Þessi fallegi dagur....

Við Gunna mín af Rúv ókum vestur í gær í dýrðinni einni saman. Sól skein í heiði og landið lá undir hvítu ábreiðunni. Þvílík ævintýraveröld! Lognstilla og spegilsléttur sjór og hálkan, maður lifandi! Úff. Eins gott að dagurinn væri svona íðilfagur því að nógu vorum við lengi á leiðinni. Í Vatnsfjarðarmynni sat haförn í sólbaði á nálægum steini og glápti á okkur á móti og ég hef aldrei, aldrei blótað neinu jafn mikið og að vera ekki með myndavél þá! Hann þandi út vængi og flaug á milli steinanna svo að við fengum svo sannarlega sýningu í lagi! Bíll var á eftir okkur og við snöruðumst út og skipuðum viðkomandi að taka mynd á augabragði! Sem hann og gerði með loforði um að senda okkur hana gegnum email en ekkert bólar á henni.....

Það passaði að eftir æsispennandi keppni við olíutankinn (við unnum og náðum í Súðavík áður en honum tókst að tæma sig) sprakk á bílnum fyrir utan Bónus á Ísafirði. Halli minn var kallaður út, enda telst Starexinn, sú smárúta ekki til þess að vera konubíll. Og þar sem ég er ekki feministi þá hvarflaði ekki að mér að reyna að skipta um dekk. En það gerði Halli og vorum við Gunna sammála um að bónbetri karlmaður en hann, væri ekki til.

Svo var það bara næturvakt svo að nú er morgun hjá mér, önnur næturvakt í kvöld og svo tveggja daga frí. Vinna á helginni og svo er bara komið að FERMINGU!

Þýðir það að ég er orðin gömul??

Nú þarf ég á pósthúsið að sækja ammlisgjöf fyrir Baldur minn. Hef grun  um að hún sé frá afa Rúnari. Sem heldur brátt upp á 1 árs afmæli bróður míns :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég var einmitt að fatta að ég er að fara að ferma eftir tvö ár... Sem er mjög undarlegt þar sem ég fór ekki að eignast börn fyrr en fyrir tæpum þremur.

Maður getur þá orðið mjög gamall á stuttum tíma. En mér finnst ég ekki deginum eldri en svona rúmlega átján, og ég er ekki nema nokkrum dögum yngri en þú, þannig að, neinei, þú ert ekki baun gömul.

Sigga Lára (IP-tala skráð) 11.3.2008 kl. 16:31

2 identicon

Já og

svo gleymdist að taka númer bílsins sem myndavélaeigandinn ók. Gætum þá kannski lýst eftir honum . Ha ha ...

En ferðalagið í heild sinni var yndislegt.

Takk fyrir samveruna kæra vinkona.

Guðrún Sig (IP-tala skráð) 11.3.2008 kl. 19:32

3 identicon

takk fyrir kaffispjallið, ég skemmti mér konunglega.  prjónakarfan er ennþá fullkomin. hef augastað á þvottakörfunni...

nanna (IP-tala skráð) 11.3.2008 kl. 20:32

4 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Ef ég skil þig rétt þá skiptir þú ekki um dekk af því að þú ert ekki femínisti, femínistar skipta sem sagt um dekk........ og er Halli þá ekki femínisti?

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 11.3.2008 kl. 23:03

5 identicon

Hurru ég er einmitt að fara að ferma í lok mánaðarins... í annað skiptið. Ég fíla einmitt ávexti fornra ásta þó ég hafi ekki verið þar.

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 12.3.2008 kl. 09:09

6 identicon

Femínisti að skipta um dekk. Tek undir með Möttu, ég held nefnilega að Halli sé femínisti.

ég hef skipt um dekk, meira að segja komin 8. mánuði á leið,, en það var auðvitað af því ég var ein á ferð.

En ég er feministi.

Halla Signý (IP-tala skráð) 12.3.2008 kl. 10:28

7 Smámynd: Þórdís Einarsdóttir

Ætli þetta sé að ganga? 

Það sprakk einmitt hjá mér á leiðina í vinnuna í dag. Ég fann engan tjakk þannig að ég gat hreinlega ekkert gert annað í stöðunni en að ganga heim og ná í annan bíl. 

Fer svo bara eftir vinnu, blæs í dekkið og keyri hann heim. Næst þegar einhver þarf að nota hann læt ég eins og ég kannist ekkert við málið!

Þ 

Þórdís Einarsdóttir, 12.3.2008 kl. 14:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband