After the storm :)

Ég fékk yndislegar fréttir í fyrradag. Svona fréttir sem gera manni ljóst að allt fer alltaf eins og það á að fara. Allt ratar á endanum þangað sem það á heima. Ég hef verið á næturvöktum og er núna að taka eina auka. Það er hljótt í Bolungarvíkinni eftir óveðrið sem skall á í morgun. Ég trúði varla mínum eigin augum þegar ég vaknaði í gærdag eftir annars prýðilegan svefn og allt var á kafi í snjó! Ég sem hljóp heim í gærmorgun á sumarskóm! Tjah, svona er Ísland í dag.

Annars er ég með sjálfa mig í meðferð núna. Svona: ekkiverameðvirk-meðferð. Þannig er að ég umgengst afskaplega indæla manneskju mjög reglulega. Og yfirleitt er það bara hið besta mál. En svo á hún það til að vera alveg frámunalega fúl. Hennar blóraböggull er sá að vera mislynd. Og þegar manneskjan er fúl þá tiplar allt umhverfið á tánum í kringum hana. En þar sem minn blóraböggull er að vera skaphundur þá finnst mér það erfitt og hvæsi á manneskjuna á móti. Sem endar með ósköpum. Og ég fæ alveg heiftarlegan móral, yfir því að hafa ekki betri stjórn á mér. Það nefnilega sitja fleiri en bara ég í súpunni þegar illa liggur á manneskjunni og ég er ekkert að bæta úr skák með að ybba mig á móti. Svo að núna hef ég einsett mér markmið gagnvart manneskjunni. Ég ætla að hætta að taka mislyndisköstin til mín og reyna að hemja mig á móti. Hugsa: ég ber ekki ábyrgð á þessari hegðun manneskjunnar. Ég ætla að leiða geðvonskuna hjá mér. Svo lengi auðvitað, sem ég verð ekki fyrir einhverju tjóni á sál eða líkama. Tounge

Ég prófaði þetta í gær og það virkaði prýðilega. Og mér leið betur. Og ég fann hvernig manneskjan slakaði sjálf á spennunni. Og núna semur okkur alveg hreint ágætlega þegar ég er ekki að ergja mig á því að hún sé í fýlu. Hugsa sem svo: það er ekki mitt mál þó hún sé í fýlu. Og viti menn; hún er hætt að vera í fýlu :)

Það er böl að vera skaphundur. Að verða svo æfur af bræði með reglulegu millibili að manni hreinlega blindast sýn og öll skynsemi rýkur á haf út. Það er nú síst skárra en að vera mislyndur fýlupúki. Vegna þess að þó að reiðin renni manni á örskotsstundu verða orðin og gjörðirnar sem grýtt var í umhverfið og þá sem fyrir verða, ekki sópuð burt með einu blíðu brosi. Þá þarf maður að ganga berfættur í rjúkandi rústum bráðræðis síns í langan tíma. Reyna að bæta fyrir, plástra sár og draga út blóðug glerbrot særandi orða. En auðvitað skilja glerbrotin eftir sig ör. Og næst þegar fellibylurinn geisar, kennir fórnarlömbin til í gömlu örunum sínum ásamt þeim nýju sem manni tekst að valda.

Svakalega grafísk lýsing eitthvað!!!??

Með árunum hefur nú sjaldnar og sjaldnar fokið verulega upp hjá mér en ég sé alveg þessa sömu tendensa í yngsta syni mínum þó ég reyni að sverja þá af mér! :) Hann er skaphundur eins og ég, bara aðeins þyngri í skapi að auki. Og það er svo merkilegt hvað ég hef einstaklega lítin skilning á þessum eiginleika hans, þrátt fyrir að vera alveg eins! Þannig að við tvö erum dálítið eins og tvær púðurtunnur! En sem betur fer búa með okkur karlmenn, þekktir fyrir sína stóísku ró og takmarkalausu þolinmæði! Svo að yfirleitt ganga skærur okkar yfir án teljandi stórslysa.

Ég ætla í tólfsporavinnuna í Holti í Önundarfirði næsta vetur. Ég hef sl. þrjú ár verið að mana mig upp í að fara og nú finn ég að ég er tilbúin. Kannski text mér í þeirri andlegu vinnu að kveða niður einhverja djöfla, og þá er til alls unnið.

Jæja, hugleiðingum næturinnar er lokið. Ég ætla að fara að leggja á morgunverðarborðið.....

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Laufey B Waage

Ég verð að segja, að af tvennu illu finnst mér skaphundar mun skemmtilegri en fýlupokar - og kýs ég frekar að hafa þá í kring um mig.

Ég veit ekki hverning það var á Dalvík, - en í minni sveit var og er hugtakið blóraböggull notað yfir menneskju sem þú kennir um það sem aflaga fer, - skellir skuldinni á (ég er næstum viss um að íslensk orðabók er mér sammála). Akkilesarhæll finnst mér hins vegar gott hugtak yfir það sem mér sýnist þú vera að meina (eða einfaldlega skapgerðarbrestur). Ég treysti því að þú takir ábendingunni vel (þú þinn skemmtilegi skaphundur). 

Laufey B Waage, 10.4.2008 kl. 13:33

2 Smámynd: Laufey B Waage

Svo mæli ég hiklaust með 12 spora vinnunni. Hún svínvirkar fyrir þá sem mæta á hvern fund (ég segi stundum að einu ásættanlegu forföllin séu að þú sért á leið í þína eigin jarðarför) og vinna heimavinnuna heiðarlega.

Laufey B Waage, 10.4.2008 kl. 13:38

3 Smámynd: Hjördís Þráinsdóttir

Ég heyrði á fyrirlestri um daginn að þegar fólk reiðist svona hastarlega þá lækkar greindarvísitala þess um 20 stig. Meikar alveg sens...

Hjördís Þráinsdóttir, 10.4.2008 kl. 17:51

4 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Akkúrat Laufey. Og ég notaði orðið blóraböggull að vel athuguðu máli þar sem það að vera skaphundur, mislyndur, tilfinninganæmur, eða hvað sem er, er notað sem blóraböggull. Þ.e.a.s, við getum falið allavega framkomu í skjóli "skapgerðarbresta" sem við öll þjáumst af. En í raun erum við að nota þá sem blóraböggla vegna þess að það firrir okkur ábyrgð af þeim gerðum sem við framkvæmum í skjóli þeirra. Því kýs ég í þessu samhengi að nota orðið blóraböggull þrátt fyrir að eiga ekki við manneskju sem slíkan, heldur "karaktereinkenni." Orð eins og Akkilesarhæll, dragbítur eða brestur eru góð og gild lýsingarorð en lýsa ekki akkúrat þeirri nálgun sem ég vildi fá á þessi "vandamál" mín og annarra.

Meikaði þetta sens??  Abendingar hverjar varða íslenskt málfar eru mér ætíð að skapi þar sem ég er mikil áhugamanneskja um orðnotkun íslendinga og tungumálið almennt. Já, tólf sporin eru áræðinlega mikið og þarft, andlegt ferðalag sem gagnast hverri manneskju.

H. dís. eg gæti vel trúað því að greindarvísitalan lækki jafnvel enn meira við bræðisköst. Sjálfri finnst mér ég tapa allri dómgreind við slíkar aðstæður!

Ylfa Mist Helgadóttir, 10.4.2008 kl. 18:32

5 identicon

Ég er sammála konunni með blórböggulinn, ég hefði ekki notað þetta orð í þessu samhengi.

Akkilesarhæll hélt ég að væri einfaldlega veikleiki, ekki mátti skjóta Akkiles í hælinn því þar var hann veikastur fyrir.

Ég hefði talið skapgerðarbrest = akkilesarhæl! En ég er gömul og grunnhyggin, Kv. IB

Inga Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 21:46

6 identicon

Ég hef lært að þú getur ekki borið abyrgð á öllum í kringum þig en svo sannarlega getur þú borið ábyrg á því hvernig þú vinnur úr hlutunum. Ég hef lært að þú getur ekki breytt heiminum þó svo þig langi. Það verða allir að byrja á því að vinna með sjálfan sig þá fyrst geta þeir hinir sömu breytt út til annara  jákvæðni og gleði. Hver veit hvað þessi sem er fílupúki þarf að burðast með ??

Mundu að eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt.

Kveðja Gunna

Gunna Gumma Hassa (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 21:49

7 Smámynd: Ragnheiður Ása Ingvarsdóttir

Heyr, heyr, sammála síðasta ræðumanni!

Ragnheiður Ása Ingvarsdóttir, 10.4.2008 kl. 23:09

8 Smámynd: Laufey B Waage


Takk Ylfa. Ég þóttist vita að þú værir mikil áhugamanneskja um íslenskt mál og hvers kyns hugtakanotkun. Auk þess hef ég líka mikinn áhuga á alls kyns orðaleikjum. Verst að það er svo margt fólk sem hefur litla og lélega máltilfinningu, svo maður þorir oft ekki að leika sér með málið. Svo er ég líka þeirrar skoðunar, að fólk sé alls ekki eins ósammála og það virðist oft, - hugtakaskilningur og hugtakatúlkun er bara mismunandi. Gæti nefnt fullt af dæmum. Kannski að ég bloggi bara sjálf um það. - Einn pistil um sérvisku, annan um auðmýkt o.s.frv.

Laufey B Waage, 11.4.2008 kl. 09:32

9 identicon

Mér finnst þetta skemmtileg notkun á orðinu blóraböggull. Það er einmitt svona sem fólk á til að skýla sér á bak við eina hlið sína og þykist geta borið höfuðið hátt á hinni hliðinni fyrir vikið. Svolítið eins og drykkjumenn þykjast ekki þurfa að bera ábyrgð á því sem þeir gerðu í fylleríi, það hafi bara verið brennivínið að tala, lemja, svíkja og brenna brýr. Það er fyrst þegar við horfumst í augu við alla fletina á okkar skemmtilega ófullkomna karakter sem við getum reynt að fjarlægjast gamla blóraböggulinn og horfast skammlaust í augu við heiminn.

Til hamingju með ákvörðunina. Þú átt ekki eftir að sjá eftir henni!

Berglind (IP-tala skráð) 12.4.2008 kl. 10:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband