sem og ytra, það vantar ekki. Það þarf bara engan til að dæma um það sérstaklega. Ekki að mínu mati. En ég vona að henni gangi bara vel annað kvöld og að hún verði sátt við sjálfa sig og þann árangur sem hún hlýtur.

A meðan ég skrifa þetta segir hræsnarinn í mér auðvitað hátt og snjallt; fegurðina hefur hún frá frænku sinni!!! Devil

Það er fríhelgi framundan hjá mér. Sem reyndar þróaðist útí það að ég tek næturvakt í nótt, kvöldvakt frá hálffjögur til tólf á morgun og morgunvakt frá átta til fjögur á sunnudag. Nú og þá verður þessarri fríhelgi lokið og vinnuvikan tekur við!


mbl.is Norðlensk fegurð krýnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bensín og Olía á afslætti?

Eg fyllti bílhræið í gærkvöldi af disilolíu. Annars hugar lét ég renna á tankinn og þegar ég gekk frá "byssunni" leit ég á krónutöluna. 12.000 krónur!!! Já, og við erum að tala um nýkrónur!!

Eg óð inn í sjoppuna og spurði: Hvað er þetta með olíuverðið? Hækkar þetta bara endalaust?? -Þið vitið.. eins og maður gerir.

Kona nokkur sem stóð við afgreiðsluborðið snéri sér við og sagði: Jæja, heldurðu að það væri munur ef við fengjum olíuhreinsistöð? Þá væri þetta ekki svona!

Eins og hálfviti spurði ég konuna: nú? Fengjum við olíuna þá gefins?

Konan: nei, en við fengjum hana miklu ódýrari.

Jæja, -svaraði ég bara.

Og nú spyr ég ykkur, lesendur góðir: HVAÐ KOSTAR LITRINN AF OLIUNNI I NOREGI????

Þar eru einmitt olíuhreinsistöðvar í löngum bunum. Er eldsneytið svona ódýrt þar??

Er það einmitt vegna skorts á olíuhreinsistöðvum sem

 

 verðið er hátt á landinu? Hvað í ósköpunum stýrir þá matarverðinu spyr ég nú bara? Skortur á sláturhúsum? Frystihúsum? Sjómönnum? Bændum?

 

 

Mmmmm... Fallegt?????

 Eg segi nú bara eins og Helgi faðir minn Þorsteinsson Von Sauðlauksdalur: Eg býst fá krampa!

 


Þriðjudagur

Mér var lofað af einhverjum fjölmiðlinum að vorið kæmi í dag, þriðjudag. Og það stóð heima. Það kom!! Veðrið er yndislegt, snjórinn bráðnar í óvertæm og flest allt er eins og það á að vera. Ég heyrði í fólkinu mínu fyrir norðan þar sem óþverra krabbaklóin hefur tekið sér bólfestu og þeim líður eins og best verður á kosið í þessu ástandi. Allir frískir og sprækir á mínu heimili þannig að allflest er eins og það á að vera. Vona að eins sé ástatt fyrir lesendum.

Hvað síðustu færslu varðar þá eru upphafsorðin fengin að láni úr Óperuþykkninu "Bíbí og Blakan" sem er síðasta stykkið hvar ég steig á fjalir. Minnir í Kaffileikhúsinu. Eða Rússlandi. Jah... annaðhvort. Man ekkert lengur í hvaða röð atburðir gerast. Þetta dásamlega verk flakkaði um allar jarðir. Við fórum til Þýskalands, Rússlands og Litháen svo dæmi séu tekin, auk sýninga í Reykjavík. Fer að verða kominn tími á að fara hringinn finnst mér. Og vísunin "Vampýra" er að sjálfsögðu í það hvernig sólarhring mínum er háttað. Ég sef á daginn og vaki um nætur. Og þegar ég er í fríi, þá tekur sig eiginlega ekki að snúa ferlinu við. Það sem skilur mig frá hefðbundinni vampýru er í megindráttum eftirtalið: ég sýg ekki blóð og ég sef ekki í líkkistu. Ennþá.

Brátt koma Bormenn Íslands hingað til Bolungarvíkur og hefja gangagerðina. Þær lausu og liðugu kætast yfir því aukna úrvali sem það hefur með sér í för og við hinar.... tjah... það hefur nú engan drepið að horfa??? Er það? Svo er bara spurning um það hvort að Bolvíkingum fjölgi í kjölfarið? Það væri nú aukreitis bónus og eins og frægt er orðið: auka tekjur bæjarstjórans dulítið!! Whistling Að gamni slepptu þá á þetta eftir að verða mikil lyftistöng fyrir bæjarfélagið. Og það verður frábært að geta ekið í næsta sveitarfélag þokkalega óhultur óháð veðri og færð. Sem samt fær mann til að staldra við og hugsa hvort það hafi ekki verið óskynsamlegt að láta göngin koma út í Hnífsdal þar sem vegurinn þaðan og til Ísafjarðar hefur alveg átt það til að lokast vegna flóðahættu. Þetta var mikið rætt á sínum tíma og sjálf hefði ég viljað hafa göngin alla leið til Ísafjarðar, kannski vegna þess hversu sjaldan ég á erindi í Hnífsdal.......  En hverju ræð ég?

Annars er ég svo einkennilega innréttuð að mér þykir fátt dásamlegra að aka Óshlíðina í góðu skyggni og finnst óvíða fegurra en einmitt þar. Hamrarnir sem eru ýmist huldir klakadröngum eða alsettir grænum grastoppum og sjófuglshreiðrum, svo ekki sé minnst á undursamlegt útsýnið yfir í Jökulfirði og Djúp. Stigahlíð og Grænahlíð, Snæfjallaströndin, sólsetrið á sumarnóttum.... Maður á eftir að sakna þessa alls. En allt fyrir öryggið!

Best er nú að fara að huga að kveldmat því að svo er Tupperwarekynning hjá henni Grétu Skúla á Ísafirði í kvöld. Ég veit að þar verða nokkrar af mínum uppáhalds konum, þar á meðal eftirlætis feministinn minn svo að ég býst við miklu stuði.

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband