Karlar eru frá Mars, konur frá Venus.... ?

Ég hef komist að því að fyrir mér fara hugtökin feminismi og minnimáttarkennd saman. Tek enn og aftur fram að það er alfarið mín skoðun, reynsla og upplifun. Jafnrétti er eitt, feminismi er farinn að snúast um allt annað en jafnrétti. Sorrý, ég er bara alltaf að upplifa þetta hjá yfirlýstum feministum, þessa ótrúlegu minnimáttarkennd. Ég er jafnréttissinni. En ég hef aldrei upplifað það sjálf að vera í öðru sæti vegna þess eins að ég er kona. Og kannski er það heppni. Kannski er það bara vegna þess að mér þykir svo sjálfsagt að ég standi jafnfætis karlmönnum og tel þá ekki hafa neina yfirburði yfir mér, aðra en þá líkamlegu. Það er bara augljóst frá náttúrunnar hendi og hefur ekkert með styrk á öðrum sviðum að gera. Og ég er svo sannfærð að ég þarf ekkert á því að halda að ræða það fram og til baka hver kjör kvenna eru í samanburði við kjör karla. En hitt er annað að konur og karlar eru afar ólík, sbr. Venus, Mars og allt það. Og ég blæs á það að sú staðreynd skipti ekki máli.

Ég tek fram að þessar hugleiðingar eru í engu tengdar dekkjaskiptunum í færslu minni hér að framan. Að sjálfsögðu hef ég skipt um dekk á bíl, mikil ósköp, enda átt margar druslurnar og ferðast mikið ein akandi. En þegar kemur að því að skipta um dekk á smárútu viðurkenni ég mig fúslega sigraða og geri mér fulla grein fyrir því að líkamlegir burðir mínir ná hreinlega ekki svo langt.

Nei, hugleiðingar mínar eru af því sprottnar að ég hef ítrekað lent í því undanfarin ár að sjá hversu einstrengingslegar hugmyndir öfgafeminista eru þegar kemur að kvenréttindamálum. Yfirlýstir feministar hafa sagt mér að hygla eigi konum vegna þess að þær séu konur. Hæfar konur, meira að segja. Ég blæs á slíkt. Hygla á hæfum einstaklingum að mínu mati, óháð því hvers kyns þeir eru, hvert litarhaft þeirra er eða hvort þeir tilheyra einhverjum minnihlutahópum eða ekki. Ég neita að láta hygla mér fyrir það eitt að vera kona. Það er fáránlegt og beinlínis kjánalegt í mínum huga. Sjálf vil ég vera metin að verðleikum sem manneskja, ekki sem kona eða karl. Og um það hélt ég alltaf að jafnréttisbaráttan hefði gengið.

En það ískyggilegasta sem ég hef orðið vör við í fari öfgafeminista er húmorsleysi þeirra fyrir "málstaðnum." Sértu ekki á sömu skoðun ertu að svíkja kynsystur þínar! Í versta falli að ráðast persónulega á feministann sjálfan. Og ekki gera ráð fyrir því að feministinn gefi eftir um tommu! Nei! En takist henni/honum ekki að "snúa" þér á sína sveif, móðgast hann/ hún. Þess ber að sjálfsögðu að geta að ég þekki líka fullt af jafnréttissinnuðum konum og við þær er skemmtilegt að tala. En ekki þær kvenréttissinnuðu. Það nefnilega endar alltaf með því að samtalið tekur stefnuna: það þýðir ekkert að ræða þetta við þig, og: fólk eins og þú, og: það er konum eins og þér að kenna hvað kvenréttindabaráttan er skammt á veg komin! En því er ég aldeilis ósammála. Ég held að fáar jafn öflugar þjóðfélagsbreytingar hafi tekið jafn gríðarlegum stakkaskiptum, á jafn ótrúlega stuttum tíma og jafnréttisbaráttan. Og auðvitað er jafnrétti sjálfsagt! Á því er enginn vafi. En ég blæs á það að hlutföll kynjanna eigi að vera jöfn þegar kemur að tímafrekum störfum eins og þingmennsku, stjórnun fyrirtækja og þar fram eftir götum. Ekki af því að konum sé ekki treystandi fyrir ábyrgð! Síður en svo! Heldur einfaldlega vegna þess að konur eru ekki eins og karlmenn!! Mars og Venus, gott fólk. Það eru bara færri konur sem hafa áhuga á metorðum af þessu tagi. Konum er einfaldlega frekar umhugað um að hlú að fjölskyldu sinni. Ala upp börnin sín. Eyða tíma með þeim. Og það er ekkert rangt við það! Og það eru engin svik við kynskystur þær, sem vilja frekar klífa metorðastigann. Þetta er einfaldlega val. Og um það snérist jafnréttisbaráttan í upphafi, tel ég. Að hafa val! 

Við vitum vel og sjáum að heimili sem eru rekin af tveimur fullorðnum einstaklingum sem vilja "meikaða" í atvinnulífinu, bera mikla ábyrgð utan heimilisins ásamt því að sinna nefndarstörfum og tómstundum, líður fyrir það. Börnin líða fyrir það. Það er ekki tími fyrir þau. Og eins og ég hef oft sagt áður: gæðastundir eru ofmetið hugtak samviskubitinna foreldra. það kemur ekkert í staðin fyrir það öryggi sem barn finnur við það eitt að hafa ríkan aðgang að foreldrum sínum. (að því gefnu að foreldrarnir séu almennilegir!!) Jafnréttisbaráttan ætti frekar að snúast um það hversu bráð nauðsyn það er í okkar nútíma þjóðfélagi að við getum eytt meiri tíma með börnunum okkar. Og mér finnst feminismi ekki snúast um það.

Þeir öfgasinnuðu feministar sem ég hef haft kynni af í gegnum tíðina, eru ekki margir og ég ítreka: ég þekki margar jafnréttissinnaðar konur sem er allt, allt annar handleggur. En þessar sem tala hvað hæst og mest um breytingar á heiminum í þágu kvenna og tekst ávallt að koma kvenfrelsisumræðunni í gang hvar og hvenær sem er, jafnvel þó enginn viðstaddra hafi á henni áhuga, minna mig oft á garðyrkjumenn sem ráðast með klippunum á hekk nágrannans og heimta að hann hafi garðinn sinn svona en ekki hinseginn. Á meðan kafna rósabeðin í eigin garði, í arfa og illgresi og blómin sem þar vaxa vantar bæði vatn, næringu og sólarljós. Umfram allt, athygli garðyrkjumannsins.

Ég segi með stolti: ég er jafnréttissinni, ég vil sjá konur og karla hvar sem er í heiminum búa við mannsæmandi kjör og hin sjálfsögðu mannréttindi að hafa val. En feministi er ég ekki. Og ég vil ekki vera slíkur.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessu tengt, ég er einmitt búin að vera að velta fyrir mér hvort eitthvað vit er í að mæla velgengni kvenna og árangur jafnréttisbaráttunnar í peningum og völdum. Ég er alveg handviss um að ég réði auðveldlega við stjórnun stórfyrirtækja. Hef hins vegar ekki snefil af áhuga á því. Það kemur hvorki til af minniháttarkennd né heldur göfugum markmiðum í fjölskyldurækt, heldur einfaldlega því að eftir hálfan dag í svoleiðis starfi væri ég búin að éta af mér hausinn af leiðindum.

Mér finnst það hins vegar áhyggjuefni að margir, og karlmenn í meirihluta, skuli þurfa stjórnunarstöður og peninga til að lappa upp á lélega sjálfsmynd. (En þetta á auðvitað alls ekki við um alla stjórnendur, margir hafa í alvöru áhuga á því sem þeir eru að gera, en ég er hrædd um að þetta sé nú samt slatti.)

Mér finnst það hvað Íslendingar eru framarlega á merinni í jafnréttismálum sýna sig best í því að hér hórast ungt fólk hvert um annað þvert, og stelpur verða ekki af því baun meiri druslur en strákarnir. Þetta er jafnrétti sem ég held að finnist hvergi annars staðar í heiminum. (Nokkuð sem mörgum frægum og erlendum gestum hefur komið spánskt fyrir sjónir.) (Og ekki skal ég svo sem fella dóm um hvort hórgangurinn er endilega góð hugmynd, út af fyrir sig, verandi sjálf á hraðri leið inn á hinn ferkantaða miðaldur og er þegar farin að fussa og frussa yfir ástandinu í miðbænum um helgar.)

Sigga Lára (IP-tala skráð) 12.3.2008 kl. 22:54

2 identicon

Stórkostlegur pistill, frábær penni, kona með K, til að bera virðingu fyrir, og sérstaklega virðingu fyrir skoðunum þínum. Elsku Ylfa, hélt svei mér þá að konur eins og þú væru ekki til á landinu lengur. Mikið gleður þetta mig.

Já það er það sem um er að ræða að hafa val. Og velja! Þú hefur valið vel og  tekur líka ábyrgð á þínu vali. Mikið er ég stoltur af þér. Sé þig ennþá fyrir mér í Kolrössu. Þú varst frábær.

Get ekki komið fram undir nafni ennþá, en við þekkjumst. Til að gefa þér hint þá sá ég allar sýningar af Kolrössu í Reykjavík. Og hefði farið á  þær allar hefðu þær verið fleiri.

Ég óska þér alls hins bezta hjartalóa og gangi þér allt í haginn. Með beztu kveðju.

bumba (IP-tala skráð) 12.3.2008 kl. 23:01

3 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Kæri Bumba! Nú er ég aldeilis bit. Ég hef nefnilega ekki hugmynd um hver þú ert! Ég var í svo mikilli brjóstaþoku þegar ég lék í Kolrössu að flest allt (utan textans og laganna sem ég man enn!) er í móðu!

Skyldi þó aldrei vera fljótaættaði frændinn??

Eða hvað? Fæ ég annað hint?

Ylfa Mist Helgadóttir, 12.3.2008 kl. 23:15

4 identicon

Hvaða hvaða.

Hvað fékk þig núna af stað, ef það var ekki dekkið á rútunni ?

Viva la feminism !

Guðrún (IP-tala skráð) 12.3.2008 kl. 23:19

5 identicon

Ekki er ég nú hissa á því þó þú þekkir mig bangsímónan mín. Ég er frá næsta bæ til vesturs frá Dalvík. Foreldrar okkar voru vinir og umgengust þrátt fyrir að foreldrar mínir voru töluvert eldri. Það gerir ekkert til þó þú munir ekkert eftir mér. Er ekki allt gott að frétta af Yrsu og co? Og pabba þínum og Tótu? Hvað segir Jara Sól gott? Æ, maður sér aldrei neinn, alltaf að vinna. Ég þekkti ykkur nú betur sem börn. Nóg um það. Ef ég má hringja þá láttu mig vita.

En pistillinn þinn er algjört æði. Gáfur þínar glæstar sem gull. Með beztu kveðju.

bumba (IP-tala skráð) 12.3.2008 kl. 23:26

6 Smámynd: Hjördís Þráinsdóttir

Ég verð að vera sammála þér, öfgar fara engum vel. Það er mikið meira kúl að vera jafnréttissinnaður gleðipinni frekar en öfgasinnaður fýlupúki.

T.d. ef ég væri öfgasinnaður fýlupúki þá hefði ég ekki verið svona himinlifandi þegar ég sá, þar sem ég sat á dollunni, að eldra karlmennið á heimilinu keypti einhvurskonar kemískar blauttuskur til þrifa á klósettinu! Algjörlega óumbeðinn!

Hann veit að ég nota ekki svona tuskur! Svo þetta hlýtur að þýða að HANN ætli að þrífa klósettið! (Sem ég held að hann hafi aldrei gert, utan einu sinni þarna um árið, þegar hans heittelskuð datt í það í fyrsta skipti í tvö ár, og gerði svolítið ljótt á klósettinu (án þess að muna eftir því daginn eftir) og það var ennþá eftir fólk í partýinu sem e.t.v. þurfti að nota salernið)

Já, og ef ég væri öfgasinnaður fýlupúki þá hefði ég örugglega verið að pissa í gauðdrullugt klósett, svo rokið á fætur og grýtt kemísku blauttuskunum í karlmennið og sagt hátt JE RÆT!

Já, og ef eitthvað af ofanrituðu er óviðeigandi þá vil ég benda á að ég er uppfull af breskum flensumeðulum sem ég keypti í Tesco's.

Hjördís Þráinsdóttir, 12.3.2008 kl. 23:36

7 Smámynd: Ragnheiður Ása Ingvarsdóttir

Alveg er ég hjartanlega sammála þér þarna, Ylfa mín!

Þetta snýst allt um það að eiga VAL, val um það að geta verið heima ef áhugi er fyrir því, eða val um það að fara út að vinna og þá auðvitað val um hvernig vinnu, eða / og hvernig nám!  

Og auðvitað á að meta manneskjuna að verðleikum, sama af hvoru kyninu hún er!!!!Clapping Hands

Ragnheiður Ása Ingvarsdóttir, 12.3.2008 kl. 23:42

8 identicon

Frábær pistill! Öfgar gera engum gott, hvorki í jafnréttisbaráttunni né annars staðar.

Ég man þegar ég var að útskrifast sem stúdent og fulltrúar margra háskóla komu að kynna sína skóla í MA. Það sló mig rosalega að margar konurnar sem komu beindu orðum sínum sérstaklega að okkur stelpunum - og sögðu "Það er mikil keppni um sæti í okkar deild - en stelpurnar eru örruggari en strákar um sæti, það vantar alltaf stelpur í raungreinar". 

Hvað tímann með börnunum varðar er ég hjartanlega sammála. Ég vinn allt of mikið frá barninu mínu og hef undanfarið verið að reyna að koma upp kerfi þar sem ég er meira heima. Markmiðið á heimilinu er hins vegar að báðir foreldrar geti unnið minna en 100% vinnu, t.d. bæði 80% þannig að hvorugt okkar þurfi að vinna upp tekjutap hins.

Kveðja,
Elín  BJörk.

Elín Björk (IP-tala skráð) 13.3.2008 kl. 11:15

9 Smámynd: Gló Magnaða

OMG........ bara læti??..........

Gló Magnaða, 13.3.2008 kl. 15:37

10 identicon

heyr heyr Ylfa!

Hjartanlega er ég sammála þér, amk með VALIÐ.

Ég man hvað það sló mig þegar yfirmaður minn (kona btw) var svo yfir sig hissa þegar ég vildi EKKI fara í 100% starf, eftir að miðjubarnið var komið á leikskóla.  Er enn í 50% starfi eftir 3 barn, og er ekki á leiðinni að bæta við mig, af því að ég get verið heimameð börnunum eftir að skóla/leikskóla lýkur.  Og það er ekki spurning að maður uppsker eins og maður sáir.

bestu kveðjur

Agnes (IP-tala skráð) 13.3.2008 kl. 16:25

11 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

já já og svona er það !

sjáumst í næstu viku elsku frænka ! 

Blessi þig

steina

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 13.3.2008 kl. 16:54

12 identicon

Jeminn eini, hvað ég er sammála þér.  Góður pistill.

Vala mosó

Vala (IP-tala skráð) 13.3.2008 kl. 18:17

13 identicon

Jamm. Það sagði mér einhver spekingurinn að kven/jafnréttisumræðan væri alveg tvískipt. Annar endinn snýst um að fullyrða að kynin séu meira og minna eins. Framkvæmdin felst í að jafna kynjahlutföll í starfsgreinum o.s.frv. Þegar upp er staðið verður árangurinn sá að við konurnar fáum að taka þátt í leik sem karlarnir hönnuðu. Fáum að gegna störfum sem strákarnir hafa, eftir áratuga spilamennsku í atvinnulífi utanhúss, ákveðið að séu mikilvæg og verðskuldi virðingu og há laun.

Hinn hluti umræðunnar byggir á þeirri hugmynd að kynin séu ólík í grunninn. Það þýðir meðal annars að einleikur strákanna hefur orðið til þess að atvinnulífið hefur þróast án þeirra gilda sem konum þykja mikilvæg. Þær fengu reyndar á endanum að taka sínar hefðbundnu rullur með sér út á vinnumarkaðinn, eins og umönnun barna og sjúkra. En einhvern veginn hefur alltaf þótt sjálfsagt að fyrst þær frekjuðust til að hætta að vinna þau störf ókeypis þá sé alla vega óþarfi að borga einhverjar summur fyrir þau.

Í þessu er ég sammála þér. Þau gildi sem hefð er fyrir að séu kvenlæg þurfa að standa jafnfætis þeim karllægu. Það er jafnrétti. Ég er hins vegar sammála femínistunum í því að stundum þarf að nota ranglát vopn til að ná fram réttlæti. Ef konur væru í raun metnar að verðleikum þá væru skólastjórar með sömu laun og bankastjórar, og milljóna útborgun fylgdi hverju fæddu barni. En á meðan hæfileikar kvenna eru metnir á mælistiku karllægra gilda eiga þær ekki séns. Jákvæð mismunun þarf að mínu mati ekki að vera neikvæð ef hún hjálpar okkur að koma kvenlægum gildum hinum megin við samningaborðið.

Á sama hátt þarf að beita jákvæðri mismunun til að karlar fái að búa við jafnrétti á þeim sviðum sem við konur drottnum að miklu leyti ennþá yfir. Karlar eiga til dæmis rétt á því að vera pabbar á sínum forsendum, ekki okkar. Þeir eiga rétt á því að þurfa ekki að brjóta handklæðin saman eins og tengdamamma- og amma hafa alltaf gert það. Þeir mega leika sér á sinn hátt við börnin sem þeir passa í leikskólunum þó það þýði aðeins skítugri peysur og fleiri plástra. Þeir eiga jafnvel rétt á því að neita að skipta um dekkið fyrr en leikurinn er búinn. Jafnrétti gengur nefninlega í báðar áttir.

Berglind (IP-tala skráð) 13.3.2008 kl. 22:28

14 identicon

Ja hérna, ja hérna. Já jafnréttið hefur skilað sér fljótt og vel inn í þjóðfélagið Þú metur það líklega út frá því að hve hefðbundin "kvennastörf" eru vel metin launalega séð?

Hvað konur sem eru fyrirvinnur heimilis síns og fjölskyldu hafa mikið val?

Hvað konur eiga auðvelt með að komast til áhrifa td. til þingstarfa?

Hvað karlar taka mikinn þátt í fjölskylduverkum, (heimilisstörf, ummönnun, barna)? Þrátt fyrir að bæði foreldrin séu í 100% starfi.....

Ylfa! hvað voru margir karlmenn á síðasta foreldrafundi í skólanum? Ylfa! stattu fyrir utan leikskólann, hvað eru margir karlmenn sem skila/sækja börnin sín? (hlutfall)?

ég hélt á stundum að þessi pistill þinn væri ættaður úr kvennafræðaranum frá 1952,,,

Þar sem stendur "konur munum eftir að vera búin að hátta börnin og gefa þeim að borða áður en ÞEIR koma heim þreyttir úr vinnunni,svo þeir fá hvíld frá amstri dagsins".

Jafnréttis snýst um það að konur og karlar hafi jafnt VAL,, en ég blæs á það að konur hafi í raun sama val og karlar í dag,, því miður. Með þessu er ég ekki að segja að konur og karlar séu eins uppbyggð. Þangað til að það næst,, áfram feminístar

en kommonn kona góð.

Halla Signý (IP-tala skráð) 14.3.2008 kl. 08:43

15 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Takk fyrir svörin mín kæru. Jón minn, sérstakar þakkir fyrir lofræðuna! Hef alltaf nautn af að lesa lof um mig sjálfa! :)

Ylfa Mist Helgadóttir, 14.3.2008 kl. 10:08

16 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Úbbs! Var ekki búin. Halli mín Signý, þú verður að lesa pistilinn minn aftur. Það er ekkert í honum sem minnir á kvennafræðarann.

Þér til upplýsingar get ég sagt þér að maðurinn minn fer oftar að sækja/skila börnin á leikskólann en ég. Hann fer jafn oft á foreldrafundi og ég. Og ég get ekki betur séð, þegar ég fer að sækja/ skila á leikskólann, að þar sé bara töluvert af karlmönnum í sömu erindagjörðum og ég. Hlutfall dettur mér ekki í hug að telja í, enda ekki á leikskólanum til að sjá hverjir eru duglegri að sinna börnum sínum í sínum hjónaböndum...... Á mínu heimili ríkir nefnilega jafnræði. Og vegna þess að á mínu heimili er jafnrétti verð ég líklega minna vör við þessa hræðilegu stöðu sem þið hinar konurnar eruð í. Sem má líklega flokka sem athugunarleysi af minni hálfu. Ég bið þær undirokuðu konur sem í hlut eiga afsökunar á því. Ég er sennilega bara svona upptekin af ástandinu þar sem kvenfólk gegnir svipuðu hlutverki og múlasnar. Þar vantar vissulega jafnréttisbaráttu. En hana getum við ekki háð. Það verða hlutaðeigandi konur sjálfar að gera líkt og íslenskar konur gerðu á liðnum öldum. Við getum ekki valið fyrir restina af heiminum. Því miður.

Hvað kvenna og karlastörf snertir þá er ég alin upp á heimili þar sem báðir foreldrar gegndu kennarastöðu. Seinna meir höfðu bæði karl og kvenfyrirmynd heimilisins gegnt skólastjórastöðu. Ég veit fyrir víst að kjör þeirra voru þau sömu.

Ég hef aldrei þurft að þola það að vera lægra launuð en karlmaður fyrir sömu störf.

Og ég ólst upp við það, merkilegt nokk miðað við hversu hundgömul ég er orðin, að faðir minn tók jafnan þátt, ef ekki öllu meiri, í heimilisstörfum og báðar eiginkonur hans.

Svo að líklega má enn og aftur kenna afturhaldssömu hugarfari mínu og kvennafræðaralegu við þá staðreynd að ég hef aldrei verið undirokuð af karlaveldinu Íslandi.

Sorrý.

En endilega lestu pistilinn aftur Halla mín, þá sérðu að það er hvergi minnst á það að jöfnuðar eigi ekki að gæta í hvívetna! Einungis hversu ólík kynin eru að upplagi (skýrir td stöðu kvenna við þingsstörf eins og þú bentir réttilega á) og hversu leið ég er orðin á fasisma öfgasinnaðra feminisma sem virðast flestar hverjar snúa þeirri baráttu að þjóðfélaginu sem ætti í raun að snúa að þeirra eigin heimili! Vilji kona að maðurinn hennar taki 100% þátt í heimilisstörfunum þá SÆTTIR HÚN SIG EKKI VIÐ MINNA! Og þá er vandamálið leyst.

Takk fyrir mig.

Ylfa Mist Helgadóttir, 14.3.2008 kl. 10:24

17 identicon

Sæl aftur mín kæra,

ég er ekki að tala út frá persónulegu upplifun, bara það sem ég sé í kringum mig í þjóðfélaginu.

kvennastörf alltof lágt metin,, ég veit að ef að karlmaður færi inn á leikskóla þá fengi hann sömu laun. En það er af því að starfið er í raun illa metið og af hverju er það?

Ég mætti á tvo almenna foreldrafundi í unglingadeild skólans,, á öðrum var einn karlmaður og 15 konur. Í gær voru 15 konur á móti 2. körlum,, húrra fyrir þeim. Þetta segir mér að Karlar beri ekki sömu ábyrgð á uppeldi barna og konur hérna í Bolungarvík, (auðvitað misjafn og ekki bundið við Víkina okkar fögru)

Auðvitað er þetta líka okkur konum að kenna við erum jú helmingur af þjóðfélaginu og þar sem okkar viðhorf skilar sér inni í uppeldið betur heldur en karlanna þá breytist þetta ekki nema við séum meðvitaðar um þetta.

Mamma mín skilaði 12 börnum inn í þetta samfélag, vann baki brotnu bæði að búi og börnum. 17 sorta kona fyrir hver jól, heimasaumaðirkjólakona, Alltþrifiðálaugardögum kona. Hún var í hjónabandi með pabba auðvitað og allt gott um það að segja og þau ráku saman búskap, nema hvað. Nuna þegar hún er orðin ekkja og skilað þokkalegu til þjóðarbúsins, þá fær mín kona bara sléttar ellilífeyrinn, engan lífeyrissjóð, því hennar framlag var hvergi metið. ææææ þetta grætir mig

ÞETTA EIGUM VIÐ EKKI AÐ SÆTTA OKKUR VIÐ.

Það liggja margar og gildar rannsóknir á því að konur og karlar skili ekki sama framlagi til heimilisstarfa (svona almennt) misjafn örugglega.

En öll erum við yndisleg, og þurfum hvert á öðru að halda. En sjhitt að jafnrétti sé náð, og sjitt að konur og karlar hafi sama val. Því miður.

En ég er ekki alltaf sammála feministum en það er bara alltaf sýnt sig að til þess að ná fram breytingum þá þarf alltaf að stuða og berjast,, sjá verkalýðsbaráttu og alltaf skal kvennabaráttan ljós dæmi um þetta og fengið bágt fyrir. En allt er þetta skemmtilegt í bland.

Halla Signý Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 14.3.2008 kl. 11:33

18 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Mikið væri lífið léttara ef vondu öfgafemínistarnir væru ekki sífellt að reka mæður í vinnuna frá grátandi smábörnum.

Mikið væri lífið léttara ef vondu öfgafemínistarnir væru ekki alltaf að koma góða og réttláta fólkinu í uppnám með þessum sífelldu öfgauppþotum sínum.

Mikið væri lífið léttara ef ég sem (öfga?)femínisti gæti hætt að taka það nærri mér þegar ég les svona greinar.

Mikið væri lífið léttara ef ég hefði nú snefil af húmor og væri alveg sammála þér Ylfa mín.

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 15.3.2008 kl. 01:59

19 identicon

Er það svoleiðis að út á landi hafi konur ekki sama val og karlar? því nefninlega í kringum mig hér í sollinum er það svoleiðis.

Ég VALDI að vera heima með börnunum mínum og pína karlinn minn til að vinna meira svo ég gæti verið heima og mér finnst ég hafa fengið betri endann á spýtunni hiklaust!!! er alveg viss um að hann væri alveg til í að skipta stundum en það er ekki í boði vegna þess að ég tími ekki að skipta.

hvaða bull er það að konur hafi ekki sama val og karlar piff.

Ég er sko alveg sammála þér Ylfa og kannski er það vegna þess að ég hef heldur aldrei lent í því að vera metin að minni verðleikum en karlmaður.

Vissulega hefði ég getað valið betur og verið orðin forstjóri stórfyritækis í dag því ég er alveg sannfærð um að ég hafi hæfileikana! Kannski á ég það bara eftir.

lufsan (IP-tala skráð) 15.3.2008 kl. 12:17

20 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Það er þetta með að eiga val, á karl Lufsunar val?  Er hans val kannski að láta lufsuna vaða yfir sig? 

Kveðja

Matta öfgafemínisti og forstjóri og mamma

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 15.3.2008 kl. 12:42

21 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Ég á ekki von á því að hann Gunni láti lufsuna vaða mikið. Held að þetta hafi allt verið spurning um samvinnu og sameginlega ákvarðanatöku eins og mér finnst tíðkast á velflestum heimilum í dag.

Ylfa Mist Helgadóttir, 15.3.2008 kl. 14:34

22 identicon

einmitt!! nail on the head (stundum held ég nú reyndar að manninum mínum finnist ágætt að ég vaði soldið þá getur hann meira haldið sig til hlés!) en valið hefur hann engu að síður

lufsan (IP-tala skráð) 15.3.2008 kl. 17:27

23 identicon

p.s Ylfa við komum pottþétt í sumar og þá mun ég aldeilis heimta bakkelsi fyrir mig og mína hjá frúnni í víkinni

lufsan (IP-tala skráð) 15.3.2008 kl. 17:28

24 identicon

Það getur svo iðulega orkað tvímælis að alhæfa út frá eigin reynsluheimi þó reynsluheimur manns sé vissulega mikilvægur. En það er ágætt að hafa í huga að manns eigin reynsluheimur er ekki endilega veruleiki annara. Stundum svo langt í frá að það er erfitt að ímynda sér hann.

Ég spái því að feministar dagsins í dag verði hylltir á morgun fyrir mörg sín baráttumál rétt eins og kvenréttindakonum fyrri tíma er í dag þökkuð mörg baráttan, t.d. baráttan fyrir kosningarétti kvenna. Á sínum tíma þótti það óforskammað glapræði að ætlast til þess að konur ættu að hafa t.d. kosningarétt og þær konur (aðallega konur auðvitað) sem börðust voru hæddar og smánaðar fyrir ofstopa og frekju og auðvitað ódömulega framgöngu og þær handsamaðar og dæmdar fyrir frekjugang og óspektir á almannafæri.

Sagan sýnir okkur að það gerist því miður oftast fremur fátt í jafnréttisbaráttu kynjanna fyrr en með lagasetningum. Og áður en það gerist þarf því miður oftast að mála með sterkum litum sem sjást.

Páskakveðjur westur.

Hulda Hákonardóttir (IP-tala skráð) 16.3.2008 kl. 00:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband