Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Hér þarf ekki eðlið ýtarlegar að skýra:

 

VAMPÝRA!!!!

Það er einmitt það sem ég er að breytast í. Vampýru. Ég er að verða eins og blakan hún Bíbí í Bíbí og Blakan, Óperuþykkni Hugleiks. Svei mér ef ég fer ekki að sjúga mönnum blóð fljótlega. Spurningin er bara: hvar er greifinn Vesqú?

 En svo á ég frí næstu helgi fyrir utan eina dagvakt. Annars er vinnan mín BARA næturvaktir. Og myndi maður ekki halda að þá sópaði ég inn launum?? Nei, ekki aldeilis. En ég kvarta ekki þó kaupið sé lágt. Í það minnsta kvarta ég ekki hátt. Maður býst svosem ekki við því að ummönnun eldri borgara eða barna sé talið merkilegt starf. Ekki af okkar stjórnvöldum.

Jæja, ég gæti svosem búið í Tsjetjsníu eða einhverjum þaðan af verri stöðum þar sem ég fengi yfirhöfuð ekki vinnu. Hvað þá laun ;)

Best að fara fram í setustofu og gá hvort ekki sé einhver B-ræma í sjónvarpinu :)

 


Bæn

Ég fel í forsjá þína,
Guð faðir sálu mína,
því nú er komin nótt.
Um ljósið lát mig dreyma
og ljúfa engla geyma
öll börnin þín, svo blundi rótt.



Matthías Jochumsson

 

Af Bolafjalli


After the storm :)

Ég fékk yndislegar fréttir í fyrradag. Svona fréttir sem gera manni ljóst að allt fer alltaf eins og það á að fara. Allt ratar á endanum þangað sem það á heima. Ég hef verið á næturvöktum og er núna að taka eina auka. Það er hljótt í Bolungarvíkinni eftir óveðrið sem skall á í morgun. Ég trúði varla mínum eigin augum þegar ég vaknaði í gærdag eftir annars prýðilegan svefn og allt var á kafi í snjó! Ég sem hljóp heim í gærmorgun á sumarskóm! Tjah, svona er Ísland í dag.

Annars er ég með sjálfa mig í meðferð núna. Svona: ekkiverameðvirk-meðferð. Þannig er að ég umgengst afskaplega indæla manneskju mjög reglulega. Og yfirleitt er það bara hið besta mál. En svo á hún það til að vera alveg frámunalega fúl. Hennar blóraböggull er sá að vera mislynd. Og þegar manneskjan er fúl þá tiplar allt umhverfið á tánum í kringum hana. En þar sem minn blóraböggull er að vera skaphundur þá finnst mér það erfitt og hvæsi á manneskjuna á móti. Sem endar með ósköpum. Og ég fæ alveg heiftarlegan móral, yfir því að hafa ekki betri stjórn á mér. Það nefnilega sitja fleiri en bara ég í súpunni þegar illa liggur á manneskjunni og ég er ekkert að bæta úr skák með að ybba mig á móti. Svo að núna hef ég einsett mér markmið gagnvart manneskjunni. Ég ætla að hætta að taka mislyndisköstin til mín og reyna að hemja mig á móti. Hugsa: ég ber ekki ábyrgð á þessari hegðun manneskjunnar. Ég ætla að leiða geðvonskuna hjá mér. Svo lengi auðvitað, sem ég verð ekki fyrir einhverju tjóni á sál eða líkama. Tounge

Ég prófaði þetta í gær og það virkaði prýðilega. Og mér leið betur. Og ég fann hvernig manneskjan slakaði sjálf á spennunni. Og núna semur okkur alveg hreint ágætlega þegar ég er ekki að ergja mig á því að hún sé í fýlu. Hugsa sem svo: það er ekki mitt mál þó hún sé í fýlu. Og viti menn; hún er hætt að vera í fýlu :)

Það er böl að vera skaphundur. Að verða svo æfur af bræði með reglulegu millibili að manni hreinlega blindast sýn og öll skynsemi rýkur á haf út. Það er nú síst skárra en að vera mislyndur fýlupúki. Vegna þess að þó að reiðin renni manni á örskotsstundu verða orðin og gjörðirnar sem grýtt var í umhverfið og þá sem fyrir verða, ekki sópuð burt með einu blíðu brosi. Þá þarf maður að ganga berfættur í rjúkandi rústum bráðræðis síns í langan tíma. Reyna að bæta fyrir, plástra sár og draga út blóðug glerbrot særandi orða. En auðvitað skilja glerbrotin eftir sig ör. Og næst þegar fellibylurinn geisar, kennir fórnarlömbin til í gömlu örunum sínum ásamt þeim nýju sem manni tekst að valda.

Svakalega grafísk lýsing eitthvað!!!??

Með árunum hefur nú sjaldnar og sjaldnar fokið verulega upp hjá mér en ég sé alveg þessa sömu tendensa í yngsta syni mínum þó ég reyni að sverja þá af mér! :) Hann er skaphundur eins og ég, bara aðeins þyngri í skapi að auki. Og það er svo merkilegt hvað ég hef einstaklega lítin skilning á þessum eiginleika hans, þrátt fyrir að vera alveg eins! Þannig að við tvö erum dálítið eins og tvær púðurtunnur! En sem betur fer búa með okkur karlmenn, þekktir fyrir sína stóísku ró og takmarkalausu þolinmæði! Svo að yfirleitt ganga skærur okkar yfir án teljandi stórslysa.

Ég ætla í tólfsporavinnuna í Holti í Önundarfirði næsta vetur. Ég hef sl. þrjú ár verið að mana mig upp í að fara og nú finn ég að ég er tilbúin. Kannski text mér í þeirri andlegu vinnu að kveða niður einhverja djöfla, og þá er til alls unnið.

Jæja, hugleiðingum næturinnar er lokið. Ég ætla að fara að leggja á morgunverðarborðið.....

 


GUÐRÍÐUR PÉTURSDÓTTIR!

Það þýðir sko ekki að laumast eitthvað á gestabókinni og hvísla þar einhverju hæ-i og hverfa svo bara aftur inn í myrkrið!

Hvar ertu kona góð? Hvar áttu heima, hvað ertu að gera? Afhverju hef ég ekki séð þig í 100 ár? Einhverntíma fékk ég hjá þér email sem ekki virkaði.... var það viljandi? Tounge

Fyrir þá sem ekki vita hver Guðríður Þorstína Pétursdóttir er, þá er hú gömul vinkona úr Húsmæðraskólanum sem síðar bjó á "Gamla elliheimilinu" á Ísafirði með mér. Þá vorum við á sokkabandsárunum. Hún var að mig minnir mesti skaphundur og fljót að fara í fýlu. En muni ég rétt bráði það oftast af henni fljótlega. Ekki satt Gurrý mín??? :)

Gaman að fá kveðju frá þér núna. Mig dreymdi einmitt svo einkennilega í kvöld þegar ég lagði mig fyrir næturvaktina. Mennina tvo sem við þekktum þarna í den tid, þessa sem ég faldi mig fyrir þarna um kvöldið þegar þú fórst inn og hundurinn var næstum búnað þefa mig uppi!!! Hahahahaha!! Það sem þá var brallað. Mig minnir að hrísgrjónagrautur hafi komið við sögu þess húss um svipað leiti?

Mikið væri nú gaman að heyra frá þér. Sendu mér línu á ylfamist(at)simnet.is Gurrý!

Þið hin... ef þið nenntuð að lesa þessi prívatskilaboð, takk fyrir það :)


Sunnudagur

Letidagur.

Hef að mestu eytt honum með vinkonu minni sem lá í timburmönnum, étið köku og leitað með henni að landbúnaðartengdu starfi í Skandinavíu á veraldarvefnum. Við fundum ekkert en bauðst vinna við nautgripasmölun í Argentínu og sem sjálfboðaliði í Mósambik og var það starf fólgið í því að kenna bændum að reka burtu fílahjarðir með piparávöxtum! Hún var ekki alveg búnað ákveða sig þegar ég fór að sinna vinnu.

Halli og litlu drengirnir tveir eru að keyra heim frá Akranesi í kvöld. Skruppu yfir helgina suður og eru búnir að vera í bíói, ævintýralandi Smáralindar og sundi ásamt einni fermingu. Er að spá í að éta síðbúinn kvöldmat einhverntíma þegar ég nenni og slafra þá í mig leifum saltfiskréttarins sem ég eldaði í gærkvöld handa Söru frænku sem kom í heimsókn. En fyrst og fremst ætla ég snemma að sofa.

Kannski samt ég byrji á að ryksuga. Það er greni úti um öll gólf. Gæti trúað það væri síðan á jólum.......

 


Debet og kredit.

Sit og legg lokahönd á skattaskýrsluna. Ég anda alltaf léttar þegar hún er í höfn. Sá að þorri þjóðar er búinn að skila og ákvað að vera nú tímanlega í þessu. Furðulegt þó að ég bað um frest áður en ég byrjaði á skýrslunni!! Og það um leið og skýrslan varð aðgengileg á netinu. Þetta kallast auðvitað frestunarárátta og hjá mér er hún á versta stigi! En ég er að verða búin að sjá að skuldir eru auðvitað langt umfram eignir og áframhaldandi ástand gengur ekki. Því auglýsi ég eftir vinnu fyrir tvo á olíuborpalli í norðursjó eða landvarðarstöðu á Jan Mayen. Eina skilyrðið er að launin séu svimandi há og jú, annað, að börn séu engin fyrirstaða!!

Annars finnst mér ekkert svo leiðinlegt að gera skýrsluna svo lengi sem ég er með öll gögn fyrir framan mig. Og mér finnst æðislegt að ýta á send! Ég er með tebollann minn og er í fríi, börnin hist og her um húsið, og á eftir þegar Baldur fer í ofurhetjuafmæli til Jóa vinar síns, ætla ég í sund og bæta upp fyrir hreyfingarleysi undanfarinna daga. Ég hef verið hálf t****leg undanfarið með hósta og slappleika. Halli vill kenna reykingum undanfarinna tuttugu ára um, en ég bendi honum auðvitað snúðugt á það að sjálfur sé hann alltaf kvefaður og ekki hafi hann við reykingar að sakast. Merkilegt hversu lífsseig Þörfin er, fyrir að réttlæta eigin breyskleika!

Annars átti ég afmæli í gær. Ég held að aldrei fyrr hafi ég verið jafn ómeðvituð um að eiga afmæli! Ég áttaði mig auðvitað ekkert fyrr en langt var liðið á dag og þá var orðið allt of seint að gera nokkuð í því! En það er líka ágætt. Afmælisdagar eru bara dagar...... eins og aðrir dagar. En best er að snúa sér aftur að fylgiskjölum skattsins. Sýni ykkur eina mynd af okkur systrum frá því að við vorum á Akureyri í ferbrúar. Ég held, svei mér þá, að þetta sé eina myndin af okkur saman sem til er! Þarna bauð mamma okkur út að borða á La vita e bella.. eða La bella e vita.... man ekki hvort, og við áttum æðislega stund saman allar þrjár! Mamma tók myndina og þetta var sú eina sem heppnaðist af mööööörgum tilraunum.

YM og YH


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband