Bara svona dagar....

Klukkan er hálf þrjú, það er björt nótt úti með bleikum skýjum á ljósbláum himni. Gluggarnir á nærliggjandi húsum eru bleikir og gylltir. Ég er í vinnunni þar sem allir sofa nema ég og samstarfskona mín. Það er rólegt, og þannig á það að vera um nætur. Það þýðir að allir sofa rótt í rúmum sínum. Það er þröstur að syngja fyrir mig hérna í næsta garði og annar sem svarar söngnum aðeins fjær. Þeir geta ekki vitað að ég er lítið gefin fyrir söng þrasta. Mófuglar og mávar eru mínir fuglar. Jaðrakan, hrossagaukur, stelkur og sjófuglarnir. Þrastahljóðin eru eitthvað svo aggressív!

 Drengirnir mínir, útiteknir og sprækir, hamast úti allan daginn á hjóli, trampólíni eða í boltaleik. Það er ferlegt að koma þeim í svefn á kvöldin því að það er jú dagbjart! Þeim finnst ekki vera nein nótt. Og það er rétt hjá þeim. Það er engin nótt! Bara endalaus dagur. Veðrið hefur verið fallegt, garðurinn bíður eftir slætti og birkirunnarnir mínir ilma.

Við förum, ég, Dóra Splóra og Urta, í okkar gönguferðir í vorinu, sundlaugin er heimsótt á milli og svo er nýtilkominn hlaupahópur sem ég hef gengið til liðs við. Já, haldið ykkur fast, (því jörð getur skekist) Ylfa Mist Helgadóttir er farin að HLAUPA! Ekki sérlega hratt.. en þó eru þetta hlaup! Tjah... eða skokk! Ég er nú ekkert að grennast þrátt fyrir alla þessa hreyfingu enda hef ég ennþá heilbrigða matarlyst og ét minn eðlilega dagskammt, á við þrjá hrausta karlmenn, til að viðhalda "mínu hefðbundna vaxtarlagi." En allt styrkist og þolið eykst.

Skólinn er búinn í bili. Ekki fór gæfulega fyrir stærðfræðinni en í öllum eðlilegum námsgreinum öðrum, var engin einkun undir níu. Stærðfræði mun seint teljast eðlileg námsgrein og hér með held ég því fram, fullum fetum, að það sé bara skrítið fólk sem getur lært stærðfræði! Ég get reiknað, mikil ósköp. En reikningur og stærðfræði er bara tvennt ólíkt. það er ég búin að læra :)

En nú er lag að leggjast í sófann og líta á nætursjónvarpið. Það býður venjulega uppá morð, ofbeldi og annan hrylling sem ætti að halda mér vakandi til klukkan átta. Þá fer ég heim og legg mig. Ekki lengi samt, því að sumarið leyfir ekki langan svefn. Það bíður og bankar á gluggann!

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aprílrós

Þú ert yndisleg ;)

Aprílrós, 23.5.2009 kl. 17:51

2 identicon

Sumarið ER tíminn....... og stærðfræði "SÖKKAR" alveg sama hvernig hún er matreidd ofan i "venjulegt" fólk.

Valrun (IP-tala skráð) 24.5.2009 kl. 08:22

3 Smámynd: Laufey B Waage

"Þau eru súr, sagði refurinn". Stærðfræði ER að sjálfsögðu hin eðlilegasta námsgrein. Börnunum mínum hefur öllum tekist að toppa mig í stærðfræðisnilld (og er þá mikið sagt) og við erum öll hið eðlilegasta og besta námsfólk.

Til hamingju samt með þinn frábæra námsárangur, - og með að vera komin í sumarfrí.

Laufey B Waage, 24.5.2009 kl. 10:40

4 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Hahahahaha! Laufey! Og þú líklega segir þetta að því gefnu að þið, þú og niðjar þínir séu eðlilegt fólk???

 HAHAHAHAHAH!!!

Nú pissaði ég nánast á mig ;)

Ylfa Mist Helgadóttir, 24.5.2009 kl. 22:25

5 Smámynd: Ragnheiður Ása Ingvarsdóttir

Hmmm, þar fékk ég að heyra það, sem ég vissi svo sem fyrir að ég er stórskrítin

Ragnheiður Ása Ingvarsdóttir, 25.5.2009 kl. 18:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband