En sú glæsta framtíð, Part II

Þau mistök urðu að ég henti hálfkaraðri færslunni inn í morgun!! Ég var alls ekki búin enda rétt farin að tæpa á stefnuræðunni!! en hér kemur hugleiðing mín í fullri lengd!

Í stefnuræðu bæjarstjóra hins nýja meirihluta í Bolungarvík, Elíasar Jónatanssonar, kennir margra grasa. Á flýtiferð yfir ræðuna sem má nálgast hér, virðist sem svo að leysa eigi fjárhagsvandann hratt og örugglega með uppsögnum og ákaflega miklum niðurskurði sem einna helst bitnar á fjölskyldufólki. Hækka á tónlistaskólagjöld um 25% ásamt því að setja þak á fjölda nemenda. Hvernig á að velja nemendur inn í skólann??? Ég hef nú þegar ekki efni á því að hafa börnin mín í tónlistarkólanum þetta misserið og sé nú að öruggt er að þeirra tónlistarnámi við Tónslistarskólann í Bolungarvík er lokið. Allavega fram að næstu kosningum.

Spara á í heilsdagsskólanum líka. Þar eru núna, eftir því sem ég best veit, tveir starfsmenn. Ekki veit ég upp á hár hversu mörg börnin eru en ég veit þó að þar eru tvö börn sem þurfa fullan stuðning. (hver ætli sjái þá um hin börnin) Ég get ómögulega séð hvernig á að spara þar! Nema þá ögulega að hækka gjöldin þar líka?

Grunnskólinn: " framboð kennslu verði skv. lögbundnu lágmarki, en sérkennsla er áætluð í samráði við skólastjórnendur. M.a. er reiknað með að forfallakennsla falli niður í 8. til 10. bekk." WHAT???? Þetta er áræðinlega löglegt en kommon!! gáfulegt er það ekki!

Sem tiltölulega lágt launuð fjölskylda sem er hætt að fara til útlanda, hætt að fara í skemmtiferðir sem kosta peninga, hætt að kaupa óþarfa eins og áfengi og vínarbrauð, hætt að fara í bíó og á leiksýningar, er okkur vissulega nokkuð áfram um að halda börnunum okkar í einhverskonar íþróttaiðkun, alveg eins og hinum efnameiri. Þar hafa frístundakort bæjarins verið himnasending. Það kostar 15.000 krónur fyrir hvert barn pr.önn, að stunda íþrótt í UMFB, sem er hið ágætasta félag. Frístundakortin giltu sem 15.000 uppígreiðsla yfir veturinn þannig að í stað þess að greiða 30.000 krónur fyrir hvert barn yfir veturinn, voru það aðeins 15.000 krónur á haus. Frístundakortin eiga að fjúka. Sem þýðir að það, að leyfa börnunum okkar að vera í íþróttum kostar 30.000 krónur yfir veturinn fyrir hvert barn. Reikni nú hver fyrir sig. Einhver systkinafsláttur er þó veittur en ég er ekki með það á hreinu hversu hár hann er. Þetta er verulega mikil skerðing fyrir okkur og eflaust flestar barnafjölskyldur.

Það má með sanni segja að íþróttamiðstöðin Árbær, hafi verið það sem við fjölskyldan botn-nýtum. Þar er öll helsta aðstaða til íþróttaiðkunnar undir hinu hripleka steypuþaki, heitir pottar og dásamleg rennibraut. Enda iðar þessi helsti samkomustaður bæjarbúa af lífi frá opnun til lokunnar. Frá því að við fluttum í bæinn hefur orðið gríðarleg aukning í nýtingu miðstöðvarinnar, eftir því sem ég fæ best séð. Við förum svo til hvern einasta dag í sund. Og það er yndislegt. Ég hef oft og mörgum sinnum sagt: ef ekki væri fyrir þessa sundlaug, þá væri þessi staður eiginlega ekki byggilegur. Það er auðvitað mitt smekksatriði. Mér hefur þó alltaf þótt opnunartíminn of stuttur. Sérstaklega á sunnudögum og mánudögum. Viti menn, það á að stytta opnunartímann. Lokað á mánudögum og styttri opnun um helgar. Að auki, og það þykir mér hið grafalvarlegasta mál;  á að fækka stöðugildum.

Mig langar að rifja upp tvö tiltölulega nýskeð óhöpp sem urðu í þessari téðu laug. Það hryllilega atvik varð fyrir nokkrum misserum að drengur drukknaði í lauginni. Bekkjarbróðir sonar míns. Fyrir kraftaverk, og ekki síst ótrúlegt snarræði og hugrekki starfsfólks var lífi drengsins bjargað, en ég veit að börnin sem voru þarna þennan dag, starfsfólk og við foreldrarnir, gleymum aldrei þessum degi. Hefði þetta lánast svona ef aðeins hefði verið einn starfsmaður?

Dæmi tvö: fyrir skemmstu var sundmót. Unglingsstúlka hné niður í sturtuklefanum og missti meðvitund. Málinu lyktaði farsællega og stúlkan er við bestu heilsu eftir því sem ég best veit. En hvað ef þetta hefði gerst, eða myndi gerast á þeim tíma hvar EINN starfsmaður sæti vaktina og fylgdist með fullri sundlaug af börnum, myndavélunum fyrir sundlaugargarðinn AUK ÞESS AÐ AFGREIÐA OG ÞURRKA UPP ENDALAUSAN LEKA ÞAKSINS???? HVAÐ ÞÁ???

ARG!! Ég held að þetta ákvæði í stefnuræðu ágæts bæjarstjóra sé það sem hleypi í mig hvað mestum skratta! Þarna erum við að tala um lágmarks öryggi, auk þess að það þykir sjálfsagt að hafa baðverði af báðum kynjum.

Að auki hef ég heyrt því fleygt að það eigi að hækka sundgjaldið upp fyrir Akureyrargjaldtökuna  (sem er með því hæsta á landinu og kostar fyrir fjölskylduna það sama í sund þar og staðgóð máltíð fyrir átta manns) sem þó réttlætist af glæsilegum laugum og risastórum garði, en ekki leku húsi og tveim sprungnum pottum! Þar að auki að það eigi einungis að vera frítt fyrir BOLVÍSK börn!!!! (því var komið hér á í veru Eiga þau að sýna nafnskírteini þegar þau koma?? Eigum við ekki líka að rukka fólk af gyðingaættum meira af því að gyðingar eru svo ríkir??? Hahahahah, ég vona að þetta sé bara djók!

Útsvarið verður einnig það hæsta á landinu. Það er ég alveg tilbúin að taka á mig. Einnig færri sorphirðudaga.  Ég er meira en lítið til í að borga hærra útsvar, fái ég áfram þá þjónustu sem mér finnst sjálfsagt að bæjarfélagið veiti mér. Og mér finnst hið besta mál að flokka mitt eigið rusl og fara með í gáma. Mín vegna mætti hirða sorpið einu sinni í mánuði!!

það er alls ekki það, að ég skilji ekki að það þurfi að spara!? Sjálf hef ég aldeilis þurft að draga saman seglin undanfarin tvö-þrjú ár og skil vel hvað það er að þurfa að "cutta niður" útgjöld. En ég reyni, -ólíkt batteríinu: Bolungarvíkurkaupstaður.is, að gera það þannig að sem minnst bitni á börnunum mínum!

Ég sé frammá tvo kosti og hvorugan góðan. Annað hvort að þreyja þorrann og vona að við fjölskyldan höfum gott af því að fara sjaldnar í sund, sleppa öllu aktiviteti. s.s. íþróttum og tónlistarnámi, vona að enginn þurfi á skertri félagsþjónustunni að halda, nota ekki undirmannaðan heilsdagsskólann og treysta því að unglingurinn læri sjálfur í forföllum kennaranna! Ef Guð lofar, færir þetta okkur saman og gerir okkur, -og ekki síður börnin að nýtari þjóðfélagsþegnum!!

Hinn kosturinn er að flytja. Sigta einfaldlega út það bæjarfélag/land sem býður uppá góða þjónustu fyrir barnafjölskyldur og reyna að koma sér þar fyrir. Sem væri synd. En maður spyr sig líka: hvað kemur börnunum til góða? Hvað er best fyrir okkur sem fjölskyldu?

ég er: Ylfa Mist Helgadóttir, íbúi í Bolungarvík, útsvarsgreiðandi, láglaunaþegn, skattgreiðandi, foreldri, og síðast en ekki síst; uggandi um framtíð bæjarfélagsins og eigin fjölskyldu. Telur að það sé vænlegra að greiða hægar niður skuldir bæjarins og halda frekar í útsvarsgreiðendur með því að halda þjónustustiginu á mannsæmandi plani. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hérna í ,,hinni Víkinni" er þegar farið að senda unglingana heim í forföllum kennara. Forföll á unglingastigi eru ,,ekki leyst" eins og það heitir og krakkarnir koma heim á miðjum degi og fara svo aftur ef því er að skipta. Sveitabörnin fá þá að fljóta með vinum sínum, því þau komast ekki heim fyrr en skólabíllinn fer.

Flestir tónlistarskólanemendur fá bara að vera í hálfu námi núna eftir áramótin og allir fullorðnir nemendur urðu að hætta. 

Og hver veit hvað gerist næst.

Harpa J (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 18:13

2 Smámynd: Þórdís Einarsdóttir

Hvurslags bull er þetta eiginlega? Gangi ykkur vel að velja og hafna.

Kveðja

Þórdís

Þórdís Einarsdóttir, 4.2.2009 kl. 21:03

3 Smámynd: Katrín

Já Ylfa mín útrásarbrjálæðið sem birtist hér um árið er að koma niður á okkur útsvargreiðendum.. Staðan var ekki beysin í byrjun kjörtímabils og ekki batnaði það þegar menn í vímu velsældar og með glýju gullkrónunnar í augum framkvæmdu á alla kanta en gleymdu að útvega peningana til þess arna.  Það kemur að skuldadögunum það vita allar ,,hagsýnar" húsmæður. 

Mæli nú með því að þú reynir að þreyja þorrann og góuna hér vestra...færir aðeins til sundtímana og aðlagast að breyttum aðstæðum

Katrín, 4.2.2009 kl. 21:10

4 identicon

Ömurlegt alltsaman...og þetta ertu að reyna fá mig til að koma tilbaka í.....

Viðurkenni að akkúrat núna er mér sama þó að laugin væri lokuð á mánudögum..ef ég bara kæmist í heita pottinn hina dagana , höfum þrætt allar sundlaugar hér í nágrenni Árhus og hvergi er hægt að finna neitt sem fer upp fyrir 37°. Það má reyndar segja að sundlaugin í Bolungarvík og opnunartími hennar hafi verið hreinn lúksus í öll þessi ár, miðað við stærð bæjarfélagsins!!! Svona er Ísland í dag

Valrun (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 21:15

5 identicon

Lokum bara helv... sjoppunni og förum

Rúnar Arnarson (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 21:16

6 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Elsku Kata mín, flokkarnir  með "glýju kullkórónunnar" voru jú tveir, ekki satt? K-listinn og hinn-listinn?? Það má þá svosem líka fara að velta því fyrir sér hvar peningarnir sem einu sinni voru til í bæjarfélaginu liggja? T.a.m. orkubúspeningarnir?? Getur einhver, td. þú, bent mér á í hvaða framkvæmdum þeir peningar liggja??

Þetta hlýtur að vera erfitt fyrir bæjarfulltrúana að sætta sig við 20% launalækkun á meðan bæjarstjórinn lækkar "samtals" um 10% í launum. (þá vísa ég í hans vísitölutengdu laun. Vildi óska að mín laun og þín laun væru með slíkri gulltryggingu :)

Valrún, ekkert rugl, við Rúnar komum bara til þín og smíðum heitan pott. HEITAN!

Ylfa Mist Helgadóttir, 4.2.2009 kl. 21:22

7 identicon

Ég verð sérstaklega að taka undir gagnrýni þína á að það eigi að fækka starfsfólkinu í sundlauginni. Ef það er ekki hægt að senda börn í sund án þess að leggja þau í lífshættu þá þarf bara að loka sjoppunni!! Einn starfsmaður á vakt er svo fáránlega langt frá því að vera nóg. Þetta hlýtur að vera ólöglegt. Hvað ætli stórvinkona okkar hún Herdís Storgaard segi um þetta?

Vona annars að þér hafi þótt notalegt að koma heim til kalls og krakka, hvað sem bæjarfélaginu líður

Berglind (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 21:24

8 identicon

Ég fékk áfall að lesa stefnuræðu bæjarstjórans enda erum það við fáu sem þó greiðum útsvar hérna sem fáum skellinn. Stefnan að barnafólk,  öryrkjar og aldarðir sitji uppi með allan kostanaðinn. Ég sem hélt að í fyrsta skipti í sögu Bolungarvíkur værum við að komast á blað þeirra sveitafélaga sem veita einhverja félagsþjónustu og þjónustum aldraða, bæjarfélagið hefur nú sloppið vel hingað til.

Hvernig væri nú að í stað þess að níða þá sem komu einhverju jákvæðu hérna til leiðar og sýndu einhvern snefil af áhuga á að halda fólki hérna , að taka upp þráðinn þeirra og leysa vandann sem er auðvitað sá að fá tekjur frá ÖLLUM skattgreiðendum í bænum. Bæjaryfirvöld eiga að gera kröfu á ríkið að fjármagnstekjuskatturinn greiðist til sveitafélagsins. Þá værum við í góðum málum.

Svei mér að maður mæti ekki með jólatréð logandi  að ráðhúsinu núna og berji potta og pönnur, eitt er víst að þetta er VANHÆF BÆJARSTJÓRN, VANHÆF BÆJARSTJÓRN, VANHÆF BÆJARSTJÓRN

Auður (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 21:43

9 Smámynd: Katrín

Blessuð þessir orkubúspeningar eru löngu búnir og voru m.a. notaðir til að greiða niður skuldir v. félagslegra íbúða. Nokkuð sem var víst skilyrt þegar orkubúið var selt..sem ég segi að aldrei hefði átt að gera.  Gunnar Hallsson nefndi einmitt að framkvæmt hafi verið fyrir orkubúspeningana og það allt saman verið fínar framkvæmdir.  Ég hef ekki hugmynd um hvaða framkvæmdir það voru

Hvað varðar bæjarstjórann og hvernig lækkun launa fer með hann þá er best að snúa sér til hans með slíkar spurningar en hvað varðar 20% lækkun nefndarlauna þá hef ég alltaf sagt að geti menn ekki borgað almennilega fyrir framlagða vinnu skyldu þeir bara sleppa því.  Skitnar 5000 hef ég fengið fyrir nefndarsetu á mánuði og þá á eftir að draga frá skatta og gjöld.  Ég hef afþakkað þessar lúsagreiðslur en það er víst eitthvað flókið mál.

Ljótt með slysin í lauginni en bendi á að ,,slysin" gerast þrátt fyrir að tugir starfsmanna séu til staðar sbr. ,,slysið" s.l. föstudag í grunnskólanum...það mætti segja mér að einhverjir krakkar væru nú í sjokki út af því

Jæja alltof langt í þetta sinn og bið ég forláts

Katrín, 4.2.2009 kl. 21:47

10 identicon

Þú veist að það er frítt í sund fyrir börn  og unglinga á Dalvík.

Gunnhildur (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 21:59

11 identicon

Kata, á ég að þakka þér ósérhlífnina?? Gerðu eitthvað í málunum, finndu leiðir til að ekki þurfi að koma til þessa niðurskuðar, þá skal ég þakka þér fyrir unnin stöf launuð eða ólaunuð. Það var enginn að biðja þig um að fórna þér fyrir bæjarmálapólitíkina. Láttu verkin tala Kata, sýndu hvað í þér býr þá færðu mögulega einhver atkvæði í næstu kosningum, en ekki fást þau svona, svo mikið er víst.

kv. Auður

Auður (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 22:03

12 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

kæra Kata, auðvitað geta slys alltaf orðið, jafnvel fyrir augum okkar foreldra geta börnin okkar slasast, meitt sig eða annað. Spurningin er alltaf: ER HÆGT AÐ BREGÐAST RÉTT OG FLJÓTT VIÐ?? Ef einn starfsmaður er á vakt, eru líkurnar hverfandi. Þvi miður og er ég þá alls ekki að gera lítið úr ágæti þess starfsfólks sem vinnur við sundlaugina.  Föstudagurinn verður ekki ræddur á síðunni, allt sem skrifað verður um hann verður umsvifalaust tekið út. Þar varð ekkert "slys."

Gunnhildur, ég veit það. Það er bara þetta menningarhús sem er svo agalega ljótt þarna á kaupfélagstúninu!! :)

Auður! Lærðu að vera þakklát!! :þ

Ylfa Mist Helgadóttir, 4.2.2009 kl. 22:30

13 identicon

Já ég er þakklát fyrir marg, kannski að ég spyrji eins og Baldur: er verið að dera detta allt fyrir duð? ( er verið að gera þetta allt fyrir Guð?) alla vegna ekki okkur barnafólkið og láglaunafólkið.

kv, Auður vanþakkláta, enda ekki alin upp við vanhugsað pólitískt þakklæti, heldur réttlæti ;)

Auður (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 22:44

14 Smámynd: Katrín

Auður ég kannast ekki við að hafa kallað eftir einhverju þakklæti frá þér né þínum.    Ég stóð mína vakt þegar ,,Róm" var að  brenna og fékk svo sem ekkert annað en skít og skömm fyrir enda ekki vinsælt að benda á þá staðreynd að engir peningar séu til í ,,bankanum".  Hvað þá þegar bent er á að menn séu ekki að vinna vinnuna sína.  Ég hef breytt bak og get tekið því skítkasti enda er ég ekki á atkvæðaveiðum því  ólíkt mörgum öðrum geng ég ekki með ,,bæjarfulltrúann" í maganum. 

Hvort það verði einungis einn á vakt í íþróttahúsinu er algjörlega undir forstöðumanni íþróttamiðstöðvarinnar komið.  Það er hans að útfæra hvernig niðurskurði verði mætt og ættir þú og Ylfa að snúa ykkur til Gunnars Hallsonar  og gefa honum hugmyndir hvernig mætti vinna þetta án þess að fækka fólki á vakt.  Þannig getið þið lagt ykkar af mörkum.

Og Ylfa mín..það kann ekki góðru lukku að stýra að loka augum fyrir því sem gerist innan um börn og unglinga..hvort sem það er í sundlauginni eða grunnskólanum..

Katrín, 4.2.2009 kl. 23:03

15 Smámynd: Katrín

..breitt bak.. á þetta náttúrulega að vera

Katrín, 4.2.2009 kl. 23:03

16 identicon

Ó.M.G! Hvað er eiginlega í gangi? 

Alla (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 23:18

17 identicon

Mig langar að segja eitthvað gáfulegt ... en ég get það ekki vegna þess að ég á ekki til orð.

Núna segi ég eins og krakkarnir, framtíðin: "Það sem á mann er lagt!"

Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 23:19

18 Smámynd: Katrín Dröfn Markúsdóttir

Það eina sem mér dettur í hug er " öll ljós kveikt en enginn heima" ... mér er óglatt yfir þessu!

Katrín Dröfn Markúsdóttir, 5.2.2009 kl. 10:58

19 identicon

Stelpur spurning um að þið bjóðið ykkur fram næst til að bjarga víkinni :)

Magga Lilja (IP-tala skráð) 5.2.2009 kl. 11:47

20 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Það gæti farið svo Magga mín, málið er að það er fólk sem býður sig sjálfviljugt fram til þeirra starfa og það á að vera hægt að treysta því fólki til þess. og Við kusum til þess fólk í síðustu kosningum sem ekki fékk að klára sitt tímabil. Því miður.

En... aldrei að vita hvað maður gerir :)

Ylfa Mist Helgadóttir, 5.2.2009 kl. 13:11

21 Smámynd: Katrín

Þá sé ég  nú ekki ástæðu til þess að þú sért að kvarta...það var þitt fólk sem hafði forgöngu um framkvæmdir sem engir aurar voru til fyrir  og urðu til þess að nú þarf að draga saman seglin heldur betur .   Og ekki veit ég annað en þetta fólk sitji enn sem bæjarfulltrúar og eru í kjöraðstöðu til að hafa áhrif á hvar niðurskurðarhnífurinn kemur niður...enda forstöðumenn stærstu stofnanna ..svona í hjá verkum myndi einhver segja  já það sem á menn er lagt!

Hættu nú að sýta löngu liðna tíma og horfna peninga heldur spýttu í lófa og hjálpaðu til við að halda kúrs..

Katrín, 5.2.2009 kl. 14:38

22 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Já, Kata mín. hvernig? Hvernig á ég að hjálpa til? Segðu mér hvað þú ætlar að gera? Kannski fer ég að dæmi þínu. Aldrei að vita. Góðar hugmyndir þegnar.

Ylfa Mist Helgadóttir, 5.2.2009 kl. 17:10

23 Smámynd: Katrín

Ég ætla að hitta mitt fólk, ræða málin og leggja fram mínar tillögur. Þú gætir byrjað á því að hitta þitt fólk og leggja fram þínar hugmyndir til þeirra.  Er ekki sagt að orð séu til alls fyrst?

good luck

Katrín, 5.2.2009 kl. 18:00

24 identicon

Hva, ég er löngu hætt að taka eftir því, horfi bara á Apótekið í staðin.

Gunnhildur (IP-tala skráð) 5.2.2009 kl. 20:12

25 identicon

Allaballamallaskralla..........djöfull líst mér annars vel á þetta með að smíða heitan pott hér...ekki vantar eldiviðinn í svona trépotta. Ætli það sé pláss fyrir mig,þig og Rúnar í pottinum, sko öll í einu !!!!

Valrun (IP-tala skráð) 5.2.2009 kl. 21:57

26 identicon

Ylfa mín.

Sem áhorfandi, en vinur Bolungarvíkur þá þykir mér afar leitt um hvernig farið hefur ! En það eru alltaf til lausnir á öllu. Það er samt ekki hægt að leysa ágreining á síðum bloggheima. Það eina sem gildir er að láta í sér heyra á réttum vettvangi.

Ég er ekki í góðri stöðu og hef þurft að taka margar erfiðar ákvarðanir sem bitna á börnum mínum. Þær hafa gert umhverfið erfðara, en ekki ómögulegra. Ég fyllist bara baráttu og ætla að láta að mér kveða í ár.

Ég vinn í félagsmálum og hef ekki þegið peninga fyrir það. Ég vil leggja mitt af mörkum til þess að hjálpa. Það er ýmislegt hægt að gera til þess að koma á móts við til að mynda sunlaugina í víkinni. Það er hægt að bjóða fram "forledravakt" í sundlauginni, þar sem foreldrar skiptast á að vera á vakt með forstöðumanni ? Ég þekki Kötu vel og hún er mjög dugleg að hjálpa okkur í KFÍ, og við hjálpumst á við að gera okkar umhverfi betra !

Nú er minna um fjármagn, og þá þykir mér rétt að foreldrar komi meira til skjalanna fyrir börn sín í íþrótta og félagsstörfum. Það þarf enginn að segja mér að ekki sé hægt að hafa opið örlítið lengur í Árbæ með samvinnu forstöðumanns og foreldra ??

Kv.

Gaui.Þ

Gaui.Þ (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 16:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband