Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Birnir Spiderljón Ringsted

Fallegi drengurinn, litli blómálfurinn og gleðigjafinn. Blíði og kelni strákurinn hennar móður sinnar á ÁTTA ÁRA AFMÆLI Í DAG!!!

Hvað er í GANGI! Hann fæddist bara í GÆR!

kelirófameð fallegu augun


Stuldur úr garðinum

Það ljós er að renna upp fyrir okkur að hjólið hans Björgúlfs er ekki týnt. Það hefur ekki verið fengið "lánað" né verið tekið í misgripum. Því hefur hreinlega verið stolið. Og ekkert bólar á því. Endilega verið vakandi fyrir bláu hjóli, held það heiti Scott.... Þetta er svona "torfæru" hjól á breiðum dekkjum. Það hvarf úr garðinum á laugardagsnóttu fyrir þremur vikum. Þá var mikið um að vera hér í Víkinni, afmæli og allskonar fögnuður víða um bæinn. Ef einhver hefur orðið hjólsins var í garðinum hjá sér, elsku látið mig þá vita. Lítið drengjahjól var tekið úr þarnæsta garði sömu nótt en það fannst stuttu síðar á víðavangi. Þetta hjól hefur ekki fundist ennþá, og ég er svo ferlega mikill sauður, hélt alltaf að það myndi finnast, einhver "skilaði" því eða eitthvað. Það bara er ekki að gerast. Þetta hjól var keypt fyrir stuttu og stóri drengurinn minn tímir ekki alveg að kaupa nýtt fyrir sumarhýruna sína. En það kostar hann öll launin hans að endurnýja hjólið.

Það var vitanlega ólæst... við erum sveitafólk og dettur einhvernvegin aldrei annað í hug en að allt sé óhult innan garðmarkanna.....


Á slóðir upprunans

Afi minn heitir Vilberg Valdal Vilbergsson. Valdalsnafnið er tekið af dalnum Valþjófsdal í Önundarfirði, en þar fæddis faðir hans, -langafi minn, og ólst upp. Ég stóð áðan í kjallarahleðslu hússins sem þessi langafi minn fæddist í og það var skrítin upplifun! En þarna er sumarbústaður sem Fríða Birna og Gummi eru í, við ætlum að fara þangað aftur núna í kvöld með tjaldvagninn og gista í eina til tvær nætur. Sennilega tvær. Svo skilst mér að á fimmtudag eigi að snjóa í fjöll og þá ætlum við að vera komin heim :)

Góðar stundir á meðan!


Life life life.....

Síðustu dagar hafa verið erfiðir á margan hátt. Vinkona mín jarðaði manninn sinn í gær, lífið hjá henni er í einkennilegum takti, hún hefur það af, en bara rétt svo. Það er ekki hægt að fara frammá meira í augnablikinu. Níu taka við tómlegir tímar og þá er það okkar í kringum hana að halda utan um hana og stelpurnar hennar, muna að það er ekki síður þegar allt umstangið er búið, að raunveruleikinn skelli á með rothöggi.

Ég mun gera mitt besta og ég veit að það gera allir sem geta.

En lífið? Það heldur auðvitað áfram. Minnti þó enn og aftur á hverfulleika sinn í dag þegar ég fékk fregnir af veikindum ástvinar. Þau þurfa þó kannski ekki að vera jafn alvarleg og leit út fyrir í fyrstu, en samt.... ég hef svolitlar áhyggjur.

IMG_7876

En nú er kominn tími til að huga að jurtunum.  Gulmaðran stendur í blóma og hana þarf að uppskera, hvannarfræin hanga úti í léreftspoka, hvannarblöðin eru fullþurrkuð, lyfjagras og blóðberg er komið í dósir en vantar þó miklu meira af því. Mjaðurtin er alveg að verða tilbúin og svo fer bara svei mér þá að koma tími á fjallagrös og aðalbláber! Ég elska sumarið, ég elska íslensku hlíðarnar og engin með öllum sínum lækningarmætti og fegurð fólgna í hverju strái og hverri jurt!

Við erum með gesti, Þórður Högnason og Olga, hans fagra frú gista kjallarann okkar ásamt tveimur telpum. Tengdó er væntanleg og eitthvað móðurfólk að norðan líka.... þetta er að verða fjörugt.

Nú skal jeg gå i seng, go´nat,

 


Vitiði hvað?

Fyrir fjórum árum uppá dag, var haldið afbragðs partý á Ingjaldssandi við Önundarfjörð. Eins og minn ektamaður hefur orðað það á góðri stundu, með alvöru skemmtiatriði!

Við eigum semsé brúðkaupsafmæli í dag.

Wizard


Tannleysi

Litla fallega spiderljónið, Birnir, er loksins búinn að missa þráa og þrjóska framtönn sem hefur hangið á engu nánast í einhverjar vikur. Nú er heljarstórt skarð, nýja tönnin farin að sýna sig og S-ið hjá honum sem var nú þvolítið þmámælþlegt, alveg horfið.

Set inn mynd fljótlega.


Dauðinn nagar lífið, myrkrið étur ljósið og Sorgin kvelur Gleðina.

Sumt fólk virðist ekki sitja við sama borð almættisins og við hin.

Í nótt sem leið lá ég við hlið ungrar ekkju.  Hennar maður kvaddi þessa jarðvist í gær. Fyrir stuttu lá ég við hlið þessarar sömu konu um nótt. Þá var hún litla systir manns sem kvaddi þetta líf. Þessari ungu konu virðist við fyrstu sýn, hafa verið ýtt frá hinu stóra, sameiginlega borði Guðs barna og vísað út í horn? Og við, sem horfum á hana kveljast, horfum á dætur hennar engjast, hugsum; er Guð virkilega svona grimmur? Getur virkilega verið tilgangur með því að leggja slíkar sálarkvalir á herðar þeirra, sem hafa jafnvel ennþá sligaðann hrygg eftir síðasta þunga sem á hann var lagður? Er einhver æðri tilgangur sem helgar þetta beiska meðal?

Einmitt núna, sé ég engan tilgang. Bara sársauka, kvöl og óendanlega örvæntingu. Kvíða og sorg. Og skil enn minna í lífsgátunni en ég gerði áður. Ég vissi svo sem að dauðinn væri fylgifiskur lífsins. Sorgin systir Gleðinnar, myrkrið fylginautur ljóssins. Allt þetta vissi ég án þess að vita hvaða tilgang það hefði. Og ég veit þetta enn. En ég skil það ekki samt.

Og tilfinningin sem ég finn akkúrat núna fyrir er reiði. Og á einhvern furðulegan hátt er ég vonsvikin. Kannski af því að ég átti ekki von á að lífið yrði svona oft megnað af sorginni. Og dauðanum.

Og ég hugsa; fyrst ég, sem þó er oftast nær einungis áhorfandi af harmleikjunum sem lífið býður uppá, fyllist tilgangsleysi, hvernig reiðir hinum þá af? Beinu þátttakendunum?  Hvernig geta þeir sem burðast með þyngstu klafana, aftur og aftur, nokkru sinni risið aftur upp og rétt úr hryggnum? Hvernig geta þeir nokkru sinni lifað í sátt? Við Guð? Og við lífið?

Stórar spurningar. Ég veit. En þær brenna á mér í kvöld. Þeim verður ekki svarað í kvöld. Ekki á morgun heldur og jafnvel aldrei. Og kannski ætlast ég ekki einu sinni til þess.

Og þegar morgnar og sólin er komin upp þá kannski gríp ég í æðruleysið og er tilbúin til að biðja. Biðja fyrir vininum sem yfirgaf tilveruna eins og við þekkjum hana.  Biðja um hjálp og styrk fyrir vinkonu mína, fjölskyldu hennar og vini og ekki síst; biðja um hjálp mér sjálfri til handa. Til að sættast við það að finna hversu vanmáttug ég er. Hjálp til að sættast aftur við Guð.

 Og lífið.


Á einari með fo***ng lungnabólgudrauginn in da house... AGAIN.

Hökti á "einari" og hækjunni inn á kaffi Edinborg laust fyrir klukkan eitt í dag og hitti Steinu frænku mína. Hún er að setja upp myndlistarsýningu í Edinborgarhúsinu og ég held að allir séu boðnir á opnunina annað kvöld. Fleiri listamenn taka þátt í sýningunni, einn danskur og einn íslenskur. Þau heita Morten og Ráðhildur. Þið megið geta hvort er danskt og hvort er hérlent :) Ég hlakka til að sjá sýninguna. Steina frænka er svo frábær. Við erum blóðskyldar, sem er nú ekkert algilt með mín skyldmenni, og við finnum það svo vel. Við erum tengdar einhverskonar böndum, kannski blóðböndum, kannski einhverjum öðrum böndum. Ég veit það ekki. Blóðbönd eru alls ekki sterkari en önnur bönd, það veit ég vel. Maður getur myndað ótrúlega sterk tengsl við fólk sem er ekki hið minnsta tengt manni líffræðilegra, á meðan maður nær ekki nokkurri einustu tengingu við einhvern sem er manni afar blóðskyldur. En þannig er bara lífið. Og það er allt í lagi.

Anna Sigga Von Arnardalur kom svo og við ákváðum að fara í sólbað á pallinn hjá henni en sælan varði stutt, leikskólinn hringdi og tilkynnti; barnið er veikt, liggur sofandi á dýnu með hæðilega háan hita. Segist finna mikið til í maganum og brjóstinu. AAARGGG!!!! Þá vissi ég það, í þriðja sinn á rúmum mánuði var lungnabólgan komin í hús. Djö.....

Lungi ungi.

Dórabeib sótti mig, skutlaði mér á leikskólann og sótti svo eitthvað rótsterkt oní krakkann. Hann fékk stíl og sítrómax og er bara nokkuð hress í augnablikinu. Ef sítrómaxið virkar ekki þá er ekkert annað í stöðunni en að fá særingarlækni. Eða láta grafa upp indíánagrafreitinn sem augljóslega er undir húsinu okkar að valda öllum þessum usla!

Jæja, ég sé frammá að verða heima í kvöld með súkkulaði og kaffi á henni, ef einhver vill kíkja í veiruhúsið mitt.

 

 


Veiðisumarið mikla er framundan!

Ég sé ekki framm á annað en að sitja frameftir sumri niðrá bryggju og reyna að dorga á hækjuna mína. Kannski verð ég í það minnsta matvinnungur. Það sem í mig beit, hver eða hvað sem það nú var, hefur haft á mér mikin ímugust og séð til þess að ég sé ekkert að nota vinstri fótinn of mikið. Útilegur og fjallgöngur eru því að minnsta kosti á hóld, ef ekki bara blásnar af. Sé maður á annað borð svartsýnn. En það er náttúrulega ekkert víst að ég verði það á morgun þó ég sé það akkúrat núna.

mamma, afi og amma

Íslenskar jurtir og grös bókstaflega bíða eftir mér í lyngholtum og fjallasölum, berjatíminn hefst eftir örfáar vikur og ófáar gönguleiðirnar bíða eftir að nötra undir mér. En ekkert gerist fyrr en allt er batnað......

Mamma er á förum. Hún er búin að fá herbergi á Dalbæ á Dalvík og ætlar að flytja þangað á morgun. Hún er búin að vera á biðlista í minna en ár og er áræðinlega heppin að fá pláss. Við erum hálf skrítin yfir þessu öllu, finnst eins og hún hafi alltaf verið hérna og eigum eftir að sakna hennar ægilega. Við buðum henni uppá smjörsteikta rauðsprettu í kvöldmat með kartöflum og salati úr garðinum, (mestmegnis illgresi úr beðunum, arfi er nefnilega eitt albesta salat sem um getur) graslauk og sítrónu. Hún er gefin fyrir fisk en fær hann ekki oft hérna þar sem elsti sonurinn er með ofnæmi fyrir honum. En hann fór suður í "réttingu" í dag og því notuðum við tækifærið. Nú, svo reyndar skellti hún sér með okkur á Saltfiskveisluna í Edinborg sl. laugardagskvöld og skemmti sér prýðilega. Við átum á okkur gat og hlustuðum á Saltfiskband Villa Valla spila frábæra tónlist. Ókum svo heim í miðnætursólinni. Gat ekki verið betra. Að helv..hækjunni slepptri þó.......


náttúrulausir Íslendingar

Eftir því sem ég eldist, aðhyllist ég náttúrunni frekar. Ég er hætt að halda að kjötið sem keypt er í plastbakka í stórmarkaðnum sé "alvöru" og betra að gæðum en það sem kemur í heilum skrokkum og er bútað niður með heimilissöginni. Ég er hætt að trúa því að garðyrkja snúist um beinar og sléttar línur, graslaus moldarbeð og innfluttar rósir. Ég er hætt að forakta pöddur og "meindýr," öskra eins og hysterísk kerling ef ég sé rottu eða mink, köngurló eða grasmaðk! Það eina sem ennþá hræðir mig ofurlítið eru geitungar. Ég bókstaflega "hleyp," ef ég mæti geitungi á förnum vegi.  En ég veit að geitungar eru mikilvægir í flórunni okkar. Við erum komin með allskonar pöddur, nýjar og framandi, sem geitungarnir nærast á. Svo að ef við eyðum búunum þeirra, fáum við bara meira af lirfum og lúsum sem éta runnana í garðinum. Allt þarf jafnvægi og eftir því sem ég hef lesið mér til, raskaðist jafnvægði, þegar byrjað var að eitra. Um leið og eitrað er fyrir einhverri pöddunni, raskast lífríki garðsins. Um leið og eitrað er fyrir fíflunum, raskast lífríki garðsins. Og lífríki heimsins er orðið verulega raskað af okkar völdum. Það vitum við öll en gerum lítið í því. Tölum um það, já, en gerum ekkert.

Ég hef verið að lesa alveg magnaða bók sem heitir Villigarðurinn og ég hvet alla sem eiga garð til að lesa hana. Hún er íslensk og eftir íslenskan höfund sem leiðir mann í allan sannleikann um það hvernig garðurinn okkar verður að vera til að jafnvægi ríki.

T.d. á ég nágrannakonu sem elskar fulga. Hún vill hafa fulga í trjánum hjá sér og verndar hreiðrin þeirra eftir fremsta megni. Hún hatar kettina sem éta ungana sem velta niður ófleygir. En þessa konu sé ég afar oft með kemsíku brúsana á lofti í fallega hornrétta garðinum sínum. Hún eitrar fyrir pöddum. Eitrar fyrir mosa. Eitrar fyrir grasi í beðunum. Og eitrar um leið fyrir pöddunum og ormunum sem gera garðinn ákjósanlegan fyrir fuglana. Og þeir hætta smámsaman að verpa hjá henni.  Svona virkar þetta. WC- hreinsinn sem við notum vikulega eða oftar, étum við svo í soðningunni næsta kvöld. Einu sinni sagði maður í útvarpinu; ég nota ekkert hreinsiefni, hvorki á sjálfan mig´né umhverfi mitt sem ég gæti ekki hugsað mér að setja eina matskeið af í fiskabúrið mitt!

Hvað ætli við séum búnað setja margar matskeiðar í fiskabúrið okkar?

Hvað ætli sé mikið af spilliefnum á gólfunum okkar úr síðasta skúringavatni? Á speglum og rúðum úr úðabrúsunum? á hreinlætistækjunum? eldhúsbekkjunum? Matarborðinu? Í þvottinum okkar? Ísskápnum? ofninum? Í sturtubotnunum eftir síðustu sturtu? Við hugleiðum þetta jú af og til. En svo kjósum við að horfa aftur í aðra átt á meðan við strjúkum heimilið með antibacterial, einnota klútum sem má "flusha" eftir notkun. Ég er sko engin undanteknin. Ég hef reyndar  smátt og smátt fikrað mig yfir í grænsápuna og nota hana nú orðið eingöngu til að þrífa heimilið með... sem ég geri sárasjaldan... Edik á speglana og gluggana og allt glansar miklu betur en af bláa, baneitraða ógeðinu sem maður spreyjaði á allt hér áður fyrr. Sumir segja; ég vil sko finna lyktina af hreinlætinu! En þetta er ekki hreinlætislykt. Þetta eru gerviilmefni sem fela stækjuna af kemíska eitrinu sem er í öllu þessu hreinsidrasli! Minnir mann á "franskt bað." Þ.e.a.s. að spreyja sig með ilmvatni í stað þess að fara í bað!

Við erum að verða náttúrulaus. Við getum ekki unnað vesælli köngurló að búa í stofuglugganum okkar sumarlangt, jafnvel þó að hún haldi flugunum í skefjum! Og þá erum við að raska jafnvæginu er það ekki? Ef engin er köngurlóin, þá fáum við flugurnar og fyrir þeim finnst okkur við þurfa að eitra... af því að?... uh.. bara! Þær fara í taugarnar á okkur! :)

Við erum skrítin., Náttúrulaus og skrítin.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband